140. löggjafarþing — 24. fundur.
fjáraukalög 2011, 3. umræða.
stjfrv., 97. mál. — Þskj. 299, nál. 307 og 321, brtt. 308, 309, 319, 320 og 323.

[16:40]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umr. og leitað m.a. skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi breytingar á fjárheimildum.

Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við sundurliðun 2 sem nemur allt að 788,9 millj. kr. til hækkunar gjalda. Auk þess eru gerðar breytingar á 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, og 3. gr. um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Heildartekjur ársins 2011 verða því 480.643,8 millj. kr. og heildargjöld 527.345 millj. kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður um 46.701 millj. kr.

Ég ætla að fara yfir þær breytingar sem nefndin gerði á frumvarpinu á milli umræðna. Ber þar fyrst að nefna hækkun fjárheimilda til innanríkisráðuneytis sem nemur 185 millj. kr. Þær eru af tvennum toga. Annars vegar er fjárveiting til Umferðarstofu vegna þess að endurskoðuð rekstraráætlun sýnir að 85 millj. kr. vantar upp á í rekstri stofnunarinnar á árinu 2011. Fjárlaganefnd ræddi þetta mál mikið og kallaði fyrir sig innanríkisráðuneytið út af þessari breytingu. Sambærileg breyting var gerð í fjáraukalögum ársins 2010 og telur fjárlaganefnd hér um mjög vont fordæmi að ræða. Hins vegar var ákveðið að veita stofnuninni þessar 85 millj. kr. en á móti kemur niðurskurðarkrafa til viðbótar við það sem þegar er áætlað í frumvarpi til fjárlaga ársins 2012 á innanríkisráðuneytið sem nemur þessari fjárhæð.

Þá er veitt 100 millj. kr. framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Á yfirstandandi ári hafa 300 millj. kr. af 700 millj. kr. aukaframlagi ársins 2011 farið til sveitarfélagsins Álftaness. Það var hins vegar þannig að sú skipting lá ekki fyrir við afgreiðslu fjárlaga árið 2011 og er því komið til móts við önnur sveitarfélög sem njóta góðs af aukaframlaginu með þessum 100 milljónum.

Þá er liðnum Ófyrirséð útgjöld veitt heimild til 300 millj. kr. útgjalda vegna kostnaðaráhrifa af nokkrum kjarasamningum sem hafa verið gerðir í haust eftir að gengið var frá samningu við velflest stéttarfélög opinberra starfsmanna.

Felld er niður eða lækkuð fjárheimild til iðnaðarráðuneytis vegna tekna af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða þar sem ekki verður úthlutað úr sjóðnum sem þetta fjármagn á að fara í fyrr en á næsta fjárlagaári. Hluti þeirrar fjárhæðar, þ.e. 41,9 milljónir eru fluttar á Umhverfisstofnun til að standa straum af kostnaði við brýnar lagfæringar sem gerðar voru í vor á aðstöðu á friðlýstum svæðum og fjölsóttum ferðamannastöðum sem hefur farið hnignandi vegna fjölgunar ferðamanna.

Þá gerum við tillögu um hækkun fjárheimildar Fjármálaeftirlitsins. Reyndar hefur komið fram breytingartillaga frá formanni nefndarinnar við þá tillögu. Stofnunin fær 213 milljónir í viðbótarframlag vegna aukinna útgjalda. Fjölga þarf þeim eftirlitsverkefnum sem stofnunin á að sinna, t.d. með skilanefndum og slíku. Eins eru breytingar gerðar á eftirlitinu í kjölfar úttektar franskra sérfræðinga. Einnig ber að geta þess að tekjuöflunarheimildir stofnunarinnar voru hærri en fjárlagaheimildir. Hefur fjárlaganefnd lagt mikla áherslu á að samræmis verði gætt fyrir næsta fjárlagaár hvað tekjuöflun og útgjaldaheimildir varðar fyrir Fjármálaeftirlitið.

Þá var í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. kölluð til baka tillaga vegna skammtímaláns vegna tónlistarhússins Hörpu. Það var gert vegna orðalags. Nú hljóðar heimildargreinin svo: „Að veita Austurhöfn-TR skammtímalán, allt að 400 millj. kr., þar til samið hefur verið um langtímafjármögnun verkefnisins.“ Fjárlaganefnd bætti einnig við hámarki á þá skuldbindingu sem Austurhöfn er leyft að gera fyrir hönd ríkisins út af framkvæmdum við tónlistarhúsið, en við teljum mjög mikilvægt að það sé Alþingi sem taki ákvörðun um þær fjárheimildir sem fyrirtækið hefur úr að moða. Einnig er vert að taka fram að bæði ríki og borg sem eigendur hússins eru að móta sérstaka eigendastefnu varðandi rekstur hússins.

Undir álit meiri hlutans rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Þuríður Backman.



[16:47]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fjárlaganefnd fyrir vinnu hennar við þetta mál og fyrir samstarfið almennt um þau mál sem eru sameiginlega á borði ríkisstjórnar og ekki síst fjármálaráðuneytis og Alþingis og fjárlaganefnd hefur með að gera sem fagnefnd þingsins. Ég tel ánægjulegt að við höfum náð þeim árangri að vera fyrr á ferðinni með ýmislegt sem áhugi hefur staðið til að vinna tímanlegar á árinu en áður hefur kannski gefist færi á, og það er líka mikilvægt vegna þess sem í vændum er varðandi breytta starfsáætlun Alþingis á næsta ári þegar þing mun koma fyrr saman en verið hefur og fjárlagafrumvarp kemur fyrr á borð þingmanna.

Nú háttar svo til að fyrir utan fjáraukalagafrumvarp sem hér er að hljóta afgreiðslu er fjárlagafrumvarpið sjálft að sjálfsögðu í vinnslu hjá nefndinni og sömuleiðis er frumvarp til lokafjárlaga vegna ársins 2010 komið fram mun fyrr en oftast áður og er þar sömuleiðis til umfjöllunar. Það verklag og sú vinnuáætlun sem fjárlaganefnd hefur verið að setja sér er tvímælalaust til framfara í þessum efnum.

Menn hafa spurt að því, þar á meðal hv. þm. Mörður Árnason, af hverju æskilegt sé að afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps sé eins tímanlega og mögulegt er. Fyrir því eru mörg gild rök, þar á meðal einfaldlega verkáætlun sjálfrar fjárlaganefndar. En ég vil upplýsa að það er að sjálfsögðu kærkomið af hálfu ríkisins, ráðuneyta og stofnana að fá fjáraukalagafrumvarpið afgreitt sem tímanlegast innan ársins m.a. vegna þess að í því er að finna talsverðar breytingar sem tengjast gerð kjarasamninga á síðastliðnu vori og talsverðar breytingar á fjárheimildum ráðuneyta og stofnana sem auðvitað er mjög æskilegt að viðkomandi stofnanir fái sem fyrst staðfestar sem lög þannig að þær geti lokið störfum á árinu í ljósi þeirra endanlegu fjárheimilda sem fjáraukalagafrumvarpið eða fjáraukalög samþykkt færa þeim.

Þessu til viðbótar má nefna að í frumvarpinu eru ýmsar heimildir sem beðið er eftir að fáist afgreiddar og tengjast viðskiptagerningum sem Alþingi þarf fyrir sitt leyti að staðfesta að heimildir séu fyrir. Má þar nefna kaup Íslandsbanka á Byr og kaup ríkisins af Reykjanesbæ á jarðhitauðlindum o.fl. sem greiðir götu þess að hægt sé að ljúka úrvinnslu þeirra mála.

Varðandi beitingu heimildarákvæðanna almennt vil ég lýsa því yfir, og sérstaklega gagnvart þeim sem mest hafa verið til umræðu, t.d. aðkomu ríkisins að fjármögnun Vaðlaheiðarganga á byggingartíma, að það verður að sjálfsögðu farið í einu og öllu með heimildirnar í samræmi við óskir fjárlaganefndar og það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. uppfyllt af minni hálfu sem fjármálaráðherra. Það þýðir m.a. að áður en þær verða nýttar og gerður verður endanlegur og bindandi samningur verður fjárlaganefnd upplýst um allar forsendur og tekið mið af þeim upplýsingum sem þá liggja fyrir og þeim athugunum sem í gangi eru eða kunna að verða, hvort sem er hjá Ríkisendurskoðun eða öðrum aðilum. Að sjálfsögðu verður farið með heimildirnar eins og lög og reglur gera ráð fyrir í sambandi við lánveitingar með ríkisábyrgðum og annað í þeim dúr.

Varðandi tvö önnur mál sem mikið hafa verið rædd og þingmenn hafa m.a. gert að umræðuefni að skort hafi upplýsingar þar um undir það síðasta þá veit ég ekki annað en að þær hafi verið reiddar fram jafnóðum og beðið hefur verið um þær. Embættismenn fjármálaráðuneytisins og í sumum tilvikum fjármálaráðherra, ég, höfum mætt á fundi eftir því sem óskað hefur verið til að upplýsa viðkomandi þingnefndir um þau mál, bæði fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og í einu tilviki umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég held að mikilvægt sé að menn hafi í huga varðandi kaup Íslandsbanka á Byr hf. að þar er auðvitað um mikilvæg viðskipti að ræða og þar er á ferðinni fjórða stærsta eignasafnið í íslenska bankakerfinu sem miklu máli skiptir að komist í örugga höfn eftir að ekki var lengur grundvöllur fyrir starfseminni á þeim forsendum sem lagt hafði verið upp með. Viðskiptin koma í kjölfar opins söluferlis þar sem öllum sem áhuga höfðu bauðst að gera tilboð í að kaupa starfsemina og það var gengið til viðræðna og samninga við þann aðila sem best tilboð gerði. Viðskiptin eru að uppistöðu til milli Íslandsbanka og slitanefndar Byrs og ríkið er minnihlutaaðili í þessum viðskiptum og eina aðkoma þess er að þar er til sölu hinn litli eignarhlutur ríkisins sem varð til með upphaflegu stofnfé í Byr hf. upp á 900 millj. kr. Að því leyti snýst það sem ríkið á undir í þessum viðskiptum ekki um háar fjárhæðir og það hefur legið ljóst fyrir að fyrst og fremst er það um sölu á þessum mikla minni hluta í Byr hf. sem ríkið kemur að og er að sjálfsögðu ekki ráðandi aðili í því ferli heldur minnihlutaaðili og hefði ekki tök á því að stöðva það fyrir sitt leyti þótt því væri að skipta.

Hins vegar er mikið í húfi að viðskiptin gangi farsællega fyrir sig úr því sem komið er þannig að stöðugleiki og kyrrð ríki í kringum þær mikilvægu eignir sem þarna eru á ferðinni og mikið í húfi fyrir okkur öll og ekki síst viðskiptavinina að þessi mál gangi vel fyrir sig. Mér finnst menn oft gleyma því í hita leiksins á Alþingi að við erum að fjalla um mál sem þrátt fyrir allt varða mikilvæga viðskiptahagsmuni og hagsmuni fjölda fólks, eftir atvikum eigendur eða viðskiptavini þeirra aðila sem í hlut eiga.

Varðandi Sparisjóð Keflavíkur á það sér langan aðdraganda sem hv. þingmenn þekkja. Samruni Sparisjóðs Keflavíkur við Landsbankann var ákveðinn á grundvelli þeirra ákvarðana sem Fjármálaeftirlitið tók þegar gripið var inn í þá starfsemi og til viðbótar liggur fyrir samningur milli ríkisins og Landsbankans um uppgjör í þeim viðskiptum þar sem ljóst er að það sem að ríkinu snýr kemur af ábyrgð ríkisins á því að hafa lýst því yfir að öllum innstæðum í landinu verði borgið í hvers konar sviptingum sem kunna að verða á fjármálamarkaði. Í þessu tilviki stendur því miður svo á að eignir duga ekki lengur á móti innstæðum og ljóst er að enginn nema ríkið mun bæta þann mun. Leiði viðræður ekki til samningsniðurstöðu — sem ekki horfir til þar sem talsvert ber í milli aðila um mat á verðmæti eignasafnsins — er um það búið í samningnum að málið fer í tiltekinn úrskurðarfarveg og þannig verður til endanlegt verðbil sem málið mun snúast um. Það verður að sjálfsögðu allt saman upplýst og rætt eftir því sem við á á mismunandi stigum málsins við hv. fjárlaganefnd eða aðra aðila sem eftir atvikum vilja fjalla um það.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég fagna því að fjárlaganefnd hefur unnið vel og skipulega og búið málið til farsællar lokaafgreiðslu. Ég vænti áframhaldandi góðs samstarfs við nefndina um þau mikilvægu verkefni sem við höfum áfram við að fást og eru auðvitað meira og minna tengd efnahagsástandinu sem við höfum glímt við að hafa okkur í gegnum og koma okkur upp úr. Nú gengur sem betur fer betur og horfir til betri tíma í þjóðmálum okkar þannig að ég vona að allir hv. þingmenn geti að einhverju leyti tekið gleði sína og hljóti að fagna því þegar betur miðar hjá okkur sem þjóð, þó að mér finnist reyndar að menn láti stundum minni háttar mál þvælast fyrir sér í þeim efnum og spilla þeirri gleði sem að öðru leyti ætti almennt að ríkja yfir því að okkur miðar í rétta átt þó að þetta hafi verið erfitt og verði auðvitað áfram að einhverju leyti því að sjálfsögðu er Ísland ekki komið út úr erfiðleikum sínum og við þurfum að vinna vel og markvisst að því að halda endurreisnarstarfinu áfram.