140. löggjafarþing — 38. fundur.
meðferð sakamála, 2. umræða.
stjfrv., 289. mál (frestun á stofnun embættis héraðssaksóknara). — Þskj. 327, nál. 508.

[22:40]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um breyting á lögum um meðferð sakamála. Þetta mál er frestunarfrumvarp sem lýtur að því að framlengja frestun þess að setja á fót embætti héraðssaksóknara. Áætlað var að það embætti yrði sett á fót með lögum um meðferð sakamála sem voru samþykkt á Alþingi vorið 2008 og öðluðust gildi 1. janúar 2009.

Vegna niðurskurðar hefur því tvívegis verið frestað, annars vegar með lögum nr. 156/2008, hins vegar með lögum nr. 123/2009. Nú er enn lögð til frestun af sömu ástæðu, að það mundi útheimta veruleg fjárútlát sem ekki er grundvöllur til að ráðast í.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð til breyting á ákvæðum til bráðabirgða sem lýtur að því að fresta um tvö ár, þ.e. til ársins 2014, að setja þetta embætti á fót. Jafnframt kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að taka þurfi til skoðunar hvort yfir höfuð sé rétt að setja á fót þetta embætti eða endurskoða þau áform að fullu og hætta við þau. Mun slík skoðun fara fram á þeim tíma sem frestun á gildistökuákvæði laganna nær til, þ.e. á næstu tveimur árum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Sjö af níu nefndarmönnum skrifa undir það álit og tveir nefndarmanna voru fjarverandi við afgreiðslu þess.