140. löggjafarþing — 115. fundur
 7. júní 2012.
þjónusta við börn með geðræn vandamál.

[10:52]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að fylgja eftir svari velferðarráðherra á þskj. 1066 við fyrirspurn um viðbrögð stjórnvalda við úttekt barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Ein spurningin hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Mun ráðherra beita sér fyrir því að gerð verði heildstæð úttekt á skipulagi þjónustu við börn sem eiga við geðræn og þroskavandamál að stríða í þeim tilgangi að bæta aðgengi, greiningu, samfellu og samstarf allra þeirra aðila sem koma að meðferð og stuðningi við börn með geðraskanir og foreldra þeirra?“

Ég var mjög ánægð með svar hæstv. ráðherra en þar er tekið undir ábendingar sérfræðinga frá Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslunnar, BUGL og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem benda á nauðsyn þess að endurskipuleggja heildstætt þjónustu og meðferð með börn með geðraskanir og þroskavanda. Í því sambandi vil ég spyrja hvort ráðherra hafi stofnað þann starfshóp sérfræðinga sem vinna á að tillögum að heildstæðri stefnu og samfelldari þjónustu við börn með geðrænan vanda og alvarlegan þroskavanda og þá hvort farið sé að vinna að þeirri stefnu, samstarfi og sátt um útfærslu á þessari stefnu.

Í gærkvöldi var viðtal við móður alvarlega veikrar stúlku sem á við margvíslegan geðrænan og þroskavanda að etja, stúlku sem þarf á mikilli meðferð og langtímavistun að halda sem ekki er til í dag. Ég vil spyrja: Það eru alltaf nokkrir einstaklingar, börn og unglingar, sem þurfa á vistun að halda umfram það sem við getum boðið upp á í dag. Er eitthvað slíkt í undirbúningi, hæstv. forseti?



[10:55]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurninni bar hv. þingmaður fram skriflega fyrirspurn í þinginu þar sem meðal annars var spurt um þau atriði sem hér komu fram og eins og hv. þingmaður kom að í lokin birtast oft dapurlegir hliðar þar sem eru gloppur og brestir í kerfinu þrátt fyrir að við höfum almennt afar gott heilbrigðiskerfi og góða þjónustu. Við fengum að sjá eina slíka í gær í fréttunum þar sem fjallað var um unga stúlku sem kerfið hefur ekki fundið viðunandi úrræði fyrir.

Varðandi það hvort hópur sá sem talað var um í svarinu hefur verið stofnaður fól ég í framhaldi af þessari fyrirspurn skrifstofu velferðarmála að undirbúa þetta verkefni og kalla saman helstu sérfræðinga á þessu sviði. Eins og þarna kom fram koma Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslunnar, BUGL og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og fleiri aðilar að því verkefni og mun hópurinn vinna að heildstæðri stefnu í þessum málaflokki. Hópurinn hefur ekki verið kallaður saman en það mun gerast á næstu dögum þannig að hv. þingmaður fær tækifæri til að fylgjast með því í framhaldinu.

Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við reynum að ná utan um þessi vandamál þegar þau koma upp, kalla saman þá aðila sem gerst þekkja þær stofnanir sem vinna að þessum málum og reyna að samhæfa þjónustuna og tryggja að við getum náð utan um vandamálin sama hvers eðlis þau eru.



[10:56]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hvet hæstv. velferðarráðherra til að flýta því að þessi vinna fari í gang. Hún er mikilvæg. Vitað hefur verið til margra ára og margar skýrslurnar verið skrifaðar um að ráða þurfi bót á þeirri þjónustu sem börn þurfa á að halda sem glíma við margvíslegan vanda, hvort sem það er geð- eða þroskavandi, hvað þá þegar um hvort tveggja er að ræða. Við veitum þjónustu á mörgum stigum, hjá ríki, sveitarfélögum, í skólunum, í heilsugæslunni og þessi kerfi, þessi þjónustustig okkar tala ekki alltaf saman. Það er meira en að segja það að fá samfellu í þjónustuna en það er það sem við verðum að gera. Við verðum líka samhliða því að koma á samræmdri og miðlægri sjúkraskrá þannig að hægt sé að styðjast við greiningar (Forseti hringir.) og meðferð á milli kerfanna.

Ég hvet hæstv. ráðherra að flýta þessari vinnu.



[10:58]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hvatninguna og tek hana að sjálfsögðu til mín. Það er auðvitað mikilvægt að reyna að flýta þessari vinnu og reyna að finna lausnir. En eins og hv. þingmaður benti réttilega á eru afar margir aðilar sem koma að þessu og oft er búið að reyna fjölda úrræða áður en leitað er að einhverjum alveg einstökum lausnum.

Oft er ágreiningur um með hvaða hætti eigi að leysa þetta vegna þess að í mörgum tilfellum er um að ræða einstaklinga sem þurfa á svo sérhæfðri þjónustu að maður sér í raun og veru ekki annað en einhver einstaklingsúrræði en það er almennt afar vondur kostur félagslega séð að einangra fólk með einhverri sérlausn. En ég tek áskoruninni og þessi vinna er í fullum gangi. Velferðarsviði okkar hefur verið falið að vinna að þessu máli og ég treysti því til að fylgja því eftir af fullum þunga.