141. löggjafarþing — 98. fundur
 11. mars 2013.
ívilnanir vegna stóriðju á Bakka.

[16:28]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við í hv. atvinnuveganefnd Alþingis höfum til meðferðar tvö frumvörp frá hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrími J. Sigfússyni um ívilnunarsamninga vegna uppbyggingar kísilverksmiðju á Bakka við Húsavík. Ég fór aðeins yfir málið með hæstv. umhverfisráðherra í síðustu viku en fannst ég ekki fá nægilega skýr svör frá henni þá. Það er auðvitað þekkt að orkufrekur iðnaður og uppbygging í stóriðju er ekki eitt af uppáhaldsmálum hæstv. ráðherra. Hún hefur sett við það ákveðna fyrirvara þar sem óneitanlega er um að ræða mengandi starfsemi.

Ég vil því til að taka af allan vafa í málinu spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hún styðji ekki þau mál og hvort nokkur ágreiningur sé um þau í stjórnarflokkunum. Ég óska eftir því að fá skýr svör vegna þess að auðvitað er mjög mikilvægt þegar við afgreiðum málið á síðustu metrum þingsins, svo mikilvægt mál sem er eiginlega fyrsta alvörufjárfestingin á þessu kjörtímabili, beina erlenda fjárfestingin, að vita hver afstaða ráðherrans er.



[16:30]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er alltaf ánægjulegt að eiga orðastað við hv. þingmann og ég tala nú ekki um þegar hann kýs að eiga orðastað við þá sem hér stendur um sömu málin viku eftir viku. Hann vísar til þess að ekki hafi verið um nógu skýr svör að ræða síðast þegar við áttum orðaskipti og ég vænti þess þá að við eigum eftir að hittast nokkrum sinnum út af málinu.

Hann spyr um afstöðu mína til ívilnanasamninga vegna þeirra áforma sem eru uppi í Bakka. Ég sagði síðast í ræðustól og ég segi það enn að hafa þarf varann á þegar um er að ræða slík áform. Ég kem til með að segja það aftur ef hv. þingmaður óskar eftir því. Ég spyr hver eigi að standa vörð um náttúruverndarsjónarmið ef ekki umhverfisráðherrann. Hver á að standa vörð um umhverfismálin og umhverfissjónarmiðin ef ekki umhverfisráðherrann? Ég veit að hv. þingmaður þekkir til þess í sögunni að ekki er endilega staðinn slíkur vörður af hendi þess sem gegnir því embætti en meðan ég gegni því embætti tel ég að þurfi að gæta þeirra sjónarmiða. Einmitt þess vegna tel ég að þó að orkunýtingarsvæðið sé komið í nýtingarflokk rammaáætlunar þurfi eftir sem áður að hafa varann á. Ég tel að eftir sem áður þurfi að hafa varann á að því er varðar Bjarnarflag, að því er varðar Kröflu og að því er varðar Þeistareyki og önnur áform sem eru fyrir norðan. Ég tel að þurfi að hafa varann á að því er varðar mengunarmál í kringum væntanlega uppbyggingu. Ég tel að líka þurfi að hafa varann á, af því að ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga að því, að því er varðar olíuleit á Drekasvæðinu. Það á að hafa varann á og það á að stíga mjög varlega til jarðar í öllum þeim efnum. Ég væri ánægð ef hv. þingmaður deildi með mér brotabroti af þeirri afstöðu.



[16:32]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki svar við spurningu minni, enn og aftur. Hæstv. ráðherra ýjar að því að ég muni þurfa að spyrja aftur og aftur. Það hlýtur að vera krafa þingsins að ráðherrar gefi skýr svör um þau mál sem verið er að spyrja um. Það liggur fyrir að þarna er verið að fara í mikla uppbyggingu á stóriðju. Frumvarpið er lagt fram af leiðtoga hæstv. ráðherra Svandísar Svavarsdóttur, hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Ég spyr enn og aftur: Er umhverfisráðherra, eins og ég skil það, andvígur málinu? Ég kýs að skilja orð hennar þannig, nema hún leiðrétti mig, að hún setji mikinn fyrirvara við málið og sé þannig andvíg því.

Það hangir mikið á spýtunni. Þetta er fyrsta skrefið í mikilli uppbyggingu. Fyrirtækið hefur þau áform að stækka verksmiðjuna tvöfalt eftir einhvern tíma. Það hefur borist erindi til fjárlaganefndar frá öðru sambærilegu fyrirtæki, (Forseti hringir.) Thorsil, sem fer fram á sambærilega afgreiðslu á ívilnunarsamningum. Ég óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra gefi mér skýr svör. Má ég skilja orð hennar þannig að hún sé á móti þeirri uppbyggingu á Bakka við Húsavík eða styður hún málið sem hæstv. atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram?



[16:33]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er svo að á yfirstandandi þingi og í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa verið stigin mörg og mikilvæg skref í þá veru að tryggja skýrari ramma að því er varðar ívilnanir fyrir fyrirtæki og uppbyggingu. (JónG: Ég er ekki að spyrja um það.) Við höfum viljað hafa þær reglur skýrar og það hefur skipt miklu máli að ekki sé um að ræða tilviljanakenndar ákvarðanir hvað varðar einstök uppbyggingarsvæði. Þarna er um að ræða fleiri störf á megavött en hafði verið gert ráð fyrir varðandi álversuppbyggingu, það er jákvætt. Um að ræða slíka breytingu á lagaumhverfi að viðkomandi fyrirtæki þarf að kaupa losunarheimildir, það er jákvætt. Hins vegar þarf ívilnanaáætlunin hér að standast ríkisfjármálaáætlun og um ræðir töluvert fé úr opinberum sjóðum, úr ríkissjóði. Ég vænti þess að við hv. þingmaður deilum áhuga á því að öll útgjöld úr ríkissjóði séu vel ígrunduð.