142. löggjafarþing — 22. fundur.
almannatryggingar og málefni aldraðra, 2. umræða.
stjfrv., 25. mál (frítekjumörk, tekjutengingar og eftirlitsheimildir). — Þskj. 40, nál. m. brtt. 66, nál. 71, brtt. 72.

[13:00]
Frsm. meiri hluta velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti sem taldir eru upp í nefndarálitinu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá fjöldamörgum aðilum sem einnig er getið um í álitinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Breytingarnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna verði hækkað úr 480 þús. kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári. Þannig verður frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna 109.600 kr. á mánuði sem er sambærilegt við frítekjumark örorkulífeyrisþega samkvæmt 14. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar.

Í öðru lagi er lagt til að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum er snúa að starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins þar sem meðal annars er skerpt á eftirlitshlutverki stofnunarinnar og lagðar til sérstakar reglur um leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stofnunarinnar um söfnun persónuupplýsinga og um viðurlög við brotum á lögunum.

Verði þetta frumvarp samþykkt er snúið til baka skerðingu frá 1. júlí 2009 en þá voru lífeyrissjóðstekjur látnar skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega í fyrsta sinn en fram að þeim tíma höfðu einungis atvinnu- og fjármagnstekjur skert grunnlífeyrinn.

Með hækkun á frítekjumarki atvinnutekna ellilífeyrisþega er stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara en mikilvægt er að fólki sé gert kleift að stunda atvinnu á meðan það hefur heilsu til, enda eykur það almennt lífsgæði fólks þó að margt annað komi þar einnig til. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að með frumvarpinu er komið til móts við þann hóp sem hefur þurft að þola mestar skerðingar frá 2009.

Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að nýjum kafla verði bætt við lög um almannatryggingar sem verði V. kafli. Hinn nýi kafli er miklum mun ítarlegri en það ákvæði sem hann leysir af hólmi líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Er þó að nokkru leyti verið að lögfesta gildandi framkvæmd, t.d. hvað varðar leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu Tryggingastofnunar enda er stofnunin stjórnvald í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og því gilda ákvæði þeirra laga um ákvarðanir og málsmeðferð stofnunarinnar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með bótasvikum frá febrúar 2013 koma fram nokkrar ábendingar um það hvernig bæta megi eftirlit Tryggingastofnunar með bótasvikum. Kemur þar fram að skerpa þurfi á eftirlitshlutverki Tryggingastofnunar og tryggja lögbundnar heimildir hennar.

Það er full eining innan nefndarinnar um að bæta þurfi eftirlitsheimildir og að þetta sé verkefni sem ganga þurfi í af festu og góðri eftirfylgni. Ljóst er af umræðu í nefndinni og þeim umsögnum sem nefndinni bárust að mikilvægt er að auka eftirlitsheimildir stofnunarinnar. Hins vegar telur nefndin mikilvægt að fara betur yfir umsagnir og taka tillit til einstakra athugasemda sem fram hafa komið.

Því leggur meiri hluti nefndarinnar til að 2. gr. frumvarpsins verði felld brott og unnið verði áfram að þessum hluta frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að nýtt frumvarp með auknum eftirlitsheimildum verði lagt fyrir á haustþingi.

Breytingartillögurnar hljóða svona:

Meiri hluti leggur til þrjár breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að 2. og 3. gr. frumvarpsins falli brott með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan. Í öðru lagi er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þess efnis að verði frumvarpið að lögum taki þau lög þegar gildi en komi til framkvæmda frá 1. júlí 2013. Í því felst að lífeyrisþegar njóti þeirra réttinda sem frumvarpið mælir fyrir um frá 1. júlí 2013 þó að frumvarpið verði ekki að lögum fyrr en eftir það tímamark. Þá er lagt til ákvæði til bráðabirgða í samræmi við umsögn Tryggingastofnunar um hvernig haga skuli útreikningum greiðslna á árinu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

„1. 2. og 3. gr. falli brott.

2. 5. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá 1. júlí 2013.

3. Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Vegna lífeyrissjóðstekna annars vegar og atvinnutekna ellilífeyrisþega hins vegar á árinu 2013 skal Tryggingastofnun ríkisins dreifa tekjunum í samræmi við 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og 5. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Þó getur lífeyrisþegi eða heimilismaður óskað eftir því við Tryggingastofnun að tekjum hans verði skipt niður í tímabil fyrir og eftir 1. júlí 2013.“

Undir þetta rita auk þeirrar sem hér stendur Ásmundur Friðriksson, Elín Hirst, Páll Jóhann Pálsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Að lokum þakka ég nefndinni gott samstarf.



[13:07]
Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd minni hluta velferðarnefndar sem í felast fulltrúar frá Samfylkingu, Bjartri framtíð og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Ég vil byrja mál mitt á því að segja að minni hlutinn mun styðja frumvarpið en gerir jafnframt breytingartillögur á því til að fylgja eftir þeirri forgangsröðun sem höfð hefur verið að leiðarljósi við meðferð almannatrygginga frá hruni.

Það er gott að minnast þess nú þegar við erum í stakk búin til þess að byrja að færa það aftur í fyrra horf sem varð fyrir niðurskurði í kjölfar hrunsins hver myndin var hér við hrun. Árið 2007 settist Samfylkingin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Jóhanna Sigurðardóttir varð félagsmálaráðherra. Áramótin 2007–2008 voru tryggingamálin færð úr heilbrigðisráðuneyti yfir í félagsmálaráðuneyti sem varð þá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Það var vegna áherslu Samfylkingarinnar sem félagshyggjuflokks og jafnaðarmannaflokks á tryggingamálum. Við töldum mikilvægt að þau væru á sama stað og önnur félagsmál og áhugi okkar á því að stórefla þann málaflokk.

Það gekk eftir eins og þegar Jóhanna Sigurðardóttir átti í hlut og barátta hennar fyrir réttlæti og jöfnuði náði fram að ganga með lagasetningum sem þá fóru í hönd. Framlög til almannatrygginga voru stóraukin á árunum 2007–2008 og meira að segja árið 2009 var ýmsum umbótum sem gerðar höfðu verið þyrmt í niðurskurðinum. Markmið okkar í Samfylkingunni og Vinstri grænum var alla tíð að verja þá sem minnst höfðu og stuðla að jöfnuði af því að jöfnuður felur í sér samfélagslega velsæld, félagslega samheldni, betra heilsufar og gefur öllum íbúum landsins tækifæri til að lifa með reisn.

Árið 2007, eftir 12 ára valdasetu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, var það enn svo að tekjur úr almannatryggingum fyrir lífeyrisþega, hvort heldur var elli- eða örorkulífeyrisþega, voru tengdar tekjum maka. Ef maður sem hafði snemma á lífsævinni orðið öryrki var giftur grunnskólakennara skertust bæturnar hans af því að konan hans var með sirka meðaltekjur eða jafnvel þar undir. Þetta var gríðarlegt óréttlæti. Þetta var svo mikið óréttlæti að Hæstiréttur kvað upp úr um að svona mætti ekki meðhöndla fólk. Á góðæristímanum höfðu þessir flokkar þó ekki treyst sér til að leiðrétta það ranglæti sem æðsti dómstóll Íslands hafði kveðið á um að mætti ekki beita fólk með þessum hætti. Jóhanna Sigurðardóttir breytti þessu, auðvitað ekki ein heldur með meiri hluta Alþingis og ég hef ekki tölur um atkvæðagreiðsluna.

Á þeim tíma hafði skömmu áður verið innleitt frítekjumark, 1. janúar 2007 var innleitt frítekjumark fyrir ellilífeyrisþega. Það var hækkað umtalsvert 2008 en síðan lækkað 1. júlí 2009 niður í 40 þús. kr. á mánuði. Það var ekki merki um að við teldum ekki að það ætti að gera ellilífeyrisþegum kleift að afla sér tekna með atvinnu heldur var tjón ríkissjóðs af þeirri stærðargráðu að skera þurfti niður á öllum stöðum og var það mat meiri hlutans þá, þar á meðal Sjálfstæðisflokks, að þetta væri sanngjarnara en ýmsar aðrar aðgerðir.

Á þeim fjórum árum sem við höfum staðið hér í gríðarlegum niðurskurði höfum við aldrei látið það hvarfla að okkur að tengja almannatryggingar einstaklinga aftur við tekjur maka. Það á þó við um fjármagnstekjur rétt eins og það hefur alltaf gert. Það hefði getað verið freistandi því að við hefðum getað náð fram heilmiklum sparnaði, en það var ranglátt og fól í sér ójöfnuð. Þar af leiðandi voru þau skref aldrei stigin og við sem skipuðum meiri hlutann þá verðum alltaf stolt af því að hafa ekki látið það hvarfla að okkur.

Varðandi skerðingarhlutföllin úr 38,5% í 45 er líka gott að muna að þau skerðingarhlutföll höfðu verið lækkuð í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem félags- og tryggingamálaráðherra úr 45, eins og þau höfðu alltaf verið, niður í 38,5. Það var því hennar verk sem hafði náð að gera þessar gríðarlegu umbætur á kerfinu, umbætur sem voru þannig að sannarlega var hægt að tala um byltingu á því sviði, þó að allir séu sammála um enginn lifi kóngalífi á almannatryggingum og ég ætla síst að reyna að halda því fram. Umbæturnar voru samt sem áður gríðarlegar.

Það kom í hlut Jóhönnu Sigurðardóttur að leiða þá ríkisstjórn sem þurfti að fara í niðurskurð á þessu kerfi. Hún var vakin og sofin yfir því með okkur stjórnarliðum, hélt okkur við efnið og alltaf var verið að leita leiða sem mundu valda sem minnstum skaða og sem mundu hlífa þeim sem best sem minnst hafa. Það var leiðarljósið í þeirri vinnu sem var fyrir okkur öll mjög sársaukafull. Það var einfaldlega ekkert val á þeim tíma enda má segja að um sjöunda hver króna ríkisins fari í að greiða almannatryggingar og það þurfti að ná niður halla á ríkissjóði sem var búið að eyðileggja, í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði tekjuöflunarkerfi ríkisins verið eyðilagt. Það var búið að rýra þannig skattstofnana að þeir gáfu ekki þær tekjur sem þurfti nema hér væri blússandi góðæri. Ef hér hefði ekki orðið hrun heldur verið eðlilegt tíðarfar hefði skattheimtan ekki dugað fyrir útgjöldunum og annaðhvort hefði þurft að hækka skatta eða lækka útgjöld.

Hrunið olli því að hækka þurfti skatta og lækka útgjöld til þess að ná niður hallanum á ríkissjóði, til þess að byrja að borga niður skuldir því að skuldirnar valda því að við greiðum á 9. tug milljarða á ári í vaxtagreiðslur. Baráttan fyrir hallalausum fjárlögum og skuldaniðurgreiðslu snýst um að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs, hætta að nota fjármuni skattgreiðenda í að greiða vexti og nota þá til að tryggja velferð, til að efla menntakerfið, löggæslu og alla þá þætti sem nauðsynlegir eru til þess að halda uppi góðum og siðmenntuðum samfélögum.

Niðurskurðurinn á árunum 2009–2013 snerist um vörnina um Ísland sem gott og siðmenntað samfélag. Það þýddi að á sumum stöðum var ekkert sérstaklega flókið að skera niður, það voru miklir fjármunir á einhverjum stöðum en mjög víða var verið að skera niður kerfi sem höfðu búið við langvarandi niðurskurð í aðdraganda hrunsins, eins og í heilbrigðiskerfinu sem var þegar fyrir hrun með úr sér gengin tæki sem enginn úr Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki hafði forgangsraðað fjármunum til að endurnýja. Mun rausnarlegri fjárveitingar hafa verið til tækjakaupa upp á það allra síðasta en nokkurt ár á 21. öldinni.

Almannatryggingarnar höfðu nýlega, eins og ég kom inn á, fengið umtalsverða viðbót og þar þurfti að skera. Við afnámum ekki nýinnfært frítekjumark á atvinnutekjur aldraðra en við lækkuðum það. Við héldum því í rúmum 100 þús. kr. á örorkulífeyrisþega því að við töldum mikilvægt að öryrkjar á besta aldri hefðu tækifæri til að afla sér tekna með atvinnu. Ef þeir hefðu aðstæður til þess væri það gríðarlega mikilvægt til þess að þeir gætu aukið tekjur sínar en ekki síður verið virkir þátttakendur í samfélaginu.

Það má til sanns vegar færa að það sama eigi við um ellilífeyrisþega en við forgangsröðuðum þarna fyrir öryrkjana, enda fólk á besta aldri, oft með börn á framfæri og stefna stjórnvalda hefur lengi verið að gefa öllum þátttöku til virkni sé möguleiki þar á. Við hækkuðum nýlækkað frítekjumark á tekjur vegna útreikninga á tekjutryggingu og fleiri bótaflokkum. Við færðum til baka umbætur sem voru tveggja ára gamlar. Sú skerðing rennur út um áramót af því að meiri hluti Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerði það ákvæði að bráðabirgðaákvæði þannig að frá og með árinu 2014 munu þær skerðingar sjálfkrafa, vegna Samfylkingar og VG, falla úr gildi og skerðingarnar fara aftur niður í 38,5%.

Út af þessu komum við þannig til móts við lífeyrisþega, til þess að fólk missti ekki trúna á það að greiða í lífeyrissjóð, að við innfærðum frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur vegna tekjutryggingar í áföngum. Fyrir mörg okkar var skerðingin á grunnlífeyrinum erfið. Þarna var brotið ákveðið prinsipp um að allir ættu að hafa rétt úr almannatryggingum. Það fóru fram miklar umræður um þetta og mörg okkar þurftu að bíta í það súra epli að fara í þá skerðingu gegn því að geta hækkað sérstöku framfærsluuppbótina fyrir þá sem minnst höfðu meira en aðra bótaflokka. Við þurftum að velja, við þurftum að vega og meta kosti. Þó að niðurstaðan væri sú sem við töldum skásta hefðum við að sjálfsögðu viljað sleppa því að skerða grunnlífeyrinn.

Nú kem ég kannski beinna inn á minnihlutaálitið af því að ef til vill eru rökin fyrir því að það varð ofan á að skerða lífeyrinn vegna lífeyrissjóðstekna í stað þess að hækka ekki jafnmikið framfærsluuppbótina þau að það eru einmitt þeir sem hafa yfir 400 þús. kr. á mánuði í heildartekjur, eins og kemur fram í áliti meiri hlutans, sem urðu þá fyrir mestu skerðingunni.

Nú er verið að færa það til baka, það er verið að svíkja loforð sem voru gefin hér rétt eftir kosningar, það átti að færa allar skerðingar til baka strax. Það er nú svikið en farið í grunnlífeyrinn fyrir þá sem mest hafa.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gekk jafnvel svo langt að segja að leiðrétta ætti þessar skerðingar aftur í tímann. Í okkar hópi höfum við ekki alveg skilið hvort hún var að meina þetta nákvæmlega, en það er mikilvægt, af því að margir hafa velt því fyrir sér, að hv. formaður fjárlaganefndar komi inn í þessa umræðu og lýsi sýn sinni á það hvernig á að efna þau loforð sem voru gefin í aðdraganda kosninga og eftir kosningar og hvað hún meinti, enda tugir þúsunda sem hafa framfærslu af þessu kerfi og þá munar um hverja krónu.

Við í minni hlutanum leggjum til tvær breytingartillögur. Við börðumst fyrir því að innleitt yrði nýtt frumvarp sem velferðarráðherra lagði fram á síðasta þingi, frumvarp sem hefur verið í vinnu, þverpólitískri vinnu með hagsmunaaðilum svo árum skiptir og meðal annars Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn studdu, frumvarp sem var réttlátara að því leyti að það einfaldaði kerfið með sameiningu bótaflokka, samræmdi skerðingarmörk vegna tekna og dró úr fátæktargildrum í kerfinu. Þetta var það frumvarp sem við lögðum áherslu á í kosningabaráttunni að yrði lögleitt og innleitt í takti við það sem afkoma ríkissjóðs leyfði.

Við vorum þó skýr í því að við mundum forgangsraða því fremst, þarna yrðu áherslur okkar. Þar af kemur, og allir flokkarnir í minni hluta eru sammála um það, að með þessari breytingartillögu byrjum við innleiðingu á þessu nýja kerfi sem þýðir að hin illræmda króna á móti krónu skerðing á framfærsluuppbótinni — sem þýðir að þú mátt engra tekna afla utan almannatrygginga, þá byrja þær að skerðast — verði lækkuð úr 100% í 80% frá og með 1. júlí og að skerðingin verði síðan lækkuð í 70% frá og með 1. janúar 2014. Þetta er gríðarlegt réttlætismál því að það varðar þann hóp sem er með lægstu tekjurnar í þessu landi. Við heitum á meiri hlutann að sýna að þeirra forgangsröðun sé ekki sú að skilja eftir þá sem minnst hafa.

Þá erum við með aðra breytingartillögu sem varðar frítekjumark örorkulífeyrisþega. Það hefur verið í bráðabirgðaákvæði í mörg ár enda var það í raun haft þar vegna uppbyggingar á hinu nýja kerfi og það kæmi þar sem átti að hætta með sérstök frítekjumörk fyrir mismunandi tekjuflokka. En við teljum að úr því að inn í lagatextann er komið frítekjumark upp á rúma 1,3 milljónir á atvinnutekjur ellilífeyrisþega sé fráleitt að örorkulífeyrisþegar sitji ekki við sama borð, að minnsta kosti. Að öðrum kosti er þetta bráðabirgðaákvæði sem kynni að falla úr gildi um næstu áramót ef það er ekki pólitískur meirihlutavilji fyrir því að örorkulífeyrisþegar séu hvattir til atvinnu ekki síður en ellilífeyrisþegar.

Breytingin niður í 80% skerðingu kostar innan við milljarð. Milljarður er gríðarlega miklir fjármunir, við vitum það sem höfum skorið niður tugi og hundruð milljarða, við vitum að hver einasti milljarður er vandamál. Það er erfitt, milljarð fyrir milljarð, að finna niðurskurð. Trúið mér, við í minni hlutanum vitum allt um það. En nú sjáum við hvernig milljarðar eru meðhöndlaðir af nýrri ríkisstjórn. Fyrir nýja ríkisstjórn er ekkert vandamál að afsala sér tekjum, en þegar á að standa við loforðin um aukin framlög til almannatrygginga er 1,5 milljarðar eða 1,8 það sem ríkisstjórnin er tilbúin til þess að láta af hendi rakna. Okkur finnst það vægast sagt hófsöm tillaga að bæta við það milljarði, milljarði sem rennur til þeirra heimila sem minnst bera úr býtum í þessu samfélagi.

Varðandi breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra er komið inn á það í greinargerð með frumvarpinu, umsögnum frá Jafnréttisstofu og frá Femínistafélaginu að það gæti ekki að jafnrétti kynjanna, ekki að því leyti að almannatryggingakerfið mismuni fólki eftir kynjum, þar stöndum við öll jafnt, en það endurspeglar þá tekjumisskiptingu sem er á milli kynjanna í samfélaginu. Það endurspeglar að enn eru margar konur að fá ellilífeyri sem áttu tiltölulega stutta viðveru á vinnumarkaði og eru þar af leiðandi með lágan lífeyrissjóð, en afkoma kvenna í þessu kerfi endurspeglar kynbundinn launamun. Það er mjög alvarlegt ef löggjafinn reynir ekki að vinna gegn þessu misrétti í lagasetningu sinni. Það að auka framlög til þeirra sem minnst hafa þýðir að við erum að hækka lífeyri til kvenna í hlutfallslega meira mæli.

Sú breyting sem við leggjum til mun strax hafa áhrif á 17 þúsund elli- og örorkulífeyrisþega og hátt í 70% þeirra eru konur, konurnar sem hafa lægstar tekjur á Íslandi. Með innleiðingu í 70% skerðingu á framfærsluuppbót mun lífeyrir þeirra 23 þúsund lífeyrisþega sem minnst hafa hækka og þá erum við komin niður í að konur séu um 67–68% af þeim hópi.

Það er gott að muna að í frumvarpi ráðherra gagnast breytingarnar sem þar eru boðaðar körlum í miklum meiri hluta, sérstaklega körlum sem eru með yfir 400 þús. kr. á mánuði. Nú eru 400 þús. kr. á mánuði ekkert þannig tekjur að ástæða sé til að telja þær háar, en þær eru háar miðað við þá sem hafa framfærslu sína af almannatryggingakerfinu. Mér finnst skrýtið að flokkur sem kennir sig við samvinnu og jafnvel félagshyggju á góðum dögum skuli leggja fram frumvarp þar sem forgangsröðunin er ekki á fátæka örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega heldur þá sem hafa hæstar tekjur í almannatryggingakerfinu. Þetta er ekki bara á þá sem hafa hæstu tekjurnar í kerfinu, þetta er líka á þá sem eru dottnir út úr kerfinu því að tekjurnar eru of háar.

Þetta frumvarp kom mjög seint inn á sumarþing. Það harma ég því að Samfylkingin var búin að leggja fram frumvarp um allsherjarbreytingu á almannatryggingakerfinu í anda vinnuhópa sem allir flokkar stóðu að og velferðarráðherra lagði fram á síðasta kjörtímabili. Hefði þetta frumvarp verið lagt fram fyrr hefðum við getað leitað leiða til þess að samþætta þetta og stuðla að því að kerfisbreytingin, sem er réttlátari og betri, næði fyrr fram að ganga.

Ef það væri svo að þessi breyting væri bráðsnjöll af því að hún væri mikilvæg þar sem hún gagnaðist þeim sem minnst hefðu og væri að vinna í þágu nýs kerfis sem allir vilja innleiða, þá hefði ég getað skilið þetta og líka þá hugsun að þeir sem hafa meðaltekjur eigi líka rétt á uppbótum fyrir þá skerðingu sem þeir hafa orðið fyrir. En breytingin vinnur í raun, eins og umsagnaraðilar benda á, ekki síst ASÍ og Samtök atvinnulífsins, gegn nýju kerfisbreytingunni af því að það verður dýrara að innleiða hana þegar þar að kemur. Með nýja kerfinu munu lífeyrisþegar í sambúð detta út úr kerfinu við um 406 þús. kr. í mánaðartekjur og þeir sem eru einhleypir við um 460 þús. kr. í mánaðartekjur.

Þetta eru mjög vel unnar tillögur, mjög úthugsaðar og þær koma til móts við þá sem minnst hafa en reyna samt líka að tryggja almenningseignarhald á almannatryggingakerfinu. Ég legg ríka áherslu á það fyrir hönd minni hlutans að breytingartillögur okkar, hófsamar sem þær eru, verði samþykktar hér. Við munum styðja tillögur meiri hlutans þó að við hefðum viljað sjá aðra forgangsröðun, en við munum ekki leggjast gegn því að einhver hópur fái aukin framlög úr almannatryggingakerfinu. Það hlýtur að teljast jákvætt þótt forgangsröðunin sé fráleit.

Við leggjum líka áherslu á að flokkar standi við orð sín á milli kosninga og hlaupi ekki frá samkomulagi um kerfi sem hefur verið unnið að mótun á árum saman með aðkomu allra flokka og allra hagsmunaaðila. Þar þarf sérstaklega að líta til þess að fá Öryrkjabandalagið að borðinu aftur.



[13:37]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að viðurkenna að ég var algjörlega steinhissa þegar ég heyrði ræðu hv. þingmanns. Við erum að efna kosningaloforð um að setja það í forgang að koma til móts við aldraða og öryrkja. (ÖS: Það er gott.) Við erum að gera það núna hvað aldraða snertir eins og efni gera ráð fyrir. Við erum að gera það sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna heyktist á í fjögur ár. Við erum að reyna að bæta úr þeim skerðingum sem urðu hér 1. júlí 2009.

Að hlusta á formann velferðarnefndar gagnrýna málsmeðferðina er algjörlega fáheyrt, virðulegi forseti. Það var ekki eitt jákvætt orð í ræðu hv. þingmanns, ekki eitt einasta jákvætt orð um að nú væri ríkisstjórnin að stíga skref í átt til þess sem hún lofaði allt síðasta kjörtímabil og kenndi sig meira að segja við.

Eigum við að rifja upp niðurskurðinn í heilbrigðismálum? Eigum við að rifja upp alla þá borgarafundi sem voru haldnir víðs vegar um land? Eigum við að rifja upp hversu margir yfirgáfu ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna út af brostnum loforðum hvað snertir velferðarmál? Eigum við að endurflytja ræður hv. fyrrverandi þingmanns Atla Gíslasonar þegar hann nefndi það að niðurskurðurinn bitnaði hvað mest á konum og sagði að hann gæti ekki stutt ríkisstjórn sem hagaði málum sínum þannig?

Við leggjum okkur hér fram um að sýna samstöðu og þess vegna (Forseti hringir.) treystum við hv. þingmanni til þess að leiða velferðarnefnd. En við gerum líka kröfu til þess að hún sé jákvæð (Forseti hringir.) um þau skref sem þó eru stigin þó að þau séu kannski minni en hv. þingmaður (Forseti hringir.) vænti.



[13:39]
Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að svo stöddu ætla ég að láta eins og ég hafi ekki heyrt lokaorð hv. þingmanns (HöskÞ: Þú hefðir kannski átt að …) enda voru þau honum til skammar. (HöskÞ: Já, er það?)

Varðandi niðurskurð fór ég ítarlega yfir hann í ræðu minni. Varðandi loforð eru þetta svik á loforðum Framsóknarflokksins í aðdraganda og eftirleik kosninga. Þar var talað um að draga allar skerðingar til baka. Það er ekki verið að því. Það er verið að draga skerðingar til baka á þá sem mest hafa, frú forseti. [Frammíköll í þingsal.]

Ég kallaði eftir því að hv. formaður fjárlaganefndar skýrði út hvað hún hefði átt við þegar hún sagði, frú forseti, að skila ætti fólki skerðingunum. Átti hún við að það ætti að greiða allt til baka sem safnast hefur upp í gegnum árin? Eða átti hún við að byrja á þeim sem hafa mest og taka svo kannski hina ef ekki þarf að gefa meiri afslátt af veiðigjöldum?

Það er eðlilegt að þingmenn séu tilbúnir til að útskýra loforð sín sem búa til væntingar hjá fólki sem er með lágar tekjur. Hver einasta króna sem bætist við eykur lífsgæði þess, þó ekki meira en svo að fólk berst við það að eiga fyrir nauðþurftum. Hv. þingmaður þarf að horfast í augu við það að ríkisstjórn hans forgangsraðar ekki í þágu þess hóps (Forseti hringir.) með þessu frumvarpi. (Gripið fram í.)



[13:42]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en þessi ríkisstjórn var mynduð, áður en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru búnir að mynda ríkisstjórn, fóru að heyrast raddir úr stjórnarandstöðunni um að ríkisstjórnarflokkarnir væru að svíkja kosningaloforð sín.

Við sögðum í kosningabaráttunni að við ætluðum að gera betur en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Það erum við að gera. Við erum að bæta stöðu þeirra sem hvað verst hafa það í samfélaginu. Þetta er bara fyrsta skrefið og ég spyr: Verður þetta svona allt kjörtímabilið, þegar við reynum að bæta hlut þeirra sem hvað verst hafa það í þjóðfélaginu, þó að það gerist ekki allt á einum degi, mun þá stjórnarandstaðan heimta meira um leið og hún segir að það þurfi að huga að rekstri ríkissjóðs?

Ég spyr mig hvernig standi á því að formaður velferðarnefndar — við ákváðum að veita stjórnarandstöðunni formennsku í velferðarnefnd þannig að við gætum — (ÁÞS: … samkvæmt þingsköpum.) þannig að við færum í þessi mál með samvinnu að leiðarljósi. Það stendur ekki í þingsköpum að þessi tiltekna nefnd skuli fara til stjórnarandstöðu. Það er reyndar ekki rétt sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson segir, að það standi í þingsköpunum. Ég þarf að leiðrétta það sem birtist í grein hans í Fréttablaðinu fyrir nokkrum vikum. Það er rangtúlkun á þingsköpum en það er annað mál. (ÁÞS: Það er rangt.)

Ég spyr: Ætlar stjórnarandstaðan að láta svona allt þetta kjörtímabil þegar við reynum að vinda ofan því sem henni tókst ekki? (Gripið fram í.) Skerðingarnar 1. júlí 2009 áttu að vera tímabundnar. Er það ekki rétt? (Forseti hringir.) Jú. Var það ekki svikið ítrekað? Við erum að reyna að stíga skref (Forseti hringir.) til að bæta úr því sem stjórnarandstaðan gat ekki gert á síðasta kjörtímabili.



[13:44]
Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vægast sagt vandræðalegt. Hv. þingmaður, sem sat í fjárlaganefnd allt síðasta kjörtímabil, virðist í fyrsta lagi ekki skilja af hverju niðurskurður fór fram og í öðru lagi ekki skilja kosningaloforð eigin flokks.

Sá hluti af skerðingunum frá 1. júlí sem átti að ganga til baka mun ganga til baka um næstu áramót, ekki út af núverandi ríkisstjórn heldur út af lagasetningu fyrri ríkisstjórnar. Og af hverju er nú hægt að fara að bæta aftur í almannatryggingakerfið? Eigum við að rifja upp af hverju það er hægt, frú forseti? Það er hægt af því að hér náðist undraverður árangur í ríkisfjármálum. (HöskÞ: Ekki fannst kjósendum það.)

Frumvarpið sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra leggur fram er ágætt svo langt sem það nær, en það er samt sem áður ekki verið að uppfylla kosningaloforðin (Gripið fram í.) og það er bara verið að uppfylla kosningaloforðin gagnvart þeim sem hafa allra hæstu tekjurnar.



[13:45]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þessi ræða, sem var full vandlætingar og neikvæðni, kom mér mjög á óvart. Það kom mér á óvart að formaður nefndarinnar skyldi tala með þessum hætti. En gott og vel, þá er það greinilega stefnan sem minni hlutinn ætlar að taka þrátt fyrir að vera með formennsku í velferðarnefnd. Ég hefði ætlað að menn ætluðu þar á þessu kjörtímabili, eins og á því síðasta, að reyna að vinna saman og tala málefnalega.

Er það þá svo að það stóð ekki til af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að leiðrétta þessar skerðingar sem komu til í júlí 2009? Er það svo? Það er gott að fá skýrt svar við því.

Er það svo að það sé afstaða Samfylkingarinnar hér á þingi að þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð eigi ekki að njóta þess, að það sé eðlilegt að í stað þess að menn fái greitt úr lífeyrissjóði, sem hefur verið nánast samkomulag um í samfélagi okkar, að það sé einhver tilgangur með því — er það afstaða Samfylkingarinnar að það skuli allt skerðast og það sé enginn tilgangur með því að greiða í lífeyrissjóð?



[13:47]
Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að draga til baka skerðingar frá 1. júlí, það mun gerast. Ég segi það enn eina ferðina hér, það mun gerast að hluta til um næstu áramót. En það sem við skulum líka muna er að lögð hefur verið til þverpólitísk tillaga um kerfisbreytingu. Það þýðir að núverandi kerfi yrði lagt niður og verið er að tala um skerðingar í núverandi kerfi. Við höfum talað fyrir innleiðingu nýs kerfis sem er réttlátara, einfaldara, dregur úr misræmi í skerðingum og kemur í veg fyrir fátæktargildrur. Hv. þm. Pétur Blöndal þekkir mætavel uppbyggingu þessa kerfis.

Varðandi lífeyrissjóðina skiptir mjög miklu máli að tryggja að fólk vilji áfram greiða í lífeyrissjóði því að lífeyrissjóðakerfið er gríðarlegur styrkur fyrir okkar samfélag. Það voru umbætur í kerfinu á ýmsum sviðum þrátt fyrir niðurskurðinn og þar innleiddum við í skrefum frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur vegna tekjutryggingar. Því er alls ekki hægt að segja að við höfum markvisst unnið gegn vilja fólks til að greiða í lífeyrissjóðina heldur þvert á móti.



[13:49]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað þannig að ný ríkisstjórn hefur tekið við, ríkisstjórn með aðrar áherslur en sú fyrri. Og ég tel að það sé vel. Mig langar að koma því að, vegna þeirrar vinnu sem unnin hefur verið við að koma á fót nýju skipulagi almannatrygginga, að fjármálaráðuneytið var ekki með í þeirri vinnu. Öryrkjabandalagið sagði sig frá þeirri vinnu þannig að það er augljóst að sú vinna er ekki klár.

Er það svo að þingmaðurinn heldur því fram að betra hefði verið á þessu stutta sumarþingi að lögfesta heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, heildarendurskoðun á nokkrum dögum hér í þinginu, frekar en að fara í það mál sem við tölum um hér? Ófjármagnað frumvarp sem var lagt hér fram af síðustu ríkisstjórn á síðustu vikum síðasta þings — með hreinum ólíkindum að menn hefðu ekki getað gert það fyrr. Hefðu þeir ætlað sér það í einhverri alvöru að koma þessum breytingum í gegn hefðu menn nú kannski átt að gera það fyrr og ljúka umræðum um það hvernig hafi átt að fjármagna þær breytingar.

En eins og fyrri ríkisstjórn gerði títt og yfirleitt með sín mál þá lögfesti hún hér frumvörp sem áttu að fjármagnast einhvern tímann í framtíðinni.



[13:51]
Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég tel að það hefði verið algjörlega óraunhæft að ætla sér á nokkrum vikum að innleiða nýtt almannatryggingakerfi. Enda lagði ég áherslu á það sem formaður velferðarnefndar fyrir kosningar, þegar málið kom mjög seint inn i þingið, að senda yrði það út með löngum umsagnarfresti því að þetta væri mikilvægt kerfi sem varðaði gríðarlega hagsmuni fólks. En hefðum við fengið þetta frumvarp fyrr inn í þingið hefðum við getað unnið að breytingum sem vinna með nýju kerfi en torvelda ekki innleiðingu þess.

Að lokum, frú forseti: Það er merkilegt að bæði fulltrúum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks virðist þykja óeðlilegt að kjörinn fulltrúi tali fyrir stefnu síns flokks úr ræðupúlti Alþingis. Mér finnst það óhugnanlegt, þetta viðhorf, og ég kýs að trúa því að þau hafi misst þetta út úr sér í einhverju svona smárugli, því að þetta er þeim til vansa, (Gripið fram í.) og ákaflega óskemmtilegt.



[13:52]Útbýting:

[13:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil gera við það athugasemd að mér sé ekki gert það kleift að bera hér af mér sakir þegar ég er sökuð um það, af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að tala hér í einhverju rugli, að ég hafi verið hér í einhverju ruglástandi. Þetta eru orð sem eru ekki samboðin þingmanni hér á Alþingi. Það er með ólíkindum að maður megi ekki koma hér upp og verja sig.

Ég fullyrði það hér, ég er ekki í neinu rugli, ég er algjörlega áttuð á því hvað hér fer fram. En mér er hins vegar misboðið með hvaða hætti hv. þingmaður talar hér í ræðustól.



[13:54]
Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil biðja hv. þingmann afsökunar og tek undir það að þetta var óheppilegt orðalag. En þá vil ég, frú forseti, ítreka það að forseti verji það að ekki sé vegið að málfrelsi þingmanna með því að ætla þeim að tala með ákveðnum hætti og fyrir ákveðinni stefnu af því að þeir hafi verið valdir til trúnaðarstarfa.

Að sjálfsögðu erum við öll valin til trúnaðarstarfa fyrir hönd kjósenda okkar og innan hópsins skipum við okkur síðan í mismunandi hlutverk. Það að taka að sér ákveðið hlutverk tekur ekki frá manni pólitískar hugsjónir eða stefnu þess flokks sem maður starfar fyrir í umboði kjósenda.



[13:56]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Þar stendur að með þessu frumvarpi séu lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem fela í sér aukin bótaréttindi elli- og örorkulífeyrisþega með hærri greiðslum úr ríkissjóði. Að auki sé tilgangur frumvarpsins einkum sá að afturkalla þær kerfisbreytingar sem gerðar voru í aðhaldsskyni á árinu 2009 á bótaréttindum lífeyrisþega.

Breytingar á almannatryggingum er flókið og margþætt verkefni sem snertir hagsmuni og velferð fjölda fólks. Samhljómur er um að nauðsynlegt sé að einfalda kerfið og auka gagnsæi svo að öllum þeim sem það þurfi að nýta séu ljós réttindi sín á hverjum tíma, auk þess sem tryggja þarf að samspil almannatrygginga, lífeyrissjóðstekna og annarra tekna sé réttlátt og skilvirkt.

Það er í sjálfu sér ánægjuefni að bæta eigi kjör elli- og örorkulífeyrisþega með auknum framlögum til almannatrygginga eins og áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir og því ber að fagna eins og fram kemur í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Því er þó ekki að leyna að um leið vakna ákveðnar spurningar, bæði er varða fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og ekki síður fyrir þá sem málið snertir, þ.e. bótaþega.

Það var ekki að ástæðulausu sem ákveðið var að skerða bótaréttinn, það eigum við að vita sem hér sitjum. Staða ríkissjóðs var afar slæm, eins og alþjóð veit, eftir hið alræmda bankahrun haustið 2008. Bregðast þurfti við miklu tekjufalli og það tóku allir á sig byrðar. Þetta var ein leiðin og ég er nokkuð sannfærð um að ekkert okkar vildi fara hana en það var úr vöndu að ráða.

Virðulegi forseti. Við lestur þessa frumvarps sem og umsagnar fjármála- og efnahagsráðuneytis og annarra umsagna og umfjöllunar um málið verður ljóst að þær breytingar sem boðaðar eru hafa verulega takmarkaða þýðingu fyrir þá einstaklinga sem þurfa mest á leiðréttingu að halda. Í frumvarpinu er rætt um aukin bótaréttindi fyrir aldraðra og öryrkja, en hverjir eru það helst í þeim hópi sem þess njóta ef þetta frumvarp nær fram að ganga?

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar munu breytingar frumvarpsins einkum hafa áhrif á tekjur lífeyrisþega sem hafa einhverjar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga og er áætlaður ávinningur af breyttum bótaréttindum meiri eftir því sem tekjur lífeyrisþega eru hærri. Ástæða þess er sú að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu felast ekki í hækkun fjárhæða einstakra bótaflokka heldur fyrst og fremst í minni tekjutengingu og hækkun frítekjumarka gagnvart öðrum tekjum.“

Það er einmitt þetta sem við erum að fjalla um. Það er það sem er áhersla okkar í minni hlutanum að þetta felst ekki í hækkun þessara einstöku bótaflokka heldur minni tekjutengingu fyrst og fremst. Það er vel í sjálfu sér en hefði ekki átt að vera í forgangi. Það er það sem vekur undrun á þessu sumarþingi og að mínu viti er ríkisstjórnin að ganga rangan veg þegar kemur að forgangsröðun innan þessa málaflokks.

Einungis stendur til að kalla til baka tvær kerfisbreytingar af sex. Ekki hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra hvenær eða hvort hún og hennar ríkisstjórn ætla að afnema eða fella úr gildi hinar fjórar skerðingarnar líka. Það kom fram í máli framsögumanns meiri hluta hér áðan að halda ætti áfram og leggja fram nýtt mál í haust en að öðru leyti var það ekki útskýrt.

Þær tvær leiðir sem hér um ræðir eru í fyrsta lagi hækkun frítekjumarka vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega þar sem áhrif annarra tekna á greiðslur frá almannatryggingum minnka frá því sem nú er. Í annan stað er lagt til að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Vert er að vekja athygli á því, og það kemur einnig fram í umsögn Öryrkjabandalagsins, að eitt af því sem fram kemur í stjórnarsáttmála, og hér er ekki lagt til, er að breyta frítekjumörkum vegna fjármagnstekna. Ekki er verið að leiðrétta skerðingarhlutfall tekjutryggingar og ákvörðun um skerðingu krónu á móti krónu á sérstakri framfærsluuppbót er ekki breytt. Helsta baráttumál öryrkja, sem fram kemur í umsögn þeirra um málið, um að bætur haldist í hendur við verðlag eða leiðréttingu á afnámi á skerðingu grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna, er ekki mætt.

Ljóður er á og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að ekki hafi verið haft samráð við neina aðila utan ríkiskerfisins við samningu frumvarpsins. Það er miður því að eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna var náið samstarf milli stjórnmálaflokka og heildarsamtaka vinnumarkaða og annarra er málið varðaði í tíð síðustu ríkisstjórnar um lífeyrismál undanfarin ár þar sem horft var til mikilvægis samspils almannatrygginga og annarra þátta.

Virðulegur forseti. Í umsögnum um frumvarpið koma einnig fram veruleg vonbrigði yfir því að hér sé verið að ganga gegn þeirri heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og félagslegan stuðning sem unnið hefur verið að um margra ára skeið og breið samstaða var um meðal fulltrúa þingflokka og hagsmunaaðila í vor, eins og ég sagði áðan. Talað er um að breytingarnar gangi alfarið gegn þeim hugmyndum sem ríkjandi hafa verið um nauðsyn þess að einfalda og skýra almannatryggingakerfið og geri enn erfiðara en nú er að vinda ofan af þessu margflækta tryggingakerfi.

Þeir lífeyrisþegar sem þurfa að reiða sig eingöngu á tekjur almannatrygginga eða hafa lífeyrissjóðstekjur undir 215 þúsund á mánuði eða lágar atvinnutekjur hafa lítinn sem engan ávinning af boðuðum breytingum. Samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun eru elli- og örorkulífeyrisþegar ríflega 46 þúsund en breytingin mun samkvæmt athugasemdum við frumvarpið hafa áhrif á tekjur um 7 þúsund þessara lífeyrisþega um 15%.

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis kemur fram, með leyfi forseta:

„Þannig munu ellilífeyrisþegar sem hafa á bilinu 300–400 þús. kr. í heildartekjur fá hækkun sem nemur í kringum 16–22 þúsund að meðaltali á mánuði en þeir sem hafa heildartekjur 250 þúsund eða lægri fá allt frá því að fá ekki neitt eða upp í 2 þús. kr. sem meðalhækkun.“

Virðulegi forseti. Ég held að flest okkar taki undir þau sjónarmið sem fram koma í flestum þeirra umsagna sem nefndinni bárust. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta, að það sem búi að baki hækkun frítekjumarks gagnvart atvinnutekjum sé að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku aldraðra. Áfram segir:

„Sama er að segja um þau sjónarmið sem búa að baki ákvæði um að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skuli ekki skerða elli- og örorkulífeyri (grunnlífeyri). Jafnframt má taka undir að það sé mikilvægt, og raunar grundvallarforsenda þess að sátt ríki áfram um skylduaðild að lífeyrissjóðum hér á landi, að þeir einstaklingar sem hafa verið á vinnumarkaði njóti betri lífeyrisréttinda með því að greiða hluta atvinnutekna sinna í lífeyrissjóð en væri ef þeir hefðu verið utan vinnumarkaðar.“

Þetta kom til umræðu hér áðan og ég held að við séum öll sammála um að það þurfi að vera ávinningur af því að greiða í lífeyrissjóð.

Ýmsir hafa goldið varhuga við tillögu um lagabreytingar á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, sem varða leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stofnunarinnar og eðlilegt eftirlitshlutverk, og að starfsemi hennar eigi að lögfesta. Ég tel það því rétt, eins og kemur fram í breytingartillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að fresta þessum lið og skoða betur.

Mig langar þó að vekja athygli á því að það kom fram í máli Tryggingastofnunar að erfitt væri að framkvæma slíka breytingu á miðju ári. Það tæki allt upp undir þrjár vikur að breyta í kerfinu og það kom líka fram að nauðsynlega fjármuni vantaði til að breyta kerfinu og að kynna þessa breytingu fyrir bótaþegum.

Sem fyrrverandi sveitarstjórnarkona hlýt ég að taka undir athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur, með leyfi forseta, að brýnt sé „að koma á skilvirkri upplýsingamiðlun milli Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaganna, svo stemma megi stigu við tvígreiðslu eða útgreiðslu bóta og fjárhagsaðstoðar á grundvelli rangra, villandi eða ófullnægjandi upplýsinga.“

Þeir krefjast þess að fá heimild til samkeyrslu skráa og telja að það mundi vega þungt í þessum efnum, en sambandið styður þó í grunninn það markmið frumvarpsins, eins og fram kom hjá öðrum aðila hér áðan, að almenningur njóti þess að greiða í lífeyrissjóð.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Hætta er hins vegar á því að ef frumvarpið verður að lögum dragi úr því svigrúmi sem stjórnvöld hafa til að knýja í gegn frekari umbætur á almannatryggingakerfinu.“

Það er það sem við höfum kannski helst verið að ræða hér, það eru áhyggjur okkar og mjög margra umsagnaraðila af því að þetta verði okkur dýrara þegar upp er staðið.

Í frumvarpinu sem lagt var fram síðastliðið vor af fyrrverandi velferðarráðherra, og er lagt aftur fram nú hér á þessu sumarþingi, er gert ráð fyrir að sameina í ein lög rétt til bóta og aðstoðar vegna elli, skertrar starfsgetu, andláts eða framfærslu barna með það að markmiði að gera lögin einfaldari og skýrari en núgildandi löggjöf. Þetta eykur mjög gagnsæi og gefur betri yfirsýn yfir réttindi einstakra hópa sem er vel.

Í frumvarpinu eru lagðar til gagngerar breytingar á bótakerfi ellilífeyrisþega þar sem fjórir bótaflokkar verða meðal annars sameinaðir í einn með einu skerðingarhlutfalli gagnvart öllum tekjum. Breytingin er vissulega viðamikil en einfaldar bótakerfi ellilífeyrisþega til muna, en í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir innleiðingu í áföngum næstu fjögur árin.

Virðulegi forseti. Mér finnst afar mikilvægt sem konu að vekja athygli á því sem fram kemur í umsögn Femínistafélags Íslands þar sem sagt er að eðlilegra hefði verið að hækka grunnlífeyri almannatrygginga, sem hefði nýst fleirum, en að hækka frítekjumark þeirra sem hafa atvinnu- og fjármagnstekjur. Það er því algjörlega ómögulegt að vera sammála þeirri fullyrðingu sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að það hafi ekki bein áhrif á jafnrétti kynjanna.

Í umsögn Femínistafélagsins eru áhugaverðar niðurstöður rannsókna þar sem fram kemur, og flest okkar hér inni vitum, með leyfi forseta:

„… að konur hafa unnið sér inn minni tekjur hjá lífeyrissjóðum og með viðbótarlífeyrissparnaði en karlar. Þær þurfa því að reiða sig meira á ellilífeyri og réttindi almannatrygginga. […] Hugsanlega einfaldasta og minnst umdeilda leiðin væri að hækka grunnlífeyri og tekjutryggingu og uppbætur til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar þannig að öruggt væri að lífeyrisþegar gætu framfleytt sér á þeim greiðslum. Sú leið myndi í grunninn vera kynhlutlaus þar sem hún kæmi þeim sem hefðu lægstar tekjurnar vel, burtséð frá kyni. Í raun væri þetta þó jafnréttisaðgerð þar sem konur eru meiri hluti þeirra sem að reiða sig á grunnlífeyri og uppbætur vegna lítilla eða engra tekna frá lífeyrissjóðum. Slík aðgerð myndi þar af leiðandi auka efnahagslegt jafnrétti kynjanna.“

Vert er að vekja athygli á því að konur eru nú um 58% þeirra sem fá greiddan ellilífeyri og um 62% þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun.

Í umsögn Jafnréttisstofu er hvatt til þess að yfirlýsing um tilgang hækkunarinnar á frítekjumarki verði endurskoðuð og þar eru lagðar fram gagnrýnar spurningar, með leyfi forseta, sem ég vil hér endurtaka:

„Eru til upplýsingar um það hversu lengi konur vinna almennt og hversu lengi karlar vinna almennt? Eru til upplýsingar um það hvort konur og karlar vilja vinna lengri starfsævi en þau gera nú? Eru þetta helstu rökin fyrir hækkun frítekjumarks, þ.e. að hvetja fólk til að vinna enn þá lengur?“

Við þessu væri gott að fá svör því að það er jú þannig að þó að við viljum öll geta unnið eins lengi og mögulegt er þá er rétt að halda því til haga að það er fleira sem getur aukið lífsgæði en að lengja starfsævina.

Virðulegi forseti. Sem nefndarmaður í fjárlaganefnd get ég ekki annað en rætt kostnað ríkissjóðs við frumvarpið. Áætlaður kostnaður í ár er um 850 milljónir og um 4,6 milljarðar á því næsta en gæti hækkað eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytis. Hæstv. ráðherra sagði hér í umræðu á dögunum að hún treysti sér til að mæla fyrir slíku frumvarpi þrátt fyrir að í umsögn fjármálaráðuneytisins kæmi fram að þetta bryti í bága við núgildandi fjárlög og afkoma ríkissjóðs mundi versna að sama skapi.

Þá verð ég að spyrja hvort hæstv. ráðherra treysti sér til þess að segja þingheimi hvar hún hyggst fá fjármuni til að brúa þetta bil. Það hefur ekki komið fram hér í umræðunni, af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar, að staðan sé svo góð og aukinheldur eru hér lögð fram tekjulækkandi frumvörp hvert á fætur öðru. Hvar á að afla tekna og hvar ætlar hæstv. ríkisstjórn að skera niður? Boðaður hefur verið flatur 1,5% niðurskurður. Dugar hann til til að brúa fjárlagagatið? Það stækkar hér með hverjum degi vegna framkominna frumvarpa.

Það er því ekki nema von, og ég skil það mætavel, að mönnum hrjósi hugur við því að koma saman tekju- og fjárlagafrumvarpi og leggja það fram á tilskildum tíma.

Hér var rætt áðan um að standa við loforð. Í Morgunblaðsgrein sem Lilja Þorgeirsdóttir er höfundur að, en hún er framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, kemur fram, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra tilkynnti að standa skyldi við gefin loforð. Í kvöldfréttum RÚV 25. maí sl. sagði hann að strax á sumarþingi myndu leiðréttingar á tekjutengingum og réttindaskerðingum lífeyrisþega sem tóku gildi 1. júlí 2009 verða að veruleika.“

Síðar segir:

„Samkvæmt því virðast stjórnvöld ekki ætla að standa við gefin loforð strax á sumarþingi nema að hluta til. Notast er við smáskammtalækningar sem nýtast ekki þeim sem eru með lágar tekjur.“

Þetta er umsögn þeirra sem þar koma að máli. Ég tek undir það að þetta kemur á óvart.

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost að sitja fund velferðarnefndar á dögunum og þar komu margir gestir sem flestallir voru sammála um að þeir sem minnst hafa, ellilífeyrisþegar og öryrkjar, eru ekki þeir sem njóta góðs af þessu frumvarpi og vekur sú forgangsröðun furðu flestra.

Einnig var það almenn skoðun að starfshópurinn sem fyrrverandi hæstv. velferðarráðherra skipaði í apríl 2011 til að vinna að lokafrágangi heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar ætti að halda áfram vinnu sinnu og á því ætti framtíðarhugsunin um almannatryggingar að byggja.

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sagt að hún sé hvergi nærri hætt og trúi ég því að hún leggi þetta frumvarp fram af góðum hug. En eftir stendur að flestallir sem skiluðu inn umsögnum telja þetta ekki bestu forgangsröðunina, þá leið sem hér er verið að fara, og að horfa eigi á heildarmyndina til framtíðar. Það er það sem minni hlutinn leggur áherslu á.

Við gleðjumst yfir hverju skrefi sem stigið er til að bæta tekjur þessa hóps sem í sjálfu sér hefur minnst í samfélaginu og þurfti að taka á sig byrðar eins og aðrir. Það breytir því ekki að við hefðum gjarnan viljað forgangsraða með öðrum hætti og erum ekki ein um það. Eins og ég las hér upp áðan kemur það fram, bæði í umsögnum um málið sem bárust nefndinni og í áðurnefndri blaðagrein — og það kom líka fram hjá Lilju Þorgeirsdóttur, þegar hún kom á fund nefndarinnar, að hún fengi mörg símtöl frá öryrkjum sem byggjust við því að fá hækkun strax í sumar, en það gerist ekki, ekki samkvæmt þessu frumvarpi, því miður. Við höfum viljað forgangsraða þannig að þeir sem minnst hafa hefðu fengið fyrst, með þeim hætti hefði verið farið inn í þetta, í staðinn fyrir að byrja á þeim sem mest hafa í þessum geira, þó að lítið sé.



[14:16]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ágæta yfirferð yfir málið. Hún sagði nokkrum sinnum að þeir sem ekki ættu rétt í lífeyrissjóðum væru berskjaldaðir.

Þá vil ég spyrja hana: Hverjir eru það sem ekki eiga rétt í lífeyrissjóðum? Árið 1974 voru sett lög frá Alþingi um að allir launþegar skyldu greiða í lífeyrissjóði, allir. Árið 1980 var það víkkað út á sjálfstæða atvinnurekendur líka, að allir Íslendingar sem stunda vinnu skuli greiða í lífeyrissjóð. Það þýðir að í 33 og upp í 39 ár hafa Íslendingar verið skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóð.

Nú er ákveðinn hluti þjóðarinnar utan vinnumarkaðar, sem eru fatlaðir. Gert hefur verið mikið átak í að laga stöðu þeirra þó að mikið verk sé enn óunnið, þeir eru á vissan hátt sér á báti. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða fólk er það sem stendur fyrir framan Tryggingastofnun, hefur verið á vinnumarkaði og á ekki rétt? Gæti það verið fólk sem hefur búið í útlöndum sem hefur valið erlent velferðarkerfi alla sína starfsævi, kemur svo til Íslands — og þá er það spurningin: Eigum við að horfa mikið til þess að það hafi þá ekki tryggt sig í útlöndum og stendur berskjaldað fyrir framan Tryggingastofnun? Eða er þetta sá hópur manna sem ég sem formaður Landssambands lífeyrissjóða á sínum tíma vissi að borgaði ekki í lífeyrissjóð þó að hann ætti að gera það? Það voru 40 þúsund manns. Við vissum að á vinnumarkaði voru 40 þúsund manns sem ekki borguðu í lífeyrissjóð. Þá spyr maður það fólk: Hvað gerði það við iðgjöldin? Því að væntanlega hefur það fengið iðgjöldin greidd út, þessi 10% sem hinir greiða, og spurningin er sú: Hvað gerði það við iðgjöldin og af hverju er það svona berskjaldað fyrir framan Tryggingastofnun?



[14:18]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara fyrir þá sem borguðu ekki í lífeyrissjóðina af einhverjum annarlegum ástæðum sem þingmaðurinn var hér að telja, þ.e. greiddu ekki það sem þeim bar að greiða. En spurningin um það hverjir það eru sem fá ekki bætur — hann svaraði því eiginlega sjálfur, hv. þm. Pétur Blöndal, og þakka ég honum fyrir þessa fyrirspurn. Það eru sérstaklega heimavinnandi konur, það kom fram í umsögnum sem fylgdu frumvarpinu inn í nefndina. Þær eru enn til í töluvert miklum mæli og við vitum að þær eru fjölmennasta stéttin, heimavinnandi konur, sem hafa ekki notið lífeyrisréttinda, þ.e. voru ekki úti á vinnumarkaðnum fyrir þennan tíma og enn er til fólk sem er bótaþegar og hafa ekki farið út á vinnumarkaðinn, öryrkjar, eins og hér var réttilega nefnt.

Þetta er stór hópur fólks og það er til dæmis það sem Öryrkjabandalagið er að gagnrýna í umsögn sinni. Ekki er verið að koma til móts við þann hóp með þessum aðgerðum. Það er því fyrst og fremst þessi hópur og ef þingmaðurinn les nú nefndarálit minni hluta nefndarinnar er ágætur listi yfir ellilífeyrisþega með lífeyristekjur og svo atvinnutekjur þar sem er farið yfir þetta. En það er þessi hópur sem við erum enn þá með sem nýtur ekki þessa réttar, þ.e. lífeyrisréttar, hann er enn til staðar. Meðan svo er þurfum við að taka tillit til hans.



[14:20]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Upp úr 1950 til ársins 1970 verður ákveðin þjóðfélagsbreyting á Íslandi. Það þykir ekki lengur eðlilegt að karlmenn séu fyrirvinnur eingöngu heldur fara konur í auknum mæli út á vinnumarkað. Lausleg könnun okkar hjá Landssambandi lífeyrissjóða á sínum tíma leiddi í ljós að konur fæddar eftir 1955 væru velflestar eða ættu að vera með lífeyrisréttindi vegna þess að þær væru á vinnumarkaði. Oft og tíðum, því miður, með mikið lægri laun. En það er annað mál, þær eiga að eiga lífeyrisrétt.

Ég spyr því enn: Hverjir eru það sem standa fyrir framan Tryggingastofnun, hafa verið á vinnumarkaði, eftir að lífeyrissjóðirnir hafa starfað í 33 ár, hverjir eru það sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóð og af hverju ekki? Það getur vel verið að lífeyrisréttindin séu mjög lítil og rýr og sérstaklega varðandi öryrkja, það kemur í ljós að þeir hafa sumir hverjir greitt af mjög lágum launum í lífeyrissjóð. En að einhver sé ekki með nein réttindi, það finnst mér vera fullmikil fullyrðing þegar við undanskiljum þá sem eru fatlaðir, sem eru eitthvað 4 til 5% af þjóðinni, ef við göngum út frá reynslutölum annarra þjóða.



[14:21]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig nú ekki geta svarað þessu betur en ég gerði áðan. En ég vek athygli þingmannsins á rannsókn sem vitnað er í í umsögn Femínistafélagsins, sem var mjög fagleg og vel gerð. Þar var meðal annars upplýst það mál sem hann nefndi, þ.e. þetta með minni tekjur kvenna hjá lífeyrissjóðum þar sem kemur fram að þær reiða sig meira á ellilífeyri, og réttindi almannatrygginganna þannig, en hafa ekki tekjur af lífeyrissjóðum.

Ég tel mig ekki hafa sagt mörgum sinnum — ég þarf nú að lesa ræðu mína aftur ef hann telur mig hafa fullyrt það mörgum sinnum — að ég hafi sagt að það væru einhverjir sem hefðu engan rétt. En það er alveg klárt mál að þetta kemur niður á konum, þetta frumvarp, það kemur niður á þeim sem hafa minna. Um það erum við kannski svolítið að takast á, að konur reiða sig mest á ellilífeyrinn en eru ekki með háar lífeyrissjóðstekjur og um það fyrst og fremst snýst gagnrýni okkar á frumvarpið.



[14:23]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um þá vinnu sem fram fór varðandi endurskoðun á almannatryggingakerfinu þar sem sátu í sameiningu fulltrúar atvinnulífsins og launþega og jafnframt fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum. En fjármálaráðuneytið kom ekki að þeirri vinnu og heldur ekki fulltrúar öryrkja, þ.e. þeir sögðu sig frá þeirri vinnu.

Telur hv. þingmaður að það frumvarp sem lagt var fram af þáverandi ráðherra, Guðbjarti Hannessyni, á síðasta þingi og svo á þessu sumarþingi, sé fullbúið? Telur hv. þingmaður það raunhæft að frekar hefði verið farið í að lögfesta það frumvarp en það sem við erum hér með í umfjöllun? Telur hv. þingmaður það ekki vera galla á málinu að Öryrkjabandalagið kom ekki að vinnunni undir lokin og að málið hefur ekki verið fjármagnað?



[14:24]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að svara því sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spurði um og þakka henni fyrir það — af því að lokaorð mín voru einmitt á þá lund að halda skyldi áfram vinnu í nefndinni sem velferðarráðherra setti á laggirnar og var búin að skila skýrslu um þessa heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Hún er ekki fullbúin en það er ástæða til þess, og hefði hugsanlega verið hægt, eins og hér hefur komið fram, að ná saman um að klára hana, mál sem var búið að vinna þó þetta mikið, frekar en að koma hér með eitthvað út úr frumvarpinu sem er ekki beint í þeirri forgangsröð og í upplegginu, eins og þar var lagt til.

Mér þykir það miður líka að Öryrkjabandalagið skyldi hafa sagt sig frá þessu. Ég þekki ekki þá sögu, ég játa það, hvers vegna það gerðist. Það er að sjálfsögðu markmið okkar að fá Öryrkjabandalagið að borðinu aftur, það er ekki spurning.

Ég held líka að aðkoma fjármálaráðuneytisins að öllum svona stórum málum eigi að vera til staðar, það á ekki að þurfa að spyrja að því eða óska eftir því, það á að vera þannig. Hvers vegna það var ekki, það veit ég ekki heldur.

Að sjálfsögðu, eins og ég sagði í lokaorðum mínum, og kom fram í nefndinni sem við hv. þingmaður sátum báðar í og hlustuðum á, vildi fólk almennt sem þar kom og hefur hagsmuna að gæta að haldið yrði áfram með vinnu þessarar nefndar, á henni byggt, og það er það sem ég er fyrst og fremst að leggja til. Það að frumvarpið sem var lagt fram á síðasta þingi og er búið að leggja hér fram aftur — ég hefði verið tilbúin til að vinna í því á þessu þingi og tel að við hefðum komist lengra áleiðis með það.



[14:27]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. nefnd fyrir vinnu að þessu mikilvæga máli og hæstv. ráðherra fyrir að hafa loksins flutt það á sumarþinginu. Engum blöðum er um það að fletta að nokkur ljón voru í vegi ráðherrans og trúlega var lagt af stað með þetta mál ögn gildara en það sem nú liggur á borðinu. Það stoppaði jú lengi í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu og síðar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem kunnugt er.

Hér er þó verið að bæta nokkuð í ellilífeyri til ákveðinna hópa og það er þakkarvert og auðvelt út af fyrir sig að styðja það. Þó verður að segjast eins og er að verið er að byrja á kolröngum enda í því að létta af þeim skerðingum sem allir flokkar voru sammála um að þyrfti að létta af og væri forgangsverkefni á þessu kjörtímabili að gera, hvort sem þeir skipa stjórn eða stjórnarandstöðu.

Hér er fyrst og fremst verið að leggja áherslu á þá hópa sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi barist fyrir í þessum málaflokki — annars vegar fyrir þeim sem hafa nokkuð umtalsverðar tekjur úr lífeyrissjóði og hins vegar fyrir þeim sem hafa atvinnutekjur en í því tilfelli eru það oftar en ekki aðilar sem eru með félög á sínum vegum sem þeir hafa atvinnutekjur af, rekstrarfélög eða félög um eignir sínar, og eru þess vegna kannski ekki endilega í hópi þeirra sem verst eru settir eða mest þurfa á því að halda að skerðingunum sé af þeim létt.

Þó að ástæða sé til að þakka fyrir skref í rétta átt verður um leið að segja að hér er verið að byrja á vitlausum enda og á vitlausum hópum. Það er verið að efna það sem hefur verið sérstakt áhugamál Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki, hinir tekjuhærri hópar aldraðra hafa löngum verið áhersluatriði þeirra í almannatryggingunum, miklu síður aðrir hópar aldraðra eða öryrkjar. Þeir hafa jafnan lagt mikla áherslu á tekjuhærri hóp ellilífeyrisþega og þá sem eru með atvinnutekjur og þá einatt af eigin rekstri eða eigin eignum. Þetta vita þeir sem hafa fylgst með þessari umræðu lengi.

Ég held að við höfum kannski verið að vonast eftir því að aðrir hópar væru hér í forgangi og að þær áherslur sem Framsóknarflokkurinn hafði fyrir kosningar yrðu fyrirferðarmeiri, þeir hópar sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á. Því er ekki að leyna að í hægri stjórninni, sem nú er við völd á Íslandi, eru ekki alveg sömu áherslur hjá báðum flokkunum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það eru öllu félagslegri áherslur hjá Framsóknarflokknum þrátt fyrir allt og hann hefur lagt heldur meiri áherslu en Sjálfstæðisflokkurinn á þá hópa sem verst eru settir. En þess sér kannski ekki mikinn stað í þeim áherslum sem eru í þessu frumvarpi þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn fari með það ráðuneyti sem málið flytur. Það er væntanlega bara niðurstaðan úr samningaviðræðum flokkanna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft sínar áherslur fram í þessu og Framsóknarflokkurinn kannski ekki haft erindi sem erfiði.

Við hljótum hins vegar að horfa til þess að aðeins eru nokkrir mánuðir liðnir af þessu kjörtímabili og haustþing er fram undan. Við hljótum að binda vonir við að skerðingunum verði létt af eins og lofað var á haustþinginu. Við verðum kannski að hafa skilning á því að ekki sé meira gert á þessu stutta sumarþingi. Ég held þó að þeir hópar sem hér er verið að grípa til aðgerða fyrir séu kannski ekki þannig staddir að þurft hafi að setja alveg sérstakan forgang á þetta hér á sumarþinginu, það hefði eins mátt leysa úr þessu á haustþinginu á annað borð og láta það bara gilda frá 1. júlí. En það er eins og með margt annað í málatilbúnaðinum hér á sumarþingi að í nokkuð mikið er ráðist fyrir fremur lítinn ávinning þegar upp er staðið.

Því að í sjálfu sér hefði þetta sumarþing getað staðið svo sem einn eða tvo daga þar sem kjörið hefði verið í nefndir og gengið frá þessum leiðréttingum og gerðar nauðsynlegar breytingar til að koma í veg fyrir að einhver dagsetningarmál tækju gildi 1. september, bæði hvað varðaði veiðigjald og virðisaukaskatt. Að því búnu hefði þing einfaldlega getað farið heim og menn farið að hefja vandaðan undirbúning að þeim málum sem ættu að koma hér inn í haust. En það hefur því miður ekki verið verklagið heldur hafa menn komið hingað inn með hvert málið á fætur öðru, bæði seint og málin vanbúin þannig að þurft hefur að vinna vikum saman í því að gera eitthvað úr málum sem þegar upp er staðið eru, fyrir utan gjafabréfið til LÍÚ, í raun hvorki fugl né fiskur, eða ekki af þeirri stærðargráðu að það skipti neinu máli hvort þau eru lögfest í júlí eða í september. Það gildir út af fyrir sig um þetta mál.

Þetta er þó það þeirra mála sem fram hafa komið á sumarþinginu sem sannarlega er jákvætt og hefur beinlínis í för með sér að ákveðinn hópur í landinu er betur settur eftir en áður og vissulega nær þetta ekki bara til hátekjufólks, það eru auðvitað lífeyrissjóðstekjur þarna sem fólk hefur sem eru það lágar í sjálfu sér að sá hópur þarf sannarlega á kjarabótum að halda. Það er þó ánægjuefni að hægt sé að stíga þetta skref núna, en við hefðum haft aðrar áherslur í þessu og lagt áherslu á þá hópa sem höllustum fæti standa til að auka jöfnuð í samfélaginu.

Það sem þó helst truflar mann við frumvarpið eins og það kemur fram — af því að það er um svo afmarkaðar breytingar og breytir í sjálfu sér ekki kerfinu, almannatryggingakerfinu, sem er allt of flókið og óskilvirkt eins og við þekkjum — eru áhyggjur af því að það gæti spillt því að það takist að endurskoða kerfið í heild sinni, að menn hafi það ekki lengur í hendi, þegar þeir hafa stigið þetta skref, hverju er úr að spila til að ná fram endurskoðun á kerfinu í heild sinni. Það vekur okkur til umhugsunar um það hversu óskaplega föst við erum í að stunda meirihlutapólitík og skipta alltaf um kúrs í hvert sinn sem kosið hefur verið til þings. Þetta gerum við miklu meira en þjóðirnar í kringum okkur og er það ein af ástæðunum fyrir þeirri átakastjórnmálahefð sem hér hefur þróast.

Á síðasta kjörtímabili gætti sannarlega, af hálfu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, viðleitni til að gera breytingu á. Þess vegna var í samstarfi allra flokka, í samstarfi við hagsmunasamtökin og í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa frá lífeyrissjóðunum og aðra þá sem að málum þessum koma, farið í mjög viðamikla endurskoðun á ellilífeyrinum og það var líka ætlunin að gera það á örorkulífeyrinum. Það urðu hins vegar deilur við Öryrkjabandalagið sem ollu því að þeir sögðu sig frá þessu ferli en hitt sem tókst var samstaða um endurskoðun á ellilífeyri, á öllu kerfinu; samstaða fulltrúa allra flokka í nefndinni, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og okkar hinna sem vorum við stjórnvölinn þá; samstaða með bæði verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnurekenda; samstaða með lífeyrissjóðunum og samstaða með Landssambandi eldri borgara.

Þegar þessu var náð nú í vetur hélt ég að okkur hefði loksins tekist það sem fjölmargir flokkar höfðu talað fyrir í mörg herrans ár, að það væri mikilvægt að ná fram heildarendurskoðun á þessu kerfi og heildarendurskoðun sem einfaldaði það, auðveldaði það fyrir þá sem þurfa að sækja í þetta kerfi, bæði aldraða og öryrkja — auðvitað hefur líka verið eindreginn vilji til þess að einfalda örorkulífeyriskerfið. En að þetta hefði núna tekist hvað varðaði ellilífeyrinn þannig að allir flokkar stæðu að því, aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðirnir og eldri borgarar og það væri þá bara mál sem kæmi hér inn í þingið, fengi þinglega meðferð og tæki einhverjum breytingum í þeirri meðferð eftir því sem menn átta sig á agnúum og yrði síðan að lögum.

En því er ekki að heilsa. Þegar alþingiskosningar hafa farið fram virðist það vera okkar pólitíska hefð að stjórnmálaflokkar, bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem hafa örfáum vikum áður staðið að þverpólitísku samkomulagi um tillögur í þessum málaflokki, fara bara frá því eins og vinnan hafi aldrei átt sér stað, eins og ekkert hafi verið sagt og ekkert hafi verið gert og þeir hafi aldrei staðið að einu eða neinu. Nú ætla þeir bara, gjörið svo vel og veskú, að keyra sína stefnu og sínar ákvarðanir og sína forgangsröðun og það er engin samráðsvinna, ekki fulltrúar allra flokka, ekki aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðanna eða eldri borgara. Það er bara svona ráðherraræði, frumvarp frá ráðherranum um hvað honum finnst vera brýnast að gera núna. Meiri hlutinn keyrir það svo bara áfram hér í þinginu og þingið fer ekkert heim, eins og lýst hefur verið yfir, fyrr en búið er að afgreiða þessa ráðherraákvörðun.

Ég held að alveg óháð allri flokkapólitík þá sé þetta miður og ekki eftirbreytnivert. Ég held að við þurfum miklu meira á því að halda að fulltrúar ólíkra sjónarmiða setjist saman yfir mikilvæg úrlausnarefni, eins og einföldun á almannatryggingakerfinu, og nái þar sameiginlegri niðurstöðu, nái þar sameiginlegum skilningi með aðilum vinnumarkaðarins og standi síðan að þeim breytingum og að jafn mikilvægir hlutar samfélagsins, eins og ellilífeyririnn, geti þá staðið tryggilega um lengri tíma, óháð því hvaða ríkisstjórn er við völd í landinu hverju sinni. Það sé bara búið að leysa úr helstu ágreiningsefnum og síðan sé það hið pólitíska verkefni frá einu kjörtímabili til annars hvað menn ætla á hverjum tíma að setja af peningum inn í þetta kerfi. Menn geta þá tekist á um það á milli vinstri og hægri hvað eigi að setja mikið inn í þetta, hve mikla skatta eigi að leggja á til að setja inn í þetta, en að um kerfið sjálft, fyrirkomulag almannatrygginganna, og um grunnhugsunina í kerfinu, sé víðtæk sátt ólíkra flokka.

Þannig reyna menn að vinna í nágrannalöndunum og þannig reyndi hv. þm. Guðbjartur Hannesson, þá sem velferðarráðherra, að vinna í þessu efni. Ég hefði talið það miklu farsælla, bæði fyrir málaflokkinn og líka fyrir stjórnmálamenningu í landinu, að þau vinnubrögð hefðu haldið áfram í ráðuneytinu en ekki bara að ráðherrann ákveði hvaða atriði hann vilji setja í forgang og svo sé hann bara með einhverja þingmenn hér í þinginu sem keyri þá meirihlutaákvörðun í gegn og það eigi sér engan aðdraganda, sé ekki hluti af neinni stærri sýn, sé ekki neitt sem haft hefur verið samráð um eða aðilar allir staðið að.

Hitt á maður líka erfitt með að skilja hvernig stjórnmálaflokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geta tekið þátt í svona vinnu með formlegum hætti og tilnefnt inn sína fulltrúa; farið í gegnum mikla rýni og marga fundi — ég sat í þessari vinnu sjálfur, lengi — tekist á um deiluefni, náð úrlausn, miðlað málum, mætt sjónarmiðum, staðið að niðurstöðu, skrifað undir hana og svo bara gert eitthvað allt annað nokkrum mánuðum síðar. Mér finnst það ekki vera til þess fallið að auka manni trú á að hér megi þróa og efla þverpólitíska samvinnu og samráð um mikilvæg málefni sem ég held þó að sé það sem við þurfum ekki hvað síst á að halda og sé það sem almenningur kallar eftir af okkar hálfu.

Ég verð líka að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af því að aftur sé kominn svona forgangur sem ég man eftir frá fyrri öld, skulum við orða það, þegar þessir tveir flokkar voru líka í meiri hluta. Ég fæ ekki betur séð en að þessar breytingar — sem eru jákvæðar, ég ítreka það, og skref fram á við — ívilni fremur okkur körlum en konum. Mér sýnist að það sé nokkuð augljóst af því hvaða hópar eru undir að þetta sé, út frá sjónarmiðum um kynjaða hagstjórn, karlapólitík. Ég man það býsna vel, þegar ég var að byrja að starfa í Öryrkjabandalaginu á sínum tíma og kynntist þeim gamaldags og karllægu sjónarmiðum sem réðu ríkjum í almannatryggingakerfinu, að þá varð ég algjörlega undrandi.

Þá kynntist ég því fyrst að skipulag almannatrygginga var þannig að ef maður átti maka sem hafði einhverjar tekjur þá fékk maður bara nánast engan lífeyri. Maður fékk þetta, held ég, 15 þús. kr. á þeim tíma á mánuði. Maður þurfti að biðja maka sinn um að gefa sér fyrir fötum, bara brýnustu nauðþurftum, af því að maki manns var í vinnu. Hverjir voru það sem voru settir í þessa stöðu? Það voru fyrst og fremst konur. Konur sem áttu mann sem hafði einhverjar meðaltekjur og á þeim tíma var eiginlega enginn skilningur á því að þetta væri ósanngjarnt. Þetta þótti bara mjög sanngjarnt af stjórnmálamönnum í ýmsum flokkum og af kerfinu sem slíku.

En þegar við fórum áfram með þetta mál og rákum það til enda felldi Hæstiréttur Íslands að lokum þann merka dóm sem sagði alveg skýrt og ótvírætt að þannig mætti ekki ganga fram gagnvart fólki. Ekki mætti taka svo persónuréttindi af einstaklingum að þeir hefðu ekki lífsframfæri eða lífsbjörg, það einfaldlega stríddi gegn stjórnarskránni. Þessar óréttlátu skerðingar voru í framhaldinu, sem betur fer, aflagðar að hluta og síðan að fullu þegar við fórum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og það kom í ljós að þeir sem fyrst og fremst höfðu ávinning af því voru konurnar. Þess vegna hefði maður kannski gjarnan viljað sjá forgangsröðun í þessum ráðstöfunum núna sem hefði ekki hallað svona á kynin eins og þetta gerir.

En ég árétta að þetta er skref fram á við, það er verið að setja aukna fjármuni í ellilífeyrinn en það hefði mátt forgangsraða öðrum hópum og sannarlega hefði mátt taka kjör öryrkja föstum tökum um leið. Ég hvet meiri hlutann sérstaklega til að samþykkja breytingartillögu minni hlutans um að fastsetja frítekjumark öryrkja sem nú er aðeins bráðabirgðaákvæði. Ég held að það sé einfalt sanngirnismál og eigi að vera útlátalaust fyrir meiri hlutann að fallast á þá breytingu og það sé til bóta. Ég vona að við höfum þroska til að samþykkja breytingartillögur og tillögur hvert frá öðru sem eru til bóta og ég mun fyrir mitt leyti samþykkja þetta mál.



[14:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Sem endranær þarf hann nú að hnjóða í LÍÚ í tengslum við eitthvert allt annað mál og svo talar hann um Sjálfstæðisflokkinn og fullyrðir að hann gæti tekjuhárra, fjármagnseigenda og annarra slíkra og einnig talaði hann um meirihlutapólitík sem væri óbreytt frá síðasta kjörtímabili. Mér þótti þetta allt miður vegna þess að ég átti von á því að breyting yrði með þessu þingi, að menn yrðu ekki svona mikið í sandkassaleik eða í skotgröfunum. Það er ekki bara meirihlutapólitík, það er líka minnihlutapólitík og mér finnst hv. þingmaður ekki fara vel í gang með hana.

Ég vil spyrja hv. þingmann, fyrst hann talaði um Sjálfstæðisflokkinn sem flokk sem gætti hagsmuna þeirra sem hefðu háar tekjur, ættu miklar eignir og annað slíkt: Af hverju eru fjármagnstekjurnar ekki inni í þessu? Einu sinni skertu þær lífeyri til helmings en núna skerða þær hann að fullu, það er ekki lagað. Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem gætir hagsmuna fjármagnseigenda, lagar þetta ekki? — Fyrir utan það að fjármagnstekjur eru yfirleitt neikvæðar að raungildi og þeir sem fá þær tekjur eru að tapa og svo er það skattlagt, hv. þingmaður stóð að því að tvöfalda skatta á neikvæðar fjármagnstekjur. Hvernig stendur á því, í ljósi þess sem hv. þingmaður heldur fram um varðstöðu Sjálfstæðisflokksins um fjármagnseigendur, að það fékkst ekki í gegn?



[14:49]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég undraðist það líka að einmitt þetta atriði skyldi ekki vera að finna í frumvarpinu. Ég átti allt eins von á því að Sjálfstæðisflokkurinn næði því líka fram strax í fyrstu umferð að efna þetta kosningaloforð sitt. Það er nefnilega rétt, eins og hv. þingmaður bendir á, að það er einmitt áherslan á þessa hópa, þá sem hafa fjármagnstekjur, þá sem hafa viðbótartekjur, þá sem eiga eignir, sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn í þessum málaflokki og það er ekkert óeðlilegt við það. Það eru ákveðnir hópar sem hann hefur ákveðið að standa vörð um og beita sér fyrir. Það eru aðrir hópar sem við jafnaðarmenn höfum ákveðið að tala fyrir og beita okkur fyrir í þessu efni. Ekkert óeðlilegt við það en ég geri ráð fyrir því að við munum tiltölulega fljótlega sjá komið til móts við þennan hóp, fjármagnseigendur sérstaklega, sem hv. þingmaður nefnir ef ég þekki Sjálfstæðisflokkinn rétt. En það fáum við að sjá þegar fjárlögin koma fram ef þeim verður þá ekki frestað enn meira en orðið er.



[14:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem hlýða á ræðu hv. þingmanns skynja ákveðna fordóma. Ég skynja ákveðna fordóma gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Nú er það þannig að á þeim 18 árum sem menn segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ráðið einn á Íslandi var velferðarkerfið aukið sem aldrei fyrr. Framlög í velferðarkerfið jukust gífurlega og mér er sérstök ánægja af því að framlög til málefna fatlaðra jukust sem aldrei fyrr; var ekki vanþörf á og enn má bæta. Þetta tal um það að Sjálfstæðisflokkurinn gæti bara hagsmuna fjármagnseigenda og ríkra, staðreyndir sýna annað. Hv. þingmaður getur kannað hvað ríkisútgjöld til velferðarmála jukust mikið þegar Sjálfstæðisflokkurinn var, að því er sagt er, einn við völd. Ég veit náttúrlega betur, hann var ekki einn við völd en því hafa menn haldið fram.

Varðandi frumvarpið þá snýst það um að grunnlífeyrir er ekki skertur. Ég get ekki séð að það sé til hagsbóta fyrir þá sem eru ríkir eða tekjuháir. Það gengur líka út á það að atvinnutekjur skerða ekki lífeyri eins mikið og áður, þ.e. að eldra fólk og þeir sem eru sprækir geti unnið eitthvað áfram án þess að það komi beint niður á lífeyri frá Tryggingastofnun. Er það eitthvert sérstakt áhugamál tekjuhárra eða Sjálfstæðisflokksins? Þessir fordómar hv. þingmanns falla um sjálft sig og ég hefði viljað sjá þingið byrja öðruvísi með minnihlutapólitíkina, hvernig hún bregst við og hvernig hún svarar og kemur inn í mál sem hér eru lögð fram. Ég hefði viljað að umræða hefði orðið málefnaleg — og að mörgu leyti var ræða hv. þingmanns málefnaleg, ef hún hefði verið það eingöngu hefði ég verið ánægður með hana.



[14:52]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. Pétur H. Blöndal lítur svo á að það sé málefnaleg umræða að fara hér í ræðustól Alþingis og kalla mig fordómafullan verður hann að hafa skilgreiningar sínar á málefnalegri umræðu fyrir sjálfan sig. Ég held að það séu ekki margir sem deila því að svoleiðis sleggjudómar um starfsfélaga séu málefnalegir.

Um það sem við ræðum er það að segja að þeir sem eru á strípuðum bótunum fá ekki neitt í þessu máli. Það eru þeir sem eru með tekjur sem eru í forgangi og það lýsir forgangsröðun — það lýsir engum fordómum í garð Sjálfstæðisflokksins að fara í gegnum þá forgangsröðun, það eru bara þeir hópar sem betur eru settir sem eru í forgangi í leiðréttingunum. Engu að síður er hér um að ræða leiðréttingar og ég er búinn að segja að við styðjum það að þessir hópar fái þessar leiðréttingar. En við vonumst til þess að sjá leiðréttingar fyrir aðra hópa sem allra fyrst.

Það á svo að vera okkur í Framsóknarflokknum og Samfylkingunni til nokkurrar umhugsunar þegar langreyndur þingmaður Sjálfstæðisflokksins fer hér í ræðustól og lýsir því yfir að í þau ár sem Sjálfstæðisflokkurinn starfaði, tólf ár með Framsóknarflokknum og sex ár með Samfylkingunni, hafi hann ráðið Íslandi einn.



[14:54]
Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil eiginlega byrja á því að lýsa undrun minni á því að ég sitji hér í nánast tómum þingsal þegar verið er að ræða um frumvarp til laga sem snertir lífsviðurværi stórs hóps á Íslandi. Það er kannski bara dálítill barnaskapur af mér að vera undrandi af því að það lýsir því kannski mjög vel hver staða okkar sem tilheyrum þeim hópi sem hér er verið að ræða um er. Mér þykir mjög leitt að sjá hve fáir gefa sér tíma í það eða sýna því áhuga að taka þátt í þessari umræðu en ég verð bara að lifa í þeirri von að þeir sitji allir límdir við skjáinn þarna frammi og komi svo hlaupandi hingað inn á eftir til að taka þátt í málefnalegum umræðum. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það sé kannski heldur ekki alveg rétt hjá mér.

Björt framtíð styður minnihlutaálit velferðarnefndar og gleðst yfir því að ríkisstjórnin vilji verja auknum fjármunum til almannatrygginga eins og gert var ráð fyrir í áætlunum fyrri ríkisstjórnar. Við viljum því styðja frumvarpið með breytingartillögum en eins og kemur fram í minnihlutaálitinu hörmum við það hve þröngur hópur nýtur góðs af þessu frumvarpi og þessum lagabreytingum.

Við gerum jafnframt alvarlegar athugasemdir við það að frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, gagnist nær eingöngu þeim lífeyrisþegum sem hafa hæstu tekjurnar og sem hafa greitt hvað lengst í lífeyrissjóði. Þrátt fyrir að frumvarpið kveði á um að staða kynjanna sé jöfn hvað varðar umbætur er líka ljóst að konur á ellilífeyrisaldri eiga minni uppsöfnuð réttindi í lífeyrissjóðum en karlar þar sem sagan sýnir að þær hafa meðal annars unnið ólaunuð heimilisstörf en þar að auki vegna langvarandi kynbundins launamunar eins og kemur fram í umsögn Jafnréttisstofu og hefur komið fram í umræðu um þetta mál.

Björt framtíð vill að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að binda enda á kynbundinn launamun en með þessu frumvarpi teljum við þvert á móti verið að viðhalda honum sem hlýtur að teljast ólíðandi. Taka þarf þetta til sérstakrar athugunar, líkt og Jafnréttisstofa bendir á, í frekari vinnu á þessu sviði. Mikilvægt er í því tilliti að til dæmis hækka grunnlífeyri sem ekki hefur fylgt verðlagi þar sem það mundi stuðla að jafnari breytingum fyrir bæði kynin og ólíka hópa, t.d. öryrkja og eldri borgara.

Ljóst er að öryrkjar munu finna lítið fyrir breytingum til hins betra með þessu frumvarpi. Vekur sú staðreynd undrun okkar í ljósi háværra radda öryrkja um áhrif slæms efnahags á líf þeirra. Jafnframt benda rannsóknir til þess að öryrkjar búi við fátækt og félagslega einangrun á Íslandi en árið 2011 var unnin rannsókn af Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands um fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja í tilefni af Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun 2010.

Í skýrslunni um rannsóknina kemur fram að markmið hennar var að afla þekkingar á efnahagslegum aðstæðum öryrkja frá þeirra eigin sjónarhorni. Í rannsókninni var einblínt á fjölskyldufólk með börn en þó var rætt við fjölbreyttan hóp öryrkja. Í rannsóknarniðurstöðum kemur fram að þátttakendur áttu það sameiginlegt að þurfa alfarið að treysta á örorkubætur til lífsviðurværis. Bæturnar eru það lágar að þátttakendur búa við mjög erfiðan fjárhag og eiga í miklu basli við að tryggja lífsviðurværi sitt frá degi til dags og sumir hafa ekki efni á að versla mat eða aðrar nauðsynjar síðasta hluta mánaðarins.

Í rannsókninni kom fram að samkvæmt margvíslegum viðurkenndum viðmiðunum, sem notuð eru til að mæla og meta fátækt, býr stór hluti öryrkja við fátækt eða fátæktarmörk. Þátttakendurnir í rannsókninni litu kannski ekki allir á það þannig enda, eins og ég þekki sjálf af því að búa við skerðingu, verður maður oft samdauna þeim aðstæðum sem maður er í. Þátttakendurnir tóku fram að fjárhagsstaða þeirra væri mjög viðkvæm og lítið þyrfti til þess að ýta þeim yfir fátæktarmörk. Sá hópur sem var verst staddur samkvæmt þessari rannsókn voru barnafjölskyldur. Kom fram að sá hópur býr við mikla streitu og hefur stöðugt áhyggjur af afkomu fjölskyldunnar en sú staða öryrkja hefur neikvæð áhrif á fjölskyldulífið og börnin að þeirra eigin sögn.

Við höfum í þessu ljósi áhyggjur af endanlegri útgáfu af frumvarpi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ekki síst vegna þess að ekkert samráð var haft við aldrað fólk eða öryrkja í ferlinu né hagsmunasamtök þeirra og frumvarpið ber þess svo sannarlega merki.

Við teljum algjört grundvallaratriði að haft sé samráð við hópa sem verið er að taka ákvarðanir um eða fyrir. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað og þar með skuldbundið sig til að ganga ekki gegn, kveður skýrt á um viðunandi lífskjör og félagslega vernd í 28. gr. sinni og aðkomu fatlaðs fólks að ákvarðanatöku á öllum stigum stjórnsýslunnar.

Í greininni um viðunandi lífskjör og félagslega vernd segir í 1. lið, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, meðal annars viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“

Í 2. lið er kveðið á um þær ráðstafanir sem aðildarríki þurfa að gera til að ná fram þessum rétti. Þar kemur meðal annars fram að tryggja þurfi fötluðu fólki, einkum konum, stúlkum og öldruðu fólki, rétt til þátttöku í áætlunum til að draga úr fátækt og á sviði félagslegrar verndar almennt. Þar að auki að tryggja þurfi fötluðu fólki og fjölskyldum þess sem lifa í fátækt aðstoð frá hinu opinbera til þess að mæta útgjöldum vegna sérstakra aðstæðna. Jafnframt að tryggja eigi fötluðu fólki jafnan aðgang að eftirlaunum og eftirlaunasjóðum.

Í 4. gr. samningsins, sem fjallar um samráð, segir meðal annars orðrétt, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks.“

Eins og komið hefur fram lagði velferðarráðherra á síðasta þingi fram tvö frumvörp sem voru afrakstur mikillar þverpólitískrar vinnu en þar var einmitt haft samráð við helstu hagsmunaaðila. Kom þá fram, í umsögnum margra við frumvarpið, sem er nú hér til umræðu, undrun yfir því að þeirra vinnu hefði verið ýtt til hliðar en í henni hefði falist heildarendurskoðun sem krafa hefði verið um til að einfalda flókið almannatryggingakerfi.

Við leggjum mikla áherslu á að mótuð sé langtímastefna um mál og forðast sé að stunda plástursaðgerðir sem duga eingöngu til skamms tíma eins og í þessu tilviki eða eins og í þessu tilviki til afmarkaðs hóps. Við teljum að gæta þurfi skynsemi og gerum okkur grein fyrir að framfarirnar nást í skrefum en grundvallaratriði er að skrefin til umbóta í almannatryggingakerfinu séu að einfalda kerfið, auka skilvirkni þess, stuðla að því að það hvetji fólk til virkni og hafi forvarnagildi, bæði fyrir aldrað fólk og öryrkja.

Eins og kemur fram í minnihlutaáliti er ljóst að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar getur sett þá vinnu sem hefur falist í heildarendurskoðuninni í ákveðið uppnám þar sem sá kostnaður sem fylgir frumvarpinu var ekki hluti af kostnaðaráætlun heildarendurskoðunarinnar.

Í frumvarpi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er kveðið á um í 2. gr. að auka þurfi eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar. Færa má sterk rök fyrir því að svo sé, til þess að auka gagnsæi stofnunarinnar og koma í veg fyrir að umbjóðendur hennar fái rangar greiðslur. Jafnframt til þess að draga úr bótasvikum. Okkur finnst mikilvægt að benda á að þetta þarf að skoða í heildarsamhengi. Í velferðarnefnd hefur komið fram umræða, bæði í umsögnum og í okkar hópi, að gengið sé lengra á Norðurlöndum í eftirlitshlutverki og rannsóknarskyldu og refsiákvæðum. Þarna tel ég okkur enn og aftur vera að bera okkur saman við Norðurlöndin í einu máli en ekki í heildarsamhenginu. Fatlað fólk á Íslandi til dæmis, þar með öryrkjar, býr við mjög slaka réttarvernd. Það getur beint málum sínum, ef það er ósátt við gang mála innan Tryggingastofnunar, fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga en það tekur langan tíma og getur verið flókið ferli en svona mál þola almennt ekki mikla bið.

Við höfum réttindagæslumenn á vegum velferðarráðuneytis sem er kveðið á um í réttindagæslulögum fatlaðs fólks en það er enn þá í raun nýtt úrræði sem þarf að slípast og gagnrýnisraddir hafa verið uppi um það að þar sem það sé á vegum velferðarráðuneytisins sé það ekki mjög óháð réttindagæsla. Í mínu umhverfi kemur oft skýrt fram í máli fatlaðs fólks að því finnst óþægilegt að leita þangað þar sem velferðarráðuneytið ber í raun bæði ábyrgð á því að setja stefnu í málinu og að gæta réttinda fólksins. Það er kannski dálítið ankannalegt, ef við hugsum um það, að vera manns eigin lögregla.

Réttindavernd er líka kostnaðarsöm fyrir öryrkja og aldrað fólk og maður þarf að hafa mjög lágar tekjur til að geta til dæmis fengið gjafsókn til að fara með mál fyrir dómstóla. Að mörgu leyti er því ekki heldur verið að uppfylla skilyrði mannréttindasamninga um að þessir hópar geti leitað réttar síns. Allt þetta verður að skoða í heildarsamhengi þegar verið er að tala um að auka eftirlitshlutverk, rannsóknarskyldu og refsiheimild til Tryggingastofnunar.

Þess vegna hafa ákveðnar efasemdir verið uppi, bæði innan velferðarnefndar en ekki síst meðal umsagnaraðila, þar sem um vandmeðfarnar heimildir er að ræða. Mikilvægt er að vanda vel til verka í þessum efnum svo að auknar eftirlitsheimildir þjóni tilgangi sínum og gangi ekki á rétt aldraðs fólks og öryrkja til persónuverndar og friðhelgi einkalífs.

Í áðurnefndri rannsókn, um fátækt og félagslega stöðu öryrkja frá 2011, kom fram í máli öryrkja að margir ættu erfitt með að átta sig á hvernig kerfið virkar þar sem útreikningar bóta eru oft mjög flóknir og erfitt að átta sig á þeim. Þetta hefur þær afleiðingar að margir þátttakendur hafa verið rukkaðir um endurgreiðslur ef þeir höfðu haft meiri tekjur en áætlað var sem settu fjárhag flestra í mikið uppnám, einfaldlega vegna þess að þeir áttuðu sig ekki á því hvernig þeir áttu að bera sig að. Kvörtuðu jafnframt margir í rannsókninni yfir því að fá bréf sem erfitt er að skilja vegna skrifræðilegs orðalags. Sumir þátttakendur ræddu almennt um mikla bið í kerfinu öllu eftir þjónustu, dónalega framkomu starfsmanna, skort á upplýsingum og rangar upplýsingar. Þátttakendur töldu einnig að stöðugar endurskipulagningar og nafnabreytingar á stofnunum gerðu kerfið enn þá flóknara. Þeir upplifðu sig sem vanmáttuga og hjálparlausa gagnvart því, bæði vegna hindrana, árekstra í samskiptum og skorti á samræðu og möguleikum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það kom fram í máli sumra þátttakenda að þeir upplifðu gagnsæisskort hjá þjónustustofnuninni sem ýtti undir að þá grunaði að ákvarðanir um bætur eða þjónustu væru teknar af handahófi og geðþótta. Þátttakendurnir töldu einnig að sú vanlíðan sem fylgdi því að eiga í samskiptum við kerfið hefði átt þátt í veikindum þeirra, ekki síst geðrænum erfiðleikum. Mörgum fannst niðurlægjandi að búa við þessar aðstæður, að flókið væri að koma sér út úr þeim og þeir upplifðu ákveðna höfnun af hálfu samfélagsins.

Þessar lýsingar undirstrika mikilvægi þess að eftirlit sé á báða bóga og markmiðið með því sé að auka gæði þjónustunnar, öryggi starfsemi stofnana og efla skilvirkni svo hægt sé að koma í veg fyrir að almannatryggingakerfið sé misnotað og að það brjóti á umbjóðendum sínum. Reynslan hefur sýnt að það getur verið flókið fyrir aldrað fólk og öryrkja að fóta sig í kerfinu en jafnframt að leita réttar síns eins og ég kom inn á áðan. Í skýrslu um rannsóknina eru dregnar fram tillögur og ábendingar til úrbóta sem mér finnst vert að benda á hér en þar kemur fram að endurskoða þurfi bótakerfið og einfalda það í heild sinni. Ekki bara parta og parta úr því og eins og ég kom inn á áðan, ekki að vera í plástursaðgerðum. Það þarf að minnka tekjutengingar og gera fólki þannig mögulegt að eiga auðveldara með að losa sig úr fátæktargildrum. Jafnframt er talið mikilvægt að grunnlífeyrir hækki.

Tillögurnar beina sjónum fyrst og fremst að kerfislægum umbótum en bæta þarf samskiptin milli kerfisins og þeirra sem nota það. Þörf er á því að hægt sé að skjóta málum til óháðs aðila og að notendur hafi aðgang að talsmanni. Huga þarf sérstaklega að barnafjölskyldum og endurskoða reglur með þeim hætti að ekki sé alltaf gengið út frá því að öryrkjar séu einhleypir einstaklingar. Tryggja þarf betra aðgengi að upplýsingum sem eru aðgengilegar og á auðskildu máli. Mikilvægt er að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins fari fram í verki á grunni fyrirliggjandi vinnu og þeim upplýsingum sem fyrir hendi eru svo að hægt sé að móta kerfið þannig að það sé til þjónustu fyrir fólkið en ekki að fólkið sem notar það sé í þjónustu við kerfið. Skoða þarf meðal annars auknar eftirlitsheimildir í því ljósi og með skýr markmið að leiðarljósi.

Þrátt fyrir ýmsa annmarka sem við sjáum í fyrirliggjandi frumvarpi munum við þó styðja það þar sem við teljum mikilvægt að koma ekki í veg fyrir að kjarabætur verði fyrir þann hóp sem þó er um að ræða. Við styðjum jafnframt og hvetjum til þess að breytingartillögur sem gerðar eru til þess að þeim hópi sem hefur lægstu tekjur sé betur mætt. Breytingarnar eru í anda heildarendurskoðunarinnar frá síðasta kjörtímabili. Við bindum vonir okkar við að þetta frumvarp sé eingöngu fyrsta skrefið af mörgum í þá átt að tryggja bæði öldruðu fólki og öryrkjum, og þá bæði konum og körlum, þau mannréttindi að búa við félagslegt öryggi og án fátæktar á Íslandi.



[15:12]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim fjölmörgu hv. þingmönnum sem hér hafa talað, og þá helst hv. þingkonu Freyju Haraldsdóttur, sem fór vel í gegnum það hvernig þetta allt getur verið. Ég verð að segja, nýkomin í velferðarnefnd, hef samt starfað að málefnum öryrkja áður, að þetta almannatryggingakerfi er eitthvað sem ég skil ekki. Og ég held að ég sé ekki ein um það.

Ég held í raun, og það er svona gantast með það, að það sé einn maður í velferðarráðuneytinu sem skilur almannatryggingakerfið. Það er náttúrlega ekki gott. Ég er ekki að gera lítið úr þekkingu hv. þingmanna og annarra, ég er að lýsa því hvernig þetta slær mig. Ég skil þetta ekki nógu vel.

Þegar við erum farin að vinna með eitthvert form eða kerfi sem er illskiljanlegt og erfitt í framkvæmd, kerfi sem er þannig að þeir sem þurfa að styðjast við það skilja það ekki og þeir sem veita þjónustu í því ekki heldur, eða þegar oft er vafi á hinum ýmsu hlutum — ég held að þá séum við komin lengst út í vitleysu. Ég held að þá þurfum við að stíga skref til baka og hugsa málið, eins og sagt er á leikskóla hjá syni mínum. Ef maður er að gera einhverja vitleysu þarf maður að hugsa málið og kemur til baka þegar maður er tilbúinn að takast á við verkefnið aftur. Það er ekki vanþörf á því.

Ég er ánægð með að farið var í það á síðasta kjörtímabili að reyna að endurskoða almannatryggingakerfið. Það er ekki komið til framkvæmda. Auðvitað veit ég að það er dýrt og ýmsir vankantar eru á. Annað í því er líka að stórir hagsmunahópar eins og Öryrkjabandalagið sáu sér ekki fært að halda áfram í þeirri vinnu. Ekki var sátt um hvert stefndi og það er mikilvægt að hafa það hagsmunafélag með sem og önnur. En það sem er athyglisvert — og kannski svolítið kaldhæðnislegt, því miður — við þetta frumvarp til laga, þó að það sé ágætt, er einmitt slagorð Öryrkjabandalagsins: Ekkert um okkur án okkar.

Því miður er hér ekkert um þá og það er líka án þeirra og það þykir mér miður. Ég hef fullan skilning á því að verið er að reyna að plástra og gera eins gott og hægt er í stöðunni en ég verð að segja að ég hefði viljað byrja á hinum endanum. Ég hefði viljað byrja á þeim sem hafa það allra lakast. Það er svo mikill ósómi að þeirri fátækt sem viðgengst í samfélagi okkar hjá þeim hópi. Það er grátlegt og mér finnst sárt að við séum ekki að fjalla um þau hér. Þetta frumvarp er gott og gilt, ég neita því alls ekki, og ég hef fullan skilning á því að við þurfum að passa upp á að fólk hafi hvatir til að borga í lífeyrissjóð, að sjálfsögðu, og það fái það til baka eins og verið er að passa upp á hér. En ég er með smá óbragð í munni samt sem áður yfir því að við séum ekki að standa okkur betur gagnvart þeim sem hafa það verst. Ég verð bara að segja það eins og er og ég veit að margir eru sammála því. En gott og vel, fólk er að gera eins vel og það telur fært á þessum tímapunkti en við bíðum spennt og sjáum hvað setur.

Við í Bjartri framtíð leggjum mikla áherslu á að stuðst verði við þá vinnu sem til er og búið var að vinna á síðasta kjörtímabili. Mér skilst að það hafi verið ágæt vinna að einhverju leyti alla vega, að haldið verði áfram með heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Við þurfum að gera betur. Mér fannst vinnan í nefndinni ágæt. Fólk er sammála um að það þurfi að gera betur. Það voru einhver ákvæði, um persónuvernd, upplýsingalöggjöf og annað, í frumvarpinu sem allir voru sammála um að þyrftu að bíða aðeins; ákvæði sem meiri hluti nefndarinnar ákvað að leggja til að yrðu tekin út að sinni. Það er mjög ánægjulegt og gott að ekki sé verið að þvinga einhverju í gegn sem fólk er ekki sátt með. Það var sameiginleg niðurstaða nefndarmanna, að mér heyrðist.

Það er kynjavinkill sem ekki er hugað að í frumvarpinu og forgangsröðun sem við gagnrýnum og leggjum áherslu á í breytingartillögu okkar og nefndaráliti minni hlutans. En við styðjum þetta frumvarp eins og hv. þingkona Freyja Haraldsdóttir talar um hér því að það bætir vissulega stöðu aldraðra og það er þarft. Ég verð að segja fyrir sjálfa mig að þegar maður stendur frammi fyrir tveimur slæmum valkostum, þarf að velja á milli, hefði ég kosið að við byrjuðum á hinum endanum, að við byrjuðum á þeim sem hafa það allra verst.



[15:20]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og ágæta yfirferð og alveg sérstaklega þegar hún getur þess að kerfið sé flókið. Það er eitthvað sem margir hafa bent á, og ég svo sem í gegnum tíðina, að það gengur ekki þegar kerfið er orðið þannig að sérfræðingarnir skilja það ekki, hvað þá almenningur. Mér finnst mjög brýnt að almenningur viti hvað hann er að fá í bætur og af hverju þannig að hann geti gert athugasemdir ef eitthvað er rangt reiknað eða rangt skilið. Ég legg áherslu á það.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um afstöðu Öryrkjabandalagsins, þeir hafa slagorð sem mér finnst afskaplega gott: Ekkert um okkur án okkar. Mér finnst það mjög skemmtilegt og athyglisvert slagorð en þeir sögðu sig samt úr nefndinni þar sem verið var að fjalla um þessi mál vegna þess að þeir blönduðu því saman við önnur mál, þ.e. að hækka lífeyri almennt eins og verðlag eða laun sem ekki hefur verið gert.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann sammála þeirri afstöðu Öryrkjabandalagsins að hverfa frá vinnu þar sem verið er að fjalla um framtíð kerfisins sem átti ekki að valda auknum kostnaði — þannig var það hugsað en svo breyttist það reyndar — og vera að blanda inn í það mikilvægum hlutum reyndar, en meira dægurmálum, um að hækka grunnlífeyrinn eins og verðlag eða laun?



[15:22]
Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, takk fyrir andsvarið, fyrsta andsvarið sem ég fæ eftir að ég tók sæti á Alþingi. Þetta var mjög pent og huggulegt, takk fyrir það. Ég er alls ekkert hrædd við að stíga upp í ræðustólinn. Ég get ekki tekið afstöðu til þess hvort ég sé sammála því eða ekki, Öryrkjabandalaginu, með þessa samningstaktík eða strategíu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þeim gekk til þegar þau sögðu sig frá þessari vinnu. Væntanlega voru þau bara alls kostar ósátt við hvert stefndi, mér heyrðist það þegar við í velferðarnefnd fórum og hittum Öryrkjabandalagið, þeim fannst ekki hlustað á sig. Þá er kannski hreinlegra að vera ekki partur af samkomulaginu ef maður er ekki sáttur við það. Ég veit það ekki. Nú er ég bara með getgátur, er bara að hugsa þetta upphátt.



[15:23]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar. Miklar væntingar hafa verið hjá elli- og örorkulífeyrisþegum um hækkun lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja og ekki að undra þar sem þeir hópar hafa þurft að bera kjaraskerðingu sem erfitt hefur verið að búa við.

Á síðasta kjörtímabili lögðu þáverandi stjórnvöld mikla áherslu á að verja tekjulægstu hópanna í röðum aldraðra og öryrkja og hækkuðu sérstaka framfærsluuppbót svo að hægt væri að verja kjör þessara hópa. Það voru rúmar 200 þús. kr. sem ég tel hafa verið rétta forgangsröðun við þær fordómalausu aðstæður sem urðu í kjölfar hrunsins. Ég hef alltaf talað fyrir því að það ætti að vera fyrsta verk okkar, þegar ríkissjóður færi að rétta úr kútnum, að koma til móts við þá hópa sem verst væru settir í þjóðfélaginu. Það tel ég rétt að gera og tel nú tækifæri til þess í kjölfar þess að gífurlega góður árangur hefur náðst á síðasta kjörtímabili við að endurreisa landið úr rústum frjálshyggjunnar. Nú höfum við möguleika til að koma til móts við þá hópa sem verst eru settir í þeim málaflokkum sem við erum að tala um, elli- og örorkulífeyrisþega.

Báðir núverandi stjórnarflokkar lofuðu að það yrði forgangsmál að afturkalla þær kjaraskerðingar sem óhjákvæmilegt var að fara í þegar ríkissjóður var á hliðinni. Nú kemur fram frumvarp sem á að mæta hinum digru kosningaloforðum beggja stjórnarflokkanna og þá kemur í ljós að einungis er verið að mæta litlu broti af því sem lofað var fyrir kosningar. Í frumvarpinu er um að ræða verulega hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna fyrir ellilífeyrisþega og lífeyristekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga. Það er vissulega til bóta en það er ekki endilega rétt forgangsröðun. Það er kannski það sem stendur upp úr varðandi þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta kosningaloforðum sínum og því, sem ég held að við sem sitjum hér á þingi séum í grunninn sammála um, að bæta kjör þeirra sem verst eru settir meðal öryrkja og hjá ellilífeyrisþegum.

Þetta útspil þýðir að þeir sem verst eru settir í hópi elli- og örorkulífeyrisþega fá ekki neinar kjarabætur við þessa aðgerð að óbreyttu. Minni hlutinn leggur til, það kemur fram í nefndaráliti hans í velferðarnefnd, að komið verði til móts við þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þannig leggjum við til, í áliti okkar og breytingartillögu, að sú skerðing sem verið hefur króna á móti krónu á framfærsluuppbótinni verði lækkuð þannig að 80% annarra tekna komi til skerðingar uppbótarinnar í stað 100% frá og með 1. júlí 2013 og 70% frá og með 1. júlí 2014.

Þessar tillögur eru í samræmi við tillögur starfshóps sem unnið hefur að endurskoðun laga um almannatryggingar. Við leggjum einnig til að fram nái að ganga sú réttláta breyting að frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega verði fært til samræmis frítekjumarki ellilífeyrisþega, sem er um 1,3 milljónir á ársgrundvelli. En sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er einkennileg, að mér finnst, að þær leiðréttingar sem frumvarpið felur í sér nái ekki til þeirra sem þurfa að framfleyta sér á lægstu bótunum og hafa engar eða litlar tekjur. Það eru einmitt þeir hópar sem eiga langerfiðast með að ná endum saman en þeir eru ekki settir í forgangshóp ríkisstjórnarinnar. Þeir mega bíða áfram í óvissu um hvenær þess megi vænta að kjör þeirra verði leiðrétt og bætt ef það þá verður gert.

Ég tel mjög brýnt að hækka bætur almannatrygginga verulega og það þarf vissulega að koma öllum til góða en þó sérstaklega þeim hópum sem verst eru settir. Það er vissulega rétt að bæturnar hafa hvorki náð að halda í við verðlagshækkanir né almenna launaþróun í landinu og jafnvel ekki algjörlega við hækkun á lægstu launum. Við þurfum vissulega að skoða það að hækka ýmis tekjuviðmið og frítekjumörk sem hafa verið fryst frá árinu 2009 sem ekki er tekið á í þessu frumvarpi. En allt kostar það peninga og allt er það spurning um forgangsröðun eftir getu ríkissjóðs og hvar þörfin brennur heitast hjá þessum hópum.

Ég fer til stuðnings þessu yfir nokkrar umsagnir sem borist hafa vegna frumvarpsins en vil undirstrika að minni hluti velferðarnefndar fagnar þeim vilja núverandi ríkisstjórnar, sem birtist í frumvarpinu, að auka útgjöld til almannatrygginga eins og áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir. Minni hlutinn tekur hins vegar undir með fjölmörgum umsagnaraðilum velferðarnefndar sem telja að verið sé að byrja á öfugum enda.

Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra mun, að áliti minni hlutans, helst gagnast þeim lífeyrisþegum sem hafa hæstu tekjurnar og meðal annars þeim sem hingað til hafa ekki fengið neinar greiðslur frá almannatryggingum vegna of hárra tekna. Minni hlutinn tekur undir með þeim umsagnaraðilum sem telja að eðlilegra hefði verið að grípa til aðgerða sem kæmu tekjulægstu og verst settu lífeyrisþegunum til góða fremur en þeim tekjuhærri. Eðlilegast væri að fyrstu aðgerðir til leiðréttinga næðu til allra lífeyrisþega, svo sem með hækkun grunnlífeyris enda liggur fyrir að hann hefur ekki fylgt verðlagi að fullu síðustu ár.

Með leyfi forseta vísa ég í nokkrar umsagnir um þetta mál og byrja á umsögn sem kom frá Landssamtökum lífeyrissjóða:

„Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem meðal annars leiða til hækkunar á elli- og örorkulífeyrisgreiðslum. Sú breyting sem einkum varðar lífeyrissjóðina er að tekjur úr lífeyrissjóðum skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Landssamtök lífeyrissjóða fagna þessari breytingu enda mikilvægt að fólk sjái ávinning af því að greiða í lífeyrissjóði. Eftir stendur þó enn tekjulægsti hópurinn sem hefur lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum en frumvarpið varðar ekki réttindi þeirra sem fá greidda sérstaka framfærsluuppbót.“

Þá vil ég, með leyfi forseta, vitna í umsögn Alþýðusambandsins:

„Alþýðusambandið fagnar þeirri fyrirætlan að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega með auknum framlögum til almannatrygginga en lýsir jafnframt verulegum vonbrigðum yfir því að það skuli gert í algjörri andstöðu við þá heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og félagslegan stuðning sem unnið hefur verið að um margra ára skeið og breið samstaða var um meðal fulltrúa þingflokka og hagsmunaaðila í vor. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru settar fram án alls samráðs. Þær ganga alfarið gegn þeim hugmyndum sem ríkjandi hafa verið um nauðsyn þess að einfalda og skýra almannatryggingakerfið og gera enn erfiðara en nú er að vinda ofan af margflæktu almannatryggingakerfi. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu vissulega gagnast hluta lífeyrisþega en þó aðeins þeim sem eru tekjuhærri. Þeir lífeyrisþegar sem þurfa að reiða sig eingöngu á tekjur almannatrygginga eða hafa lífeyrissjóðstekjur undir 215.000 kr. á mánuði og/eða lágar atvinnutekjur hafa engan ávinning af boðuðum breytingum. Samkvæmt tölum frá TR eru elli- og örorkulífeyrisþegar ríflega 46.000 en breytingin mun, samkvæmt athugasemdum við frumvarpið, hafa áhrif á tekjur um 7.000 þessara lífeyrisþega eða um 15%.“ — Þetta er athyglisvert og undirstrikar það sem ég hef sagt í ræðu minni.

Ég vitna, með leyfi forseta, í umsögn frá Samtökum atvinnulífsins:

„Þess í stað hvetja SA til þess að Alþingi taki til umfjöllunar frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Það frumvarp var byggt á tillögum starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga sem skipaður var fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi, heildarsamtaka vinnumarkaðarins, samtaka aldraðra og annarra bótaþega. Starfshópurinn samþykkti samhljóða, þann 22.6. 2012, tillögur um breytingar á ellilífeyri sem fela í sér mikla einföldun og minni víxlverkun tekna og bótagreiðslna. Í því frumvarpi er óvenjuítarlegt mat lagt á áhrif breytinga sem lagðar eru til, áhrif fjölgunar aldraðra á ríkisfjármál og samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga. Það frumvarp felur vissulega í sér aukin útgjöld almannatrygginga en gildistaka ákvæða þess er áformuð í áföngum á löngum tíma og í samræmi við ríkisfjármálaáætlun á hverjum tíma.“ — Þetta er líka athyglisvert.

Þá vil ég, með leyfi forseta, fá að vitna í umsögn Öryrkjabandalags Íslands:

„Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að stefnt sé að því að draga úr hlutfalli þeirra tekna sem hafa áhrif á útreikning framfærsluuppbótar til tekjulágra einstaklinga. ÖBÍ hefur gagnrýnt mjög, meðal annars í umsögn um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, útfærslu sérstakrar framfærsluuppbótar sem skerðist krónu á móti krónu vegna skattskyldra tekna og bent á hvernig uppbót þessi heldur lífeyrisþegum í fátæktargildru. ÖBÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að sérstök uppbót vegna framfærslu verði afnumin og upphæð hennar felld inn í grunnlífeyri almannatrygginga og lúti sömu lögmálum og hann. 100% skerðingar, sem hafa tíðkast í gegnum árin, hamla meðal annars atvinnuþátttöku tekjulágra lífeyrisþega auk þess sem fólk sér ekki ávinning í því að greiða í lífeyrissjóð vegna samspils við almannatryggingar. Á þetta sérstaklega við um lífeyrisþega, sem eru með lágar lífeyrissjóðstekjur og engar aðrar tekjur nema bætur almannatrygginga. Sérstaka framfærsluuppbótin er án frítekjumarks og þess valdandi að hópur lífeyrisþega getur ekki nýtt sér frítekjumörk almannatrygginga.“ — Og vísað er í töflu sem fylgir umsögninni.

Þessi sjónarmið vega líka mjög þungt og við í minni hlutanum teljum að með breytingartillögu okkar höfum við mætt þeim að hluta til. Að þessu sögðu lít ég þannig á að við sem störfum hér á hv. Alþingi verðum að sameinast um það þvert á flokka að ljúka þeirri endurskoðun sem hafin var á almannatryggingakerfinu og komin var vel á leið í lok síðasta kjörtímabils. Ég held að við getum öll verið sammála um að einfalda þurfi kerfið og fækka bótaflokkum svo að fjármagn til þessa málaflokks nýtist sem best og nýtist best þeim sem þurfa á bótum að halda eða búa við bætur úr almannatryggingum, eða laun — ég hefði frekar viljað að við skilgreindum þetta sem laun. Það er nú þannig að sumir hafa sökum örorku ekkert í annað að sækja en þá tryggingu sem felst í því að fá greiðslur úr almannatryggingakerfinu og ég vil líta á það sem laun.

Ég ætla ekki að orða það öðruvísi en svo að um sé ræða viðleitni hjá núverandi ríkisstjórn að leggja þetta frumvarp fram um hækkun frítekjumarka vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og afnám skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna. Mér finnst þetta vitlaus nálgun og miðað við þær væntingar sem búið var að byggja upp í aðdraganda kosninga — og kom meira að segja fram hjá sumum þingmönnum stjórnarliða, að menn ætluðu að bæta afturvirkt þær skerðingar sem orðið hefðu, sem hefði kostað ríkissjóð gífurlega fjármuni — finnst mér þetta vera rýrt og forgangsröðunin röng og ekki í anda jöfnuðar og félagshyggju. Enda er sú ríkisstjórn sem nú situr við völd hægri frjálshyggjustjórn sem vinnur ekki á þeim grunni. En ég hef samt þá trú að þorri þingmanna vilji gera almannatryggingakerfið þannig úr garði að við getum með sóma búið að þjóðfélagsþegnunum þegar þeir eru hættir á vinnumarkaði eða hafa lent í því að verða öryrkjar sem enginn kýs sér — að við höfum það efst á blaði að búa vel að þessum þjóðfélagshópum og að við vöndum til verka svo að fjármagnið nýtist sem best hverju sinni og forgangsröðun verði rétt í þágu þessara hópa.



[15:44]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla aðeins um þetta frumvarp og álit velferðarnefndar, meiri hluta og minni hluta, og gera að umtalsefni málið eins og það horfir við mér nú í ljósi umsagna sem um það hafa borist.

Það er orðið skýrara en nokkru sinni að viðvörunarorð okkar frá því í 1. umr. eiga við að fullu og öllu leyti. Hér er um að ræða frumvarp sem ívilnar þeim lífeyrisþegum mest sem mest hafa á milli handanna og í sjálfu sér þeim mun meir sem þeir hafa meira á milli handanna. Öfugsnúnari aðgerð, ef markmiðið var að bæta kjör lífeyrisþega, er erfitt að ímynda sér. Ég óska þeim til hamingju sem munu njóta vegna þessara breytinga og breytingarnar eru út af fyrir sig fullkomlega réttlætanlegar. En það horfir mjög sérkennilega við, þegar maður sér þær í samhengi við annars vegar kostnaðinn vegna breytinganna og hins vegar aðra þá kosti sem voru tiltækir til að bæta hag lífeyrisþega, að menn skuli hafa valið nákvæmlega þessar aðgerðir og ekki aðrar.

Eins og ég rakti í 1. umr. munu þeir sem eru með lífeyristekjur undir 250 þús. kr. einskis njóta af þessum breytingum. Þeir sem eru með lífeyristekjur á bilinu 250–350 þús. kr. munu í flestum tilfellum uppskera einhvers staðar á bilinu 16–22 þús. króna. Þeir sem eru með lífeyristekjur yfir 350 þús. kr. munu fá 34 þús. kr. í viðbótargreiðslu. Þessi aðgerð kostar ríkissjóð meira en 1,5 milljarða á ársgrundvelli. En þrátt fyrir þann umtalsverða tilkostnað nýtist hún ekki að nokkru leyti þeim sem eru í lægri hluta tekjuskala lífeyrisþega.

Minni hlutinn hefur komið fram með mjög skynsamlega breytingartillögu sem er tilraun til þess að hjálpa ríkisstjórninni út úr því öngstræti sérhagsmuna sem hún er komin í, að moka stöðugt undir þá ríku og gera þeim sérstaklega greiða sem þurfa síst á þeim að halda eins og birtist í áherslum ríkisstjórnarinnar hvað varðar veiðigjald til dæmis. Tillögur minni hlutans fela í sér að mæta hinum mikla fjölda lífeyrisþega með því að horfa sérstaklega á að fólk njóti lítils lífeyris í vaxandi mæli. Þetta hefur verið markmið okkar lengi að það skipti mjög miklu máli að ná þessu markmiði fram. Minni hlutinn kemur með tillögu sem er vel framkvæmanleg og kostar ekki mjög mikið, kostar lítið meira en næturgjöfin sem færa átti útgerðinni hér í gærkvöldi í skjóli nætur með viðbótarafslætti á veiðigjaldi, óræddum algjörlega.

Ég tel mjög mikilvægt að láta á það reyna hvort ríkisstjórninni, og stjórnarmeirihlutanum, sé algjörlega fyrirmunað að sjá réttláta leið til að nálgast þetta verkefni. Í 1. umr. um málið benti ég á að ef menn ætluðu að gera eitthvað sem nýttist þorra lífeyrisþega lægi beinast við að flýta þeirri ákvörðun sem við höfðum þegar tekið um að tímabundin hækkun skerðingarmarka gengi til baka fyrr en í árslok. Við höfðum ákveðið að það mundi gerast nú í árslok og það hefði verið hægt að flýta því. Það hefði verið skynsamleg aðgerð sem hefði nýst öllum þorra lífeyrisþega en hér koma menn með þessa aðgerð sem nýtist fáum. Eins og ég rakti í fyrstu ræðu minni njóta um 7 þús. lífeyrisþegar þeirra breytinga sem hér um ræðir. Um 2.500 sem koma nýir inn í almannatryggingakerfið, fólk sem ekki hefur notið neinna greiðslna frá hinu opinbera lífeyriskerfi vegna þess að það er með lífeyristekjur yfir 350 þús. kr. og 4.500 aðrir sem hafa verið í efri hluta tekjuskalans en samt fengið greiðslur frá hinu opinbera lífeyriskerfi, þeir hafa þá væntanlega verið með lífeyristekjur yfir 300 þús. kr. á mánuði, í flestum tilvikum.

En aðeins meira um forgangsröðunina. Stóri vandinn í lífeyriskerfinu stendur eftir þrátt fyrir þessa breytingu og það er aukið á hann ef eitthvað er. Svigrúmið sem menn ætluðu að skapa í breytingar- og umbótaferli á almannatryggingakerfinu er nú varið til þessa hóps og það verður ekki aftur tekið. Þá er markmiðið um heildstætt almannatryggingakerfi, þar sem fólk skerðist ekki krónu á móti krónu eins og í dag, þar sem fólk getur ekki fallið á krónu og fengið hundruð þúsunda útgjöld við það eitt að fá einni krónu meira í tekjur úr lífeyrissjóði — þá halda þessir ókostir kerfisins áfram að vera til og við nýtum ekki þá fjármuni sem þarna voru til ráðstöfunar til að greiða fyrir nýju heildstæðu kerfi.

Það er til dæmis athyglisvert að sjá hina hörðu gagnrýni sem þessar hugmyndir fá frá skammstöfununum ESA og ASÍ, þar sem menn gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að hverfa frá samstarfi allra flokka og aðila vinnumarkaðarins um nýtt almannatryggingakerfi. Nú er þessi ríkisstjórn orðin ber að því á sínu fyrsta sumarþingi að rjúfa sátt í öllum málum. Þessi ríkisstjórn, sem ásakaði fyrri ríkisstjórn alltaf um að efna til ófriðar og gera ekkert í sátt, hefur feril sinn á því að rjúfa sátt á öllum sviðum og hvert mál hennar á fætur öðru fær algera falleinkunn frá öllum umsagnaraðilum. Hún stígur út úr þverpólitísku samstarfi um nýtt almannatryggingakerfi sem er félagsleg nauðsyn því að enginn maður með réttlætistilfinningu getur varið almannatryggingakerfi sem er þannig að fólk sem á lítinn lífeyri tapi honum öllum en fólk sem fái mikinn lífeyri, frá hinu opinbera sérstaklega, njóti hans til fulls og ekki bara það heldur fái, samkvæmt frumvarpinu, viðbótargreiðslu upp á 34 þús. kr., jafnvel þó að fólk sé með vel yfir 350 þús. kr. í lífeyristekjur. Þá felst ósanngirnin í því að fólkið með 30 þús. kr. í lífeyri, sem á ekki stærri lífeyrissjóð en það, skerðist krónu á móti krónu og sú ósanngirni verður óþolandi í samanburðinum.

Minni hlutinn býður ríkisstjórninni upp á leið út úr þeim siðferðislegu ógöngum sem hún er komin í með málið með því að byrja á að innleiða breytingu sem við ræddum og kynntum í tengslum við nýja almannatryggingafrumvarpið, sem felst í því að skerðingin á sérstöku framfærsluuppbótinni, króna á móti krónu skerðingin, verði lækkuð úr 100% í 80% frá og með 1. júlí og 70% frá og með 1. janúar 2014. Þetta mun ekki kosta mjög mikla peninga. Þetta mun kosta rétt um milljarð. Í því heildarsamhengi að verið sé að stofna til nýrra útgjalda upp á 1,5 milljarða og verið að gefa útgerðinni hálfan milljarð með kvöldkaffinu í gærkvöldi er milljarður til að leysa þetta alvarlega vandamál fyrir þá lífeyrisþega sem minnst hafa milli handanna og minnst hafa borið úr býtum af ævistarfi og greiðslum í lífeyrissjóð alla tíð — þá finnst mér sá kostnaður réttlætanlegur og sanngjarn.

Eftir stendur að það er alveg óleyst hvernig menn ætla þá að taka á öðrum göllum almannatryggingakerfisins. Ríkisstjórnin ákveður þessa breytingu, hefur ekki samráð við nokkurn mann, hvorki kóng né prest, ræðir ekki við aðila vinnumarkaðarins sem hafa verið að vinna með stjórnvöldum að þróun almannatryggingakerfisins árum saman. Það gæti orðið gaman við atkvæðagreiðslu á eftir að taka upp hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar sem gagnrýndu fyrri ríkisstjórn harkalega fyrir að hafa ekki samráð um alla mögulega og ómögulega hluti við aðila vinnumarkaðarins. Svo er komið á þessu sumarþingi að öll mál ríkisstjórnarinnar hafa fengið falleinkunn Alþýðusambandsins og ekki er hlustað á athugasemdir í eitt einasta skipti. Stóra málið, jafnt þetta og skuldir heimilanna — algjör falleinkunn hvað varðar skort á samráði. Mér skilst að talsmenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins hafi sagt það skýrt fyrir velferðarnefnd að í þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar fælist einfaldlega ákvörðun um að slíta sig út úr samstarfi um endurskoðun almannatryggingakerfisins með aðilum vinnumarkaðarins, þverpólitísku samstarfi.

Þeir líta svo á að verið sé að ákveða að sprengja það allt í loft upp enda eru ekki lengur fyrir hendi þær forsendur sem gengið var út frá í vinnunni sem unnin hefur verið á síðustu missirum. Hverjar voru þær forsendur? Jú, að við hefðum verið nauðbeygð til tiltekinna skerðinga, að við vildum skila þeim aftur og að við vildum auka réttlæti í kerfinu. Þar sem við vorum að vinna á grunni sem við höfðum skert höfðum við ákveðna smurolíu í þeim fyrirheitum sem gefin höfðu verið um frekari fjárframlög inn í kerfið. Það skiptir máli að nýta þá smurolíu rétt þannig að þeir fjármunir fari ekki inn í gamalt kerfi og viðhaldi því heldur fari þeir í að greiða fyrir að nýju kerfi verði komið á og bæta sérstaklega þeim sem fara illa á einhverju tímabili út úr slíkri yfirfærslu. Það var grundvallarhugsunin í heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Ríkisstjórnin er með ákvörðun sinni að slíta sig út úr því. Hún er orðin ríkisstjórn sem gengur ekki fram í sátt í nokkru máli. Hún veður áfram, kærir sig kollótta um viðvörunarorð innlendra sem erlendra aðila og hún virðir enga samninga þvert á flokka eða við aðila vinnumarkaðarins. Þannig að þetta boðar nú ekki gott.

Virðulegi forseti. Ég vil trúa því að bráð geti af stjórnarmeirihlutanum. Einkanlega bind ég vonir við hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem gengu mjög hart fram í aðdraganda kosninga og töluðu eins og þeim væri annt um velferð lífeyrisþega, gáfu stór fyrirheit um að leiðrétta skerðingar og að bæta aftur hag lífeyrisþega. Frumvarpið sem hér er er ekki til þess fallið, það er frekar til þess fallið að brjóta niður samstöðuna sem var að myndast um úrbætur fyrir þorra lífeyrisþega. Eftir stendur fólkið, hinn venjulegi vinnandi maður, algjörlega varnarlaust og ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að leiðrétta ósanngirnina í almannatryggingakerfinu.

Fólkið með minnst á milli handanna úr lífeyrissjóðunum, fólkið með lélegu lífeyrissjóðina, á áfram að skerðast krónu á móti krónu og ríkisstjórnin hefur ekki áhuga á að forgangsraða lausnum í þeirra þágu. Ríkisstjórnin forgangsraðar lausnum í þágu þeirra sem hafa fyrir allra mest en mætir ekki þessum þörfum.

Ég bind einlæglega vonir við að ríkisstjórnarmeirihlutinn sjái ljósið og veiti brautargengi breytingartillögu okkar úr stjórnarandstöðunni sem flutt er af minni hluta velferðarnefndar við atkvæðagreiðslu hér á eftir. Það er lykilatriði að við höfum réttlátt almannatryggingakerfi og það er lykilatriði að hið vinnandi fólk, sem þarf með sköttunum sínum að standa undir ábyrgðinni á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, sé ekki líka sett í óásættanlega stöðu með sinn eigin litla lífeyri.

Almennt er fólk á almenna vinnumarkaðinum, í verkalýðsfélögunum, með lakari lífeyri en þeir sem njóta réttinda í opinbera kerfinu. Fólkið á almenna vinnumarkaðinum er hins vegar í núgildandi kerfi skert krónu á móti krónu þegar það fær eitthvað úr hinu opinbera kerfi. Það á ekki að laga það. En til viðbótar ætlumst við til þess að fólkið í almennu lífeyrissjóðunum, hið venjulega vinnandi fólk, standi með sköttunum sínum undir því að tryggja og baktryggja réttindi þeirra sem njóta réttinda úr opinberu sjóðunum.

Fólkið í opinberu sjóðunum nýtur ekki bara betri lífeyrisréttinda heldur ætlumst við líka til þess að fólkið á almenna vinnumarkaðinum borgi með sköttunum sínum og tryggi með sköttunum sínum að lífeyrisréttindi fólks með réttindi í opinbera kerfinu skerðist aldrei á meðan fólkið í almenna kerfinu getur skerst. Við leggjum fram hóflega tillögu sem er ekki dýr til þess að mæta þessu fólki. Það verður prófsteinn á réttlætiskennd meiri hlutans hvort hann sér ástæðu til að styðja okkur í þeim tillöguflutningi.



[16:01]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það var haft á orði við umræðuna fyrr í dag að almannatryggingakerfið væri flókið. Það væri varla á færi nokkurs manns að skilja það í þaula og var sagt í gríni að hugsanlega væri einn maður í velferðarráðuneytinu sem kynni á því skil. Ekki held ég að þetta sé nú alveg rétt, þau eru mörg sem þekkja þetta kerfi vel. En það er rétt að kerfið er flókið og margir þættir þess eru illskiljanlegir. En flókið kerfi er ekki endilega ranglátt kerfi og ástæðan fyrir því að almannatryggingakerfið og þess vegna skattkerfið eða ýmsir þættir þess eru flókin kerfi er sú að menn hafa verið að reyna að ráðstafa fjármunum á réttlátan hátt, að ráðstafa takmörkuðu fé á réttlátan hátt. Þá vill það gerast að úr verði bútasaumur. Bútasaumurinn byggir ekki endilega á munstri ranglætis heldur á munstri réttlætis því að verið er að reyna að nýta fjármuni á sem hagkvæmastan hátt. Við höfum síðan öll okkar skoðanir á því hvað er réttlátt og hvað er ranglátt og kem ég að því hér síðar.

Nema hvað, fyrir fáeinum árum náðist um það samstaða í Stjórnarráði og hér á Alþingi að hafin yrði vegferð í þá átt að gera kerfið einfaldara. Þetta mun hafa verið á árinu 2007. Þá hófst umfangsmikið starf í þá veru og takmarkið, sem menn stefndu að, var að búa til kerfi þar sem bótaflokkunum yrði fækkað verulega og kerfið allt gert skiljanlegra og skilvirkara. Í stað þess að halda þeirri vinnu áfram og byggja á niðurstöðum hennar hefst núverandi ríkisstjórn handa um að halda bútasaumnum áfram. Í stað þess að byggja á þeirri miklu vinnu sem fyrir lá og reyna að halda samstiga inn í framtíðina með breiðri aðkomu hagsmunaaðila og þverpólitískri samstöðu ákveður ríkisstjórnin að stíga þessi skref núna. Jú, hún segist vera að reyna að standa við þau loforð sem gefin voru í nýafstaðinni kosningabaráttu. Ef svo gott væri hefði ég skilning á því sem væri nú að gerast. En svo er ekki. Þetta er aðeins hluti af pakkanum sem er reiddur hér fram á borðið.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, séu farnir að líkjast sjálfum sér. Nú eru þeir að verða það sem við öll könnumst við sem munum eftir stjórnarsamstarfi þeirra á árabilinu 1995–2007. Hvað var það sem einkenndi stjórnarfarið og áherslur í Stjórnarráðinu og hjá meiri hluta Alþingis á þeim tíma? Það var einkavæðingin, markaðsvæðingin, sala bankanna og síðan breytingar í skattkerfinu sem flestar gengu í misréttisátt. Sköttum var létt af hátekjufólki, vörður staðinn um fjármagnseigendur og alla þá sem áttu digra sjóði en skattbyrðar auknar á millitekjuhópana og þá sem lakast stóðu að vígi. Hópar sem áður höfðu verið undanþegnir skatti voru nú farnir að greiða skatta.

Það var þetta sem einkenndi áherslurnar á þessum tíma og þegar Sjálfstæðisflokkurinn lýsti því yfir í aðdraganda síðustu kosninga að hann hefði í hyggju að létta skatta spurði ég margítrekað eftir því hvort það yrði gert í anda stjórnaráranna 1995–2007, hvort misréttisstefnunni yrði fylgt áfram, hvernig yrði forgangsraðað við framkvæmd þessa kosningaloforðs. Ég fékk engin svör en svörin höfum við síðan verið að fá hvert á fætur öðru í fyrstu forgangsmálum ríkisstjórnarinnar.

Er hún að létta sköttum af lágtekjufólki? Nei. Er hún að létta sköttum af millitekjufólki? Nei. Hún velur þær greinar atvinnulífsins sem best standa að vígi og léttir sköttum af þeim. Fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem átti að fara í 14% nú í haust — það er fallið frá því. Þar er um að ræða hálfan annan milljarð á ársgrundvelli, rúmlega hálfan milljarð á þessu ári, sem fallið er frá. Og við þekkjum síðan gjafirnar sem menn eru nú að útdeila til útgerðarinnar. Það mun verða á komandi ári og þeim mánuðum sem eftir lifir þessa árs og gjaldið hefði átt að koma til framkvæmda um 10 milljarðar kr.

Við erum með öðrum orðum að verða vitni að því að ríkisstjórnin hér á þessum örfáu fyrstu dögum, í upphafi vegferðar sinnar, sem ég veit nú ekki hve löng verður, er að afsala ríkissjóði um 12 milljörðum kr., bara á allra næstu mánuðum. Það verður fróðlegt að fylgjast með áherslunum í fjárlagaumræðunni í haust þegar við förum að ræða framlag til heilbrigðismála, til löggæslu, til landhelgisgæslu, til menntakerfisins og annarra þátta sem ég hélt að þverpólitísk samstaða væri um að reyna að bæta og bæta í. En hvort tveggja verður ekki gert. Enda segir í greinargerð sem fylgir því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar um almannatryggingar frá fjármálaráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Þar sem ríkissjóður er ennþá rekinn með halla þarf að óbreyttu að mæta þessum auknu bótaréttindum og útgjöldum með lántökum með tilheyrandi vaxtakostnaði. Má því leiða líkur að því að lögfesting frumvarpsins geti haft í för með sér skattahækkanir í framtíðinni til að standa skil á þeim skuldum. Í þessu sambandi er þó líka ástæða til að minna á að stóran hluta útgjaldanna leiðir af breytingum á bótakerfinu sem gerðar voru fyrir nokkrum árum með tímabundnu fyrirkomulagi og að ekki höfðu heldur verið sett fram áform um hvernig staðið yrði að þessum málum til frambúðar í ríkisfjármálaáætluninni af hálfu fyrri ríkisstjórnar. Telja verður vandséð hvernig staðið verði í reynd undir þeirri auknu fjárþörf almannatryggingakerfisins sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins eigi jafnframt að framfylgja stefnumörkun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árinu 2014 nema gerðar verði ráðstafanir til að draga úr framlögum til annarra málaflokka í sama mæli eða leggja á hærri skatta til tekjuöflunar.“

Þarna er vikið að því að bæði vegna þessara ákvarðana og ákvarðana fyrri ríkisstjórnar þurfi að horfa til tekjuöflunar með skattahækkun eða með lántöku á komandi árum. Þetta er verkefni.

Við ræðum hér um málaflokk sem ég held að flestir Íslendingar vilji standa vörð um, þ.e. greiðslur úr almannatryggingakerfinu til aldraðra og öryrkja. Þá kem ég að því sem ég vék að í upphafi um ríkisstjórnarflokkana, hvernig þeir eru farnir að líkjast sjálfum sér. Vegna þess að endinn sem byrjaður er á eru þeir sem standa í efri tekjuhluta samfélagsins og horfi ég þá sérstaklega til aldraðra. Það er hagur þeirra sem mest er bættur og fyrst er bættur. Ég hefði haldið að brýnast hefði verið á þessu stigi að byrja á hinum endanum, að byrja á því að bæta kjör þeirra sem lakast standa. Þær breytingartillögur sem stjórnarandstaðan hefur sett fram snúa einmitt að því.

Hæstv. forseti. Mig langar að vitna í grein sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, Lilja Þorgeirsdóttir, skrifar í Morgunblaðið síðastliðinn þriðjudag 2. júlí. Þar segir, með leyfi forseta:

„Staðreyndin er sú að ef frumvarpið fer óbreytt í gegnum þingið mun einungis mjög fámennur hópur örorkulífeyrisþega njóta þess því ekki er um að ræða hækkun á fjárhæðum einstakra bótaflokka heldur minni tekjutengingar hjá þeim sem hafa einhverjar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga. Hækkun á frítekjumarki á launatekjum varðar eingöngu ellilífeyrisþega og afnám skerðinga á grunnlífeyri vegna lífeyrissjóðstekna nær einungis til fámenns hóps öryrkja. Sú forgangsröðun vekur furðu að leiðréttingar á kjörum sem byrjað er á ná ekki til þeirra sem þurfa að framfleyta sér á lágum bótum og hafa litlar eða engar aðrar tekjur. Þessi hópur á erfiðast með að ná endum saman en mun ekki fá leiðréttingar á sínum kjörum strax að loknu sumarþingi og mikil óvissa ríkir hvenær þeir megi vænta þess.“

Þetta eru þær áherslur sem ég vildi einnig slá í mínu tali og lýsa furðu minni á því og setja fram gagnrýni á áherslur ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar, að byrja á þeim endanum að bæta kjör þeirra sem hafa þau skár en ekki hinna sem eru með lægstu tekjurnar.

Á þensluárunum í byrjun þessarar aldar leið undarlega langur tími þar til farið var að huga að bættum kjörum öryrkja og aldraðra. Við munum hvernig það gerðist á tíunda áratugnum að hækkun á bótum almannatrygginga var tekin úr sambandi við viðmiðun við lægstu launataxta á markaði. Það var ákveðin trygging í því, einfaldlega vegna þess að verkalýðshreyfingin samdi iðulega um hækkun lægstu taxtanna og fylgdu þá bætur almannatrygginga á eftir. Síðan var gerð ágæt breyting á því fyrirkomulagi með því að setja ákvæði í lög þess efnis að bætur almannatrygginga skyldu hækka, annaðhvort samkvæmt almennri launavísitölu eða verðbólgunni, eða neysluvísitölunni í landinu. Þar með átti að tryggja að lífeyrisþegar færu aldrei verr út úr þróuninni en næmi annarri hvorri þessari vísitölu.

Þessu kerfi var síðan stefnt í vandræði, eins og ýmsu öðru í efnahagslífinu, þegar efnahagshrunið reið yfir. Það sem við gerðum var að vinda ofan af breytingum sem þá voru nýkomnar til framkvæmda, komu til framkvæmda á árunum 2007–2008. Þær gengu út á að draga úr tekjutengingum, það voru breytingarnar sem gerðar voru á þessum árum. Þá hefur Samfylkingin sennilega verið farin að sparka eitthvað í íhaldið og fá Sjálfstæðisflokkinn til að liðka til í þessu efni en í langan tíma hafði hann reynst afar tregur til þess. Þetta gerist en við efnahagshrunið er undið ofan af þessu aftur og byrjað á þeim enda gagnvart öldruðum — byrjað að skerða kjör þeirra sem eru með bestu kjörin, þ.e. að auka tekjutenginguna hjá þeim sem hafa bestu kjörin. Og það er þar sem ríkisstjórnin byrjar núna, ekki á lægsta fólkinu.

Það kemur mér ekki á óvart að framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins skuli skrifa þessa grein í Morgunblaðið. Ég hef heyrt ýmsar áherslur frá samtökum aldraðra og það vekur athygli mína líka að menn forðast að styggja nokkurn mann og ekki heldur þá sem hafa sæmilegar tekjur og njóta þeirra og síðan almannatrygginga. Það kemur líka fram í máli framkvæmdastjóra Öryrkjabandalags Íslands að öllum skrefum sem tekin eru er fagnað en furðu lýst á því að áherslan skuli vera þessi.

Síðan er hitt sem mig langaði til að víkja að, það er varðandi framtíð þessa kerfis. Ég vil taka fram að ég er ekki að segja að skjóta eigi á frest öllum breytingum eða öllum kjarabótum áður en við erum búin að sjá framtíðarlandið fyrir okkur. Ég legg þó áherslu á að þegar breytingar eru gerðar á þessum kerfum, skattakerfi, almannatryggingakerfi, húsnæðiskerfi sem nú er mjög í brennidepli, þá þurfum við að reyna að sameinast um einhverja framtíðarsýn. Sú var tíðin að menn sáu fyrir sér að lífeyrissjóðirnir mundu leysa almannatryggingakerfið af hólmi og að einungis örfáir aðilar yrðu að reiða sig á almannatryggingar, svo sterkir yrðu lífeyrissjóðirnir að það yrðu öryrkjar og þeir sem ekki færu út á vinnumarkaðinn sem mundu njóta góðs af almannatryggingum. Þetta var framtíðarsýn sem margir höfðu.

Ég hef skrifað um það, hef gert það á undanförnum árum og missirum, að ég hafi efasemdir um að söfnunarsjóðirnir, lífeyrissjóðirnir, í okkar smáa hagkerfi rísi undir þeirri ábyrgð sem lögð er á herðar þeim. Ég hef hreyft þeirri hugmynd og gerði það í blaðagreinum að hluti af auðlindarentunni yrði látinn renna inn í sjóð sem stæði straum af nýju lífeyriskerfi þar sem dregið yrði úr vægi söfnunarsjóðanna en gegnumstreymisþátturinn yrði aukinn. Þar yrði þá um reglulega tekjulind að ræða fyrir slíkt fyrirkomulag. Þetta hefur ekki fengist rætt enda kallar þetta á langa og mikla umræðu. En hitt hefur fengist rætt, og að því er vikið í nefndaráliti minni hlutans, og ég kom að því áðan, að víðtæk endurskoðun á kerfinu hefur verið í gangi allar götur frá 2007 með það fyrir augum að einfalda kerfið og gera það á alla lund markvissara.

Ég lýsi eftir því að fá að heyra hvaða framtíðaráform ríkisstjórnin hefur hvað þetta snertir. Hyggst hún efna til samstarfs við alla stjórnmálaflokka hér á þingi, við verkalýðshreyfingu, við samtök aldraðra, Öryrkjabandalagið og alla sem á einhvern hátt tengjast þessum málum eins og reynt hefur verið að gera á undanförnum missirum og árum? Eða á að fara þá braut, sem mér sýnist, með vinnubrögðunum í tengslum við þetta frumvarp, að ræða hvorki við kóng né prest og halda inn í misréttissmiðjuna gömlu að nýju sem við fengum illu heilli að kynnast hér á árunum 1995–2007?

Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. félagsmálaráðherra um þetta efni sem hefur oft og tíðum verið með áherslur sem hafa verið mér ágætlega að skapi um jöfnuð í þessum kerfum. En ég auglýsi eftir því að fá að heyra viðhorf hennar um það hvernig hún hyggst standa að samstarfi við aðila innan þings sem utan um breytingar á almannatryggingakerfinu til frambúðar.



[16:21]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka velferðarnefnd og hv. formanni hennar málefnalega umræðu og heilbrigð vinnubrögð. Það kom mér því á óvart að heyra tóninn í hv. formanni þeirrar nefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, í ræðu sem hún hélt fyrr í dag. Hv. formaður velferðarnefndar hélt langa upprifjun um hvað flokksfélagar hennar hefðu gert fyrir þá sem minna mættu sín. Hún nefndi meðal annars að þeim sem verst voru settir hefði verið hlíft við skerðingunum sem nauðsynlegar hefðu verið eftir hrunið eða árið 2009. Hverjir voru þá skertir, spyr ég, hverjir voru mest skertir þá, voru það kannski eldri borgarar? Getur það verið?

Þetta frumvarp er aðeins eitt skref af mörgum. Mér heyrist flestir vera sammála um að það sé gott skref. Sumir vilja taka eitthvert skref á undan en allir eru sammála um að þetta sé gott skref. Markmið frumvarpsins er að leiðrétta þá sem voru skertir mest. Þetta snýst ekki um annað. Þeir sem urðu fyrir mestri skerðingunni, það er verið að leiðrétta þá. Stjórnarandstaðan hefur státað af miklum bata í efnahagsmálum á sínu kjörtímabili. Er þá ekki kominn tími til að létta aðeins byrðum á eldri borgurum, þeim sem tóku mestar skerðingar á sig?

Ekki minnist ég þess að femínistar eða aðrir hafi kvartað yfir því að fleiri karlar yrðu fyrir skerðingu en konur árið 2009. Ég gef mér að kynjahlutföll hafi verið svipuð þá. Varðandi 2. gr. frumvarpsins var öll nefndin sammála því að skoða hana örlítið betur til að taka af öll tvímæli um lögmæti hennar en mikil áhersla var lögð á að halda áfram með þessa grein og þessa vinnu strax í haust því að hún er mjög brýn. Auðvitað viljum við öll gera vel við þá sem minnst mega sín.

Heildarendurskoðun almannatryggingakerfis mun halda áfram og vonandi með öllum flokkum. Ég geri mér grein fyrir því að á stuttu sumarþingi leysum við ekki þessi mál, ekki í heild sinni. Nokkrir umsagnaraðilar hafa bent á að greiðsluvilji lífeyrissjóða hafi minnkað verulega og það er áhyggjuefni, við þurfum að passa upp á það. Þann 1. júlí 2013 eru nákvæmlega fjögur ár frá því þessar skerðingar skullu á og mestar á eldri borgurum — það er vel við hæfi að nota þann dag til að leiðrétta það. Það er tími til kominn að stíga þetta farsæla skref. Ef menn vilja kalla þetta að hygla þeim ríku þá mega þeir það. Ég lít ekki á þá eldri borgara sem hafa þrek til að vinna sér inn aukapeninga sem auðmenn. Mér finnst kominn tími til að einhverjir aðrir taki þær byrðar af þeim.