143. löggjafarþing — 118. fundur.
séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, 3. umræða.
stjfrv., 484. mál (höfuðstólslækkun húsnæðislána). — Þskj. 1119, nál. m. brtt. 1153, nál. 1159, brtt. 1135.

[16:38]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

„Nefndin hefur fjallað um málið að nýju á milli 2. og 3. umr. Á fund hennar komu Þórarinn G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Ólafur Darri Andrason, frá Alþýðusambandi Íslands, Snædís Ögn Flosadóttir, frá Arion banka hf., og Sara Fuxén, Magnús Fannar Sigurjónsson og Kjartan Smári Höskuldsson, frá Íslandsbanka hf.

Við 2. umr. komu fram óskir um að nefndin fundaði fyrir 3. umr. til þess að meta áhrif breytingartillagna sem samþykktar voru við 2. umr.

Fyrir nefndinni kom fram að hinar samþykktu breytingar kynnu að hafa einhver áhrif á þróun einkaneyslu, eftirspurnar, verðbólgu og viðskiptajafnaðar en mjög óljóst væri hver áhrifin yrðu. Þó var einnig bent á að áhrifin mundu koma fram á tiltölulega löngum tíma og yrðu væntanlega lítil. Þá kom fram að stjórnvöld gætu með mótvægisaðgerðum unnið gegn áhrifunum og að sennilega fælu úrræði frumvarpsins í sér hvatningu til séreignarsparnaðar.

Fyrir nefndinni var gerð athugasemd við orðalagið „á þeim tíma“ í f-lið 1. töluliðar breytingartillagna sem samþykktar voru við 2. umræðu (þskj. 1071). Bent var á að orðalagið kynni að valda þeim misskilningi að átt væri við að rétthafi væri ekki eigandi húsnæðis á tilteknum tímapunkti. Meiri hlutinn leggur til breytingu á síðari málsliðar 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins svo að skýrt komi fram að átt er við tímabil þegar nýting heimildarinnar stendur yfir en ekki tiltekinn tímapunkt.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu.“

Hún hljóðar svo:

„Síðari málsliður 1. mgr. b-liðar 1. gr. orðist svo: Skilyrði er að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili þegar heimildin er nýtt.“

Undir þetta nefndarálit ritar meiri hluti, hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, Willum Þór Þórsson, Pétur H. Blöndal, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason, sem undir það ritar með fyrirvara.



[16:41]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem undirrita auk mín hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Guðmundur Steingrímsson.

Á fundi nefndarinnar eftir 2. umr. var rætt aukið umfang úrræða frumvarpsins sem varð að veruleika á úttektarfundinum fyrir 2. umr. þegar meiri hlutinn kynnti verulega umfangsaukningu frumvarpsins um séreignarsparnaðinn. Aldrei hafði gefist færi á að fá álit sérfræðinga á þeirri aukningu og á fund nefndarinnar komu sérfræðingar. Það var sérstakur akkur í að fá aðalhagfræðing Seðlabankans og yfirmann hagdeildar Alþýðusambandsins sem gátu farið yfir stöðuna.

Niðurstaðan af þessum fundi er í okkar augum sú að hið aukna umfang muni stuðla, enn frekar en aðgerðirnar að öðru leyti, að aukinni verðbólgu, auka líkur á hækkun stýrivaxta, hafa slæm áhrif á viðskiptajöfnuð og draga úr fjárfestingu. Þessi aukning umfangsins mun óhjákvæmilega leiða af sér hækkun vaxta nema stjórnvöld grípi til sérstakra mótvægisaðgerða. Það þarf annaðhvort að hækka skatta eða skera niður. Ríkisstjórnin hefur engu svarað um það hvar niðurskurðarhnífinn muni bera niður eða í hvaða sköttum almenningur mun bera kostnað af þessum nýju skuldaaðgerðum. Full ástæða er til að ríkisstjórnin upplýsi okkur um það með hvaða hætti hún ætlar að vinna gegn þessum neikvæðu áhrifum.

Það var gagnrýnt fyrir nefndinni að engin umfjöllun hefði komið fram um þann aukna kostnað sem þetta aukna umfang hefur í för með sér fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin. Auðvitað er það þannig núna að breytingarnar á þessu eru að auka enn á tekjutap sveitarfélaga, jafnt á næstu árum sem og til nánari framtíðar, og það er ógreint og órætt við sveitarfélögin.

Það kom fram líka að það væri verulegt umhugsunarefni út frá hagstjórnarsjónarmiðum — við núverandi aðstæður, þegar fyrir liggur að ekki er slaki í hagkerfinu og grípa þarf til aðgerða, eins og vaxtahækkana eða niðurskurðar, til að hagkerfið ráði við aðgerðir á borð við skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar — og skjóti mjög skökku við að stjórnvöld, sem bera ábyrgð á hagstjórninni, skuli samt sem áður ráðast í aðgerðina og ekki útskýra hvar mótvægisaðgerðum verður fundinn staður, eða bara yfir höfuð ákveða að ráðast í aðgerðir sem þessar þegar tímasetningin hentar augljóslega ekki fyrir stöðu hagkerfisins.

Það kom líka fram, þegar rætt var við fulltrúa lánastofnana, að vaxandi þrýstingur er frá viðskiptavinum þeirra á úrræði þar sem menn hafa áhuga á að nýta það svigrúm sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu skapa til að auka lántöku. Það þýðir að verstu áhyggjur okkar af afleiðingum þessara aðgerða, til að þær verði til að auka veðrými, auka skuldsetningu, auka einkaneyslu, virðast eiga við rök að styðjast.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar til að greiða frekar fyrir umræðum í dag en tel að hér með sé öllum helstu sjónarmiðum komið á framfæri frá okkur í minni hlutanum.