144. löggjafarþing — 26. fundur
 3. nóvember 2014.
æskulýðsstarf.
fsp. PVB, 335. mál. — Þskj. 412.

[19:42]
Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Hæstv. forseti. Eins og með öll önnur málefni eru málefnum æskulýðsfélaga landsins gefin fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á samfélagslegt mikilvægi frjálsra félagasamtaka og sjálfboðastarfs og mun greiða götu slíkrar starfsemi. Æskilegt er að stjórnvöld viðurkenni í auknum mæli í verki mikilvægi samtaka á borð við hjálparsveitir, ungmennafélög, íþróttafélög, forvarna- og hjálparsamtök og önnur frjáls félagasamtök sem efla og bæta íslenskt samfélag.“

Þar stendur enn fremur:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er. Stuðla ber að því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um ræðir íþróttir, listnám, listsköpun eða félagsstarf. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi.“

Það þarf vart að undirstrika mikilvægi þess fyrir þingheimi að hlúa vel að ungu fólki á Íslandi, en vilja þarf að fylgja eftir með gjörðum. Það er erfitt að sjá í fjárlagafrumvarpinu að þar eigi að gera nokkuð til að bæta stöðu æskulýðs í landinu.

Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktunartillaga um að kjörsókn á Íslandi yrði tekin sérstaklega saman eftir aldri. Sú skráning var framkvæmd í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningunum í vor þar sem kjörsókn var sú allra minnsta í lýðveldissögunni. Þær tölur sem teknar voru saman sýna óyggjandi að kjörsókn ungs fólks á Íslandi er langtum minni en annarra aldurshópa. Rétt rúmlega 40% einstaklinga á aldrinum 18–25 ára mættu á kjörstað, svo dæmi sé tekið.

Mikilvægt er að láta fylgja hér að stuðningur við æskulýðsfélög á Íslandi er af skornum skammti og hefur verið skorið niður í æskulýðsmálum mörg ár í röð. Æskulýðssjóður fjármagnar aðeins einstaka verkefni og eru veittar um 10 milljónir í sjóðinn ár hvert. Þess má geta að Evrópa unga fólksins, Erasmus+, hefur veitt um 350 milljónir í verkefni til ungs fólks og félagasamtaka á hverju ári undanfarin ár. Sjóðir sem þessir eru góðra gjalda verðir en góð verkefni verða aldrei eins sterk og þegar félög hafa efni á því að vera með starfsmann eða starfsmenn. Þótt sjálfboðaliðar séu mikilvægur partur af félagsstarfi er nokkuð ljóst að vilji æskulýðsfélög sinna skyldum sínum við umbjóðendur sína og byggja upp öflugt starf verður að vera rekstrargrundvöllur fyrir starfseminni.

Hæstv. forseti. Því spyr ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þessara þriggja spurninga:

1. Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir fyrirheitum stjórnarsáttmálans um aukna áherslu á æskulýðsstarf, t.d. í umræðu um fjárlög og framlög ríkisins til æskulýðsmála og æskulýðsfélaga?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að framlög ríkisins til æskulýðsfélaga verði aukin með það að sjónarmiði að tryggja rekstrargrundvöll þeirra?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknu jafnræði í stuðningi ríkisins við ólík æskulýðsfélög, sérstaklega með það í huga að tryggja rekstrargrundvöll smærri æskulýðsfélaga?



[19:45]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hyggst svara þessum þremur fyrirspurnum í þeirri röð sem þær voru bornar upp.

Í fyrsta lagi er það svo að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur á undanförnum árum átt mjög gott og farsælt samstarf við æskulýðsfélög og æskulýðssamtök og metur mikils hið óeigingjarna starf sem fjöldi sjálfboðaliða leggur fram. Meðal þess sem ráðuneytið hefur leitast við að gera á undanförnum árum er að halda í horfinu hvað varðar fjárveitingar til Æskulýðssjóðs sem hefur reynst æskulýðsfélögum vel bæði við minni og stærri verkefni. Þá hafa æskulýðslögin sem samþykkt voru á Alþingi árið 2007 komið starfinu vel, styrkt það og mótað um það ramma, m.a. um skyldur þeirra sem starfa með börnum og ungmennum, hvort sem það eru sjálfboðaliðar eða starfsmenn.

Ráðuneytið hefur jafnframt stuðlað að framgangi margra verkefna sem styðja innra starf félaganna. Má þar nefna útgáfu bókarinnar Verndum þau. Þar er að finna mikilvægt efni fyrir þá fjölmörgu sem vinna með börnum og ungmennum í æskulýðs-, félags- og tómstundastarfi um land allt.

Um 3 þús. manns hafa farið á námskeið í efni bókarinnar á um sex árum. Þá hefur ráðuneytið í samstarfi við Námsgagnastofnun og Evrópuráðið í Strassborg látið þýða og gefa út Kompás og Litla-kompás sem eru handbækur fyrir mismunandi aldurshópa barna og ungmenna um lýðræðis- og mannréttindafræðslu. Ráðuneytið hefur einnig lagt áherslu á að styðja æskulýðsfélögin í að koma á aðgerðaáætlunum gegn hvers konar ofbeldi og misrétti. Mörg æskulýðsfélög og æskulýðssamtök hafa sett sér siðareglur og komið upp fagráðum og við þau verkefni hefur ráðuneytið lagt þeim lið sem og Æskulýðssjóður. Ráðuneytið hefur auk þess unnið með Heimili og skóla, Landssambandi æskulýðsfélaga, Æskulýðsvettvanginum, Félagi fagfólks í frítímaþjónustu og Samfés að verkefnum gegn hatursorðræðu á netmiðlum. Allt eru þetta samtök sjálfboðaliða sem vinna með og fyrir börn og ungmenni.

Á föstudaginn var hitti ég um 40 ungmenni úr ýmsum ungmennaráðum sem komu í ráðuneytið og ræddu um þannig orðræðu eins og ég nefndi og hvað hægt væri að gera til að koma í veg fyrir hana eða að minnsta kosti draga úr henni. Einnig ræddu þau um læsi og einelti.

Við 2. spurningunni er þetta svar: Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt um hafa því miður ekki verið tök á að auka framlög til fjölmargra málaflokka frá hruni íslensku bankanna. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að hlífa æskulýðsstarfi við niðurskurði þótt ekki hafi það tekist fullkomlega þar sem niðurskurðarkrafa hefur verið mikil á ráðuneytið á undanförnum árum. Vissulega er mikilvægt að auka framlög og mun ég beita mér fyrir því um leið og færi gefst.

Alþingi styður við heildarsamtök æskulýðsfélaga með fjárframlögum í því skyni að efla þau og tryggja að þau geti unnið að þeim málum sem þau voru stofnuð til að sinna. Þá hefur ráðuneytið gert samninga við stærri æskulýðssamtökin sem starfa á landsvísu sem hafa fengið framlög á fjárlögum. Ráðuneytið þekkir því vel til stöðu þeirra og að þörf er fyrir meira fjármagn til verkefna þeirra. Þá hefur ráðuneytið lagt Landssambandi æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangnum til fjárframlag af safnlið ráðuneytisins og gert við þau samning.

Svar við 3. spurningunni er að þá er til að taka að ráðuneytið styður nú þegar heildarsamtök á sviði æskulýðsmála. Þar sem sveitarfélögin styðja þó ekki beint æskulýðsfélög í hverju sveitarfélagi fyrir sig er það hlutverk sveitarfélagsins þar sem viðkomandi æskulýðsfélag starfar. Æskulýðssjóður var settur á fót með lögum til að styðja verkefni einstakra æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka og hefur sá sjóður verið grundvöllur að starfi margra minni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka vítt og breitt um landið. Hlutverk heildarsamtaka er síðan að styðja við og þjónusta viðkomandi aðildarfélög.

Sem ráðherra þessa málaflokks mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því að hér ríki sem mest jafnræði milli samtakanna. Jafnræði þýðir hins vegar ekki endilega að allir þurfi að fá jafn mikið framlag af fjárlögum hvers árs hverju sinni.



[19:48]
Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þessi svör. Eins og ljóst má vera af svörum hans eru yfirvöld að vinna gott starf með æskulýðsfélögunum. Það er samt sem áður mikill uggur í þeim sem fara með þessi mál og þess vegna báðu þeir mig um að vinna þessa fyrirspurn fyrir sig.

Ef maður skoðar fjárveitingar í þennan málaflokk frá fjárlögum 2007 var árið 2007 198 milljónum varið til æskulýðsmála. Árið 2008, hrunárið, voru það 243 milljónir og eins 2009 voru það 227 milljónir. Síðan hefur þetta markvisst farið niður á við og er á næsta ári 175 milljónir. Ef við lítum til þess sem gerst hefur hér á landinu síðustu sjö árin, t.d. að verðlag hefur hækkað og laun líka og svo hefur krónan misst næstum helming af verðgildi sínu, er hægt að segja að eiginlega sé búið að skera þennan málaflokk niður á síðustu árum um helming. Féð dugir engan veginn til að halda þessu starfi á þeim stalli sem við viljum hafa það.

Þetta er sorgleg þróun. Það er afar mikilvægt að við styðjum við bakið á æskulýðsfélögum landsins. Í gegnum þau læra einstaklingar að vera þátttakendur í lýðræðissamfélagi, læra að móta sér skoðanir á málefnum og þannig fer fram mikil valdefling fyrir ungt fólk og aðkomu þess að samfélaginu. Í gegnum þátttöku í slíku starfi fer einnig fram mikilvæg vinna við að koma skoðunum ungs fólks á framfæri og í brennidepil. Með því að vinna ekki ötullega að því að viðhalda starfsemi þeirra með virkri styrkingu vinnum við gegn því að æska landsins verði virkur þátttakandi í því samfélagi sem við stöndum öll fyrir, leyfi ég mér að fullyrða. Enda kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingunni að æskulýðsstarf hvers konar þroski einstaklinginn og hafi mikið forvarnagildi.

Þess vegna verðum við að leggja enn meiri áherslu á þetta og forgangsraða kannski frekar í fjárlögum.



[19:50]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Augljóst er að við erum sammála um mikilvægi þeirrar starfsemi sem hér um ræðir og nauðsyn þess að á komandi árum verði reynt hvað hægt er að bæta fjármunum til þessa starfs. Þó verður að hafa í huga að við þurfum að forgangsraða og á sama tíma og við stöndum frammi fyrir þessu vandamáli vil ég minna hv. þingmann á að við stöndum líka frammi fyrir því vandamáli að fjármunir sem renna til dæmis til framhaldsskólans eru allt of litlir. Við erum enn vel fyrir neðan önnur ríki OECD að meðaltali þegar kemur að fjármunum til þess skólastigs. Við erum líka með allt of litla fjármuni í háskólastigið, eins og ég ræddi um við hv. þm. Árna Pál Árnason. Það er alveg augljóst að það þarf að forgangsraða.

Á sama tíma eru líka uppi miklar kröfur um aukin framlög til kvikmyndagerðar, til annarrar menningarstarfsemi í landinu o.s.frv. Allt eru þetta góð verkefni. Við erum aftur á móti bundin af stöðu ríkisfjármála og þess vegna vonumst við til þess og væntum að hér eflist almannahagur og að hagkerfið taki vel og myndarlega við sér þannig að tekjur ríkissjóðs aukist og þar með séum við í betri færum til að sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem við hv. þingmaður erum sammála um að við þurfum að gera og getum gert betur.