144. löggjafarþing — 113. fundur
 27. maí 2015.
ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn, síðari umræða.
stjtill., 632. mál (hugverkaréttindi, EES-reglur). — Þskj. 1088, nál. 1241.

[12:41]
Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn sem varðar hugverkaréttindi.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk til sín sérfræðinga frá utanríkisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Eins og segir í nefndarálitinu er með tillögunni leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á þeim viðauka sem um hugverkaréttindi fjallar, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum svonefndum. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 25. ágúst 2015. Að mati nefndarinnar telst framsetning tillögunnar í samræmi við ákvæði reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipunin kveður á um tiltekna leyfilega notkun á verkum sem njóta höfundaréttar þegar höfundur þeirra er óþekktur eða ekki er vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar til nota verkanna. Markmið hennar er að gera menningarstofnunum Evrópuríkja kleift að gera stafræn eintök af munaðarlausum verkum til að tryggja að ekki sé gloppa í menningararfi Evrópu í stafrænu formi. Tilskipunin hefur að geyma skilgreiningu á því hvað teljist munaðarlaus verk og hvernig skuli staðið að ítarlegri leit að rétthöfum áður en hægt er að ákvarða verk munaðarlaus. Þá er kveðið á um gagnkvæma viðurkenningu milli ríkja á slíkri ákvörðun og það hvernig rétthafar geti bundið enda á þá skilgreiningu. Tilskipunin tekur til almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna, varðveislustofnana kvikmynda og hljóðrita, ásamt útvarpsstöðvum sem veita opinbera þjónustu. Not umræddra verka eru einungis heimil ef þau eru vegna markmiða viðkomandi stofnunar sem varða hlutverk hennar í almannaþágu. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, og hefur mennta- og menningarmálaráðherra þegar lagt fram slíkt breytingalagafrumvarp, samanber 701. mál. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram almenn ánægja með tillöguna enda væri þörf á slíkum heimildum til að nýta munaðarlaus höfundarverk í almannaþágu.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálit þetta rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Vilhjálmur Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Katrín Jakobsdóttir og Óttarr Proppé.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.



[12:44]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir framsöguna fyrir áliti nefndarinnar í þessu máli. Ég veit nú svo sem ekki hvort mér geðjist að orðanotkuninni „munaðarlaus“ um dauða hluti eins og höfundarverk. Það getur auðvitað verið mikilvægt að geta nýtt höfundarverk og fjölmörg dæmi um það að menn séu óstaðsettir í hús sem eiga höfundarétt að verkum.

Ég vildi fyrst og fremst spyrja hv. þingmann hvort farið hafi verið yfir tengsl málsins við þau frumvörp sem hafa komið fram af hálfu menntamálaráðherra, nú þrjú undir þinglokin væntanlega löngu eftir að þetta mál var komið í meðferð nefndar, og hvort þau tengist með einhverjum hætti eða hafi áhrif hvert á annað, þessi gerð og síðan þau þrjú frumvörp sem menntamálaráðherra lagði hér fram fyrir örfáum vikum og ég veit að eru enn óafgreidd í þeirri nefnd sem er með þau til meðhöndlunar. Ég vildi bara fullvissa mig um að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gjöra.



[12:45]
Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og kemur fram í nefndarálitinu felur þessi þingsályktunartillaga í sér að aflétt er stjórnskipulegum fyrirvara vegna lagabreytinga sem fyrirhugaðar eru. Í nefndarálitinu er sérstaklega vísað til þess lagafrumvarps sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram og er mál nr. 701 á þessu þingi og á að innleiða í íslenska löggjöf lagaákvæði í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar. Við í utanríkismálanefnd skoðum ekki lagafrumvörpin sérstaklega, heldur er það verkefni hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Við höfum hins vegar enga ástæðu til að ætla annað en að það frumvarp sem lagt var fram af hálfu ráðherra sé fyllilega til þess fallið að innleiða með réttum hætti þau ákvæði sem nauðsynlegt er á grundvelli upptöku þessarar gerðar í EES-samninginn.



[12:47]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör. Ég vil þó í síðara andsvari mínu víkja nokkuð að efnisinnihaldi málsins og inna hv. þingmann eftir öðrum annmörkum sem kynnu að vera á innleiðingunni. Þá er ég kannski þar sérstaklega að líta til þess hvort ákvæði stjórnarskrárinnar íslensku um friðhelgi einkaeignarréttarins, sem eru jú fortakslausari en almennt er um einkaeignarréttarákvæði í stjórnskipunarrétti, hvort þau geti hér komið til álita ef verið er að takmarka með einhverjum hætti réttindi eigenda höfundarverkanna eða í raun og veru víkja frá því að samþykki þurfi frá eigendum höfundaréttarins fyrir því að nota höfundarverkin, hvort hann telji að menn þurfi að skoða eitthvað sérstaklega einkaeignarréttarsjónarmið í íslenskum rétti við meðferð lagafrumvarpsins.



[12:48]
Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur í þeim efnum, á stjórnskipulegum þætti þessa máls, enda algjörlega ljóst að ef um réttindi er að ræða sem varin eru af einkaeignarrétti þá gildir sá réttur alltaf framar þeim rétti sem fjallað er um í þessu máli.