144. löggjafarþing — 138. fundur
 29. júní 2015.
niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, 2. umræða.
stjfrv., 698. mál (full niðurgreiðsla vegna flutnings og dreifingar). — Þskj. 1172, nál. m. brtt. 1359.

[16:20]
Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, með síðari breytingum frá atvinnuveganefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Grundarfjarðarbæ, Orkubúi Vestfjarða, Rúnari Lárussyni, Samorku, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum.

Með frumvarpinu er lagt til að lokið verði við að innleiða breytingar sem starfshópur þáverandi iðnaðarráðuneytis lagði til í skýrslu frá desember 2011. Vinna starfshópsins hófst í kjölfar samþykktar ríkisstjórnarinnar 5. apríl 2011 um að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna kostnað við húshitun. Nokkrar tillögur starfshópsins hafa þegar komið til framkvæmda. Lagt er til að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma.

Við meðferð málsins kom fram það viðhorf að einnig bæri að niðurgreiða kostnað við hitun opinberra bygginga á köldum svæðum. Nefndin bendir á að kostnaður við slíka breytingu hafi ekki verið metinn nákvæmlega en gróflega áætlað er hann talinn geta numið allt að tvöföldum kostnaði við niðurgreiðslur samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum.

Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu sem felst í því að breyta orðinu ,,olía“ í „eldsneyti“ á tveimur stöðum til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem fram kemur hér á skjalinu.

Undir nefndarálit þetta rita hv. þingmenn Kristján L. Möller, framsögumaður, Jón Gunnarsson, formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Róbert Marshall, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.



[16:22]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að segja nokkur orð varðandi málið sem er hér á ferðinni og það nefndarálit sem hefur verið mælt fyrir og gerð var ágæt grein fyrir. Nú er verið að ræða um að leggja til að flutningur á dreifingu raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreiddur að fullu hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma og er það gott mál. Enn sem komið er erum við samt langt í frá komin á þann stað að það sé sami orkukostnaður um allt land. Mörg svæði eru enn með mjög háan húshitunarkostnað og rafmagnskostnað og eiga langt í land. Úr því verður auðvitað að bæta og jafna. Menn verða að stíga stærri skref í þeim efnum.

Í nefndarálitinu kemur fram að sú vinna hófst í kjölfar samþykktar fyrri ríkisstjórnar, þ.e. á síðasta kjörtímabili, 5. apríl 2011, þar sem unnið var með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og leitað leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum. Þá komu fram mjög góðar tillögur frá starfshópi og hefur þeim að hluta til verið hrint í framkvæmd.

En eins og ég segi þá er samt langt í land svo að hægt sé að segja að búið sé að jafna orkukostnað milli landsmanna. Ég vil í því samhengi nefna að niðurfelling á orkuskatti var 1,5 milljarðar, sem ríkisstjórnin ákvað að gera gagnvart stórfyrirtækjum frá og með næstu áramótum. Ef menn hefðu haldið áfram og nýtt þann möguleika að leggja orkuskatt áfram á stórfyrirtæki þá hefði verið ýmislegt hægt að gera fyrir þá fjármuni, 1,5 milljarða. Ég tel mjög eðlilegt að stórfyrirtæki í landinu komi að því verkefni að jafna orkukostnað meðal landsmanna. Ég tel það vera eðlilegt og falla undir samfélagslega ábyrgð að gera það.

Hér er komið inn á að það eigi að jafna kostnað á upphitun á opinberum byggingum á köldum svæðum, að það eigi að skoða það að niðurgreiða þann kostnað. Ég tek undir það og get nefnt sem dæmi að stór skólabygging eins og Núpur í Dýrafirði, sem þjónaði því hlutverki á sínum tíma, er núna leigð út frá hinu opinbera til einkaaðila sem nýta húsnæðið fyrir gistirekstur, hótel á sumrin. Það háir þeim aðilum hve gífurlega hár orkukostnaðurinn er á því húsnæði. Sambærileg dæmi eru örugglega til vítt og breitt um landið á köldum svæðum. Ég tel því algjörlega tímabært að sú jöfnun sem áfram er unnið að á köldum svæðum nái líka til slíkra opinberra bygginga sem hefur stundum verið mjög erfitt að koma í nýtingu eftir að þær hafa þjónað sínu hlutverki vegna þess að það er svo dýrt að reka þær ef menn ætla sér til dæmis að nýta húsnæðið undir ferðaþjónustu.

Þetta er nú það sem ég vildi koma að í þessu máli. Við erum á góðri leið, en þurfum að ganga miklu öruggari skrefum í þá átt að ljúka jöfnun orkukostnaðar meðal allra landsmanna og til þess þurfum við fjármuni. Ríkisvaldið verður að sýna viljann í verki með því að skattleggja þá sem geta lagt sitt af mörkum í þessa jöfnun, eins og stórfyrirtækin, og líka með framlögum á fjárlögum hvers árs.