145. löggjafarþing — 8. fundur.
aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks, fyrri umræða.
þáltill. SII o.fl., 9. mál. — Þskj. 9.

[14:36]
Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Bjartrar framtíðar og Pírata, liðlega 20 þingmanna alls, hygg ég, en 1. flutningsmaður málsins er hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem getur því miður ekki verið með okkur í dag til að fylgja málinu úr hlaði sökum veikinda. Hún bað mig þess vegna um að mæla fyrir málinu í fjarveru sinni til að hún mundi ekki með nokkrum hætti að tefja fyrir framgangi málsins. Ég hygg að það sé það sem flutningsmenn eiga fyrst og fremst sameiginlegt og markmiðið með tillöguflutningnum er auðvitað fyrst og fremst að kalla eftir því að við tvínónum ekki við að taka stórar ákvarðanir um ábyrgð okkar og skyldur í móttöku flóttamanna á þessum fordæmalausu tímum. Hæstv. innanríkisráðherra sagði hér í morgun að það væri kannski ekki rétt að kalla þetta flóttamannavanda heldur væri nær að tala hér um þjóðflutninga í ljósi þess gríðarlega fjölda sem nú er á flótta í Evrópu og raunar um heim allan.

Hér er gert ráð fyrir að við tökum tafarlaust þá ákvörðun að hér verði boðin vist fyrir kvótaflóttamenn í samráði við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, 500 talsins á næstu þremur árum, 100 nú þegar á þessu ári og síðan boðin dvöl fyrir 200 á næsta ári og 200 árið þar á eftir, sem okkar hlut í því að takast á við þennan vanda. Auðvitað er það aðeins hluti þeirra aðgerða sem við þurfum að taka þátt í en í nokkuð góðu samræmi við það sem aðrar þjóðir ákveða hér í kringum okkur. Í morgun ákvað Evrópuþingið að taka við 120 þúsund manns. Norðmenn hafa ákveðið að taka við 8.000 manns til viðbótar við það sem þeir höfðu þegar ákveðið og hér hafa fjölmargar þjóðir tekið stórar ákvarðanir um að leggja sitt af mörkum. Auðvitað munu 500 manns ekki ríða baggamuninn í þeim gríðarlega vanda sem við er að etja og eflaust má nefna ýmsar tölur, bæði hærri og lægri um það sem rétt væri að taka á móti, en ég hygg að það sé nokkuð óumdeilt, a.m.k. af hálfu þeirra sem vinna við þessi mál, að við eigum að geta tekið vel á móti flóttamönnum í hundraðatali.

Þegar við nú vitum það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða. Það þarf ekki að skipa fleiri nefndir eða halda fleiri fundi. Við getum einfaldlega tekið ákvörðun um að taka við flóttamönnum í hundraðatali og bregðast við núna því að þetta eru algerlega fordæmalausar aðstæður.

Á síðasta ári einu jókst sá fjöldi flóttamanna sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna þurfti að hafa afskipti af, úr liðlega 40 milljónum í 50 milljónir — á einu einasta ári. Flóttamönnum fjölgaði um 13 milljónir á 12 mánuðum, meira en 1 milljón manna í hverjum einasta mánuði allt síðasta ár, fleira fólk á hverjum einasta degi missti en býr í næststærstu bæjum landsins, bæjum eins og Akureyri, Hafnarfirði eða Kópavogi, heimili sín og var á vergangi á hverjum einasta degi, þannig að vandinn er gríðarlegur, hann er aðkallandi og hann er núna. Það er hátt í það að vera íbúafjöldi Íslands, íslenska þjóðin í heild sinni, sem flýr yfir Miðjarðarhafið á hverju ári.

Þess vegna kalla flutningsmenn þessarar tillögu eftir því að við tökum ákvörðun í samvinnu við Flóttamannahjálpina — sem hefur auðvitað víðtæka reynslu af þessum verkefnum í samstarfi við þær stofnanir hér innan lands sem búa yfir þekkingu til að taka á móti flóttamönnum í samvinnu við aðra góða aðila — en setjum um leið af stað vinnu við að hér sé ekki bara til skammtímaáætlun eins og þessi heldur sé til áætlun sem verði unnin og lögð fram í þinginu og gildi frá árinu 2018 og eftirleiðis sem tryggi það að við tökum við flóttamönnum í samræmi við fjölda okkar og efnahagslegan styrk. Sú vinna fari fram samhliða þessu. Auk móttöku þessara kvótaflóttamanna leggjum við áherslu á að greiða fyrir fjölskyldusameiningum þeirra Sýrlendinga sem þegar eru hér með því að auka verulega heimildir til þess að stuðla að fjölskyldusameiningum og gefa ættmennum þeirra kost á því að koma hingað og einnig að í þessari vinnu allri verði haldið til haga þeim áherslum sem Ísland hefur haft í starfi með flóttamönnum. Við leggjum mikið upp úr því að þar sé hugað að hópum sem hafa sérstöðu og sem gæta þarf að sérstaklega, t.d. hópum kvenna sem höllum fæti standa, svo sem einstæðum mæðrum, hinsegin fólki og öðrum hópum sem geta í löndum sínum eða heimshluta átt á brattann að sækja sökum fordóma eða skorts á mannréttindum umfram það sem þegar í því felst að vera flóttamenn.

Við höfum rætt málefni flóttamanna ítrekað hér, bæði í vor og einnig nú á haustinu. Ég hygg að mikill samhljómur sé í öllum stjórnmálaflokkum hér á Alþingi um að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða. Við fögnum því að ríkisstjórnin boðar að hún hyggist taka einhverjar ákvarðanir á morgun. Við vonum að þessi tillöguflutningur hafi verið hluti af þeim þrýstingi sem mikilvægt var að hafa uppi á því að menn kæmu þegar fram með úrlausnir. Ég vænti þess að þær tillögur séu í þeim anda sem er að finna í þessari þingsályktunartillögu í því umfangi sem gert er ráð fyrir, 500 flóttamenn strax og síðan áætlun til lengri tíma um það hvernig við ætlum að standa við okkar hlut í þessum málum. Kannski verður þingsályktunartillagan óþörf eftir ríkisstjórnarfundinn á morgun, en þangað til er full ástæða til að málið fái hér góða umræðu í dag en gangi síðan þegar til nefndar og að nefndin sé ekki að tvínóna við þetta verkefni heldur vindi bráðan bug að því að fá gesti að málinu og afgreiði það þegar í stað aftur hingað inn í þingsal svo ljúka megi ákvarðanatöku í málinu. Fyrir okkur í þessum sal er ekki eftir neinu að bíða en fyrir fólkið sem er á flótta er eftir miklu að bíða.



[14:45]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál 22 þingmanna úr stjórnarandstöðuflokkunum sem flutt er sameiginlega undir forustu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Málið er gríðarlega mikilvægt í þeim vanda sem við okkur blasir og við höfum verið að tala um á síðastliðnum dögum, vikum og missirum. Málið er þess eðlis að ég tel að það þurfi að fá mjög hraða meðferð í gegnum þingið.

Málið varð til á síðasta þingi en tekin var ákvörðun um að leggja það fram núna, þannig að það er ekki nýtt af nálinni, enda svo sem orðið ljóst fyrir þó nokkru síðan í hvað stefndi. Við erum að horfa á fordæmalausar og skelfilegar aðstæður núna í málefnum flóttamanna sem við þekkjum öll vel.

Ég held reyndar að umræðan hafi tekið töluverðum breytingum sem merkja má af máli innanríkisráðherra í morgun þegar hún sagði réttilega að við værum ekki lengur að tala um einhvern hefðbundinn flóttamannavanda, við erum að tala um þjóðflutninga. Það er aðkallandi vandi þegar fólk streymir núna í örvæntingu sinni yfir Miðjarðarhafið og til Evrópu vegna þess að aðstæður heima fyrir eru algerlega óbærilegar. Ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur sárnað það að talsmenn Íslands út á við skuli á undanförnum dögum hafi aðallega verið að láta það fara í taugarnar á sér hvort og hvernig Evrópusambandið segði okkur til um það hve miklum fjölda við ættum að taka á móti. Mér finnst þetta ekki rétti tíminn eða málefni til að fara í einhverja sjálfstæðisbaráttu gagnvart Evrópusambandinu þegar við erum að taka á móti Evrópulöggjöf hér nánast á hverjum degi, sem við mættum oft leggja okkur meira fram um að gera breytingar á. Það er ekki þannig að mínu mati þegar svona stórfenglegur mannlegur harmleikur á sér stað að við tökum þá það mál til að sýna að við getum staðið á okkar eigin fótum. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að menn komi sér saman um að takast sameiginlega á við risamál eins og þetta þar sem mannslíf er undir.

Ég hef líka verið verulega ósátt við það með hvaða hætti forsætisráðherra hefur nálgast þetta mál vegna þess að mér finnst eins og hann hafi verið að gefa í skyn að þeir sem flýja yfir Miðjarðarhafið og koma inn til Evrópu séu hópur sem við ættum ekkert sérstaklega að horfa til vegna þess að þeir hafi komið í skjóli einhverra glæpasamtaka og það eigi ekki að umbuna þeim sérstaklega fyrir það. Við erum ekki að tala um neitt normalástand. Við erum að tala um meiri háttar neyð þjóða, þá getum við ekki leyft okkur að tala með þeim hætti. Þeir sem koma yfir til Evrópu eru vissulega þeir sem hafa bestu líkamlegu burði til þess, ekki alltaf en oft, og þá eru þeir oft undanfarar, þ.e. þeir fara frá fjölskyldum sínum, ákveðið er að fjármagna einn til að fara en síðan komi fjölskyldan. Við verðum líka að horfa til fjölskyldusameiningar, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi áðan. Við megum ekki skipta þessu fólki upp í einhverja flokka, að það sé betri eða verri flóttamenn en aðrir. Við þurfum að horfa á þá alla eins. Neyðin er öll sú sama og þetta fólk er allt saman með fjölskyldur, með tengsl og með sama rétt til að leita sér hjálpar. Við þurfum frekar að horfa til þess að þeir sem ná að komast til Evrópu eru vissulega sterkir. Þeir eru vissulega með líkamlega burði til þess, en án efa í flestum tilfellum eru þeir að koma á undan fjölskyldum sínum, þeir hafa þurft að skilja fjölskyldu sína eftir heima við sem þeir ætla að sameinast síðar. Það er þetta sem við verðum að horfa á.

Mér hefur þótt sú umræða ofboðslega erfið að með því að taka á móti flóttamönnum þá sé verið að taka eitthvað frá öðrum. Við megum undir engum kringumstæðum stilla málinu þannig upp. Það að taka á móti flóttamönnum lækkar ekki kjör eða veldur því að kjör annarra hópa hér í landinu versni. Það er ekki þannig. Ég veit ekki betur en rannsóknir sýni það meira og minna að þeir sem koma nýir og setjast að í nýju landi — þó að einhver kostnaður fylgi því til að byrja með þá skilar það sér mjög fljótlega til baka til samfélagsins. Umfjöllun er um þetta í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þar sem dregnar eru saman rannsóknir sem sýna að það hafi jákvæð efnahagsleg áhrif að taka á móti hópum fólks hingað og það er vel rökstutt, þannig að menn þurfa ekki og eiga ekki og mega ekki óttast þetta.

Ég held að komin sé mjög góð þverpólitísk samstaða um þetta mál og um það að við þurfum að leggja okkar af mörkum. Þess vegna hef ég undrast það hvers vegna ríkisstjórnin er svona lengi að lýsa því yfir opinberlega að við ætlum að taka á móti flóttamönnum. Rauði krossinn hefur sagt að við séum tilbúin til þess, á annan tug sveitarfélaga hafa sagt að þau séu tilbúin til þess, þannig að ekki vantar yfirlýsingarnar um það. Við vitum líka mætavel að innviðir okkar eru sterkir og við getum vel gert þetta.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með umræðuna í morgun þegar ég átti orðastað við félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún stóð hérna og talaði eins og það væri hægt að bera ástandið núna saman við ástandið á síðasta kjörtímabili, þegar við vitum að fjölgunin í hópi flóttamanna hefur orðið gríðarleg á undanförnum tveimur árum, og eins og innanríkisráðherra bara leiðrétti hana hér í annarri fyrirspurn, að við erum ekki lengur að tala um flóttamannavanda heldur þjóðflutninga. Ég trúi því ekki að við séum með félagsmálaráðherra í landinu sem sér þetta ekki, heldur er hún enn að telja hausa og bera saman, að það sé nú svona smotterí, sú hlutfallslega aukning núna frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að við stöndum núna frammi fyrir fordæmalausu ástandi, ástandi sem við verðum að grípa inn í og taka þátt í að bæta og við verðum að leggja okkar af mörkum.

Ég vona að okkur takist að ná saman um þessa þingsályktunartillögu vegna þess að hún er algert lágmark í því sem við eigum að leggja af mörkum. Og ef okkur tekst að gera meira í þeirri vinnu sem fram undan er, þá er það eitthvað sem væri líka enn betra. En þetta er algert lágmark og við eigum að geta náð saman um það að taka á móti 500 manns eins og lagt er til í tillögunni.

Ég vil enn og aftur setja það saman í samhengi í mínu nánasta umhverfi. Í blokkarlengjunni sem ég bý í búa rétt tæplega 500 manns. Það er ekki meira en það, verkefnið er ekki stærra. Þetta er svona kannski rétt rúmlega fjöldi íbúa í blokkarlengjunni minni. Við skulum sýna hvað í okkur býr, Íslendingar, og samþykkjum þessa tillögu. Ríkisstjórnin er með stuðning frá þinginu og skýra yfirlýsingu um það hvað henni beri að gera á komandi árum og greinum það þá líka betur í vinnunni hvort við getum ekki jafnvel tekið á móti fleirum og búum okkur þá til einhver viðmið í því með hvaða hætti við tökum ákvörðun um fjölda hverju sinni þannig að þetta verði hluti af stefnumörkun til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja að ég vona innilega að ríkisstjórnin muni koma með tilkynningu á morgun um það að hún ætli að taka á móti myndarlegum hópi flóttamanna. Þó að við séum fá þá erum við samt sem áður með sterka innviði og við erum ein af ríkustu þjóðum í heimi og hópur af flóttamönnum á eingöngu eftir, til lengri tíma litið, að auka samfélag okkar að svo mörgu leyti, ekki bara efnahagslega heldur líka menningarlega og styrkja okkur til lengri tíma. Þar að auki er það þannig að í gegnum söguna hafa orðið svona stórir atburðir og þá er það skylda hverrar þjóðar að grípa inn í. Eða ætlum við að skilja það eftir í sögunni að við höfum ekki gert neitt í þessu fordæmalausa ástandi? Ég trúi því ekki og það væri Íslandi til skammar.



[14:56]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eðli málsins samkvæmt hafa málefni flóttafólks tekið mikinn tíma í umræðu í samfélaginu og sem betur fer. Það er nefnilega eins og hér hefur ítrekað komið fram mikil ábyrgð sem fylgir því að takast ekki á við það verkefni sem fylgir þessum gríðarlegu þjóðflutningum, þetta er orðinn ótrúlega mikill fjöldi fólks. Til að draga þetta fram í nærumhverfið þá er það svo að þegar þessi tillaga var smíðuð og lögð fram höfðu í kringum 2.500 manns látið lífið við það að reyna að koma sér yfir Miðjarðarhafið og sú tala fer hækkandi. Í samhenginu þá er þetta kannski eins og sveitarfélagið mitt, Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Ef fólk bara staldrar aðeins við og veltir þessu fyrir sér, það er jafn margt fólk og kannski fleira sem hefur látið lífið við það að reyna að bjarga sér og börnum sínum og samsvarar íbúatölum á þessu svæði.

Ég tek undir það sem hér kom fram að mér þykir sú umræða afar veik þegar talað er um að við höfum ekki innviði til að takast á við að hjálpa fólki sem er að berjast fyrir lífi sínu, koma sér í skjól undan stríðsátökum, upplausn og stjórnleysi, forða börnum sínum sem verða jafnvel viðskila við foreldra sína og lenda í klónum á misindismönnum. Við megum ekki fara á þann stað að bera þetta saman, að við getum ekki tekið á móti fólki við þessar aðstæður vegna þess að kerfið okkar hér heima sé ekki nógu gott. Það er vissulega margt fólk sem þarf að bíða eftir þjónustu, því miður, í velferðarkerfinu okkar, eftir heilbrigðisþjónustu og öðru og ég ætla ekki að draga úr því að það er óþolandi og það er hægt að bæta. Það snýst líka um forgangsröðun fjármuna, að mínu viti snýst það fyrst og fremst um forgangsröðun fjármuna. Það er auðvitað við þessa ríkisstjórn að eiga hvað það varðar. En að bera þetta saman og segja að við þurfum fyrst að huga að því áður en við getum tekið á móti fólki finnst mér ekki ásættanlegt. Ég segi við það fólk sem á um sárt að binda hér heima: þetta hefur ekkert með það að gera að það eigi ekki rétt á betri aðbúnaði eða betri kjörum eða öðru því sem það þarf á að halda, það er hægt að gera það líka.

Þeir sem standa í þessum sporum eru ekki í þeim sjálfviljugir. Þetta er fólk sem býr við það ástand að það getur ekki verið heima hjá sér. Í þessari tillögu erum við að tala um kvótaflóttamenn og við erum að tala um sárafáa, 500. Ég hef ekki viljað festa mig í einhverri tölu en við getum dregið fram það sem hér var sagt, þetta er ein blokk hér í borginni. Við erum að tala um að þetta dreifist á sveitarfélög landsins. Sumir hafa efasemdir um það. Ég hef þær ekki. Ég tel að við eigum að dreifa fólki um samfélagið okkar. Við höfum öll gott af því að takast á við þetta verkefni. Ég bý í sveitarfélagi þar sem kom fólk frá Serbíu og Króatíu fyrir margt löngu, hefur að vísu tekið sig upp og flutt þaðan núna. Á Siglufirði býr töluvert af fólki sem kom einmitt sem innflytjendur og í leit að betra lífi þannig að ég held að hvert sveitarfélag sem tekur á móti fjölskyldum eða einstaklingum þurfi ekki að óttast það eða íbúar þess að þjónusta eða annað skerðist eitthvað gagnvart þeim sem fyrir eru vegna þess að við bætum við okkur fólki sem við getum lært af, það getur kennt okkur svo margt og styrkir líka íbúaflóruna.

Ég hvet fólk til að fara inn á síðu Rauða krossins og sjá hvað verið er að gera. Það er líka verið að reyna að aðstoða á vettvangi eins og við sáum svo eftirminnilega í umfjöllun Kastljóss og ég segi aftur, ég er búin að segja það áður í þessari pontu, ég hvet fólk til að horfa á þann þátt hafi það ekki gert það því þar var farið ótrúlega vel ofan í þetta. Átakanlegt en upplýsandi. Ég tek undir það að við eigum að drífa í þessu, gera þetta núna. Það er óþarfi að bíða. Við erum alltaf að setja mál í nefndir. Við getum tekið á móti þessum hópi sem hér er nefndur, 500 manns, leikandi létt án þess að þurfa að vera búin að negla niður allt um það hvernig hlutirnir eiga að vera.

Það er nefnilega oft þannig að þegar fólk er búið að lenda í svona gríðarlegum áföllum eins og fylgir því að vera á flótta að það er ekkert tilbúið til að leysa úr öllum sínum sálrænu vandamálum strax. Það er fyrst og fremst að hugsa um að komast í öruggt skjól, fá þak yfir höfuðið, hafa hreint vatn til að drekka, geta baðað sig og borðað og það vill taka þátt í samfélaginu með því að fara í vinnu. Þetta er eitt af því sem við höfum heyrt undanfarið af því fólki sem hefur komið hingað til lands. Þetta er það sem það vill gera. Svo vill það auðvitað fara heim til sín aftur. Flest viljum við nefnilega gera það, við viljum flest vera þar sem við þekkjum best til, kunnum vel við okkur. Umræðan hefur allt of mikið verið á þann veg að fólk sem hingað komi lendi einvörðungu á kerfinu og taki þar af leiðandi frá öðrum þannig að ég bið ykkur, kæra þjóð, og þá sem þannig hugsa að skoða málið svolítið betur.

Virðulegi forseti. Ég þarf kannski ekki að ræða þetta mál neitt frekar. Ég er í sjálfu sér ánægð með viðhorf innanríkisráðherra, mér finnst hún taka yfirvegað á þessum málum. Ég er ekki endilega sammála henni í öllu því sem hún hefur sagt um þessi mál en mér sýnist hún samt sem áður hafa aukinn vilja til að bæta úr og reyna að gera það hraðar. Hún hefur líka talað um að auka fjölskyldusameiningu og ég tel að það sé mikilvægt. Við erum með fólk hér á landi sem hefur komið til okkar en fjölskylda þeirra er enn þá á heimaslóðum. Það er mikilvægt að fjölskyldusameiningar eigi sér stað og þær verði ekki einskorðaðar við einstæðar mæður eða tiltekna hópa. Það eru miklu meiri líkur á því að fólk nái fótfestu og geti endurreist líf sitt ef það hefur fleiri úr fjölskyldunni eða vinahóp hér sem fá að koma hingað til lands og vera samferða. Ef við viljum flýta fyrir því að fólk verði virkt í samfélaginu þá held ég að við þurfum að huga að þessu þegar við veljum það fólk sem til okkar kemur.

Ég vona að ríkisstjórnin fari að drífa í málum og hún hefur strax tækifæri með fjölskyldusameiningunni fyrir þá sem nú þegar eru hér, það er eitthvað sem hægt væri að gera strax í dag. Ég bind vonir eins og fleiri við það að ríkisstjórnin hætti að hugsa og tala um þessi mál heldur láti verkin tala og á morgun verði fyrsta frétt, helst í kvöld en að fyrsta frétt í fyrramálið sem við heyrum verði sú að verkið sé hafið. Það held ég að gefi stórum hluta þjóðarinnar tilefni til að gleðjast. Það hafa margir boðið sig fram til að taka þátt í þessu stóra verkefni. Einstaklingar og fjölskyldur hafa boðist til að taka að sér munaðarlaus börn og fólk gerir það ekki út í bláinn. Fólki er alvara því þetta er auðvitað stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir og því miður er þetta vandamál af manna völdum, bæði þegar kemur að stríðsátökunum og þegar kemur að loftslagsbreytingum sem valda því að ástandið er víða eins og það er.



[15:06]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aukinn stuðning við móttöku flóttafólks. Ég er einmitt einn af meðflutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu sem gengur í meginatriðum út á það að Alþingi feli ríkisstjórninni að hefja þegar í stað undirbúning að móttöku flóttamanna, þ.e. kvótaflóttafólks.

Í þessari tillögu er lagt til að hér verði tekið á móti 500 manns á næstu þremur árum. Ég vil í upphafi segja að mér finnst hér vera um algera lágmarkstölu að ræða og tek því undir það sem hefur verið sagt að þetta eigi að vera grunnviðmiðið. Svo eigum við að gera stefnumörkun til enn lengri tíma þar sem við undirbúum að taka við enn fleira fólki.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í framsögu sinni með þessari þingsályktunartillögu að nú þyrftum við ekki að skipa nefndir eða halda fundi heldur væri komið að því að framkvæma. Ég tek svo sannarlega undir það. Fólk býr við skelfilegar aðstæður víðs vegar um heiminn og mér finnst þetta fólk eiga það skilið frá okkur sem búum við frið og öryggi í einu af ríkustu löndum heimsins að við tökum hratt, fast og örugglega á þessum málum og komum fólki til hjálpar nú þegar.

Í þessari tillögu er fyrst og fremst talað um kvótaflóttamenn en einnig um að stuðla að fjölskyldusameiningu. Ég tel það gríðarlega mikilvægt og held raunar að það sé jafnvel eitt af því sem væri auðveldast og hraðvirkast að gera. Hér er nú þegar talsverður hópur af til að mynda Sýrlendingum, fólki sem hefur verið hér um lengri eða skemmri tíma, og ef við mundum hreinlega byrja á fjölskyldusameiningu þessa fólks þá værum við þar með fólk sem væri með tengilið við íslenskt samfélag. Það ætti að vera auðveldara fyrir alla að aðlagast nýju landi og skapa sér lífsgrundvöll þegar einhver fjölskyldumeðlimur hefur svolitla þekkingu eða nasasjón af því hvernig íslenskt samfélag funkerar.

Ég átti fyrr í dag orðaskipti við hæstv. innanríkisráðherra vegna þess að í síðustu viku bárust fregnir af því að Útlendingastofnun hefði vísað úr landi nokkrum hælisleitendum frá Sýrlandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Um er að ræða fólk sem hefur komið hingað upp á eigin spýtur og fellur þess vegna ekki í hóp kvótaflóttamanna heldur hefur skilgreininguna hælisleitendur. Mér finnst mikilvægt að við veitum þessu fólki sem nú þegar er komið hingað hæli og leyfum því að vera hér og setjast að í samfélagi okkar en vísum því ekki til baka og notum Dyflinnarreglugerðina sem einhvers konar skálkaskjól til að gera það, enda er þar einungis um að ræða heimild til að senda fólk aftur til baka til þess lands sem það kom fyrst til á Schengen-svæðinu. Ég tel það ekki í anda þessarar reglugerðar eða þessa samkomulags að við sem búum hér í útkanti Evrópu notum landfræðilega einangrun okkar sem skálkaskjól til að taka ekki við hælisleitendum. Vegna þess gríðarlega fjölda fólks sem um er að ræða þá finnst mér við ekki mega einblína á einhverja tiltekna „kategoríu“ fólks. Þess vegna er mikilvægt að hugsa ekki bara um kvótaflóttamennina því að það eru svo sannanlega óskaplega margir aðrir í erfiðri stöðu. Þetta fólk er nú þegar komið hingað til okkar og við eigum þess vegna að leyfa því að vera.

Mér fannst þó gríðarlega jákvætt það sem hæstv. innanríkisráðherra sagði um að við sendum ekki lengur fólk til baka til landa eins og Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands þar sem er nú þegar gríðarlegur fjöldi flóttamanna en önnur Evrópulönd eru einnig að taka við gríðarlegum fjölda fólks. Á sama tíma vil ég líka segja að við megum heldur ekki bara einblína á þá sem nú þegar eru komnir til Evrópu. Það má alls ekki skilja orð mín á þann veg. Það er auðvitað hræðilegt ástand til að mynda í Líbanon og þess vegna þurfum við auðvitað líka að taka við kvótaflóttamönnum sem kæmu jafnvel fyrst og fremst þaðan.

Mér finnst líka mikilvægt að við höfum það í huga að langflestir vilja búa heima hjá sér. Fólk leggur ekkert á flótta nema vegna þess að það er í bráðri hættu. Bent hefur verið á að eitt af því sem veldur því að fólk yfirgefur heimili sín eru loftslagsbreytingar sem gera það að verkum að fólk flosnar upp frá heimilum sínum. Það er heldur ekki hægt að líta fram hjá því að meginþunginn er orðinn til vegna þess að við Íslendingar sem og aðrar vestrænar þjóðir höfum kynt undir stríðsátökum í fjarlægum löndum undanfarin ár og nú erum við að sjá afleiðingarnar af því hvað gerist þegar við förum með hernaði og sprengjum lönd í tætlur. Þá leggur fólk skiljanlega á flótta. Til að skapa ekki enn meiri vandamál til framtíðar þurfum við auðvitað að hætta að fara með hernaði á hendur öðrum þjóðum og búa þar af leiðandi ekki til sífellt nýja flóttamenn síðar meir. Um leið og við tökum á móti kvótaflóttamönnum finnst mér við þurfa að hafa orsökina í huga og líta einnig til þess að taka vel á móti þeim sem til okkar eru nú þegar komnir.

Þjóðin hefur sýnt vilja sinn í verki á vefmiðlum undanfarna daga og vikur. Það er alveg klárt að meginþorri Íslendinga vill taka við fólki og gera það vel og gera það hratt og er tilbúinn til að leggja fram krafta sína, vinnu og vera góðir gestgjafar sem leggja sitt af mörkum til að hjálpa fólki að aðlagast samfélaginu og vonandi einnig til að læra eitthvað nýtt um aðra menningarheima og kynnast fólkinu sem hingað kemur.

Mér þykir óskaplega dapurlegt hversu hægt gengur hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að vonandi fáum við góð tíðindi af ríkisstjórnarfundinum sem halda á í fyrramálið og að þar verði tekin fyrstu skrefin í því að fá hreinlega fólk hingað. Fyrsta skrefið gæti jafnvel verið að hætta að vísa fólkinu sem hingað er komið úr landi. (Forseti hringir.) Það er það sem við getum gert nú þegar, þ.e. leyft þeim (Forseti hringir.) sem hingað eru komnir að vera og svo byggjum við ofan á það.



[15:16]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þetta mikilvæga mál. Þetta er mál sem hefur verið mikið til umfjöllunar á undanförnum vikum og mánuðum, ef ekki árum, bæði hérlendis og erlendis. Nú er komin upp sú staða að það er hreinlega flóttamannakrísa í Evrópu og ekki bara í Evrópu heldur einnig í löndunum í kring og einkum Sýrlandi.

Þetta mikilvæga mál er mjög persónulegt mál fyrir mig en þegar ég var á ferð í Armeníu 2012 þá kom ég við í Jerevan þar sem ég kynntist sýrlenskum flóttamönnum. Þetta var árið 2012 og það eru þrjú ár síðan þetta fólk flúði land og það hefur ekki náð að koma öruggt til Sýrlands síðan þá. Þau voru reyndar það heppin að fá fjölskyldu sína til að koma til sín en það er einungis vegna þess að þau voru af þriðju kynslóð flóttamanna, þetta voru armenskir Sýrlendingar. Þetta var fólk sem hafði þurft að flýja heimahaga sína frá Tyrklandi niður til Sýrlands í upphafi 20. aldar vegna þjóðarmorða sem áttu sér stað þá. Armenía er pínulítið land og það hefur tekið á móti mörgum Sýrlendingum, aðallega af armenskum uppruna, til þess að bjarga þeim frá því ástandi sem þar ríkir. Armenía er land sem hefur ekki mikið á milli handanna, það er sárafátækt, en það er samt búið að gera meira en Ísland nokkurn tíma.

Ég held að það sé best, með leyfi forseta, að gefa vini mínum SarKiss Rshdouni orðið en ég var að spyrja hann áðan hvað hann vildi segja íslensku þjóðinni og hvað hann vildi segja Alþingi Íslendinga um stöðuna sem er komin upp. SarKiss vill segja Alþingi Íslendinga að ekki séu allir Sýrlendingar hryðjuverkamenn, ekki séu allir Sýrlendingar róttækir salafistamúslimar. Þar eigi heima margir minnihlutahópar og sem hafa komið þangað, þetta er ekki bara ein þjóð, þetta eru margar þjóðir sem eru þarna í neyð. Sýrland sem land hefur tekið á móti flóttamönnum í gegnum tíðina og SarKiss vill trúa því að núna sé komið að Sýrlendingum að fá greitt til baka fyrir þá hjálp og þá gestrisni sem þeir hafa veitt öðru fólki í gegnum tíðina. Hann vill líka meina að hluti af flóttamannavandamálinu sé hvernig vestrænu löndin taka á móti þessum straumi flóttamanna, að við séum að loka á allar löglegar leiðir fyrir þetta fólk til að komast að, til að sækja löglega um hæli. Það er verið að loka landamærum, það er verið að koma þessu fólki fyrir í útrýmingarbúðum — eða ekki beinlínis útrýmingarbúðum enn þá þó að aðstaðan sé alveg hræðileg þarna og það er t.d. bara tímaspursmál hvenær kólera kemur upp í sumum búðum í Ungverjalandi, en hluti af vandamálinu er að flóttafólkið getur hvergi sótt um hæli löglega. Vestræn lönd þurfa að taka á móti því, bjarga þeim og hjálpa þar sem það er ekki mögulegt að setja alþjóðlegan þrýsting á núverandi stjórnvöld í Sýrlandi. Það er sama hvort maður kallar þetta flóttamannakrísu eða þjóðflutninga í Sýrlandi. Þar er stríð og það er ekkert nýtt, það hefur geisað í um það bil fjögur ár, ef ekki lengur og mikið til komið vegna íhlutunar vestrænna ríkja.

Ef við viljum fara á þann háa hest að fordæma þjóðarmorð, heimsstyrjaldir eða ómannúðlega stefnu ákveðinnar ríkisstjórnar þá er tækifærið til að sýna það núna í verki, ekki bara í orði heldur einnig á borði. Íslendingar hafa sýnt vilja sinn til að gera það og núna er bara spurning um að framkvæma. Það er hægt að gera það núna, það er hægt að gera það strax. Ég hvet þetta þing eindregið og hæstv. innanríkisráðherra til að taka þátt í þessu og leyfa þeim Íslendingum, sem hafa tækifæri til til að hjálpa þessu fólki, til að taka á móti því og þar af leiðandi sýna í verki það sem okkur finnst.



[15:21]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar í örfáum orðum að gera grein fyrir því hvers vegna ég er einn af meðflutningsmönnum þessa ágæta máls sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er 1. flutningsmaður að. Það er vegna þess að mér finnst full ástæða til þess að Ísland láti til sín taka og móti áætlun um það að taka með stöðugum hætti þátt í því sjálfsagða verkefni alþjóðasamfélagsins að koma til móts við þá miklu neyð sem blasir við fjölda fólks í stríðshrjáðum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Það er hægt að skipta þeim vanda sem við er að etja niður, í fyrsta lagi í flóttamannavanda sem er viðvarandi í veröldinni. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í morgun að um 6 milljónir manna væru á flótta í heiminum. Auðvitað er það rétt, það er eitthvað sem fjöldamörg vestræn ríki, þar á meðal Ísland, reyna að bregðast við með því að vera með áætlanir um viðtöku og móttöku flóttafólks þar sem þeim er veitt aðstoð ýmist til að koma undir sig fótum, til að vera hluti af samfélaginu eða tímabundið þangað til þau geta áttað sig á hver næstu skref eru.

En sá vandi sem nú blasir við í Evrópu vegna ástandsins í Sýrlandi er auðvitað bráðavandi, það er krísa, það er neyðarástand sem blasir við. Þá horfir málið svolítið öðruvísi við. Þá þurfa menn að vera tilbúnir til þess að hafa hraðari hendur og taka málið fastari tökum. Í umræðunni undanfarið hefur það sjónarmið oft heyrst að menn þurfi að vanda sig í þessum efnum og vera tilbúnir til að taka vel á móti þeim flóttamönnum sem hingað munu koma og ég er alveg sammála því. En til þess að hægt sé að taka á móti flóttamönnum og gera það vel þá þurfa þeir auðvitað að ná að halda lífi, að vera í þeirri stöðu að hægt sé að bjarga þeim. Það sem við blasir núna er bara einfaldlega slík krísa að fólk er að deyja við það að reyna að koma sér í öruggt skjól. Það er ástæðan fyrir því að þessi umræða hefur verið svo hávær sem raun ber vitni í Evrópu og hér á landi. Við útidyrnar hjá okkur er fólk að deyja við að koma sér í skjól. Það er auðvitað það sem við erum að bregðast við og þá þurfa menn auðvitað ekki að taka langan tíma til að bregðast við. Evrópusambandið tilkynnti í dag um áætlun sína um það hvernig það hyggst skipta niður flóttamönnum sem komnir eru til Evrópu og hvert land tekur sitt. Það er dálítið eftirtektarvert, finnst mér, að það skuli taka Evrópusambandið, sem allir hafa gagnrýnt í mjög mörg ár fyrir það að vera mjög seinlegt skrifræðisbákn, skemmri tíma til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin en ríkisstjórn Íslands. Það hlýtur að segja ákveðna sögu og það hlýtur að vera umhugsunarefni.

Nú eru þau sjónarmið uppi í íslensku samfélagi að Ísland sé ekki í stakk búið til að taka á móti fleiri flóttamönnum eða bregðast neitt sérstaklega við. Sú skoðun er reyndar ekki útbreidd og á sér ekki mjög marga fylgismenn miðað við skoðanakannanir. Ef þessi skoðun er uppi á borðum innan ríkisstjórnar Íslands þá væri það auðvitað heiðarlegra af ríkisstjórninni að gera einfaldlega grein fyrir því og starfa í samræmi við það.

Ég var mjög vongóður í síðustu viku þegar hæstv. forsætisráðherra tilkynnti um það að hann ætlaði að stofna ráðherranefnd í þessu skyni. Ég bjóst við því að í sömu viku mundu koma einhverjar tillögur frá þeirri nefnd en ég heyri hins vegar á umræðunni hér að hún ætlar að funda á morgun. Gott og vel. Þá hlýtur að koma niðurstaða á þeim fundi á morgun. Það væri reyndar mjög ákjósanlegt að fá að vita hversu mikið sú nefnd hefur fundað frá því að hæstv. ráðherra tilkynnti um stofnun hennar.

Stuttu eftir þetta komu fram þau sjónarmið frá hæstv. fjármálaráðherra, sem er hitt höfuð ríkisstjórnarinnar, að við hlytum að geta gert meira í þessum efnum en ákveðið hefur verið og það var mjög gott að heyra það líka. Um helgina bárust reyndar þær raddir frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar að það kæmi hins vegar ekki til greina að Evrópusambandið mundi ákveða hversu margir það væru sem kæmu til Íslands. Mér er reyndar ekki kunnugt um það að Evrópusambandið hafi ætlað að ákveða það eða það sé eitthvert sérstakt mál í þessu samhengi. Að sama skapi þótti mér mjög undarlegt að heyra málflutning hæstv. forsætisráðherra í gær þar sem hann sagði að sá fjöldi sem tekið yrði á móti gæti hlaupið á tugum vegna þess að ég veit að 50 manns eru tugir og það er sú ákvörðun sem gekk svolítið fram af íslenskum almenningi í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin. Það væri kannski ekki mjög rausnarlegt af Íslendingum í ljósi þeirrar stöðu að ætla að taka við 50 manns. Ég hef stundum sjálfur haft í flimtingum að þegar mín ævisaga kemur út, sem ég hef ákveðið að muni hljóta titilinn Betur fór en á horfðist og vona að ég geti staðið við það, muni hún seljast í tugum eintaka. Punkturinn í brandaranum er sá að tugir eintaka sé kannski ekki svo ýkja mikið. Tugir flóttamanna í þessu samhengi, í ljósi þeirrar neyðar sem uppi er, í ljósi þess fjölda sem kominn er til Austurríkis, til Þýskalands, er hraksmánarlegur að mínu mati. Það dugar ekki.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. félagsmálaráðherra í morgun þegar hún var spurð út í þessi efni. Ég fékk ekki betur séð en hæstv. félagsmálaráðherra hefði ákveðið að taka tíma í að bera saman hversu mörgum flóttamönnum hefði verið tekið við á þessu ári og hversu mörgum á síðasta kjörtímabili, rétt eins og þetta mál snerist um einhvers konar frammistöðukeppni á milli stjórnarinnar sem er núna við völd á Íslandi og þeirrar sem var síðast. Það er bara ekki þannig. Þetta er engin keppni í gæsku. Þetta er engin frammistöðukeppni um það hvor ríkisstjórnin hafi tekið á móti fleirum, alls ekki. Nú er uppi krísa í Evrópu, það er gríðarlegur fjöldi manns á vergangi, börn eru að deyja á leið sinni hingað. Þá verða menn einfaldlega að vera tilbúnir til þess og hafa getu til þess að fara upp úr þessu hefðbundna argaþrasi, minn flokkur er betri en þinn, og gera eitthvað í málunum. Og ef þeir eru á móti því þá eiga þeir ekki að þykjast vera fylgjandi því að gera þetta og gera síðan ekki neitt og þæfa málið þangað til það er orðið of seint og þangað til aðrir eru búnir að leysa það fyrir okkur vegna þess að það er sú staða sem blasir við núna. Þess vegna vildi ég taka þátt í þessari umræðu hérna um þetta góða mál sem er auðvitað tillaga um það að búa til áætlun, tillaga um það að vanda sig, þetta er tillaga um að gera þetta vel. En þetta er líka ákall. Þetta endurspeglar þann vilja sem er á meðal þjóðarinnar að gera meira en ákveðið hafði verið vegna þess að getan er til þess í íslensku samfélagi, það vitum við öll mætavel, og þá þarf að bregðast hratt við og gera þetta þannig að það sé myndarskapur á því.

Ég vil í þessum fáu orðum lýsa yfir miklum stuðningi við þetta mál og að sama skapi lýsa því yfir að mér þykir það mjög leiðinlegt að engir fulltrúar stjórnarinnar skuli styðja þetta mál eða alla vega ekki þannig að þeir séu meðflutningsmenn á þessu máli. Það er ekkert í þessu máli sem ætti að fela í sér einhverja uppgjöf eða undanlátssemi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er verið að álykta að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað undirbúning á móttöku flóttamanna, kvótaflóttafólki til landsins á næstu þremur árum. Það er ekkert óðagot hér á ferðinni þannig að það er undarlegt að mínu mati. Þetta mál var líka kynnt til sögunnar áður en sú mikla umræða hófst sem hér er á ferðinni þannig að hér er ekki um að ræða einhver handahófskennd viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Þetta er tillaga sem er vel hugsuð og hún ætti að vera þannig að sem flestir ættu að geta fellt sig við efni hennar og komið með í það að styðja þetta góða málefni.



[15:31]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum þessarar tillögu og er mjög stoltur af því. Það var mjög auðsótt mál að fá mig til að vera með á þessari tillögu.

Maður hefur fengið að heyra það úti í samfélaginu og er oft spurður: Hvað viltu marga? Hvernig eigum við að fara að þessu? Og það er sérstaklega þessi spurning: Hvað viltu marga? Hvað eiga þeir að vera margir, 5.000, 500, 50, 10? Mér finnst ótrúlega erfitt að þurfa að ákveða hvað við viljum margt flóttafólk til Íslands, það skiptir ekki máli.

Fyrir mig skiptir máli að það er alvarlegt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs og ekki bara þar heldur út um allan heim og flóttafólk streymir frá heimahögum sínum. Það er ekkert að ástæðulausu að fólk frá Sýrlandi er að flýja þaðan. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á það áðan. Hvers vegna er þetta fólk að fara? Hvers vegna er þessi ótrúlegi straumur fólks í burtu frá Sýrlandi, af því að það er sérstaklega í umræðunni núna? Hvers vegna er það? Jú, það er út af stríði. Það er verið að sprengja heimili fólks í loft upp.

Við sem þjóð tókum þátt í því að fara í stríð við þjóð fyrir nokkrum árum þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra tók þá ákvörðun við annan mann að við yrðum þátttakendur í því stríði og samþykkja það stríð. Kannski er þetta ein afleiðingin af því að við ákváðum það. Þjóð sem er tilbúin að taka þá ábyrgð að fara í stríð við aðra þjóð verður líka að taka ábyrgð á afleiðingunum. Þetta er afleiðingin af því meðal annars.

Þetta er afleiðing af stórfelldri heimsvaldastefnu Vesturlanda gagnvart íbúum á þessu svæði og ekki bara þarna heldur byrjaði þetta fyrir mörgum áratugum eða öldum síðan þegar Vesturlönd fóru að ráðast inn á nýlendur og annað. Það er ekki glæsileg saga og það voru ekki múslimar sem gerðu það. Það voru ekki múslimar sem réðust inn í Afríku og strádrápu fólk þar.

Það er líka þessi umræða um múslima sem orðið hefur á Íslandi sem er mjög dapurleg. Ég var í viðtali í gær í Íslandi í bítið ásamt hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni þar sem hann sagði að hann fyndi fyrir ótta úti í samfélaginu við þetta fólk og það væri aðallega hjá eldra fólki á Íslandi. Það getur vel verið að fólk hafi einhvern ugg í brjósti gagnvart þessu fólki, en af hverju? Hvers vegna hefur það þennan ugg? Er reynsla okkar Íslendinga af því fólki sem hingað hefur flutt slæm? Það finnst mér ekki. Ég hef ekki orðið var við það.

Hér á Íslandi er talið að búi um 1.500 múslimar, íslenskir múslimar, og ég get hreinlega ekki fundið það nokkurs staðar að þeir hafi verið til trafala í þessu samfélagi, að þeir hafi verið með uppsteyt eða óeirðir eða framið glæpi. Þeir gera það ekki, það stríðir algjörlega gegn trú þeirra.

Það búa á milli 20–30 þús. útlendingar á Íslandi, eða fólk af erlendu bergi brotið og í mínu bæjarfélagi, Grindavík, er yfir 10% íbúa útlendingar. Þetta fólk aðlagast samfélaginu þar fullkomlega. Það er að vinna erfiðustu störfin sem við Íslendingar viljum ekki. Hvar sem þú kemur á Íslandi í dag þá eru útlendingar að vinna þessi störf, þjónustustörf, þeir vinna á hjúkrunarheimilum sem sjúkraliðar, ræstingafólk er nánast undantekningarlaust útlendingar og í fiskvinnslu. Í Grindavík eru til dæmis yfir 70% þeirra sem vinna í fiski útlendingar. Þetta fólk aðlagast vel í Grindavík og hefur aldrei verið til trafala.

Mér finnst algjört aukaatriði hvort við tökum 100, 200, 300, 400, 500 eða 1.000. Þessi tillaga miðar við það að við tökum við 100 núna og síðan 200 og 200. Þetta er bara tillaga. Ég get alveg velt því fyrir mér og vil ræða það hvort talan gæti verið hærri. Við þurfum bara að komast að því. Við eigum ekki að vera í pólitískum slag út af þessu máli. Það finnst mér alveg ömurlegt. Þetta á að vera svo sjálfsagt mál að við eigum ekki að þurfa að kýta um það í þingsal og benda hvert á annað, vera í einhverri keppni um það hver sé betri og hver verri. Mér finnst það alveg ömurlegt.

Svo er farið að blanda blessuðu Evrópusambandinu inn í þetta. Það er alveg með ólíkindum að fólk skuli nota sér þessa umræðu til þess. Við höfum annars nóg tækifæri til þess. Þetta snýst um ótrúlegar þjáningar og hörmungar fólks sem ég trúi ekki að snerti ekki hjarta hvers einasta manns á Íslandi. Fólk má vera illa harðbrjósta ef það gerir það ekki.

Ríkissjónvarpið hefur staðið sig gríðarlega vel undanfarið í umfjöllun um þessi mál, sýnt okkur myndir og tekið viðtöl við fólk. Hvað á þetta fólk sammerkt? Það vill lifa í friði. Það vill geta alið börnin sín upp í friði. Ég er alveg viss um það, þrátt fyrir okkar yndislega og stórkostlega land, að fólk vilji ekki helst fara hingað í leit að betra lífi, fólk sem hefur alist upp við allt aðrar aðstæður, allt annað veðurfar og allt aðra menningu. En það vill koma hingað vegna þess að hér er friður, hér er kærleiksríkt samfélag. Við Íslendingar erum kærleiksrík þó að hávær minni hluti hoppi á vagninn og fordæmi þetta og finni þessu allt til foráttu, vitni í Kóraninn og Biblíuna og að búið hafi verið að spá því fyrir mörg þúsund árum að þetta mundi gerast og ala á tortryggni og hatri.

Útlendingar sem búa á Íslandi vilja lifa í friði og hafa aldrei verið til trafala. En orðræðan getur komið af stað vandamálum og það höfum við til dæmis séð annars staðar á Norðurlöndunum en ekkert svakalega mikil vandamál. Það fylgja öllum breytingum vandamál, það er bara þannig. Við verðum að átta okkur á því að í nútímasamfélögum eru gríðarlegar breytingar og fólk er farið að færa sig á milli heimsálfa og landa í miklu meira mæli en nokkurn tímann áður og við verðum bara að takast á við það og vera þátttakendur í því. Það er siðferðisleg skylda okkar.

Við erum aðilar að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við vorum ein af stofnendum þeirra ágætu samtaka. Í 1. málslið 14. gr. hans stendur að allir eigi rétt á að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. Okkur ber siðferðisleg skylda til að gera þetta.

Ég vil beina orðum mínum til þeirra sem eru hræddir á Íslandi. Þeir þurfa ekki að vera hræddir. Það er engin ástæða til hræðslu. Lykilatriðið er að sýna þessu fólki kærleika og umhyggju og taka þannig á móti því, hjálpa því, umvefja það og láta það vita að það sé velkomið. Ef okkur auðnast að gera það þá er engin hætta á að hér fari allt á verri veg.



[15:42]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er 1. flutningsmaður að og er hér borin fram af 22 þingmönnum á Alþingi Íslendinga. Tillagan kemur fram núna í skugga geigvænlegra atburða sem eiga sér stað í heiminum þegar 60 milljónir manns eru að kalla má á vergangi, á flótta undan hamförum stríðsátaka í heimalöndum sínum.

Við höfum rætt þetta mál á undanförnum dögum og talað um hinn þunga flóttamannastraum í þessu sambandi, en auðvitað eru orð fátækleg þegar verið er að ræða jafn stóra og mikla atburði. Í raun og veru ættum við að tala hér um þjóðflutninga frekar en flóttamannastraum því að það er auðvitað það sem á sér raunverulega stað. Það segir sig sjálft að þegar svo stórir atburðir gerast í mannkynssögunni þá er óhjákvæmilegt að ríki heims í hinum betur megandi hluta veraldar taki sig saman um lausn á vandanum sem við er að eiga. Einstök ríki geta eiginlega ekki í þessu samhengi leyft sér þann lúxus að hafa hentistefnu í málinu eða sitja hjá, skila auðu.

Það er svo sannarlega komið að okkur Íslendingum. Við höfum ekki verið framarlega í flokki í þróunaraðstoð og flóttamannahjálp á undanförnum árum. Það er því sannarlega komið að okkur núna að haga okkur eins og manneskjur, ef svo má segja, og sýna mannlega reisn í þessu samhengi.

Við höfum á síðustu vikum og dögum fylgst með aðstæðum og örlögum þess fólks sem í hlut á og flýr núna stríðshrjáð svæði. Tölur sem við höfum heyrt um fjölda flóttamanna segja okkur auðvitað ákveðinn sannleika, en það er nú einu sinni þannig að fréttamyndirnar segja okkur eiginlega enn stærri sannleika, segja okkur meira en mörg orð hvílík örvænting knýr fólk út í þær aðstæður að fara með ótryggum hætti í leit að betra lífi í Evrópu. Ég ætla ekki að lýsa þeim fréttamyndum sem við höfum séð, við þekkjum þær og við vitum að það er mikill mannlegur harmleikur á bak við hverja eina og einustu.

Íslenskur almenningur hefur brugðist mjög vel við eins og skoðanakannanir sýna og nýstofnaðar vefsíður þar sem stjórnvöld eru ákölluð um að bregðast við í þessu máli. Auglýsingatímar Ríkisútvarpsins í gær báru þess glögglega vitni að íslenskur almenningur hefur látið bifast af þessum atburðum og vill gjarnan fá að opna faðminn og bregðast við. Ákallið er til stjórnvalda, að bregðast við og lýsa sig reiðubúin að taka á móti fleiri flóttamönnum en raunin hefur verið fram til þessa.

Við höfum líka rætt það í þessari umræðu að innflytjendastefna sé eitt. Innflytjendastefna er nokkuð sem stjórnvöld setja í rólegheitum og lýtur að móttöku og aðlögun þeirra sem vilja gjarnan koma til Íslands og festa hér rætur. Innflytendamálefni skarast auðvitað við flóttamannamálefni en það er ekki hægt að draga algjörlega samasemmerki þarna á milli því að hið síðarnefnda lýtur að bráðavanda sem kemur upp eins og við verðum vitni að núna sem kallar á skjótari aðgerðir og markvissari en við leyfum okkur þegar um er að ræða almenn innflytjendamál. Það má segja að núna sé eiginlega þörf fyrir krísustjórnun og krísuviðbrögð í þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir í málefnum flóttamanna.

Það má segja að við stöndum núna frammi fyrir einu stærsta mannúðarmáli sem þessi heimshluti hefur staðið frammi fyrir í áratugi. Við Íslendingar megum ekki falla á þessu prófi. Þetta er prófsteinn á siðferðisstyrk okkar. Það er mælikvarði á siðferðisstyrk þjóðar hvort og hvernig landsmenn taka á móti þeim sem leita aðstoðar í nauðum. Við megum alls ekki falla á þessu prófi.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að við tökum á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum. Ástæðurnar eru mjög vel rökstuddar. Ég ætla ekki að endurtaka þær eða að fara að endurtaka mikið það sem fram hefur komið í umræðunni fram að þessu. Ég vil bara hnykkja á því, virðulegi forseti, að nú um stundir fer efnahagur Íslands ört batnandi. Við erum að rísa upp úr efnahagslægðinni og erum komin í efnahagsbata. Við vorum fyrir fáum dögum að ræða ráðstöfun 15 milljarða kr. sem standa út af frá fyrri forsendum fjárlaga. Við höfum efni á því og við höfum innviði, getu og þekkingu og vilja almennings til þess að rétta hjálparhönd því fólki sem á um sárt að binda og er á landflótta frá hörmulegum aðstæðum. Við eigum að sýna að við erum menn en ekki mýs og taka vel á móti þessu fólki, opna dyr okkar, veita því vináttu, aðstoð og liðveislu við að aðlagast íslensku samfélagi vilji það vera hér til frambúðar. Ef aðstæður lagast í einhverjum af heimalöndum þeirra sem hingað koma þá megum við heldur ekki móðgast þótt fólk vilji fara til síns heima á ný. Það er eðlilegt.

Við Íslendingar búum í landi harðneskjulegrar náttúru sem getur sýnt vald sitt með óvægnum hætti. Við þekkjum af eigin raun mikilvægi mannúðar og samheldni þegar hamfarir herja á eins og náttúruhamfarir sem við höfum nú fengið að upplifa nokkuð ört á undanförnum árum og áratugum. Við kunnum að skipuleggja okkur í hjálparstarfi. Við kunnum að taka á móti fólki og sýna gestrisni og vinarþel þegar það á við. Núna á það svo sannarlega við.

Stríð er hamfarir og þess vegna efast ég ekki um að ef stjórnvöld stíga það skref og taka þá ákvörðun á ríkisstjórnarfundi á morgun að taka á móti fleiri flóttamönnum en verið hefur og þingið tekur vel í þessa tillögu og sú áætlun verður sett á laggirnar um að taka við 500 manns á næstu þremur árum þá efast ég ekki um að bæði þingið og ríkisstjórnin munu eiga stuðning meginþorra almennings í landinu. Ég vona sannarlega að svo megi verða.



[15:51]
Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmönnum fyrir þessa mikilvægu þingsályktunartillögu og ekki síst hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem átti frumkvæði að henni. Í mínum huga er auðvitað augljóst að við styðjum hana og finnst mér í raun mjög skrýtið að þurfa eitthvað að tala um það.

En síðustu vikurnar hefur margt farið í gegnum hugann og er mjög margt sem ég hef hugsað og margt sem mig langar að segja, þess vegna fannst mér flókið að ákveða hvað það væri sem ég vildi tala um hér í dag. Hvað er það sem skiptir máli að segja? Hvað er það sem kemur fólkinu, flóttafólkinu, best?

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ritaði á Facebook-síðu sína 28. ágúst þar sem hann fjallaði um flóttamannavandann og mikilvægi þess að við tækjum ábyrgð á honum. Hann sagði, með leyfi forseta: „Manni líður illa í manneskjunni.“

Mér fannst þetta svolítið vel orðað. Það er eiginlega þannig sem mér hefur liðið líka. Mér líður illa í manneskjunni. Ég er að horfa á mennsku fólks vera gerða að engu og mennsku okkar bregðast stundum svolítið skringilega við. Mér líður illa í manneskjunni af mörgum ástæðum, fyrst og fremst út af þessu ástandi af því að við höfum búið það til. Stríð sprettur ekki upp úr jörðinni sjálfkrafa eða dettur af himnum ofan, þetta eru aðgerðir mannfólksins. Þetta eru ákvarðanir sem við höfum tekið. Við fjármögnum það. Við höfum tekið þátt í að fjármagna það og gerum enn með margs konar hætti, þar af leiðandi berum við sérstaklega mikla ábyrgð á því að bregðast við. Við getum í raun ekki litið undan. Og þótt við bærum enga ábyrgð gætum við auðvitað ekki heldur litið undan. En í ljósi þess að við erum gerendur í þessu máli þá þurfum við að taka við skömminni og girða okkur hressilega í brók hvað þetta varðar.

Það sem lætur mig líka líða illa í manneskjunni er að horfa á fjölmiðlaumfjallanir og myndir og sjá að það þarf alltaf það til til að vekja okkur. Ég er engin undantekning, við erum svo ótrúlega meðvitundarlaus vegna forréttindastöðu okkar að við þurfum að sjá myndir af deyjandi börnum í flæðarmáli til þess að vakna. Það fer í taugarnar á mér. Það fer í taugarnar á mér fyrst og fremst gagnvart sjálfri mér að ég sé ekki betri manneskja en líka gagnvart okkur sem samfélagi. Auðvitað hugsar maður oft um alls konar mál en það er eins og það þurfti alltaf að troða því í andlitið á manni til þess að við bregðumst við. Ég held að það sé einn af lærdómunum til að draga af þessu að þetta er alltaf vandi sem er til staðar, því miður. Stríðsátök hafa verið til staðar lengi. Þetta minnir okkur á að við þurfum alltaf að vera vakandi, þurfum alltaf að vera á varðbergi og við getum ekki alltaf stokkið til þegar allt er farið úr böndunum og komið í einhver ósköp.

Það sem hefur líka kannski verið flókið fyrir mig og látið mér líða illa í manneskjunni er að umræðan hefur verið margþætt. Hún hefur verið jákvæð og hún hefur verið neikvæð og hún hefur verið skrýtin. Sumar raddir hafa blossað upp um það að við getum ekkert verið að aðstoða fólk frá öðrum löndum sem er á flótta af því við eigum svo bágt sjálf, af því að hér glímum við við vandamál, hópar samfélagsins eru jaðarsettir og búa við mannréttindabrot. Það er kannski alveg rétt í sjálfu sér. Það er fullt af hópum Íslandi sem býr ekki við mannréttindi. Og það er rosalega mikið af vandamálum á Íslandi sem þarf að takast á við. En mér finnst bara mjög eðlilegt að við áttum okkur á því að við erum ekki svona ótrúlega úrræðalaus. Við hljótum að geta gert fullt í einu. Mér finnst mjög skrýtið að heyra sérstaklega stjórnvöld eða stjórnmálamenn tala svona, að þeir feli sig á bak við jaðarsetningu hópa á Íslandi til að gangast ekki við ábyrgð sinni gagnvart flóttamönnum.

Mig langar til að lesa upp úr tilvitnun í yfirlýsingu fatlaðra kvenna í Tabú og stýrihópi kvennahreyfingar ÖBÍ sem við sendum þingmönnum í fyrradag þar sem við útskýrum hvernig það lætur okkur líða þegar við erum notaðar sem afsökun fyrir að brjóta á mannréttindum annarra. Með leyfi forseta, hefst tilvitnun:

„Staða okkar“ — þ.e. staða fatlaðra kvenna — „er ekki þess eðlis að hægt sé að bera hana saman við stöðu flóttafólks. Við erum ekki að finnast dánar í flutningabílum né að drukkna í Miðjarðarhafinu. Að líkja lífi okkar saman er í besta falli fullkomlegt skilningsleysi á lífi okkar og flóttafólks.

Að lokum leggjum við þunga áherslu á að mannréttindabrot gagnvart okkur, sem vissulega eru gróf á Íslandi, séu ekki notuð sem afsökun eða ástæða fyrir því að taka meðvitaða ákvörðun um að brjóta á öðrum hópum með aðgerðaleysi. Við kærum okkur ekki um að vera notaðar sem skálkaskjól fyrir huglaust stjórnmálafólk.“

Það sem við erum að segja er að vissulega er vandi okkar til staðar en það hefur bara ekkert að gera með það að milljónir manna eru á flótta og við þurfum að taka ábyrgð á því. Við bendum líka á í þessari yfirlýsingu sem mér finnst mjög mikilvægt að segja að almennt hafa stjórnvöld ekki sérstakar áhyggjur af okkar stöðu. En allt í einu núna er það mikið áhyggjuefni. Það er náttúrlega alveg ótrúleg hræsni.

Sem betur fer eru þetta ekki einu skilaboðin sem samfélagið sendir. Þvert á móti, viðbrögð borgaranna í samfélaginu hafa verið mjög jákvæð. Fólk hefur boðið fram aðstoð sína. Það hefur lýst yfir vilja til að styðja við flóttafólk, t.d. á Facebook og í alls konar vitundarvakningarherferðum. Fólk vill leggja sitt af mörkum. Fólk er tilbúið og er eiginlega svolítið að bíða eftir að stjórnvöld geri eitthvað. Það er rosalega jákvætt og gott og hefur glatt mig mjög. Ég hef verið stolt af því að tilheyra samfélagi sem getur það. En á hinn bóginn koma líka upp hugsanir sem ég get ekki horft fram hjá um að við þurfum að vanda okkur í þessari umræðu. Drifkrafturinn í því að aðstoða flóttafólk eða vinna með flóttafólki getur ekki byggt alfarið á meðaumkvun eða samúð, að við séum að tala um hvað þau eigi bágt og hvernig við ætlum að koma og bjarga þeim. Akkúrat núna er fullt af flóttafólki að sýna brjálæðislega mikla sjálfsbjargarviðleitni. Það er sjálft að bjarga sér, auðvitað með aðstoð margra, en það er fyrst og fremst sjálft að bjarga sér. Það er að taka ákvörðun um að yfirgefa heimaland sitt, stofna lífi sínu í hættu til að komast burt. Það eina sem við þurfum að gera og erum að gera er að skapa pláss og veita stuðning og vinna með hópnum. En við erum ekki einhverjar ofurhetjur. Ég kæri mig ekki um að vera í hópi sem lítur svo á. Mér finnst það vandræðalegt. Þótt ég viti ekkert um það hvernig er að vera flóttakona eða manneskja á flótta þá veit ég talsvert mikið um það hvernig er að vera viðfang aumingjagæsku annarra. Það er rosalega óþægileg tilfinning, það er rosalega niðurlægjandi og það hjálpar ekki neitt. Stundum er það jafnvel verra en að finna fyrir fyrirlitningu, fordómum og hatri.

Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að mér finnst mikilvægt að við höfum það í huga að hingað kemur, ætla ég rétt að vona, stór hópur af flóttafólki og það eru sérfræðingarnir. Það eru sérfræðingarnir sem geta best sagt okkur hvernig við eigum að gera þetta sjálf ásamt því fólki sem hefur það að atvinnu sinni að sinna þróunarsamvinnu og fólk sem hefur nú þegar aðstoðað flóttafólk á Íslandi. Mér finnst mjög mikilvægt að um leið og við sýnum kærleika og virðingu og sýnum að við erum tilbúin til að aðstoða að við munum samt að það er fólkið sem á að skilgreina sig sjálft, það er fólkið sem á að skilgreina hvað er erfitt og hvað ekki, hvaða þjónustu og aðstoð það þarf og hvort það þurfi samúð eða ekki. Það er mikilvægt.

Að lokum langar mig til þess að segja að við þurfum að bregðast við (Forseti hringir.) hratt og faglega. Mig langar í því skyni að benda á að það er til fólk sem gerir það daglega, fólk (Forseti hringir.) sem vinnur við sjúkraflutninga, við að bjarga fólki. Það þarf að taka mjög hraðar ákvarðanir og vinna mjög faglega og hratt. Það er nákvæmlega það sem við (Forseti hringir.) þurfum að gera núna. Við þurfum að taka skjótar ákvarðanir, (Forseti hringir.) vinna faglega og gera það helst í fyrradag.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.