145. löggjafarþing — 77. fundur.
Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ, fyrri umræða.
þáltill. RR o.fl., 184. mál. — Þskj. 189.

[17:53]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um framtíðaruppbyggingu Laxnessseturs að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Flutningsmenn auk þeirrar er hér talar eru Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hjörvar, Össur Skarphéðinsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Heiða Kristín Helgadóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson og Birgitta Jónsdóttir.

Hæstv. forseti. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samvinnu við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ og stjórn Gljúfrasteins að hefja uppbyggingu Laxnessseturs að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Leiðarljós Laxnessseturs verði að halda á lofti minningu Halldórs Laxness, veita fræðslu um verk hans og leggja áherslu á að Mosfellssveit og -bær var hans heimabyggð. Þar verði miðstöð allrar þekkingar um Halldór Laxness. Laxnesssetur verði jafnframt bókmenntasetur þar sem aðstaða verði til rannsókna og fræðistarfa.“

Hæstv. forseti. Á árinu 2015 voru 60 ár síðan Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels og af því tilefni er tímabært að horfa til þess að byggja upp menningarhús, eða Laxnesssetur, að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Landsvæði hefur þegar verið tekið frá og tryggt til að byggja Laxnesssetur með tengingu við heimili skáldsins að Gljúfrasteini.

Framtíðarsýn fyrir safnið að Gljúfrasteini, sem tók til starfa haustið 2004, var skilgreind í kjölfar stefnumótunarvinnu fyrir safnið og helstu niðurstöður voru þær að Gljúfrasteinn yrði eitt helsta menningarsetur þjóðarinnar og þekktur áfangastaður á leið til Þingvalla. Hlutverk Gljúfrasteins væri að vera heimili Halldórs Laxness, lifandi safn sem stæði vörð um lífsstarf hans.

Það er ljóst að Gljúfrasteinn stendur framarlega í flokki dýrmætra staða í íslenskri menningarsögu. Sú uppbygging sem þegar hefur átt sér stað er um margt til mikillar fyrirmyndar og hefur starfsemin svo sannarlega sannað gildi sitt. Gljúfrasteinn var friðaður 7. júní 2010 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001, um húsafriðun, og er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum, nr. 141/2011.

Húsið sjálft er því í raun safngripur og einstakt að innbúið allt sé varðveitt óbreytt frá því að Halldór Laxness og fjölskylda hans bjuggu þar. Safnkosturinn samanstendur af innbúinu öllu, listaverkum, bókasafni, ljósmyndum og skjölum. Möguleikar til rannsókna og miðlunar eru óþrjótandi en mikilvægt er að hægt sé að tryggja örugga varðveislu safnkostsins til framtíðar, bæði í húsinu sjálfu og í geymslu.

Starfseminni í dag er mjög þröngur stakkur skorinn vegna plássleysis í húsinu. Til þess ráðs var gripið að nýta bílskúr fyrir móttöku, miðasölu, verslun og margmiðlunarsýningu. Frá upphafi var litið svo á að sú ráðstöfun væri til bráðabirgða. Sömuleiðis var þegar ljóst að aðstaða starfsfólks væri óviðunandi. Þá eru bílastæði og aðkoma að húsinu frá Þingvallavegi ekki viðunandi.

Frá því að safnið að Gljúfrasteini var opnað 2004 hafa um 75.000 gestir heimsótt safnið. Með góðu skipulagi og hjálp hljóðleiðsagnar hefur tekist að taka á móti stórum hópum.

Gljúfrasteinn, þar sem skáldið bjó og starfaði, verður áfram sá staður sem mun laða gesti í heimsókn í Mosfellsdalinn. Mosfellsdalurinn er dalurinn þar sem Halldór Laxness ólst upp og bjó lengstan hluta ævi sinnar og dalurinn er sögusvið ýmissa verka hans.

Enn fremur má nefna að í dalnum eru tengsl við bókmenntasögu þjóðarinnar í þúsund ár. Um Mosfellsdalinn er meðal annars fjallað í Egils sögu, Gunnlaugs sögu Ormstungu og Hallfreðar sögu vandræðaskálds. Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú og við hina fornu höfn í Leiruvogi styðja þessa tengingu.

Það má og geta þess að það er einlægur vilji heimamanna að rækta minningu Nóbelsskáldsins. Sveitarfélagið Mosfellsbær hefur meðal annars sett það í menningarstefnu sína að halda á lofti minningu Halldórs Laxness, framlagi hans til íslenskrar menningar og heimsbókmenntanna.

Það er tilgangur þessarar þingsályktunartillögu að Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ verði menningarsetur með megináherslu á líf og starf Halldórs Laxness en jafnframt alhliða menningarsetur með áherslu á bókmenntir, rannsóknir, fræðslu og miðlun.

Hæstv. forseti. Það er ósk mín og von að þessi tillaga til þingsályktunar fái vandaða umfjöllun í nefnd en að lokum komi hún aftur inn til síðari umr. og atkvæðagreiðslu. Ég sem framsögumaður þessarar tillögu til þingsályktunar tel að það væri Alþingi Íslendinga til sóma að samþykkja slíka tillögu í virðingarskyni við skáldið.



[18:00]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stundum þegar þingmál kemur hér fram spyr ég til hvers það sé. Að þessu sinni er ég meðflutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu og er afar stoltur af því. Ég ætla jafnvel að bæta um betur þar sem frá var horfið í greinargerðinni og í framsöguræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.

Ævi Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Marie Pierre Laxness var afskaplega merkileg og stóð alla tuttugustu öldina. Hann lifði í tæp 96 ár og markaði spor sín í íslenskri menningu og heimsmenningunni. Ég upplifði það í námi mínu að framlag hans til heimsmenningarinnar var nokkurt og ýmsir hafa þekkt Ísland af verkum hans.

Ég hef líka verið upptekinn af sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæðisbaráttu. Ísland öðlaðist sjálfstæði, varð lýðveldi, 1944. Ísland notaði rétt sinn sem lýðveldis til þess að gerast aðili að ýmsum erlendum stofnunum, það er kannski hið formlega sjálfstæði. En hvernig öðlaðist þjóðin sjálfstæði?

Ég ætla hér, með leyfi forseta, að vitna í Morgunblaðið frá 10. janúar 1956. Það fjallar reyndar um annan mann, Friðrik Ólafsson. Þar segir:

„Sigur Friðriks Ólafssonar skipar honum við hlið bestu skákmanna heimsins. Í gær var nafn Íslands í annað sinn á þessum vetri nefnt í heimsfregnum, í sambandi við unnin afrek. Í desember var það nafn Nóbelsverðlaunaskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, sem ljóma varpaði á nafn Íslands. Í gær var það nafn Friðriks Ólafssonar skákmeistara.“

Ég vil minna á að sjálfstæði verður ekki einungis fengið með viðurkenningu annarra þjóða, það verður líka að afla þess með verkum þeirra einstaklinga sem landið byggja. Þessir tveir einstaklingar, Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness og stórmeistarinn Friðrik Ólafsson, vörpuðu sannarlega ljóma á landið.

Og nú ætlum við með þessari tillögu að heiðra minningu Halldórs Kiljans Laxness með því að gera meira en að hafa hús hans og heimili sem safn heldur byggja menningarmiðstöð í Mosfellsdal þar sem hægt verði að sinna íslenskum bókmenntum, sérstaklega bókmenntum Halldórs Laxness, vegna þess að þær verða eilíft rannsóknarefni.

Eins og skáldið segir í einu af sínum höfuðverkum er alltaf leit að sameign þjóðarinnar. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í upphaf Íslandsklukkunnar og lesa hér:

„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þíngvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni. Henni var hríngt til dóma og á undan aftökum.“

Nú, sem betur fer, eftir 70 ára sjálfstæði eigum við ýmsar sameignir. Meðal þeirra sameigna er Nóbelsskáldið Halldór Laxness sem hefur borið hróður Íslands um alla jörðu. Það sem meira er að eftir dauða hans hafa verk hans eiginlega fengið nýtt gildi, eða vaknað til lífsins aftur, vegna þess að það sem hefur gerst á Íslandi er að Háskóli Íslands hefur búið til þýðendur af íslensku á aðrar tungur. Það var nefnilega lengi vel þannig að það var vandamál að þýða íslensk skáldverk. Nú er hægt að þýða verk Halldórs Laxness af íslensku án millimáls á aðrar tungur. Þeir nemendur sem hafa útskrifast úr íslensku fyrir erlenda stúdenta hafa unnið þarna ýmis afrek. Það sem meira er: Aðrir íslenskir rithöfundar njóta þessa.

Þessi þingsályktunartillaga er til að heiðra minningu Halldórs Kiljans Laxness og verður við hann kennd en hún kemur öðrum íslenskum rithöfundum og listamönnum á heimskortið. Einhver kann að spyrja: Hvað kostar dæmið? Það kann að kosta eitthvað. En það er mín kenning að Laxnesssetur geti orðið nokkuð sjálfbært. Ef menn eru stórhuga getum við jafnvel rekið þetta sjálfbært. Ég tel að safn skáldsins sem vildi verða sjálfstæður — engum öðrum háður, rithöfundur, eins og ég hef skynjað hugarheim hans af lestri ævisagna hans, hann vildi verða óháður — geti orðið óháð öðrum, að skáldið haldi lífi sínu áfram með sínu óhæði.

Ég vona að þingheimur verði svo stórhuga að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Það sem meira er: Ég vona að við berum gæfu til að framkvæma það sem í henni stendur, að byggt verði menningarsetur í Mosfellsbæ í Mosfellsdalnum, í dalnum sem á mikla sögu. Sú saga verðskuldar að þarna verði menningarsetur.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra að sinni. Ég þakka fyrir.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.