145. löggjafarþing — 147. fundur
 6. september 2016.
endurskoðun laga um lögheimili, síðari umræða.
þáltill. OH o.fl., 32. mál. — Þskj. 32, nál. m. brtt. 1414.

[21:29]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu sem fjallar um endurskoðun laga um lögheimili þar sem 1. flutningsmaður er Oddný G. Harðardóttir og þingmenn úr öllum flokkum standa að. Búið er að flytja tillöguna einu sinni áður, á 144. þingi, þannig að það er nú ánægjulegt að hún skuli vera komin hér til síðari umr.

Hér er verið að ræða brýnt mál í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Lögin um lögheimili tóku gildi 1. janúar 1991 og hefur svo ótal margt gerst í samfélaginu sem hefur orðið til þess að nauðsynlegt er að ráðast í endurskoðun á þeim. Eins og fram kemur í tillögunni sjálfri hafa þau lög sem nú eru í gildi verið í gildi í um 25 ár. Það er ótrúlega margt gerst sem krefst þess að við endurskoðum þau.

Við þekkjum það sem búum í hinum dreifðu byggðum, og ekki bara þar, en kannski sérstaklega þegar fólk hefur þurft að sækja sér vinnu um langan veg hefur stundum verið gerð krafa um að viðkomandi flytji lögheimili sitt nær vinnunni og þá sérstaklega ef viðkomandi er búinn að vera lengi í þeirri vinnu. Við þekkjum dæmi um sjómenn sem vinna fjarri heimabyggð og sveitarfélögin sem þeir vinna hjá hafa gert kröfu um lögheimilisflutning svo þeir greiði útsvar sitt þar. Það hefur orðið til þess að flytja hefur þurft lögheimili allrar fjölskyldunnar sem býr á öðrum stað. Maður, t.d. sjómaður, sem vinnur hjá sveitarfélagi þar sem krafist er að lögheimili sé breytt, greiðir útsvar sitt þar og kemur svo í heimabyggð sína þar sem hann þiggur alla þjónustu. Það er eitt af því sem hafa þarf í huga í þessu samhengi.

Við þekkjum öll dæmi um að eftir hrun fóru margir til útlanda að vinna, þó aðallega karlmenn, og fjölskyldurnar urðu eftir hér heima. Noregur gerði m.a. kröfu um lögheimilisflutning og margur Íslendingurinn fór þangað. Þetta er kannski eitt af því sem hvetur til þess. Það er ekki bara stækkandi atvinnusvæði innan lands sem hafa gert það að verkum.

Tillagan þessi gengur í út á að leggja til að komið verði á fót starfshópi til þess að undirbúa endurskoðun á þessum lögum þannig að hjón geti átt lögheimili hvort á sínum staðnum hvort sem er um er að ræða bækistöð innan lands eða þegar annað hefur bækistöð erlendis.

Allsherjar- og menntamálanefnd fékk ráðuneytisfólk úr innanríkisráðuneytinu á sinn fund; Fanneyju Óskarsdóttur og Ólaf Kr. Hjörleifsson frá innanríkisráðuneyti og Indriða B. Ármannsson og Björgu Finnbogadóttur frá Þjóðskrá Íslands, sem skilaði sérstakri umsögn. Svo höfðu borist umsagnir um málið á 144. löggjafarþingi.

Tekið er tillit til mismunandi aðstæðna fólks í tillögunni og viðurkennt að lögum að hjón geti verið búsett t.d. hvort á sínum staðnum, en þó ekki eingöngu ef annað þeirra býr erlendis.

Fulltrúar Þjóðskrár Íslands sögðu í umsögn sinni á fundi nefndarinnar að þau væru ánægð og lýstu yfir stuðningi við tillöguna en bentu um leið á að samhliða endurskoðun laga um lögheimili þurfi líka að endurskoða lög um aðsetursskipti. Nefndin tekur undir það.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið á síðasta löggjafarþingi var tekið undir markmið tillögunnar en því jafnframt lýst yfir að huga þyrfti að mörgum öðrum atriðum sem til væru komin vegna örra samfélagsbreytinga undanfarna áratugi. Nefndin hefur verið upplýst um að í innanríkisráðuneytinu sé hafin vinna við heildarendurskoðun laga um lögheimili og beinir nefndin því til ráðuneytisins að hafa hliðsjón af sjónarmiðum sveitarfélaganna í þeirri vinnu auk þessarar þingsályktunartillögu. Á fundum nefndarinnar kom enn fremur upp sú spurning hvernig haga skyldi lögheimilisskráningu barna hjóna sem ættu hvort sitt lögheimilið, yrði það heimilað að lögum. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að við fyrrgreinda vinnu verði kannaður sá möguleiki að börn verði skráð með tvö lögheimili þegar svo ber undir.

Eina breytingin sem nefndin leggur til er að þetta verði samþykkt með eftirfarandi breytingu; að í stað ártalsins „2016“ í tillögugreininni komi: 2017.

Við þekkjum vandamálin í kringum lögheimilisskráningu. Þetta á líka við einstæða foreldra eða foreldra sem ekki búa saman en eiga barn saman, þess vegna var það dregið hér inn að tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það þarf líka að huga að því hvernig og hvort tekjustofninum eða útsvarsstofninum verði skipt með einhverjum hætti. Þetta snýst líka um að sveitarfélögin fái sitt og að börn njóti þjónustu innan sveitarfélaga ekki síður en hinir fullorðnu til jafns eða hjá báðum foreldrum.

Hjá sveitarfélögum þar sem ferðaþjónustan er mjög mikil og mikil uppgrip yfir hábjargræðistímann kemur einkum ungt fólk og vinnur mikið á skömmum tíma. Það þiggur tiltekna þjónustu á staðnum og þess vegna er þess gætt að sveitarfélögin beri ekki skarðan hlut frá borði í því efni. Það er eitt af því sem rætt hefur verið í þessu samhengi. Allt hefur það með lögheimilisskráninguna að gera og vonandi dregst sú vinna ekki úr hófi fram. Búið er að vinna töluvert mikið hjá sambandinu og ef þetta nær hér fram að ganga, sem ég vona að verði í ljósi góðra umsagna, geri ég ekki ráð fyrir öðru en að þetta ætti að geta gengið hratt fyrir sig og sú vinna sem nú þegar hefur verið unnin bæði hjá ráðuneytinu og sambandinu, geti orðið til þess að flýta þessu.



[21:37]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu ágæta máli og langar í örfáar mínútur að ræða um fyrirbærið lögheimili og þjóðskrá, vegna þess að þetta er fyrirbæri sem mér finnst við taka sem sjálfsögðum hlut á Íslandi. Hafandi búið erlendis veit ég að það getur fylgt því ákveðinn glundroði að vera ekki með þjóðskrá sem er aðgengileg öllum, en það er samt ekki slíkur glundroði að allt fari til fjárans, samfélagið virkar alveg án þess að hafa slíka skrá. Nú er ég ekki á móti þjóðskrá en mér finnst hins vegar að það séu tækifæri vegna tækniframfara til þess að breyta hlutunum enn þá meira.

Þetta mál varðar það hvort hjón geti átt lögheimili hvort á sínum staðnum, eitthvað sem maður hefði haldið að væri búið að leysa fyrir árið 2016. Málið er að þegar ríkið tekur sig til og ætlar að ákveða hvað sé eðlilegt fyrir samfélagið og eðlilegt fyrir hjón er mikil hætta á því að sett sé einhver umgjörð sem passar einfaldlega ekki fyrir alla. Það er nákvæmlega tilfellið hér. Ég hygg að þetta sé oftar tilfellið en raunverulega er nokkur þörf á, að við setjum fólk inn í einhvers konar box sem við þurfum ekkert að setja það inn í. Við getum alveg náð sömu markmiðum án þess að setja fólk í slík box, án þess að neyða upp á fólk þetta norm og án þess að setja þær reglur sem við jafnan setjum.

Mig langar þess vegna að koma með hugmynd, sem mörgum finnst mjög róttæk, ég vil meina að hún sé það ekki, sem er sú að hreinlega bjóða upp á það að fólk þurfi ekki að skrá heimilisfang í þjóðskrá, heldur að hægt sé að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með því að hafa heimilisfang með tækniframförum. Það er auðvitað ástæða fyrir því að fólk vill hafa heimilisfang í þjóðskrá, t.d. til þess að hægt sé að ná í fólk með einhverjum áreiðanlegum hætti, alla vega lögformlegum hætti. Það getur verið öryggisatriði. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að menn vilja hafa heimilisfang í þjóðskrá. Mér finnst hins vegar að ef einstaklingi finnst það óþægilegt af einni eða annarri ástæðu, sem dæmi ef hann er að taka þátt í mjög umdeildum alþjóðlegum umræðum um t.d. trúarbrögð eða eitthvað álíka, eigi viðkomandi í það minnsta að geta falið heimilisfang sitt, enda er það þar sem maður geymir einkalíf sitt, börn sín o.s.frv.

Ég hygg að hægt sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með öðrum leiðum. Þess vegna finnst mér það þess virði að nefna þetta hér við þetta tækifæri þegar við tölum um þjóðskrá á Alþingi. Ég held ekki að það sé mikil þörf á þeirri útfærslu fyrirbærisins sem við erum með. Það eru gríðarleg sóknartækifæri í tækniframförum sem geta leyst af hólmi ýmsar hefðbundnar leiðir til að gera hlutina.

Eins og ég nefndi í upphafi er ég meðflutningsmaður málsins og ítreka að mér finnst skrýtið að við séum ekki löngu búin að gera það heimilt eða mögulegt að hjón hafi lögheimili hvort á sínum staðnum, mér finnst ótrúlega skrýtið að fólk hafi verið sett í þetta box. Ég fagna málinu og vona að það nái alla leið í gegnum atkvæðagreiðslu og verði að sjálfsögðu samþykkt.



[21:40]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu og get tekið undir orð þeirra Gunnarsbarna, hv. þingmanna sem töluðu á undan mér, að það er í rauninni tímaskekkja að enn þann dag í dag skuli hjón ekki geta haft lögheimili hvort á sínum stað. Það verður æ algengara að hjón vinni á mismunandi stöðum í mismunandi bæjarfélögum. Ég sjálf er dæmi um að hafa þurft að flytja heimili mitt og lögheimili á þann stað þar sem ég sótti vinnu í 14 ár og það hafði í för með sér að eiginmaður minn og börn þurftu að gera slíkt hið sama. Það hentaði þeim ekkert sérstaklega vel en þau létu það yfir sig ganga, þannig að ég þekki þetta á eigin skinni. Það var reyndar þannig að síðustu árin á þeim stað og síðan í þessari vinnu höfum ég og minn maður verið hvort með sitt heimili. Ég tek þetta persónulega dæmi bara vegna þess að þetta er reyndin í nútímaþjóðfélagi. Við þessu þarf auðvitað að bregðast.

Það er hins vegar mjög eðlilegt að sveitarfélög sem hafa tekjur af íbúum sem eiga þar lögheimili vilji hafa þá sem skaffa góðar tekjur innan sinna vébanda. Það er einmitt þannig með t.d. sjómenn sem hafa jafnvel þurft að flytja lögheimili sitt á vertíðarstöð sína til þess að halda plássi.

Hér hefur verið farið yfir þá umfjöllun sem málið fékk í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég er mjög ánægð að heyra að í innanríkisráðuneytinu sé verið að vinna að þessu máli. Ég tel að þetta sé til mikilla bóta og sé í raun bara sjálfsagður hlutur í nútímasamfélagi að hjón geti átt hvort sitt lögheimili. Ég efast ekki um að fundnar verði bestu leiðirnar til þess að það verði gerlegt.