145. löggjafarþing — 149. fundur.
stjórn fiskveiða, 1. umræða.
frv. atvinnuvn., 863. mál (síld og makríll). — Þskj. 1635.

[11:58]
Frsm. atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd atvinnuveganefndar mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (síld og makríll).

1. gr. hljóðar svo: Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:

a. Í stað orðanna „20 lestum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 35 lestum.

b. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Um gjald fyrir aflaheimildir vegna veiða á síld og makríl skv. 1. mgr. skal fara samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 74/2012.

2. gr. hljóðar svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð kemur fram að í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögum um stjórn fiskveiða er kveðið á um að ráðherra hafi til ráðstöfunar til sérstakrar úthlutunar 2.000 lestir af íslenskri sumargotssíld, 2.000 lestir af norsk-íslenskri síld og 2.000 lestir af makríl til smábáta. Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að ráðstafa þessum aflaheimildum til fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og á útgerð þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip allt að 20 lestum af síld eða makríl. Samkvæmt 3. mgr. er verð á þessum aflaheimildum 8 kr. fyrir hvert kg af síld eða makríl.

Með frumvarpinu er lagt til að aukið verði það magn sem útgerð getur fengið úthlutað af síld eða makríl þannig að það verði 35 lestir í stað 20 lesta og er einnig lagt til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur. Þá er lagt til að um gjald fyrir aflaheimildir til veiða á síld og makríl fari samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 74/2012.

Um þetta varð samkomulag í atvinnuveganefnd. Björt Ólafsdóttir var fjarverandi á þessum fundi en að öðru leyti stendur nefndin á bak við frumvarpið. Málið snýst í fyrsta lagi um að auka þær aflaheimildir sem sótt er um úr 20 lestum í 35. Málið er þannig vaxið að það þarf að sækja um í svokallaðan nýliðapott. Nýliðar, þeir sem ekki fá úthlutaðan makríl, geta sótt um að fá að veiða úr þessum potti. Það þarf að sækja um eigi síðar en á fimmtudegi, það er reglan hjá þeim í Fiskistofu, og fyrir þriðjudag í næstu viku þarf svo að greiða fyrir það sem fæst úthlutað þannig að úthlutunin er ekki klár fyrr en á miðvikudegi. Það má því segja að það taki viku að sækja um þessar heimildir og því þótti nefndinni magnið 20 lestir í minni kantinum þar sem veiðin hefur verið mjög mikil undanfarið.

Gjaldið hefur verið fast í lögum 8 kr. Eins og flestir vita hefur orðið verðfall á makríl þannig að makríll selst á um 50–60 kr. Ef engin breyting verður á má segja að þeir sem sækja um þennan pott og þá helst nýliðar þurfi að borga nær fjórfalt veiðigjald miðað við aðra, sem mönnum finnst ansi hart, því að þetta gjald þurfa menn að greiða áður en þeir veiða en svo eftir á greiða þeir veiðigjöld eins og aðrir af því sem veitt er.

Veiðin hefur gengið mjög vel það sem af er og þess má geta að ég leit á vef Fiskistofu í morgun og þar má sjá að línu- og handfærabátar er í rauninni eini útgerðarflokkurinn sem er nú þegar búinn að veiða sína úthlutun á fiskveiðiárinu. Aðeins er eftir að veiða það sem flutt var á milli ára, eitthvað um 1.700 tonn. Úthlutunin var 6.000 tonn og það er í raun búið að veiða það rúmlega. Aðrir skipaflokkar, svo sem vinnsluskip eða skip án vinnslu, eiga talsvert eftir af sínum heimildum. Ég held að það séu samtals um 53.000 tonn sem á eftir að veiða af úthlutuðum makrílkvóta. Því lítur nefndin svo á að þetta muni frekar stuðla að því að smábátar haldi áfram veiðum og láti reyna á það hvað makríllinn veiðist lengi fram í haustið. Nefndin trúir því að þetta muni stuðla að því að hlutur smábáta í veiðum á makríl aukist og að það verði minna eftir, helst ekki neitt, af þeim makrílheimildum sem úthlutað verður.



[12:05]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir afstöðu minni í stuttu máli. Við höfum verið að ræða málið í atvinnuveganefnd en ég var fjarverandi á þeim fundi þegar það var tekið út. Þess vegna var ég ekki með á málinu. Ég vil láta færa það til bókar að ég vil veg smábáta sem mestan, ég leggst ekki gegn málinu, en ég er ekki á því af þeirri prinsippástæðu að mér finnst það alltaf bagalegt og ekki ganga vel hjá þinginu þegar við erum að handstýra gjaldi eða handstýra og færa til eftir því sem hentar ýmsum málum og ýmsum atriðum í fiskveiðistjórnarmálum.

Veiðigjöld fyrir makríl eru allt of lág að mínu mati. Ég leggst ekki gegn því að smábátar fái lækkun sem samsvarar annarri lækkun. Það er ekki það sem ég leggst gegn, en ég vil að við höldum öðruvísi á þessum málum og hef fært fyrir því rök. Ég hef talað fyrir því að við skoðum markaðslausnir, sérstaklega hvað varðar makríl, og talaði fyrir því á þarsíðasta löggjafarþingi þegar við ræddum hinar nýju aflaheimildir. Þegar fara átti að kvótasetja þær færði ég fyrir því rök að ég vildi að við byðum upp hluta af makrílnum sem tilraun í því að finna hvort markaðurinn gæti ekki höndlað þessi mál betur. Ég tel að við ættum að færa okkur í smáskrefum í þá átt og makríllinn hefði verið fyrirtaksbyrjun í þeim málum.

Eins og ég segi leggst ég ekki gegn þessari breytingu sem slíkri en vil halda því til haga að ég vil sjá aðrar aðferðir við stjórn á fiskveiðikerfinu en svona handstýringu sem oft verður óttalegt fúsk. Eins og við sjáum núna er verið að redda hlutum eftir á, sem er sjálfsagt að gera við þessar aðstæður, en ég vildi óska að við hefðum önnur kerfi hér til að vinna með.



[12:08]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil blanda mér í umræðuna þar sem atvinnuveganefnd stóð að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Hún snýr að því að komið sé til móts við minni útgerðir varðandi makrílinn og síldina, þó sérstaklega makrílinn. Við vitum að hann er furðuleg skepna og kemur í inn lögsögu okkar til að éta og lítur á þetta sem fæðubúr sitt og fer svo aftur. Við höfum hann ekki inni í landhelginni nema kannski í mánuð í viðbót. Það er mikilvægt að við nýtum okkur það og veiðum makrílinn meðan hann er í okkar lögsögu. Ég tala nú ekki um að minni útgerðir hafi möguleika á að veiða hann á eðlilegu verði miðað við hvert afurðaverðið er. Fram kom í ræðu framsögumanns að afurðaverð á makríl hefur verið á milli 50 og 60 kr., eins og ég skil það. Mér finnst eðlilegt að horft sé til þess og að það gjald sem ríkið hefur tekið fyrir aðgang að pottinum, sem er í þessum félagslegum hluta 3,5%, taki eitthvert mið af afurðaverði og færist niður til samræmis við það veiðigjald sem fyrir er, sem þessar útgerðir þurfa að borga þar fyrir utan, 2,78 kr. Eins og komið hefur verið inn á er mikill munur á því hvaða veiðigjald uppsjávarfyrirtækin borga fyrir aðgang að makrílnum, og minni útgerðir sem þurfa fyrst að leigja úr þessum potti á 8 kr. og síðan að greiða veiðigjald.

Ég tel að það sé réttlætanlegt og skynsamlegt að leggja þetta mál fram og nýta þær auðlindir sem við höfum í landhelginni, þ.e. makrílinn, og gera það þess vegna með þessum hætti hratt og vel.

Hitt er svo annað mál að makríllinn hefur yfir höfuð ekki verið í mörg ár í landhelgi okkar. Ég tel að það hefði mátt ráðstafa honum heilt yfir með allt öðrum hætti. Þessi ríkisstjórn tók þá ákvörðun að hlutdeildarsetja makrílinn, kvótasetja hann. Hann er í dag kominn á allt of fáar hendur. Í uppsjávargeiranum hafa veiðiheimildir verið að færast yfir á stærstu útgerðirnar, eins og við reiknuðum með. Það er líka hjá minni útgerðum, margir höfðu ekki góða viðmiðun aftur í tímann til þriggja ára og fengu því lítið og töldu því ekki borga sig að gera út miðað við þann mikla tilkostnað sem þeir höfðu lagt í við að breyta bátum sínum til að stunda makrílveiðar.

Svo ég er mjög gagnrýnin á þá ákvörðun að kvótasetja makrílinn og að hann sé framseljanlegur. Það kerfi allt er mér ekki að skapi og tel ég rétt að við fyrsta tækifæri, þegar ný ríkisstjórn kemst til valda og hefur einhvern metnað í að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, að skoða hvernig hægt er að gera þetta þannig að fleirum sé gefið tækifæri til að hafa tekjur og aðgang að þeirri auðlind sem þarna er undir. Það eru auðvitað gífurlegir hagsmunir þarna á ferðinni.

Nefna má að færeyskir ráðherrar, Høgni Hoydal og fleiri, eru hér á landi þessa dagana að ræða uppboðsleiðina í Færeyjum þar sem tekið er ákveðið magn af makríl og fleiri tegundum og boðið upp. Ég tel að við eigum að kynna okkur það og taka það til skoðunar þótt ég sé ekki á því að sá þorskur sem við veiðum á Íslandsmiðum eigi allur að fara á uppboð. Það er allt annað mál og þarf miklu meiri tíma til að ræða og rökræða hvaða afleiðingar það hefði. En varðandi makrílinn sem er nýr í lögsögunni hefðum við auðvitað að átt að hafa þor til að skoða leiðir eins og þá að bjóða hann út með einhverjum hætti eftir flokkun útgerða og gera hinum minni útgerðum miklu hærra undir höfði en raun varð á. Það fóru margir frá borði með sárt ennið eftir að það var gert. Menn höfðu lagt í gífurlegan kostnað við að útbúa báta sína á makrílveiðar en síðan kom í ljós að ekki var grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri.

Ég tel að þau 2.000 tonn sem þarna eru undir af síld og makríl séu sárabót og skipti máli. Þess vegna tel ég rétt að vera á málinu og stuðla að því að það séu möguleikar fyrir minni útgerðir að nýta sér veiðar á makríl meðan hann er enn í landhelgi okkar.



[12:15]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð alltaf svolítið hissa þegar menn ræða stjórn fiskveiða, hvort sem það er makríll eða eitthvað annað, og tala um eitthvert annað kerfi en aflahlutdeildarkerfi, sem hefur reynst okkur mjög vel. Af hverju ættum við að draga makrílinn út úr því?

Ef við rifjum aðeins upp er mjög stutt síðan makríll synti inn í lögsögu okkar. Hver er ástæðan fyrir því að við Íslendingar eigum hlutdeild í þessum heildarmakrílkvóta? Hún er sú að einhverjir tóku sig til, tóku áhættu, fóru suður í ballarhaf til að veiða makríl. Svo er eins og íslenskum stjórnmálamönnum finnist í lagi þegar við erum að ákveða hér hvernig skuli skipta og hverjir eigi að fá að veiða okkar hlutdeild í makrílkvótanum að það sé einhvers konar uppboð eða einhver sanngirni í stað þess að byggja á veiðireynslunni, að þeir sem mynduðu hana rétt fái hlutdeild. Telja menn virkilega að það borgi sig og sé eðlilegt, þó að við horfum ekki nema til stjórnarskrárinnar sem byggir á því að menn njóti þeirra réttinda sem þeir afla sér með þessum hætti, að hafa sótt sjóinn? Trúir hv. þingmaður því að það sé til bóta fyrir hagræðið og land og þjóð að fara einhvers konar uppboðsleið með makrílinn og jafnvel einhverjar aðrar tegundir sem við veiðum hér?



[12:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki talsmaður uppboðs í sjálfu sér heldur tel rétt að það sé skoðað í ákveðnum tilfellum. Makríllinn gæti fallið undir það. Ég vil frekar að ríkið hafi öflugan leigupott sem hann leigir en að menn leigi hver af öðrum. Hv. þingmaður talar um að þeir sem hafi aflað veiðireynslu og sótt t.d. makríl og aðrar nýjar tegundir eigi að vera í forgangi. Ég tel að það sé mjög gott að þeir útgerðaraðilar hafi gert það, öðruvísi værum við ekki að gera út á Íslandsmiðum, ekki nema af því menn sjá hag sinn í því að gera út. Það er ekki eins og menn geri út bara til þess að afla íslenska ríkinu þeirra réttinda varðandi deilistofna. Menn hafa gífurlegar tekjur af því líka. Þá skulum við horfa til þess að eigendur útgerða eru ekki einir á ferðinni. Þarna eru sjómenn og landverkafólk. Hvaða rétt hefur það til þessarar auðlindar? Ekki neinn. Á það ekki að hafa líka rétt til auðlindarinnar, alveg eins og sá sem á skipið eða útgerðina eða vinnsluna í landi? Er það ekki líka réttlætismál? Hvað segir stjórnarskráin um það, rétt fólks sem skapar þessum mönnum auð? Ég held að menn ættu að fara að hugsa um fleiri en þá sem eiga þetta. Þeir aðilar sem eiga þessi stórfyrirtæki gerðu nú ansi lítið ef það væri ekki fólk til sjós og lands sem drægi aflann að landi og ynni úr honum. Ég held að menn ættu að hafa það í huga. Ég tel að það sé alveg hægt að stjórna fiskveiðum hér við land með allt öðrum hætti en gert er núna. Við horfum vítt og breitt í kringum strendur landsins og sjáum hvernig þetta kvótakerfi hefur farið með landsbyggðina. Það er hægt að útfæra fiskveiðistjórnarkerfið þannig að það sé ásættanlegra fyrir alla, en ekki aðeins fyrir suma.



[12:19]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, jú, ég er alveg sammála því að sjómennirnir sem draga fiskinn að landi eigi að fá hlutdeild í því. Þeir fá auðvitað hlutdeild í aflaverðmæti. Það sem ég er að segja er að það eru útgerðir og sjómenn, sem skipta milli sín hagnaðinum þegar hann verður, sem sækja þennan makríl langt út fyrir lögsögu okkar. Það er mikilvægt að þeir njóti þess. Þeir tóku áhættuna, það var örugglega ekki mikill gróði og jafnvel tap á þessu í byrjun. Þeir mynda þennan rétt, að við Íslendingar fáum aflahlutdeild í heildarmakrílkvóta. Ég tel sjálfur að eðlilegt sé að þeir njóti þess. Við njótum þess öll að útgerðin sé hagkvæm, sé sjálfbær útgerð, og ég tel algjörlega óviðeigandi að íslenska ríkið komi hér núna og segi: Ég á allan réttinn. Ég vil bara bjóða út þannig að ég fái sem mest í ríkissjóð í einhverju útboði. Það kann að vera til lengri tíma skaðlegt fyrir íslenska ríkið og ríkissjóð, en það er kannski önnur og miklu stærri umræða. Ég er bara að segja að það skiptir máli að þeir sem tóku áhættuna, fóru langt, mynduðu hana rétt, við getum ekki horft fram hjá því eins og sumir vilja gera. Ég er ekki að halda því fram að hv. þingmaður sé einbeitt í þeim ásetningi heldur að við þurfum að líta til þess að veiðireynslan og að þeir sem kunna þetta, þeir sem hafa gert þetta, njóti frumkvæðis síns með einhverjum hætti. Þannig er allt kerfið okkar byggt upp. Það finnst mér réttlátt. Svo getum við deilt um það hvað á að vera mikil skattlagning á þetta, hvað borgar sig í því. En allt tal um (Forseti hringir.) uppboð finnst mér fullkomlega fráleitt.



[12:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað dæmigert fyrir íhaldssama sjálfstæðismenn að tala um þessa kapítalísku brauðmolakenningu, að það hrynji alltaf eitthvað af brauðmolum þeirra sem fá allt upp í hendurnar. En það er það sem skilur okkur að í skoðunum okkar, mínum sem vinstri manns og í Vinstri grænum og hv. þingmanns sem sjálfstæðismanns og íhaldsmanns og talsmanns markaðarins. En ef hv. þingmaður er talsmaður markaðarins mundi maður ætla að hann horfði til markaðslögmála varðandi uppboð.

Ég endurtek enn og aftur: Ég fell ekkert í trans yfir þessum uppboðshugmyndum. Mér finnst að þær geti átt við ef markmiðin eru skilgreind vel. En þau eiga langt í frá við alls staðar, því að þá er hætta á því að þeir stóru og sterku sópi öllu til sín og aðrir hafi ekki möguleika og tækifæri. Það getur orðið nógu mikil óvissa sem því fylgir fyrir byggðir landsins.

Ég tel varðandi þennan mikla rétt sem þeir eiga að hafa fram yfir alla aðra til framtíðar sem hafa í upphafi verið frumkvöðlar að hagsmunir þeirra hafi ekki verið fyrir borð bornir og verði aldrei. Þeir munu alltaf njóta þess að hafa verið frumkvöðlar. Það er enginn að tala um að þeir eigi ekki að njóta þess að einhverju leyti en þeir eiga ekki að vera einráðir á ferðinni. Við þekkjum líka hvernig kvótakerfið byggðist upp þegar skipstjórakvótinn færðist á milli og alls konar slíkar aðgerðir sem áttu ekkert heima við það hver veiðireynslan var, heldur var þetta alls konar tilfærsla sem færði aflaheimildir til þeirra fáu og sterku og á milli landshluta og skildi eftir blæðandi byggðir í kjölfarið. Ég tel mig þekkja þessi mál það vel að ég þekki gallana á kvótakerfinu. (Forseti hringir.) Það þarf enginn að segja mér (Forseti hringir.) að það sé hamingjan út í eitt.



[12:23]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veit að við erum bæði landsbyggðasinnuð og viljum hag smábáta sem mestan. Við erum bæði á þessu máli og sammála um það og auðvitað fagna ég því, þótt við séum ekki alltaf sammála hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið.

Við erum alla vega sammála um það að við leggjum til að þeir smábátar eða nýliðar sem sækja í þennan pott greiði tvöfalt veiðigjald í staðinn fyrir nær fjórfalt. Við erum sammála um það. Það hefur komið fram í ræðu, ekki hjá hv. þingmanni, það var hv. þm. Björt Ólafsdóttir sem var á móti því að við værum að handstýra þessu svona, en ég vil vekja athygli á því að með þessu erum við í rauninni að horfa frá handstýringu með því að hafa fasta krónutölu þarna inni, þetta gjald færist upp og niður í takt við veiðigjaldið. Veiðigjaldið er eins og þarna er svona tæp 5, 4,7–4,8%. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um það. Er hún sátt við að veiðigjald sé 5% eða vill hún sjá hærri tölu af brúttóupphæð?

Hv. þingmaður minntist á uppboðsleiðina. Ég stenst ekki mátið að spyrja hv. þingmann hvort hún geti séð fyrir sér að prófa uppboðsleiðina hjá smábátaflotanum. Ef svo er, hvernig sæi hún fyrir sér að það mundi virka hjá þessum flota? Óttast hún ekkert að þeir stærstu í þeim hópi mundu þá hreppa hnossið?



[12:25]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um uppboðsleiðina sem er til umræðu. Ég er ekki talsmaður uppboðsleiðar en er opin fyrir því að skoða möguleika á því að bjóða upp tegundir eins og makríl. Það er tegund sem er að koma hingað inn í landhelgina sem væri hægt að bjóða upp og láta reyna á hvernig það kæmi út. Varðandi uppboð á hluta af því sem hefur verið í dag í félagslegum potti, þessum 5,3%, þá mundi mér hugnast betur að það væri þar öflugur leigupottur ríkisins sem tæki mið af afurðaverði og rekstrarkostnaði þeirra smærri útgerða sem þar ættu hlut. Ég veit ekki hvort það kæmi endilega vel út að menn færu að bítast mikið um það, að það mundi verða það stór pottur að það mundi myndast einhver eðlileg samkeppni og annað í þeim dúr. Ég held að það væri ekki endilega það skynsamlegasta í þeim efnum, en maður á aldrei að segja aldrei. Ég ætla ekki að loka á neitt í þeim efnum því að ég held að líka skipti máli skilgreiningar og girðingar á útgerðarstærðum og öðru sem koma þar við sögu. Það skiptir máli hvernig útfærslan yrði.

Ég hef sagt um veiðigjöldin að þessi ríkisstjórn hefur lækkað flatt á alla og skýlt sér á bak við það að hún væri að lækka á minni útgerðir. Núna sjáum við að stærstu uppsjávarútgerðirnar borga miklu minna veiðigjald en minni bátar á sömu veiðum. Er það eðlilegt? (Forseti hringir.) Ég held það ætti að skoða möguleikana (Forseti hringir.) á að hafa einhvers konar þrepaskiptingu eins og er í skattkerfinu hjá okkur (Forseti hringir.) gagnvart mismunandi útgerðarflokkum.



Frumvarpið gengur til 2. umr.