148. löggjafarþing — 32. fundur
 1. mars 2018.
staða hagkerfisins.

[10:47]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú hefur uppgangur hagkerfisins verið með besta móti mjög lengi, alveg rosalega jákvæðir hlutir að gerast í hagkerfinu. En það er augljóst að það er ekki tryggt að þetta haldi áfram til eilífðar. Nú er atvinnuleysi komið upp í 4% sem þykir heldur hátt miðað við hin síðustu ár og er leitnin upp á við hjá sumum þjóðfélagshópum í fyrsta skipti síðan hrunið varð. Þá er komin fram hagspá um að hagvöxtur verði kominn niður í 2,9% árið 2019, sem sumir eru byrjaðir að leitast við að kalla mjúka lendingu.

Hagvöxtur samkvæmt Hagstofu er 7,4% í ár. Tölur ýmissa annarra stofnana í heiminum gefa til kynna að hann sé mun lægri. Það eru hugsanlega mismunandi matsaðferðir í gangi og hjá einum matsaðila er hann kominn niður í 3,1%. Það er lægra en meðaltalshagvöxtur í heiminum.

Ég velti fyrir mér og langar til að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er einhver brotlending í kortunum? Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar til að reyna að sporna við þessari óheillaþróun? Er eitthvað sem ríkisstjórnin kemur til með að gera til að reyna að tryggja að hagvöxtur okkar haldi áfram og sé í það minnsta fyrir ofan heimsmeðaltal til næstu ára? Og mun eitthvað af þessum hugsanlegu áætlunum birtast okkur hér á þinginu einhvern tímann fyrir páska?



[10:49]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar tölur sem hv. þingmaður færir hér inn í umræðuna um hagspána. Staðan er sú að við erum nú að lifa lengsta samfellda hagvaxtarskeið okkar. Það var ekki við því að búast að hagvöxtur héldi áfram af þeim krafti sem hann hefur gert undanfarin ár. Ég lýsi engum áhyggjum af því þó að hagvöxtur fari niður undir um 3% og jafnvel þótt hann lægi á bilinu 2,5–3% eins og vísað var til, og var það nokkuð viðbúið. Sérstaklega eftir mjög mikla styrkingu krónunnar sem er vegna þessa sama hagvaxtarskeiðs þar sem mjög aukinn fjöldi ferðamanna til landsins hefur haft mikil áhrif.

Það er líka hægt að segja að ekki sé við því að búast að í þróuðum hagkerfum eins og okkar, sérstaklega eftir mjög langt hagvaxtarskeið, haldi hagvöxtur bara áfram inn í eilífðina og langt yfir heimsmeðaltali eins og hv. þingmaður segir. Það er kannski frekar að menn eigi von á meiri hagvaxtartölum frá nýmarkaðsríkjum og löndum sem eru að rétta úr kútnum og eru í mikilli innviðauppbyggingu og sókn til bættra lífskjara. En þegar lönd mælast með lífskjör fremst meðal þjóða eins og á við um Íslendinga er mjög vandasamt að halda vextinum jafn kraftmiklum og átt hefur við undanfarin ár.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum að sigla inn í töluvert breytta tíma núna eftir þetta kraftmikla hagvaxtarskeið, að við munum sjá vonandi meira jafnvægi, minni vöxt milli ára, færri óvænta vinninga eins og við höfum séð. Það hefur nánast verið venjan að frá því að fjárlög hafa verið lögð fram þar til næsta hagvaxtarspá birtist höfum við úr 15–20 (Forseti hringir.) viðbótarmilljörðum að spila fyrir komandi fjárlagaár. Ég held að því tímabili sé að ljúka, við séum að fara inn í mun rólegri tíma. Það þarf ekki að boða nein ótíðindi.



[10:51]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla í fyrsta lagi að segja að það er rangt hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, þetta er ekki lengsta hagvaxtarskeiðið í sögu Íslands. Þetta er það þriðja lengsta ef allar spár ganga eftir.

Svo er líka tilfellið að ég spurði um aðgerðir en ekki spár. Ég spurði ekki hver skoðun hæstv. fjármálaráðherra væri á því hvernig okkur myndi ganga, heldur spurði ég hvaða aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar myndu koma í veg fyrir brotlendingu.

Nú er styrking krónunnar áhugavert umræðuefni og sömuleiðis hvort hagvöxtur fari undir heimsmeðaltalið, sem er yfirleitt ábending um að við séum að fylgja eftir þróun sem er undirliggjandi alda á heimsvísu, jafnvel svokölluð Kondratiev-bylgja. En við hljótum í það minnsta að geta fylgt eftir löndum á borð við Eistland, sem ekki er með vanþróað hagkerfi á nokkurn hátt. Þar er spáð 5% til lengdar.

Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera til að tryggja að okkar hagkerfi haldi svona vel áfram til lengdar?



[10:53]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að stutta svarið við spurningunni liggi í því að ríkisstjórnin hyggst leggja sérstaka áherslu á nýsköpun og þróun á komandi árum, að styðja við nýsköpun og þróun þannig að hér verði til aukin verðmæti, meiri framleiðni og vöxtur haldi áfram. Ný störf sem eru verðmætaskapandi.

Ef maður ætti að fara út í lengra svarið myndi ég benda á að það birtist í raun og veru í ríkisfjármálaáætluninni, í fjármálastefnunni. Ríkisstjórnin getur ekki tekið að sér ein og óstudd að viðhalda stöðugleika og vexti í hagkerfinu, heldur er það sameiginlegt verkefni stjórnvalda og þá á ég við ríkisstjórn ásamt með sveitarstjórnunum í samvinnu við vinnumarkaðinn. Menn verða að haldast í hendur við að tryggja stöðugleika og vöxt og síðan kemur auðvitað peningastjórn inn í þá mynd.

Samspil vaxtaákvarðana, stjórn opinberra fjármála og þess sem er að gerast á vinnumarkaði, samspil þessara þátta er lykillinn að því að við getum viðhaldið stöðugleika og vexti á Íslandi.