131. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Minning Árna R. Árnasonar.

[14:23]

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Við þingsetningu söknum við alþingismenn og minnumst eins úr hópi okkar alþingismanna. Árni Ragnar Árnason, 2. þingmaður Suðurkjördæmis, andaðist á sjúkrahúsi 16. ágúst sl., nýorðinn 63 ára. Eins og kunnugt er átti hann við erfið og langvarandi veikindi að stríða og sat aðeins nokkra daga á síðasta þingi.

Árni Ragnar Árnason var af vestfirsku bergi brotinn, var fæddur á Ísafirði 4. ágúst 1941. Foreldrar hans voru hjónin Árni Ólafsson skrifstofustjóri og Ragnhildur Ólafsdóttir húsmóðir. Árni Ragnar lauk prófi frá Samvinnuskólanum 1960 og hóf þá störf í Sparisjóðnum í Keflavík, en þangað hafði hann flust 1956. Hann varð 1966 fulltrúi og síðar útibússtjóri Verslunarbanka Íslands í Keflavík fram til ársins 1971 en þá hóf hann að reka eigin bókhaldsstofu í Keflavík og hafði raunar útibú víðar. Frá árinu 1985 var hann fjármálastjóri hjá varnarliðinu, Vörumarkaðnum og Ragnarsbakaríi og þremur árum síðar deildarstjóri hjá varnarliðinu. Í því starfi var hann þar til hann var kjörinn alþingismaður í kosningunum 1991.

Árni Ragnar Árnason gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og varð formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Keflavík, 1966–1971. Hann var kjörinn í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1969 og var fyrsti varaformaður samtakanna 1971–1973. Hann sat í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi frá 1966. Hann var kjörinn bæjarfulltrúi í Keflavík 1970–1978, varabæjarfulltrúi 1978–1982. Auk starfa innan samtaka sjálfstæðismanna tók Árni Ragnar mikinn þátt í öðrum félagasamtökum, einkum þó JC-hreyfingunni. Hann var einn af stofnendum hennar á Suðurnesjum og fyrsti forseti félagsins og sat í landsstjórn JC Íslands um árabil, landsforseti íslensku JC-hreyfingarinnar 1976–1977.

Eins og heyra má hafði Árni Ragnar Árnason látið mjög að sér kveða innan Sjálfstæðisflokksins og í öðrum félagasamtökum á Suðurnesjum er hann gaf kost á sér í prófkjöri fyrir alþingiskosningarnar 1991. Hann hlaut mikið fylgi flokksmanna sinna og síðar þingsæti í kosningunum í apríl það ár. Hann átti samfellt sæti á Alþingi síðan, eða í 13 ár, fyrst sem alþingismaður Reyknesinga en við kjördæmabreytinguna, sem tók gildi 2003, völdu sjálfstæðismenn í hinu nýja Suðurkjördæmi hann til forustu á lista flokksins við kosningarnar í maí á síðasta ári.

Hér á vettvangi Alþingis beitti Árni Ragnar sér fyrst og fremst fyrir umbótum í atvinnumálum. Hann var einn forustumanna síns flokks í sjávarútvegsmálum og var kjörinn formaður sjávarútvegsnefndar við upphaf þessa kjörtímabils. Hann vildi styðja hvers kyns frumkvöðlastarfsemi og aðrar nýjungar í atvinnulífinu. Árni Ragnar var enn fremur áhugasamur um alþjóðamál, sat nær samfellt í utanríkismálanefnd frá því hann var kjörinn á þing, sat í alþjóðanefndum þingsins og var kjörinn formaður Íslandsdeildar þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsríkjanna frá 2003. Er margt ótalið af ferðum sem hann fór og ráðstefnum sem hann sat til að vinna að málstað Íslands á alþjóðavettvangi.

Árni Ragnar Árnason var eins og við öll vitum mikið prúðmenni og vel látinn í hópi okkar alþingismanna, jafnt samherja sem andstæðinga. Hann var vinnusamur og vandvirkur við öll störf sem hann tók að sér, hófsamur í málflutningi en fastur fyrir í þeim málum sem hann taldi miklu varða. Hann hafði mikla þekkingu á málaflokkum þar sem hann beitti sér einkum og var ódeigur að auka menntun sína með námskeiðum og lestri meðan líf og kraftar entust.

Þegar við lok fyrsta kjörtímabils Árna Ragnars Árnasonar á Alþingi, árið 1995, fór að gæta þess sjúkdóms sem um síðir lagði hann að velli. Í veikindum sínum sýndi Árni Ragnar einstætt þrek og óbilandi bjartsýni og honum tókst hvað eftir annað að komast til heilsu og starfa á ný þótt mjög væri nærri honum gengið. Hann beitti sér fyrir málefnum krabbameinssjúkra, studdi samtök þeirra og glæddi vonir margra í þeirra röðum með fordæmi sínu.

Það er bjart yfir minningu Árna Ragnars Árnasonar þegar við alþingismenn minnumst hans á þessum degi.