132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:16]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sem stóð hér á undan mér fékk nokkuð gott svigrúm til að svara andsvari mínu og geri ég engar athugasemdir við það.

Mér heyrist helst á hv. þingmanni að við hefðum, að hans mati á þeim tíma þegar við vorum að velta fyrir okkur aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, átt að reyna að fara fram á sérmeðferð eða öðruvísi leið en ákveðið var að fara. Ég var ekki í þingsölum á þeim tíma. En ef ég man rétt töldu flestir að það að reyna að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið á þeim tíma við þær aðstæður sem þar voru uppi hefði ekki reynst fær leið fyrir okkur á Íslandi. Ekki ætla ég að leggja mat á það. Ég vil bara segja í sambandi við Evrópusambandsumræðuna og hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið að ég tel það ábyrgðarhluta af okkar hálfu ef við förum ekki að slá í klárinn í þeim efnum og skilgreina nákvæmlega hvað við viljum ná út úr slíkum viðræðum og til hvers við færum í þær viðræður en ekki eins og lýst hefur verið að Framsóknarflokkurinn sé að gera, þ.e. eingöngu að skilgreina einhver samningsmarkmið bara til að skilgreina samningsmarkmið en helst ekki sækja um aðild. Við viljum sækja um aðild að Evrópusambandinu eftir að samningsmarkmiðin hafa verið skilgreind að því gefnu að niðurstaða samningamanna fyrir okkar hönd sé ásættanleg fyrir íslenska þjóðarbúið og íslenska þegna.

Hverjum dettur í hug að einhverjir hér á þingi vilji semja við Evrópusambandið og koma heim með samningsniðurstöðu og leggja hana fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu vitandi að slík samningsniðurstaða yrði kannski felld vegna þess hvernig hún lítur út? Að sjálfsögðu reyna menn að skilgreina samningsmarkmiðin fyrst, koma svo heim og leggja þau fyrir þjóðina.