145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár. Eins og var rakið mælti ráðherra fyrir málinu fyrir helgi og samkomulag var um að umræðan færi fram síðar, enda kannski ekki mál sem á að ræða inn í myrkrið, inn í nóttina. Ég féllst því á að það yrði gert þótt auðvitað sé aldrei heppilegt að láta tíma líða og hafa ekki viðeigandi ráðherra viðstaddan sem þekkir málin út og inn, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr því að hér sé sá sem gegnir hlutverki fjármálaráðherra í dag.

Ég ætla að fara í gegnum þetta frumvarp eins og það kemur fyrir og velta upp hugleiðingum mínum sem það varða. Auðvitað getur maður ekki annað sagt en að þetta frumvarp þjóni ekki þeim tilgangi sínum sem lagt er upp með og kemur fram í inngangi og heitir hlutverk fjáraukalaga. Það er ófyrirséður kostnaður og ófyrirséð útgjöld sem eiga að fara hérna inn en því miður hefur okkur ekki auðnast það í gegnum tíðina, sem er svo sem ekki nýtt af nálinni, ég ætla ekki að halda því fram. Okkur hefur ekki auðnast að brúka það sem slíkt heldur er gjarnan komið inn með málefni sem að við vitum að eru ekki ófyrirséð. Þetta frumvarp er svo sannarlega ekki undanskilið og kannski vel bætt í ef eitthvað er. Þetta eru full stór fjáraukalög svo ekki sé meira sagt.

Það kemur fram í upphafi um forsendur þessa frumvarps að ákveðið hafi verið að taka ekki inn tillögur vegna slitabúanna og fjármuna og eigna sem færast til ríkisins miðað við það frumvarp sem var samþykkt fyrir helgi. Það er kannski skiljanlegt að ekki sé sett inn eitthvað sem ekki er búið að ganga frá eða samþykkja og maður skilur það, sérstaklega þegar um er að ræða slíkar fjárhæðir. En það er alveg ljóst að það verður með einhverjum öðrum hætti en við gerðum ráð fyrir, þ.e. fjárhæðir eru allt aðrar en margur hefur búist við af þeim gjörningi.

Ég hef gert athugasemdir við að áhrifin af kjarasamningunum séu ekki metin hér inn nema að hluta til. Mér finnst skrýtið að í frumvarpi sem er svona seint fram komið skuli ekki vera hægt að áætla betur. Okkur er tíðrætt um áætlanagerð. Það er það sem skiptir höfuðmáli í þessu. Og verandi að fjalla um frumvarp um opinber fjármál þar sem allt á að byggjast á góðri áætlanagerð og þau snúast fyrst og síðast um að áætlanagerð sé almennileg og að hún haldi þá ber þetta ekki merki þess, ekki frekar en fjárlögin sem við erum líka farin að fjalla um.

Gerðardómur í máli BHM og Fíh liggur fyrir í ágúst. Þess vegna tel ég að það hefði átt að vera hægt að taka eitthvert mat á því inn í þetta frumvarp. En það er ekki gert og er þá væntanlega eitt af því sem bætist við á þá fjárhæð sem fyrir liggur í fjáraukalagafrumvarpi núna milli umræðna.

Það er talað um að stærsti hluti bættrar afkomu af fjárlögum skýrist að mestu leyti af arðgreiðslum úr fjármálastofnunum. Það er eitt af því sem okkur þykir einkennilegt. Ef hægt er yfir höfuð að áætla einhverjar arðgreiðslur, af hverju ætti ekki að vera hægt að áætla þær sem næst raunveruleikanum? Svörin sem koma frá ráðuneytinu finnst mér ekki nægjanleg. Ég tel að ef hægt er að áætla 15 milljarða eða 12 eða 20 sé hægt að áætla sig nær, af því að tveimur mánuðum seinna gerist ekkert svo stórkostlegt að ekki sé hægt að áætla það. Því höfum við í minnihlutanum haldið mjög sterkt á lofti, vegna þess að þetta er að gerast í að minnsta kosti annað sinn ef ekki í þriðja sinn, svona mikil frávik.

Það er hins vegar vert að skoða að ef viðbótararðgreiðslurnar eru undanskildar versnar frumjöfnuður þessara fjárlaga frá áætlunum um u.þ.b. 3 milljarða. Það er eitthvað sem við þurfum að vera mjög meðvituð um.

Þegar horft er á talnagrunninn og reksturinn, útstreymi og innstreymi í ríkissjóð skoðað þá er búið að taka Landsbankann út, eða 15% söluhlut í honum. Það er ekki er gert ráð fyrir honum lengur í fjáraukalögunum heldur er gert ráð fyrir helmingi meira, þ.e. að 30% af sölunni fari öll fram í því fjárlagafrumvarpi sem við erum með til umfjöllunar fyrir næsta ár.

Aðrar breytingar eru á tekjuhlið. Eitt af því sem við Vinstri græn og minni hlutinn höfum staðið nokkuð þétt saman í að gagnrýna er tekjumissirinn eða sú leið sem ríkisstjórnin velur að fara, sem er m.a. að lækka veiðigjaldið um 2 milljarða þrátt fyrir að við sjáum mjög góða afkomu útgerðarinnar ár eftir ár. Það hefur ekki enn þá breyst til þeirra muna, að mínu mati, að lækka þurfi gjaldið á þennan hátt. Samfélagið er ekki komið í þá stöðu að við getum leyft okkur að afsala okkur tekjum og brauðmolahagfræðin virkar ekki. Það hefur verið sýnt fram á að það er ekki eitthvað sem skilar samfélaginu því sem að sjálfstæðismenn vilja helst halda fram.

Það var ekki útskýrð 3 milljarða kr. lægri arðgreiðsla frá Seðlabanka Íslands og öðrum aðilum. Það var bara samkvæmt einhverjum reglum og við óskum eftir að fá betri útskýringu á því. Ég vona að það komi til okkar á milli umræðna.

Mig langar líka að fara í útgjaldabreytingarnar, stikla þar á stóru. Við gagnrýndum það mjög í vor eða sumar þegar lagt var fram einskiptisframlag upp á tæpa 2 milljarða til vegagerðar, bæði framkvæmda og viðhalds, ekki vegna þess að ekki ætti að gera þá hluti heldur vegna þess hvernig það var gert. Það var farið fram hjá öllum hefðbundnum leiðum og gert í gegnum ákvörðun ríkisstjórnar. Samgönguráð og aðrir voru ekki spurðir. Svo erum við með vanfjármagnaða samgönguáætlun eins og hún var lögð fram síðasta vor, án þess að hún fengi neina afgreiðslu. Það er ekki gott að vinna þetta á þann hátt sem hefur verið gert, eins og við höfum ítrekað rakið og bent á. Ég er alveg sannfærð um það að flestir fulltrúar í fjárlaganefnd eru afar ósáttir við að svo mikið af fyrirsjáanlegum útgjöldum komi hér inn. Ég held að það sé ekki neinn sérstakur ágreiningur um það á milli flokka.

En viljinn til að gera betur er það sem við höfum að vopni og við þurfum að reyna að koma því að í þingsal að framkvæmdarvaldið leyfi sér ekki svona áætlanagerð, eða réttara sagt enga áætlanagerð eða litla, og að gera hlutina á þennan hátt. Þess vegna held ég að við getum staðið nokkuð saman að breytingum á því hvernig hlutirnir eru settir fram.

Það er einn áhugaverður punktur á bls. 51 í fjáraukalögunum sem er skattar á vöru og þjónustu. Þar lækkar virðisaukaskattur um 2,4 milljarða og tekjur af sköttum á vöru og þjónustu lækka í heildina um tæpan milljarð. Aðrir eru um það bil í þeirri áætlun sem gert var ráð fyrir. Það sem vekur mann til umhugsunar er að virðisaukaskatti sé síður skilað, eins og hér stendur, til ríkissjóðs þegar fyrirtæki eru í rekstrarvanda og að breytingar á hegðun séu treglegri til baka en veltan á skattstofninn. Maður hugsar með sér að það sé hálfpartinn viðurkennt að fyrirtæki leyfi sér að skila ekki þessum skatti. Það er ekki gott.

Einn stór póstur í þessu er sjúkratryggingarnar. Það er eitt af því sem við höfum rætt ítrekað — þegar ég segi „við“ á ég við bæði okkur í Vinstri grænum og okkur í minni hlutanum — og teljum að þurfi að girða fyrir og mikilvægt að girt sé fyrir í nýjum opinberum fjármálum þ.e. að ekki sé hægt að áætla of lítið og láta svo fella það niður um áramótin heldur þurfi Sjúkratryggingar sem og aðrir að áætla af einhverju viti. Hér er líka verið að tala um reglugerðina um sérfræðilækna sem við erum búin að benda á að minnsta kosti tvisvar sinnum við fjármálaumræðu. Það var búið að búa til reglugerð. Hún var ekki látin taka gildi, ég vil segja sem betur fer og það er vel. Ég hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa ekki látið þá reglugerð taka gildi því að það hefði þýtt aukinn kostnað fyrir sjúklinga. En það breytir því ekki að þetta hefur legið fyrir í ansi langan tíma og hefði átt að vera við gerð fjárlaga fyrir árið 2015 en ekki fjáraukalögin núna, það hefði átt að setja þetta inn í þau fjárlög.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, er hægt að tína út eitt og annað sem er alls ekki fjáraukamál. Það er leitt þegar búið er að margbenda á hvernig þetta er. Ég hef til dæmis bent á bæði sérstakan saksóknara og héraðssaksóknara. Hér lá fyrir að mál yrði ekki samþykkt sem gerði þá breytingu að veruleika að héraðssaksóknari tæki til starfa 1. júlí. Það hefði þurft að áætla fyrir því.

Það er líka rætt um innanlandsflugið, þ.e. flugið sem við höfum stundum kallað styrkta flugið, samningar sem hafa verið gerðir, með of stuttan tíma að mínu viti, til Bíldudals, Gjögurs, Hornafjarðar, Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar. Það er verið að gera það kleift að klára fjárhagsárið og fljúga á þá staði. Ég vona svo sannarlega að við semjum til lengri tíma þannig að hægt verði að byggja þetta flug upp af einhverju viti.

Tíminn er fljótur að fara og ýmislegt sem hægt er að ræða. Ég held að stærstu póstarnir sem ég vildi koma inn á sé komnir fram fyrir utan það að ég tek undir það sem sagt var um bæði barna- og vaxtabætur. Ég hefði viljað sjá viðmiðin hreyfð til fremur en að gert væri ráð fyrir því að þessir fjármunir færu aftur í ríkissjóð því að það er ekki það sem þingmenn voru að samþykkja, tel ég. Ég tek undir þá gagnrýni.

Ég held að fyrst og síðast snúist þetta um að ríkisstjórn hverju sinni vandi áætlanagerðina betur þannig að ekki sé komið inn með mál sem ekki eiga heima hérna. Það verður reyndar ekki fyrr en á næsta kjörtímabili úr því sem komið er sem þessi nýju opinberu fjármál taka gildi, því að þau eru umfangsmikil og þurfa tíma í kerfinu. Þá ætti að þrengja að alls konar svona og fjáraukalögin ættu ekki að vera eins og þau eru hér.

Ég vona svo sannarlega að við getum samhent tekið þetta út fyrir (Forseti hringir.) sviga og séð til þess að þetta verði ekki gert á þennan hátt áfram, ár eftir ár.