145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hagstofan hefur nú komið með bráðabirgðaniðurstöður sínar fyrir þróun landsframleiðslu á 4. ársfjórðungi síðastliðins árs, 2015. Þær tölur staðfesta að sjálfsögðu að það er ágætisgangur í hagkerfinu hjá okkur um leið og ýmis áhyggjuefni blasa þar við; þenslumerki og merki um að það sé að byggjast upp jafnvægisleysi, og vekur þar þróun viðskiptajöfnuðarins auðvitað mestar áhyggjur.

Það er vissulega svo að á 4. ársfjórðungi 2015 jókst útflutningur um 10% borið saman við sama ársfjórðung árið þar á undan, en innflutningur um heil 20%. Þar af var vöxtur vöruútflutnings 9% en vöxtur vöruinnflutnings rúm 30%. Það eru gamalkunnug hættumerki þegar þensla er að fara úr böndunum í hagkerfinu. Ef ekki væri fyrir hinn ævintýralega vöxt ferðaþjónustunnar og mikinn afgang af þjónustuviðskiptum væri Ísland komið í mjög gamalkunnan vanda við þessar aðstæður.

Að öðru leyti uppfærir Hagstofan tölur sínar fyrir þróun landsframleiðslu áranna 2011 og leggur saman árið 2015 þegar 4. ársfjórðungur er kominn í hús. Þar koma sömuleiðis fram mjög athyglisverðar niðurstöður. Það er skaði að hæstv. forsætisráðherra sé ekki í húsi frekar en venjulega svo sem, því að þarna er staðfest að þrjú síðustu ár síðastliðins kjörtímabils var hagvöxturinn að meðaltali yfir 2,5%. Hæsta talan í þessum skjölum er 4,4% hagvöxtur á árinu 2013.

Hæstv. forsætisráðherra getur nú vonandi farið að hætta að vorkenna sér að hann hafi tekið við sérstaklega vondu búi og að allt hafi gjörbreyst til hins betra eftir að hann tók við, því að hann á enn eftir að ná því að jafna hagvaxtarmet ársins 2013 sem hann getur varla gert mikið tilkall til. Þessar tölur og endurmat Hagstofunnar á þróun hagstærða á síðari hluta síðasta kjörtímabils staðfesta þann mikla bata og þann mikla árangur sem hafði þá þegar náðst við að vinna Ísland út úr erfiðleikunum.


Efnisorð er vísa í ræðuna