145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

orð forsætisráðherra í óundirbúinni fyrirspurn.

[15:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp vegna orðaskipta sem fram fóru áðan milli hæstv. fjármálaráðherra og starfandi þingflokksformanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Hún var að reyna að fá fram hvenær kosningar ættu að fara fram. Nú ætla ég að biðja hæstv. forseta að ganga í lið með Alþingi og verja okkur fyrir hroka þeirra manna sem leiða hér ríkisstjórn. Talað er um að til að hægt sé að ákveða það þurfi þingstörf að ganga eðlilega fram. Hér bera stjórnarandstöðuþingmenn uppi starfið í nefndunum og vinna að framgangi mála af fullum heilindum. En að sitja undir svona hroka er algerlega ólíðandi og hlýtur að vinna gegn því að þingstörf geti gengið eðlilega fyrir sig. Ég óska eftir því að hæstv. forseti gangi í það mál að fá fram kjördag og að það sé skýrt í hugum þessara (Forseti hringir.) hrokafullu manna hvaða mál það eru sem á að afgreiða (Forseti hringir.) þó að þeir hafi lagt fram þennan hlálega 76 mála lista.