145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:10]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að vera komin hingað og mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Þetta frumvarp er liður í heildarendurskoðun almannatryggingalaganna og lögum um félagslega aðstoð sem unnið hefur verið að allt þetta kjörtímabil.

Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja stöðu aldraða, m.a. með því að gera löggjöf um almannatryggingar einfaldari og skýrari og að auka sveigjanleika vegna starfsloka. Frumvarpið byggist að miklu leyti á tillögu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar sem sett var á laggirnar í nóvember 2013 og skilaði mér skýrslu í byrjun mars á þessu ári.

Í nefndinni náðist ekki samstaða um endurskoðun almannatryggingalaganna hvað varðar upptöku mats á starfsgetu í stað örorkumats og bótakerfis þess því tengt. Því eru ekki lagðar til breytingar á lögunum hvað snertir örorkubætur að þessu sinni. Áfram verður þó unnið að því máli í velferðarráðuneytinu í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunasamtök þeirra sem búa við skerta starfsgetu og þannig lagður grundvöllur að næstu skrefum í endurskoðun laganna. Bara núna í þessari viku erum við einmitt að funda til að huga að þessu. Þangað til verður stuðst við núgildandi örorkumat og gildandi reglur um bætur frá almannatryggingum vegna örorku.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á einföldun löggjafarinnar og þannig stefnt að því að draga úr margvíslegum annmörkum við framkvæmdina og að lífeyristryggingakerfi almannatrygginga verði gagnsærra fyrir eldri borgara þessa lands. Þá er einnig lögð mikil áhersla á að auka sveigjanleika og valmöguleika aldraðra við starfslok. Þá er gert ráð fyrir að lífeyristökualdur verði hækkaður í áföngum í 70 ár. Auk þess er sett af stað tilraunaverkefni hvað varðar kostnaðarþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Virðulegi forseti. Almannatryggingar hafa tekið miklum breytingum síðustu áratugi og verða sífellt veigameiri þáttur í uppbyggingu velferðarsamfélagsins á Íslandi. Velferðarsamfélög eru fyrir alla og almannatryggingar eru hluti af öryggisneti allra sem búa í samfélaginu. Eitt stærsta viðfangsefnið sem nú blasir við vestrænum samfélögum er ört hækkandi meðalaldur íbúanna. Áætlað er að hann hækki um sex til sjö ár í Evrópu til ársins 2050 og að á Íslandi muni hlutfall þeirra sem eru 67 ára og eldri að mannfjölda hækka úr 12% árið 2016 í 19% árið 2040. Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að hlutfall eldri borgara 67 ára og eldri af mannfjölda verði 22% árið 2060, eða rétt tæplega 97.000 manns.

Markmiðið með frumvarpinu er því ekki síður að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkaðs hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar. Staða Íslands hvað þetta varðar er þó um margt mjög góð einkum vegna hins öfluga lífeyrissjóðakerfis og mikillar atvinnuþátttöku eldri borgara, en hún er með því mesta sem þekkist hjá OECD-ríkjunum.

Heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar hefur staðið yfir í langan tíma og því verki verður haldið áfram. Gagnrýnt hefur verið að kerfið sé of flókið og erfitt sé fyrir hinn almenna borgara að átta sig á réttindum sínum. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga byggjast á mörgum bótaflokkum sem um gilda mismunandi reglur, t.d. hvað varðar skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris og þeirra bótaflokka sem honum fylgja. Þá gilda mismunandi reglur um tekjuviðmið, þ.e. hvaða aðrar tekjur ellilífeyrisþegar hafa áhrif á útreikninga greiðslna, frítekjumörk og skerðingarhlutföll vegna tekna, þ.e. hversu mikil áhrif aðrar tekjur skuli hafa til lækkunar þegar fjárhæð bótanna er reiknuð út er þannig mismunandi. Kerfið þykir flókið í framkvæmd. Erfitt hefur reynst að breyta lögum eða reglum um einstaka bótaflokka vegna innri tenginga milli mismunandi bótaflokka. Reynslan sýnir að flækjustigið eykst sífellt eftir því sem reynt er að breyta lögum og reglum til að koma til móts við kröfur ólíkra aðila eða nýjar þarfir sem koma upp í þjóðfélaginu. Þetta sést hvað einna helst má segja árlega þegar Tryggingastofnun endurreiknar á grundvelli tekna lífeyrisþega, en það sýnir sig þá, eins og síðast, að þá voru 90% lífeyrisþega sem fengu endurútreikning, höfðu annaðhvort fengið of mikið greitt eða of lítið.

Það eru þó ekki eingöngu hinar efnislegu breytingar sem skipta máli fyrir framtíð lífeyristrygginga á Íslandi. Auknar kröfur eru í samfélaginu um gagnsæi, skilvirkni og einfaldari og skýrari lagatexta. Þetta hefur komið fram í áliti umboðsmanns Alþingis og úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga og úrskurðarnefndar velferðarmála.

Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum hafa verið gerðar mjög veigamiklar breytingar sem hafa miðað að því að gera löggjöfina skýrari og gagnsærri án þess að um miklar efnislegar breytingar hafi verið að ræða á bótaflokkum. Má nefna lög nr. 8/2014, sem kveða á um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við Tryggingastofnun og um eftirlitshlutverk stofnunarinnar og lög nr. 88/2015, sem gerbreyttu ákvæðum laganna meðal annars um stjórnsýslu, þ.e. um Tryggingastofnun, hlutverk hennar, stjórn og forstjóra, um stjórnsýslukærur og nýja úrskurðarnefnd velferðarmála. Sett voru ákvæði um markmið laganna, orðskýringum bætt við, kveðið á um gildissvið og margt fleira. Þannig má orða það að í staðinn fyrir að gleypa allan fílinn í einum bita höfum við þannig smátt og smátt fikrað okkur í þá átt að ljúka heildarendurskoðun laganna og erum nú komin að þeim þætti sem snýr að öldruðum.

Eins og ég nefndi hefur heildarendurskoðun almannatryggingalaganna staðið lengi yfir og má segja að verkefnið hafi hafist fyrir um tíu árum. Ýmsir hópar og nefndir hafa starfað á þeim tíma með misjöfnum árangri. Því er þó ekki hægt að neita að miklar réttarbætur til handa elli- og örorkulífeyrisþegum hafa náðst sem við búum enn að. Öll getum við þó verið sammála um að hægt er að gera mun betur í þessum málaflokki og þetta frumvarp er liður í því, áfangi í því.

Fljótlega eftir að ég tók við starfi sem félags- og húsnæðismálaráðherra árið 2013 skipaði ég nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga undir forustu Péturs heitins Blöndals þingmanns. Verkefni nefndarinnar var í megindráttum tvíþætt, annars vegar skyldi hún fjalla um starfsgetumat sem kæmi í stað gildandi örorkumats og sveigjanleg starfslok og hins vegar um fjárhæðir lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja. Í skipunarbréfi til nefndarinnar var tekið fram að í starfi hennar skyldi byggja á þeirri vinnu sem þegar hafði verið unnin í tengslum við heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Eftir að Pétur andaðist tók Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður við keflinu. Skilaði hann skýrslu nefndarinnar með tillögum sínum 1. mars síðastliðinn og er frumvarp þetta að miklu leyti byggt á þeim tillögum. Vil ég nota tækifærið til að þakka öllu því góða fólki sem komið hefur að því mikilvæga verkefni að endurskoða almannatryggingalöggjöfina og vonast ég svo sannarlega til að sátt náist um það á Alþingi að afgreiða það frumvarp sem hér liggur fyrir hratt og örugglega.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem snúa að öldruðum og eru þær breytingar í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku, einfalda almannatryggingakerfið og bæta samspil þess við lífeyrissjóðakerfið. Einnig er aukinn stuðningur við þann hóp aldraðra sem hefur mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Fyrst ber að nefna þá breytingu sem lýtur að einföldun bótakerfisins. Er lagt til að bótaflokkarnir grunnlífeyrir og tekjutrygging, samkvæmt lögum um almannatryggingar, og sérstök uppbót til framfærslu sem nú er kveðið á um í lögum um félagslega aðstoð, verði sameinaðir í einn bótaflokk sem mun kallast ellilífeyrir. Fjárhæð hins nýja bótaflokks verða 212.776 kr. á mánuði miðað við gildandi fjárhæðir bóta á árinu 2016, en sú fjárhæð samsvarar framfærsluviðmiði þeirra sem búa með öðrum. Til viðbótar ellilífeyri verði greidd heimilisuppbót til handa þeim lífeyrisþegum sem búa einir. Er gert ráð fyrir að fjárhæð heimilisuppbótar verði 34.126 kr. á mánuði og lækki hún um 7,5% af samanlögðum tekjum lífeyrisþegans frá öðrum en almannatryggingum utan séreignarlífeyrissparnaðar og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Samanlögð fjárhæð ellilífeyris- og heimilisuppbótar mun því verða 246.902 kr. á mánuði, en sú fjárhæð samsvarar framfærsluviðmiði þeirra sem búa einir.

Auk þess að sameina þessa þrjá bótaflokka í einn er lagt til að svokölluð frítekjumörk verði afnumin og að fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga lækki um sama hlutfall, eða 45%, vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum. Í dag er þetta hlutfall mismunandi eftir tegund tekna sem veldur miklum flækjum í kerfinu. Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir tekna svo sem greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði undanskildar við útreikning á tekjuviðmiðinu. Hérna er lögð til gríðarleg einföldun kerfisins sem næst með sameiningu bótaflokkanna, afnámi frítekjumarka og því að sömu reglur gildi um meðferð allra tekjutegunda. Þannig að óháð því raunar hvaðan tekjurnar koma þá sé horft til þess hvað það er sem fólk hefur til ráðstöfunar.

Í þeim umsögnum sem bárust núna í sumar við frumvarpið má skipta gagnrýninni eiginlega í tvo flokka. Annars vegar var tilraunaverkefni starfsgetumats gagnrýnt, sem ég tók ákvörðun um að taka út úr þessu frumvarpi og vinna áfram í samstarfi við hagsmunaaðila og síðan breytingarnar á frítekjumörkunum og upptaka á þessu skerðingarhlutfalli. Þar voru mjög skiptar skoðanir, allt frá því að telja að það ættu ekki að vera neinar skerðingar á bótum yfir í það að horfa þá sérstaklega á hugsanlegt frítekjumark sem snýr að atvinnutekjunum og/eða jafnvel að búið yrði til eitt frítekjumark sem mundi þá dekka allar tekjur. Það voru því mjög margvíslegar athugasemdir sem bárust hvað þetta varðaði og er eitt af því sem hefur verið spurt um hér í þinginu þegar kemur að þessu máli. Ég veit hins vegar að megináherslan í nefndinni, og raunar því nefndarstarfi sem hefur verið áður varðandi breytingar á kerfinu, var að menn horfðu til einföldunar þannig að einfaldara yrði fyrir fólk að skilja kerfið, skilja á hverju það ætti rétt og skilja hvernig tekjur hafa áhrif á þær greiðslur sem koma frá almannatryggingum. En eins og ég benti á er það þannig að árlega eru um 90% af lífeyrisþegum, sem eru með tekjutengdar greiðslur, sem þurfa annaðhvort að endurgreiða Tryggingastofnun eða hafa ekki fengið þær greiðslur sem þeir áttu rétt á. Þegar við erum einfaldlega með þetta hátt hlutfall þá segir það okkur að eitthvað alvarlegt er að í kerfinu.

Enginn vafi leikur á því í mínum huga að sameining bótaflokkanna mun gera almannatryggingakerfið mun skýrara og skiljanlegra og breytingin mun draga úr flóknum útreikningum Tryggingastofnunar og hættunni á of- eða vangreiðslum ellilífeyris með tilheyrandi óþægindum.

Það að afnema síðan frítekjumörkin einfaldar kerfið enn frekar og mun gera kerfið þannig séð réttlátara, enda verður þannig komið í veg fyrir að einstaklingum sem eru með sömu heildartekjur sé mismunað þar sem tekjurnar hafa ólík áhrif á útreikning bótanna eftir því hver uppruni þeirra er. Ég á fastlega von á því að þetta verði eitt af því sem nefndin muni sérstaklega fjalla um í ljósi þeirra umsagna sem hafa borist og þeirra athugasemda sem menn hafa haft við frumvarpið.

Ef þetta frumvarp, sem ég vona svo sannarlega, verður að lögum þá erum við að tala um tímamót í almannatryggingum hvað einföldun og gagnsæi varðar þar sem eldri borgarar munu eftir breytinguna geta reiknað út réttindi sín hjá Tryggingastofnun miðað við heildartekjur sínar á hverjum tíma með tiltölulega einföldum hætti.

Virðulegi forseti. Það sem er hins vegar í mínum huga lykilatriði, og er hluti af stjórnarsáttmálanum, er að verði frumvarp þetta að lögum mun það hafa mjög jákvæð áhrif á samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga. Greiðslur úr lífeyrissjóðum hafa áhrif á fjárhæð allra bótaflokka almannatrygginga en með mjög mismunandi hætti miðað við hvernig lagaumhverfið er núna. Eins og ég nefndi eru skerðingarhlutföll mismunandi eftir því um hvaða bótaflokka almannatrygginga er að ræða, hvort það eru lög um almannatryggingar eða lög um félagslega aðstoð, síðan eru þá líka frítekjumörkin mishá eða bara engin eins það sem snýr að sérstöku framfærsluuppbótinni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að áhrif greiðslna úr lífeyrissjóðum verði mun einfaldari en er samkvæmt núgildandi lögum. Einn mikilvægasti þátturinn snýr þannig eins og ég nefndi að lækkun þess hlutfalls tekna sem hefur áhrif á útreikning framfærsluuppbótar til tekjulágra og tekjulausra ellilífeyrisþega. Það hefur verið gagnrýnt að smávægileg hækkun af öðrum tekjum ellilífeyrisþega geti haft þau áhrif að heildarfjárhæð greiðslna lækki verulega og hefur framfærsluuppbótin sérstaklega verið gagnrýnd í þessu sambandi, en heimilt er að greiða uppbótina þegar samanlagðar tekjur ellilífeyrisþega að meðtöldum bótum almannatrygginga eru undir tilteknu lágmarki. Hefur því verið haldið fram að margir lífeyrisþegar sjái þannig ekki ávinning af því að hafa greitt í lífeyrissjóð af tekjum sínum þar sem samanlagður lífeyrir þeirra frá almannatryggingum og frá lífeyrissjóði geti numið sömu fjárhæð og þeir fá frá Tryggingastofnun sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð.

Til að bregðast við þessu er í frumvarpinu lagt til að framfærsluuppbótin verði sameinuð ellilífeyri og tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar í einn bótaflokk almannatrygginga, ellilífeyri. Með því móti er komið í veg fyrir að ellilífeyrisþegar missi uppbótina eða hún lækki krónu á móti krónu, sem við höfum öll heyrt talað um, en samkvæmt gildandi lögum hefur hver króna sem viðkomandi fær í tekjur, hvort sem það eru atvinnu-, fjármagns- eða lífeyristekjur, þau áhrif að greiðslur frá Tryggingastofnun lækka. Mun það verða til þess að bæta hag eldri borgara sem hafa lökustu kjörin og um leið verða til þess fallið að lífeyristryggingakerfi almannatrygginga verði einfaldara og gagnsærra.

Við höfum líka séð, virðulegi forseti, að viðhorfsbreyting hefur orðið í afstöðu til loka starfsævinnar og gildi þess að geta unnið lengur en núverandi ellilífeyrisaldur segir til um ef aðstæður leyfa. Margir geta og vilja vinna lengur en til 67 ára aldurs. Hefur verið kallað eftir auknum sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku, raunar bæði í almannatryggingum og í lífeyrissjóðakerfinu. Meðalævin hefur lengst og lífaldur fer hækkandi jafnframt því að fleiri búa við betri heilsu lengur en áður var. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum hefur mikið félagslegt gildi auk þess að stuðla að betri heilsu.

Bætt heilsa og auknar ævilíkur og vilji til virkrar þátttöku í atvinnulífinu eykur einnig möguleika á áframhaldandi og aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks. Með hliðsjón af öllu þessu tel ég því afar mikilvægt að auka möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína og auka möguleika fólks til að skipta um starfsvettvang á síðari hluta starfsævinnar. Sveigjanleg starfslok eiga að vera raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar og vinnumarkaðurinn á sem lengst að fá að njóta starfskrafta þeirra sem eldri eru. Ég legg mikla áherslu á atvinnutækifæri og að hlutastörf séu til staðar fyrir þá úr hópi aldraðra sem vilja minnka við sig vinnu, sem og að vinna lengur. Aðilar vinnumarkaðarins, þar á meðal ríkis og sveitarfélag sem vinnuveitendur, gegna því mikilvægu hlutverki við að undirbúa vinnumarkaðinn við slíkar breytingar.

Í frumvarpinu eru þannig lagðar til breytingar til aukins sveigjanleika við lífeyristöku og starfslok, sem ætlað er að stuðla að því að fleiri eldri borgarar hafi tækifæri til að minnka starfshlutfall sitt smám saman. Samkvæmt gildandi lögum er unnt að fresta töku ellilífeyris allt til 72 ára aldurs og hækka þá greiðslur um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð, en að hámarki um 30%.

Í frumvarpinu er lagt til að þessi heimild til að fresta töku ellilífeyris með varanlegri hækkun fjárhæð lífeyris verði lengd til 80 ára aldurs. Heimild þessi verður bundin því skilyrði að viðkomandi hafi hvorki lagt inn umsókn né fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða lögbundnum lífeyrissjóðum, sem þýðir að ekki verður hægt að velja það til dæmis að hefja töku lífeyris frá lífeyrissjóði eða fresta töku lífeyris hjá Tryggingastofnun en fá síðan greiddan hærri lífeyri frá ríkinu.

Þá er lagt til að heimilað verði að flýta lífeyristöku frá 65 ára aldri, en þá með varanlegum áhrifum á fjárhæð lífeyris til lækkunar. Á sama tíma og æskilegt er að hvetja þá sem geta og vilja vinna lengur er nauðsynlegt að koma til móts við þá sem óska að hefja töku lífeyris fyrr um leið og almenni lífeyristökualdurinn verður hækkaður í áföngum. Í skýrslu nefndar um endurskoðun almannatryggingalaga, sem þetta frumvarp byggir á, er einnig á það bent að tiltekinn hópur kunni að þurfi á sértækum úrræðum að halda þar sem hann geti ekki unnið lengri starfsævi vegna slits og/eða erfiðisvinnu án þess þó að um örorku sé að ræða vegna sjúkdóma eða fötlunar.

Einnig er lagt til að heimilað verði að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði frá 65 ára aldri og fresta töku hins helmingsins sem hækki í samræmi við reglur viðkomandi lífeyrissjóðs og samhliða verði heimilt að fá hálfan ellilífeyri frá almannatryggingum. Í ákvæðinu felst því að unnt verði að fá hálfan lífeyri greiddan bæði hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og fresta töku hins helmingsins. Er gert ráð fyrir að hálfur lífeyrir verði ekki tengdur tekjum lífeyrisþega.

Ég vil leggja mjög mikla áherslu á það að velferðarnefnd fari mjög vel yfir þetta ákvæði. Þetta er nýtt, að gefa eldri borgurum tækifæri til þess að fara á hálfan lífeyri þar sem hann er ekki tekjutengdur á nokkurn máta. Hér er þá kominn lífeyrir sem er ekki með neinar tekjutengingar. Skýringin á því er sú að lífeyrir sem er tekinn út fyrir ellilífeyrisaldur lækkar af þeirri ástæðu og útreikningar sýna að hafi tekjur viðkomandi einnig áhrif til lækkunar mundi það í mörgum tilfellum geta leitt til þess að einstaklingar sem nýta sér heimildina hagnist lítið eða ekkert á því, og mundu þá eflaust margir sjá sér hag í þessu úrræði, að geta t.d. unnið hálft starf og fengið ótekjutengdan lífeyri bæði frá lífeyrissjóði og almannatryggingum. Hvað varðar þá gagnrýni sem hefur komið fram um afnám frítekjumarksins varðandi bótaflokk almannatrygginga sem snýr að atvinnutekjum, þá hef ég horft sérstaklega á þetta ákvæði til þess einmitt að stuðla að því að hvetja eldra fólk til að halda áfram að vinna en geta samhliða tekið út hálfan lífeyri og raunar haft þær tekjur sem það getur þá aflað sér að öðru leyti.

Þessi tillaga kallar hins vegar á breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem er á málefnasviði fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með málefni lífeyrissjóðanna. Það er því gert ráð fyrir að gildistaka þessa ákvæðis frestist til 1. janúar 2018 og að tíminn verði nýttur til að vinna að gerð lagafrumvarps sem gerir fólki kleift að taka hálfan ellilífeyri og fresta töku hins helmingsins hjá lífeyrissjóðnum og einnig til að undirbúa slíka breytingu bæði í almannatryggingum og lífeyrissjóðakerfinu. Þetta yrði mjög mikil breyting. Ég veit að þegar þessar tillögur hafa verið kynntar fyrir eldri borgurum hefur verið sérstaklega talað um ánægju sem snýr að öllu sem eykur sveigjanleikann varðandi starfslokin.

Einnig er sagt í frumvarpinu að heimildir þær sem hér er verið að nefna varðandi það að hefja töku lífeyris frá 65 ára aldri, verði bundnar því skilyrði að samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum að teknu tilliti til hinnar varanlegu lækkunar verði að lágmarki jafn hár fullum ellilífeyri almannatrygginga á hverjum tíma. Þetta er gert til að fyrirbyggja að þeir sem velja að hefja töku lífeyris áður en almennum ellilífeyrisaldri er náð hafi ekki nægar tekjur sér til framfærslu til frambúðar enda mundi þá lífeyririnn lækka varanlega þegar þessar heimildir yrðu nýttar.

Við höfum séð að spár um fjölgun eldri borgara, lengingu meðalævinnar, hafa verið að breyta forsendum fyrir útreikningi söfnunarkerfa víða um heim og jafnvel leitt til skerðinga réttinda. Það hefur líka verið þannig að aukið langlífi hefur aukið útgjöld almannatryggingakerfa. Þetta er stóra viðfangsefnið fyrir stjórnvöld úti um allan heim. Mörg ríki hafa þegar gripið til þess ráðs að hækka ellilífeyrisaldur eða hyggjast gera það. Það er svo komið að flest aðildarríki OECD hafa gert breytingar á lífeyriskerfum sínum undanfarið, m.a. með því að hækka lágmarkslífeyristökualdurinn. Ríki hafa líka gripið til þeirra aðgerða að takmarka möguleika á að taka lífeyri snemma á lífsleiðinni. Segja má að við séum að vissu leyti að fara í aðra átt hvað það varðar. Iðgjaldatímabil hafa verið lengd. Lífeyrisþegum hefur verið gert kleift að starfa áfram samhliða lífeyristöku, sem við horfum á í þessu frumvarpi. Greiðslur ellilífeyris hafa verið tengdar við ætlaða meðalævilengd.

Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lágmarkslífeyristökualdur hækki í skrefum úr 67 árum í 70 ár, en það á aðeins við um almannatryggingakerfið, snýr ekki að lögum varðandi lífeyrissjóðina eins og ég nefndi áðan. Lagt er til að hækkun lífeyristökualdurs hefjist ári eftir gildistöku laganna, þ.e. árið 2018. Þeir sem fæddir eru árið 1950 munu því öðlast rétt til ellilífeyris 67 ára árið 2017 samkvæmt gildandi reglum. Eftir það hefjist hækkunarferli sem mun gilda um einstaklinga sem fæddir eru árið 1951 og síðar. Árið 2018 er þannig gert ráð fyrir að lífeyristökualdur hækki í 67 ár og tvo mánuði og síðan um tvo mánuði ár hvert til ársins 2029, en þá mun lífeyristökualdur verða 69 ár. Eftir það er gert ráð fyrir að lífeyristökualdur hækki um einn mánuð á ári til ársins 2041, en þá munu þeir sem fæddir eru árið 1971 og síðar geta hafið töku ellilífeyris 70 ára gamlir.

Gagnrýni hefur líka komið fram á þetta ákvæði og í báðar áttir, bæði það að talið hefur verið að þetta sé mjög langur tími, 24 ár, að hækka lífeyristökualdurinn um þessi þrjú ár, meðan aðrir hafa haft áhyggjur af því að við værum að fara of hratt í þetta. Ég efast ekki um að það verði m.a. það sem nefndin mun fara vel yfir.

Þegar við höfum verið að skoða og afla gagna fyrir þingið vegna vinnslu málsins höfum við horft til þess hvað menn hafa verið að gera annars staðar á Norðurlöndunum og þá hefur það oft verið þannig að byrjað er að hækka lífeyristökualdurinn í skrefum með ákveðnum árum, eins og hér er lagt til, en síðan líka bætt við ákveðinni formúlu sem snýr að áætlaðri meðalævi viðkomandi kynslóðar eða hvernig staðan er orðin hjá þjóðinni í heild sinni. Við munum að sjálfsögðu ef óskað verður eftir veita upplýsingar um þetta.

Nefndin um endurskoðun almannatrygginga lagði hins vegar áherslu á að mikilvægt væri að lágmarkslífeyristökualdur væri hinn sami bæði hjá lífeyrissjóðunum og almannatryggingum og þess vegna þyrfti að gera sams konar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hér er verið að leggja til varðandi almannatryggingalögin. Það væri þannig skynsamlegt að samræmi væri á milli þessara tveggja kerfa hvað lífeyrisaldurinn varðar. Ég veit að í gangi er mikil vinna sem snýr að lífeyrismálum og jöfnun lífeyrisréttinda ólíkra hópa og hefur verið mikið rætt meðal aðila vinnumarkaðarins, en við erum hins vegar núna með mismunandi lífeyristökualdur á milli þessara kerfa þannig að segja má að með þessu sé óbreytt staða og samræming snýr þá raunar meira að öðrum lögum.

Líka er lagt til að áherslutímabil vegna ellilífeyris hefjist við 18 ára í stað 16 ára. Hér er því enn ein breytingin sem snýr að því að horfa til þess að að mörgu leyti sé óeðlilegt að börn séu að vinna sér rétt til ellilífeyris og líka með því að hækka ellilífeyrisaldur í 70 ár mun það tímabil sem fólk getur áunnið sér rétt til ellilífeyris með búsetu hér á landi lengjast um þrjú ár ef ávinnslan gæti áfram hafist við 16 ára aldur. Þá er lagt til að breytingin eigi sér stað samhliða hækkun ellilífeyrisaldursins.

Útreikningarnir um áhrifin af þessu frumvarpi sýna að þeir sem eru í kerfinu, þar á enginn að lækka, allflestir ellilífeyrisþegar munu fá hærri lífeyrisgreiðslur, einkum þeir sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðakerfinu og/eða hafa fjármagnstekjur. Einnig er ákveðin tilfærsla, þannig að þeir sem eru með hærri tekjurnar, eins og í núverandi kerfi, geta hugsanlega fengið eilítið minna en þeir sem eru með lægri tekjur munu þá fá meira. Það eru því ákveðin jöfnunaráhrif við þessar breytingar.

Ef hópurinn sem hefur tekjur á bilinu 0–100 þús. kr. á mánuði er skoðaður sést að um 98% þeirra mun hækka verði breytingarnar, sem hér er verið að leggja til, að lögum og 96% þeirra sem hafa tekjur á bilinu 100–200 þús. kr. á mánuði. Til að fyrirbyggja að nokkur beri skarðan hlut frá borði er ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að gera samanburð á útreikningi samkvæmt eldri reglum og nýjum reglum.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að Alþingi heimili að komið verði á laggirnar tilraunaverkefni um breytingar á fyrirkomulagi um greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum, sem hefur verið mikið áherslumál hjá Hagsmunasamtökum aldraðra þannig að íbúar á hjúkrunarheimilum missi ekki ellilífeyri sinn heldur haldi lífeyrisgreiðslum sínum og greiði milliliðalaust fyrir almenna framfærslu á heimilunum. Við höfum þegar verið að undirbúa þess háttar tilraunaverkefni. Ef niðurstaðan verður hjá þinginu að samþykkja að koma því á í samvinnu við hjúkrunarheimilin um þetta nýja fyrirkomulag mundum við þannig auka sjálfræði íbúanna og afnema núverandi greiðsluþátttökukerfi, en það hefur lengi sætt mikilli gagnrýni. Við viljum huga að því að það verði sem mest jafnræði milli íbúa á hjúkrunarheimilum og þeirra sem búa heima og auka að sjálfsögðu valfrelsi einstaklinga til að ákveða hvaða þjónustu þeir vilja fá á hjúkrunarheimilum.

Einnig er gert ráð fyrir ákveðnum breytingum sem lúta að greiðslu ráðstöfunarfjárins til íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum og þeirra sem dvelja á sjúkrahúsum og hafa misst lífeyri vegna dvalarinnar. Enn á ný með áherslu á að einfalda kerfið.

Þetta frumvarp hefur óneitanlega í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð enda vandséð hvernig á að vera hægt að auka réttindi ellilífeyrisþega jafn mikið og raun ber vitni án þess að það hafi í för með sér aukin fjárútlát ríkisins. Hinn aukni kostnaður felst í þeim kerfisbreytingum sem lagðar eru til og ég hef þegar lýst, einkum sameiningu bótaflokka. Á móti kemur að við vitum að nýir árgangar ellilífeyrisþega hafa áunnið sér meiri lífeyrissjóðsréttindi en þeir sem falla frá og það mun hafa áhrif síðan á greiðslur frá almannatryggingum sem dregur þá aftur úr útgjöldum ríkisins. Hækkun lífeyristökualdurs mun hins vegar líka vega upp á móti hinum auknu útgjöldum ríkisins, en áformað er að sú breyting taki gildi í áföngum á löngum tíma þannig að áhrif þess verði ekki mikil í fyrstu.

Það mun taka tíma að undirbúa þessar miklu breytingar. Því er lagt til að gildistaka frumvarpsins verði 1. janúar 2017 og líka er lagt til að ákvæði frumvarpsins um skilyrði um heimild til að fresta töku lífeyris til allt að 80 ára aldurs og heimild um að greiða hálfan ellilífeyri (Forseti hringir.) samkvæmt lögum þessum frá 65 ára aldri, öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2018.

Þetta er mikið mál og ég hlakka til að vinna málið áfram með þinginu og veit það verður í góðum höndum hjá velferðarnefnd.