146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég hef svo margítrekað sagt að það getur hver haft sína skoðun á því hvaða áhrif þessar skýrslur hefðu mögulegt haft. Ég er bara að kalla eftir því frá þeim sem halda því fram að þetta hefði skipt svo miklu að benda á einhver atriði sem ekki lágu þá þegar fyrir. Hér kom hv. þingmaður og nefndi tvö, þrjú atriði sem öll lágu fyrir fyrir löngu síðan, gagnrýnin á að fyrri ríkisstjórn hefði ekki gert eitthvað í málunum. Það er gömul tugga. Það er margoft búið að ræða það mál. Það eru ekki nýjar upplýsingar sem koma fram í þessari skýrslu. Eða að Íslendingar hafi verið framarlega í þessum málum. Það er það sem sérstaklega var rætt um. Var hv. þingmaður ekki ein af þeim sem sérstaklega hélt því á lofti?

En gott og vel. Ekki ætla ég að gerast dómari í því fyrir hvern og einn varðandi þetta mat. Ég er margoft búinn að svara því hvernig tilurð skýrslunnar var og hvers vegna hún birtist þegar hún birtist.

Við skulum bara halda því til haga að báðar þessar skýrslur voru teknar saman og lagðar fyrir þingið. Samt er verið að tönnlast á því í þessum sal endalaust (Forseti hringir.) að einhverju hafi verið haldið leyndu. (Gripið fram í: Og verður gert áfram.) Það verður gert áfram. Já, já, það verður þá bara þannig.