146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[17:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fjölbreyttu umræðu eins og hv. málshefjandi orðaði það svo skemmtilega. Hér var líka minnst á skapandi umræðu. Eðli málsins samkvæmt kemur fólk víða við.

Ég leyfi mér að fullyrða að það er vöxtur á þessum sviðum víðast hvar í þjóðfélaginu. Það er bara þannig. Við sjáum það, í framleiðslu, vinnu í þessum geira hefur verið mikill vöxtur á síðustu árum og víða meiri en á öðrum sviðum þjóðlífsins. Ástæðan fyrir því er mjög einföld: Það er aukin eftirspurn eftir afurðum skapandi greina. Þá myndast eftirspurn og hún kallar á aukið framboð o.s.frv.

En það er rétt að það stendur hér upp úr að við höfum ekki endilega sama skilninginn á því hvaða starfsemi fellur undir skapandi greinar. Við höfum ekkert skilgreint það sérstaklega, við erum ekki komin það langt í umræðunni. Með sama hætti er tölfræðin sem við styðjumst við mjög ófullkomin. Þar bíður okkar sömuleiðis verk. Ég held að þetta sé hvort tveggja grunnur sem við þurfum að búa til áður en við förum að sækja meira fram.

Ég fagna því hins vegar sem hv. málshefjandi segir hér, lýsir því yfir að hann sé tilbúinn til samstarfs um að sækja frekar fram því að á mörgum sviðum gerum við vel þótt önnur bíði og hafi látið undan síga að sumu leyti. Það er rétt að við eigum að þora að fjárfesta í þessum málaflokki. Við eigum að þora að taka sénsa, eins og sagt er, við eigum að þora að taka áhættu. Að sumu leyti þykir mér við vera fremur rög við að gefa sérstaklega ungum listamönnum tækifæri til að koma fram með framsæknari hugmyndir og reyna þær með einhverjum hætti. Það kann að vera að ástæða sé til þess að laga það og að við fjárfestum meira í þeim hópi.

Engu að síður vil ég þakka (Forseti hringir.) þessa umræðu kærlega og lýsi því yfir að ég fagna öllum áformum um að við sækjum frekar fram á þessum sviðum.