146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Jú, það er vonandi að þetta kerfi haldi, að brugðist verði skjótt og örugglega við fyrirséðum rekstrarvanda stofnana. Vandinn verður eftir sem áður sá hvernig þau viðbrögð verða. Við upplifðum það til að mynda hér við afgreiðslu fjárlaga fyrir jól að hugmyndum um tekjuöflun til að stemma af reikninga hins opinbera var mjög illa tekið þrátt fyrir að þær væru allar þannig hannaðar að þær myndu ekki lenda á venjulegu fólki heldur á þeim sem mikið eiga aflögu til að leggja til samneyslunnar.

Ég óttast að sá andi sé of ríkjandi í lögum um opinber fjármál þannig að ef til þess kæmi að stjórnandi stofnunar myndi banka upp á hjá ráðuneyti á miðju ári og segja að fjárheimildir stemmdu ekki við fyrirséðan kostnað þá yrðu viðbrögðin þau að krefjast þess að hann hagræddi og skæri niður á móti. Feimni hluta stjórnmálamanna við að afla tekna til að standa straum af sameiginlegum kostnaði samfélagsins getur, þegar upp er staðið, verið hættuleg fyrir stöðu kerfisins.