146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum framsöguna en verð að viðurkenna að mér finnst hálf kúnstugt að vera að ræða þetta mál á alþjóðlegum baráttudegi kvenna því að hér er mál sem byrjaði til að jafna hlut kynjanna hér forðum daga þegar hallaði svo sannarlega á konur, bæði þær konur sem voru heimavinnandi og unnu þar með ólaunuð störf, og líka þær fáu konur sem voru úti á vinnumarkaði og fengu þar talsvert mikið lægri laun fyrir sín störf en karlar og unnu sér þar af leiðandi inn mjög lítil orlofsréttindi miðað við karla.

Á vissan hátt má segja að þessi lög séu barn síns tíma. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki að hluta til vegna þess að börn þess tíma eru enn á lífi, konurnar sem bjuggu við þær aðstæður að samfélagið mismunaði þeim jafn heiftarlega og raunin var þarna fyrir 50 árum, þær konur eru margar á lífi enn í dag. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann — af því þetta mál er flutt í fimmta sinn mundi maður ætla að væru til einhverjar upplýsingar um það — hvort hann viti hver sé fjöldi þeirra sem nýti sér ferðir á vegum orlofsnefnda og jafnframt hver sé aldur þeirra. Sú tilfinning sem ég hef er að þetta séu mjög oft aldraðar konur, sem mér finnst við sem samfélag mættum alveg verja 30 milljónum í á ári til að veita þeim þau litlu réttindi sem (Forseti hringir.) þeim voru veitt með lögum um húsmæðraorlof.