146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:29]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er merkileg umræða, snýst kannski ekki um stórar fjárhæðir. Ég er í þeim sporum núna að ég er eiginlega svolítið sammála öllum ræðumönnum og þá er úr vöndu að ráða fyrir mann hvað maður á að segja. En ég tek svo sannarlega undir það sem hefur verið sagt að þessi lög eru auðvitað tímaskekkja. Hv. þingmaður líkti þeim við risaeðlu. Við vitum að risaeðlur lutu þeim örlögum að deyja út og þannig held ég að hljóti að verða með þetta fyrirkomulag. Ég er hins vegar svolítið hallur undir það að við veltum því fyrir okkur, og geri ég það í anda þess að ég er sammála öllum sem hafa talað, hvort skynsamlegt væri að skoða hvort við gætum ekki einhvern veginn séð til þess að lögin hverfi en það taki tíma.

Það var minnst á það áðan að hér væri enginn í salnum sem væri fæddur fyrir setningu laganna en ég verð víst að játa það að ég næ því, [Hlátur í þingsal.] en það breytir ekki því að ég held að við ættum að skoða hvort hægt sé að setja sólarlagsákvæði í svona lög þannig að þær konur sem þessum lögum var ætlað að styðja við og umbuna geti áfram notið þess. En ég ítreka að ég held að við ættum að íhuga það hvort við getum reynt að draga einhver skynsamleg mörk (Forseti hringir.) í því að konur fæddar fyrir tiltekin ár njóti þessa þar til það er úti.