146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er sammála fyrri ræðumönnum um að þessi lög eru tvímælalaust tímaskekkja. Í grunnstefnu Pírata leggjum við hins vegar áherslu á vernd og eflingu borgararéttinda. Við þurfum að fara mjög varlega þegar við tökum réttindi af fólki.

Í dag mundum við aldrei setja þessi lög. Þau yrðu aldrei til. Það er því mjög eðlilegt að afnema þau. En það er hins vegar ekki eðlilegt að afnema réttindi. Við verðum að taka tillit til þess að áunnin réttindi eins og þessi voru réttmæt á sínum tíma, það er ekki léttvægt að taka þau af núna þótt okkur finnist það eðlilegt miðað við núverandi aðstæður. Hér komu fram hugmyndir um sólarlagsákvæði, sem væru mjög eðlileg, að héðan í frá myndu þessi lög ekki gilda og réttindin myndu deyja út náttúrulega. Það finnst mér alla vega mjög eðlileg leið til þess að glíma við réttindi sem ekki eiga lengur við, ef það má orða það sem svo, því að við myndum ekki samþykkja þessi lög eins og staðan er í dag.

Þetta vegur upp á móti samfélaginu eins og það var og samfélaginu eins og það er. Við verðum að taka tillit til samfélagsins eins og það var því að það lifir enn. Málið þarf ekki að vera flóknara en það.

Til viðbótar myndi ég samt vilja bæta því við, eins og aðrir hafa sagt, að það er mjög undarlegt að flytja þetta mál í dag. Mér finnst það taktlaust og ég hefði viljað leggja til að það hefði einfaldlega verið fært yfir á annan dag. Það er mjög skrýtið að á baráttudegi kvenna sé verið að tala um að taka réttindi kvenna í burtu. En við erum (Gripið fram í.) komin hér og glímum bara við það og afsökum það.