146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:02]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að allir séu nú ágætlega spenntir fyrir frelsinu og ég er svo sem sammála hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni um að kannski ætti að reyna að hvetja sveitarfélög til að sameinast. Ég hefði jafnvel frekar viljað sjá frumvarp þess efnis. En í ljósi þessa frumvarps þykist ég vita að það séu 56 sveitarfélaganna í landinu sem eru með hámarksútsvar og eitt umfram það, þ.e. Reykjanesbær, sem er í 15,05%.

En þegar ég var að undirbúa mig fyrir þetta mál láðist mér eiginlega að gá að því sem skiptir mestu máli í þessu, hversu mörg sveitarfélög væru með lágmarksútsvar og hver þau séu nákvæmlega. Gæti hv. þingmaður kannski upplýst mig um það? Og hvers vegna þetta skiptir einmitt svo miklu máli fyrir þau, því ef 56 eru með hámarksútsvar þá eru ekki rosalega mörg eftir. Það væri gaman að vita hvernig þau standa.