146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:08]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki eini tekjustofn sveitarfélaganna. Þeir eru fjölbreyttir. Sveitarfélögin geta gert það mun hagkvæmara fyrir íbúa sína að búa í sveitarfélaginu með því að hafa útsvarið í botni en lækka þá þjónustugjöld, fasteignagjöld og aðra tekjuöflun sveitarfélaganna. Þetta býr til nýja leið í því efni en það býr ekki til neinar nýjar aðstæður. Lögbundin hlutverk sveitarfélaganna fara ekki neitt. Þau verða enn þá til staðar. Ef fasteignagjöld eða önnur þjónustugjöld skila það miklum tekjum að ekki er þörf á útsvarinu viljum við ekki skylda sveitarfélögin til að rukka svo hátt útsvar ef þau þurfa ekki að gera það þó að þau uppfylli sína lögbundnu þjónustu.