146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa veitt andsvör og tekið þátt í umræðu um þetta mál. Ég vil fyrst taka til varna fyrir hina ágætu Útlendingastofnun sem var borin þeim sökum af hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að hefði hallað réttu máli í afgreiðslu mála þeirra hjóna sem höfðu mögulega ekki verið hjón lengur en eitt ár, þ.e. því hefur verið haldið fram að Útlendingastofnun hafi byggt einhverjar ákvarðanir sínar á þeirri meinlegu villu sem er í lögunum og hefur verið til skamms tíma. Það er ekki rétt miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið heldur þvert á móti var það Útlendingastofnun sem vakti athygli ráðuneytisins á þessari villu og lagði á það mikla áherslu að leiðréttingin yrði gerð mjög fljótt vegna þess að málin voru einmitt nokkur sem lágu fyrir stofnuninni að afgreiða. Þau hafa verið og eru enn þá á bið og verða afgreidd þegar og ef, sem ég auðvitað legg áherslu á að verði hér að veruleika, þessi villa verður leiðrétt, svo að því sé haldið til haga að Útlendingastofnun gætti að sjálfsögðu meðalhófs í þeim málum eins og öðrum ákvörðunum sem liggur fyrir Útlendingastofnun að taka.

Menn nefna hér, sem er alveg satt og rétt, að aðstæður þessara hælisleitenda séu sjaldnast allar nákvæmlega eins. Menn geta komið frá svokölluðum öruggum ríkjum en byggt umsókn sína um hæli hér á landi á málefnalegum ástæðum. Ég legg áherslu á að jafnvel þótt það úrræði sem nú hefur verið við lýði frá því í haust, það að kæra fresti ekki réttaráhrifum af ákvörðun Útlendingastofnunar, liggur alveg fyrir að hvert og eitt mál er skoðað sérstaklega. Það er engin sjálfstýring á afgreiðslu þessara mála. Það er í samræmi við stjórnsýslureglur, skráðar og óskráðar, að hvert mál er skoðað sérstaklega og ákvarðanir byggðar á málefnalegum grunni í hverju og einu máli. Því til viðbótar höfum við einhvers konar frekari öryggisventla sem felast t.d. í talsmannakerfinu sem við höfum hérna við lýði, þ.e. að hver einasti hælisleitandi á kost á því að fá talsmann til að leiðbeina sér í gegnum þetta kerfi, og við höfum líka kæruleiðir. Það er hægt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar og það er ekki einu sinni eins og málinu ljúki þar endilega, heldur höfum við líka dómstólana þarna undir og frá og með næstu áramótum mögulega þrjú dómstólastig. Þetta er langt umfram það sem mörg önnur ríki í kringum okkur hafa, þannig að þetta eru öryggisventlar sem ég vil benda á og bið menn um að hafa í huga að eru til staðar.

Hv. þingmenn velta fyrir sér og benda réttilega á að staða kvótaflóttamanna, þ.e. þeirra flóttamanna sem við bjóðum að fyrra bragði velkomin hingað og flytjum hingað inn, er önnur og að mörgu leyti mun betri en þeirra hælisleitenda sem fá hæli hér. Það er full ástæða til að jafna þá stöðu. Það kann að vera að menn þurfi að skoða það og innanríkisráðuneytið mun gera það á næstu vikum og misserum í samstarfi við velferðarráðuneytið, hvort það séu einhver málefnaleg rök fyrir því ójafnræði. Mér hefur í fljótu bragði ekki virst þau vera til staðar. Það kann þó að vera eitthvað slíkt, en í öllu falli er fullt tilefni til að skoða það og jafna stöðuna.

Hvað skipulagi Útlendingastofnunar til framtíðar viðkemur, af því að það skipulag var nefnt og drepið á það í nýútkominni skýrslu um þessi mál, að það kynni að vera tilefni til að breyta því í verulegum mæli, tek ég undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur að ég hef hingað til ekki séð sérstaka þörf fyrir að breyta Útlendingastofnun. Ég tek þó fram að auðvitað eru þessar stofnanir og allt þetta kerfi bara mannanna verk og það kann að vera að breyta þurfi því einhvern veginn. Ef mönnum sýnist að það þurfi að gera til að bæta afgreiðslu mála er ekkert því til fyrirstöðu. Hins vegar vara ég við því að menn hlaupi til í stórkostlegar breytingar bara af því að menn standa frammi fyrir einhverjum áskorunum sem mögulega eru aðeins tímabundnar. Menn þurfa að vera tilbúnir líka til þess að vinna, þótt það geti verið erfitt að vinna í ákveðnu umhverfi, menn verða auðvitað að vera tilbúnir að vinna verkefnin og sinna hlutverki sínu, jafnvel þótt gefi á bátinn í einhvern smátíma. Það getur verið að menn þurfi að sníða af einhverja vankanta en stórkostleg uppskipting í þessum málaflokki, t.d. núna þegar við stöndum frammi fyrir þessum áskorunum og mikla innstreymi af hælisleitendum og líka á meðan við erum öll af vilja gerð að fjölga móttöku kvótaflóttamanna, ég er ekki viss um að þetta sé rétti tímapunkturinn til að fara í miklar kerfisbreytingar á stjórnsýslu þessara mála. Vissulega verður það skoðað, þessi skýrsla er núna til skoðunar og meðferðar hjá bæði velferðarráðuneytinu og a.m.k. í því ráðuneyti sem heyrir undir mig. Það er ekkert útilokað í þeim efnum.

Að því sögðu óska ég hv. allsherjar- og menntamálanefnd velfarnaðar í umfjöllun um þetta mikilvæga mál sem þarf að fá tilhlýðilega umfjöllun og velt upp ýmsum sjónarmiðum við meðferð í þinginu.