146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[13:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um skattaskjól á sviði sveitarfélaga. Við skulum bara kalla hlutina réttum nöfnum. Þetta er frumvarp um það að hægt verði að útbúa á vettvangi sveitarfélags lágskattasvæði til að laða þangað fólk sem vill komast undan því að greiða til samneyslunnar. Þetta er gamalt áhugamál Sjálfstæðisflokksins eins og við þekkjum svo sem ágætlega. Einu sinni átti Ísland að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð sem var skrúðyrði yfir það að hér átti að stofna aflandseyju og laða til Íslands fjármagn annars staðar frá sem gæti hvílt í skjóli fyrir erlendum skattyfirvöldum. Þegar sá draumur brast spýttust íslenskir auðmenn hver á fætur öðrum til Panama og annarra álíka landa þar sem hægt var að hvíla auðinn án þess að af honum væri tekinn skattur til samfélagsins sem sömu einstaklingar töldu sig vera hluta af.

Það að afnema lágmark á útsvari sveitarfélaga hefur ekki verið rökstutt í máli frummælanda með öðru en annars vegar því að hér sé einhver hvati til sameiningar sveitarfélaga sem ekki sé lögþvingun. Ég verð nú að viðurkenna að það eru rök sem ég skil ekki alveg. Ég er kannski of vitlaus til að átta mig á þeirri rökleiðslu. Hins vegar sé það hvernig sveitarfélög ákvarði skattlagningu á íbúa innan sveitarfélags einn hluti af þeirri samkeppni sem sveitarfélög eiga í hvert við annað.

Virðulegur forseti. Ég vil ekki líta svo á að þau 70 sveitarfélög sem Ísland skiptist í séu samkeppnisaðilar heldur miklu frekar púsl í því samfélagi sem við viljum að hér sé. Ég held að við þekkjum fleiri dæmi um slæm áhrif samkeppni á milli sveitarfélaga en góð. Hér getur myndast hvati til að skapa innlendar skattaparadísir eins og hefur komið fram í máli margra þingmanna og eins hefur verið vísað í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því að þetta mál gekk hér síðast í gegnum þingsali, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það myndi skapa möguleika á innlendum skattaparadísum og tilheyrandi „gervibúsetu“ með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Er þetta framtíðarsýn sem við viljum? Viljum við að auðmenn þessa lands, í staðinn fyrir að skjótast til Panama með peningana sína, kaupi sér sumarbústað í Þrastaskógi, sæki alla þjónustu áfram á höfuðborgarsvæðinu eða hvar það er sem þeir búa en haldi lögheimili í litla bústaðnum og borgi þar með til annars sveitarfélags en þess sem þeir nýta sér þjónustuna hjá, lægri gjöld en ella, fá þannig afslátt af samneyslunni sem þarf samt að greiða sama verði? Þá er verið að færa byrðar, ekki bara á milli sveitarfélaga, af hinum efnameiri sem velja sér slíka gervibúsetu til að komast undan skattgreiðslum, það er verið að færa byrðar af hinum efnameiri yfir á okkur öll hin, yfir á okkur sem höldum bara lögheimili þar sem við búum og greiðum þann skatt sem eðlilegt er að greiða. Maður hefði haldið að það væri ekkert svo flókið.

Svo er náttúrlega áhugavert að sjá, eins og hefur verið bent á, hvernig flutningsmenn þessa máls eru nógu mikið flúnir frá því til að sjást ekki í salnum. Nú er þessi eini sem var í hliðarsal horfinn. Hér sitjum við, fólk úr flestum öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum og ræðum þetta mál í málstofu sem á að gera gagnvirk, á ekki að vera einræða. Við ræðum mál Sjálfstæðisflokksins því að það er ekki nóg með að flutningsmennirnir séu flúnir frá því, heldur eru þeir að fóstra mál sem formaður flokksins boðaði í aðdraganda kosninga. Þetta er nefnilega ekkert sakleysislegt lítið þingmannafrumvarp. Þetta er eitt af loforðum Bjarna Benediktssonar, hæstv. forsætisráðherra, eins og kom fram í kosningaþætti RÚV 4. október sl. þar sem hann sagði að afnám lágmarksútsvars væri eitt af því sem hann vildi stefna að. Þar var staddur í sjónvarpssal hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hló að Bjarna ef ég man rétt og sagði að þetta væri bara fyndið loforð og í engu samræmi við það sem þann raunveruleika sem sveitarfélög byggju við af því að sveitarfélögin sjálf, til að viðhalda sínum rekstri, hafa ekkert með þetta að gera. Það er svo fjöldamargt annað sem sveitarfélögin þurfa til að styrkja innviði sína annað en afnám lágmarksútsvars. Hvað með t.d. að kýla hámarksútsvarið dálítið upp? Af hverju er frelsið að afnema mörkin í aðra áttina en ekki hina? Það er náttúrlega sama einstefnan og láta okkur sitja hérna og tala um málið í aðra áttina og hin hliðin mætir ekki.

Nei, herra forseti. Ég er hreint ekki hrifinn af skattaskjólum, hvort sem þau eru innan lands eða milli landa. Svo dettur mér í hug af því okkur er nú búið að vera tíðrætt um mætingu flutningsmannanna í þessar umræður hvort við ættum þeim til hægðarauka að afnema lágmarksmætingu í þennan þingsal, hvort það sé næsta hagsmunamál þeirra?