146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[14:25]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Hér ræðum við um frumvarp til að búa til skattaskjól innan lands á Íslandi, heyrist mér. Það virðist vera tilgangurinn. Það eru þrír ágætir flutningsmenn, hv. þingmenn, sem hafa ákveðið að taka þetta arfalélega frumvarp og endurvinna það í fimmta skiptið hér á þinginu og láta okkur ræða það sem oft hefur verið rætt um áður á ýmsum vettvangi, um hvort afnema eigi neðri mörk þess útsvars sem skylt er að sveitarfélög innheimti af íbúum sínum.

Árið 2007, þegar þetta frumvarp var fyrst lagt fram, fékk það umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samband íslenskra sveitarfélaga varar eindregið við því að felld verði niður ákvæði um lágmarksútsvarshlutfall. Ákvæði um lágmarksútsvar var tekið upp í lög um tekjustofna sveitarfélaga árið 1993. Markmið með þeirri breytingu var að draga úr mismun á útsvarsálagningu og jafna þannig skattbyrði hjá íbúum landsins. Rökin fyrir því að lögbinda áfram lágmarksútsvarshlutfall eru þau að allir íbúar landsins sem greiða skatt af tekjum sínum á annað borð skuli greiða sinn lágmarkshluta af kostnaði við þá samfélagsþjónustu sem sveitarfélögin veita íbúum landsins. Þau rök hafa í engu breyst frá því að lög um lágmarkshlutfall útsvars voru sett árið 1993.“

Það var sagt árið 2007. Hér erum við 10 árum síðar og þessi rök gilda enn. Það er í rauninni alveg satt. Það er ágætt að allir sitji við sama borð. Það er samt staðreynd að sum sveitarfélög í þessu landi bjóða upp á mun takmarkaðri þjónustu við íbúa sína, kannski helst sveitarfélög sem njóta góðs af nálægð við önnur sveitarfélög sem komast síður hjá því að veita einhverja tiltekna þjónustu. Það er að vísu ákveðin lögbundin lágmarksþjónusta sem sveitarfélög verða að veita, en lágmarksþjónustan er alveg afskaplega lítil. Það eru stór atriði, eins og rekstur grunnskóla og fleira, en það er svo margt annað sem gengið er út frá í dag að sveitarfélög veiti sem væri undarlegt að missa alfarið út.

Það er samt auðvitað ekkert því til fyrirstöðu almennt að hafa lægra útsvar. En eins og staðan er núna eru 56 sveitarfélög á landinu sem eru með hámarksútsvarsprósentu. Eitt, Reykjanesbær, er umfram hámarkið samkvæmt sérstakri lagaheimild sem leyfir því sveitarfélagi, sem er í kjördæmi hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, fyrsta flutningsmanns tillögunnar, og sömuleiðis í mínu kjördæmi, að vera með hærra útsvarshlutfall, 15,05%, af því að það hefur átt við rekstrarörðugleika að stríða. Það eru því örfá sveitarfélög sem eru á milli hámarksins og millistigsins. Svo eru samtals þrjú sem eru í lágmarkinu. Vissulega eru tvö þeirra líka í Suðurkjördæmi, en þau eru samtals með íbúafjölda sem er vel innan við þúsund manns. Ég sé ekki hvernig hag þeirra sveitarfélaga sem eru í toppi, hvað þá upp fyrir toppinn, verður betur borgið að búa til einhvers konar skattalega samkeppni milli sveitarfélaga innan landsins. Þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulag og við sjáum fyrirtæki sums staðar stunda gagnvart sköttum í ríkjum almennt, þau færa starfsemi sína og skráningu til lágskattasvæðislanda.

Erum við að fara þá leið að búa til einhvers konar skattaparadísir innan lands þannig að þeir sem hafa hugsanlega mestar tekjur og komast auðveldast upp með að rangskrá lögheimili sitt eða hafa kannski mesta möguleika á því að vera með tvö eða fleiri heimili, geti bara skráð sig og flúið á hvaða grænu grund sem er? Mér finnst það nefnilega svolítið hættulegt, ekki síst í samhengi við þjónustustigið sem búið er að ræða hér töluvert í þessu máli. Ég skil bara ekki hverra hagur það er að afnema lágmarkið, nema hugsanlega þeirra sem gætu notið góðs af þessum skattaskjólum.

Íbúar hvaða sveitarfélaga myndu njóta góðs af þessu? Þegar upp er staðið snýst þetta ekki um rekstur einstakra sveitarfélaga. Þetta snýst um fólkið sem þar býr. Ef það fólk er í þannig aðstöðu að þjónustan við það skerðist af því að allt í einu eru komnar einhvers konar frjálshyggjuparadísir hér og þar um landið og það neyðist kannski til þess að flytja í annað sveitarfélag þar sem það fær betri þjónustu, þá held ég að við séum komin í kapphlaup á botninum. Kapphlaup á botninum virkar yfirleitt ekkert rosalega vel fyrir þá sem taka þátt í því.

Það er búið að margvísa í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2012. Það er alveg tilvalið að hnykkja á því enn einu sinni, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Þar sem fámenn sveitarfélög hafa miklar tekjur af álagningu fasteignaskatts gætu þær aðstæður skapast að þau gætu lækkað álagningarhlutfall útsvars verulega eða jafnvel niður í 0% ef lágmarksútsvar yrði afnumið með öllu. Það myndi skapa möguleika á innlendum skattaparadísum og tilheyrandi „gervibúsetu“ með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Íbúar þessara sveitarfélaga myndu því sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum óháð upphæð launa. Slíkt ójafnræði meðal sveitarfélaga myndi tvímælalaust hafa mikil áhrif á samvinnu sveitarfélaga að ýmsum héraðsbundnum hagsmunamálum. Þar til viðbótar myndi afnám lámarksútsvars að öllum líkindum draga úr áhuga viðkomandi sveitarfélaga til sameiningar við nágrannasveitarfélög.“

Þetta er áhugaverður punktur í ljósi þess sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason sagði hér í gærkvöldi. Hann sagði að eitt af sínum áhugamálum væri að reyna að búa til hvata fyrir sveitarfélög til að sameinast. Ef hér er verið að búa til hvata samkvæmt mati Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að sameinast ekki þá get ég ekki séð að það markmið náist frekar en nein önnur, þ.e. önnur en þau að búa til einhvers konar skattaparadísir.

Það er alveg ótrúlegt að í greinargerð með frumvarpinu stendur ekkert um það hvaða sveitarfélög muni að njóta góðs af þessu. Það stendur ekkert um það hvaða sveitarfélög eru í lágmarki, hver eru í hámarki, hver eru hvar í útsvarsstiganum. Það stendur bara afskaplega fátt hérna, enda er frumvarpið það snubbótt, sem bendir kannski til þess að það hafi kannski aldrei átt að ná í gegn. Það náði ekki einu sinni í gegnum 1. umr. á 141. þingi. Síðan þá hefur það verið tekið inn í nefnd og ekki afgreitt þar, en það fékk umsagnir þess efnis að þetta væri ekki æskilegt á nokkurn hátt. Það er enginn tilbúinn til þess að lýsa sig sammála þessu frumvarpi, en að vísu skal ég viðurkenna að ég komst ekki til þess að lesa umsögn Viðskiptaráðs um þetta mál, það gæti verið að þau viðbrögð séu jákvæð. Ég held að þetta frumvarp sé enn eitt skiptið, í fimmta skiptið hér á þinginu, bara tímasóun fyrir okkur öll og við ættum bara að sleppa því.