146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Ég velti fyrir mér ýmsu í máli hv. þingmanns af því að mér fannst hún kalla eftir því að heildarmyndin yrði skoðuð og gerð yrði hagkvæmniathugun á þessu, en þingsályktunartillagan gengur ekki út á það. Þingsályktunartillagan gengur út á að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að hefja undirbúning að flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Það er tvennt ólíkt því að hagkvæmniathugun getur vel leitt í ljós að ekki eigi að flytja starfsemina til Reykjanesbæjar.

Við höfum orðið vitni að því of oft að við höfum flýtt okkur um of þegar kemur að flutningi ríkisstofnana. Við fengum fréttir af því síðast dag að við erum enn að súpa seyðið af flumbrugangi við flutning Fiskistofu þar sem einmitt var ekki farið í hagkvæmniathugun og ekki reynt að skoða heildarmyndina heldur drifið í því að flytja hana.

Ég verð að segja að mér finnst hv. flutningsmenn vera komnir dálítið fram úr sér með því að leggja til að Landhelgisgæslan verði einfaldlega færð, flutt, að dómsmálaráðherra verði falið það, en tala svo um í öðru orði að gera þurfi hagkvæmniathugun. Af hverju lagði hv. þingmaður ekki til að gerð yrði hagkvæmniathugun frekar en að stofnunin yrði einfaldlega flutt?