146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Þegar fjármagnshöftin voru sett hér á árið 2008 var talað um að þau væru tímabundin, tvö ár plús/mínus. Nú, meira en átta árum síðar, hillir hins vegar loks undir afnám haftanna; höft sem engin frjáls þjóð getur búið við til lengdar. Það er mikil einföldun að þakka ákveðnum einstaklingum þegar mikilsverðum áfanga er náð, áfanga sem ég tel að marki upphaf að nýjum tímum. Ef ég ætti að nefna einhverja einstaklinga vil ég nefna tvo, hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktsson. Það var einörð stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá árinu 2013, undir forustu þessara tveggja einstaklinga, og gagnvart þrotabúunum skiptu þar mestu stöðugleikaframlögin og skynsamleg stefna. Það var þessi stefna sem gerði kleift að afnema fjármagnshöftin í áföngum og nú hillir undir lokaáfangann. Þar með er verið að búa til heilbrigðari umgjörð um íslenskt atvinnulíf.

Umskipti sem hafa orðið í íslensku efnahagslífi á síðustu árum og þessi skýra stefna stjórnvalda lagði grunninn að afnáminu sem við horfum nú á — og þó fyrr hefði verið, hefði einhver sagt. Höftin hafa haft lamandi áhrif á íslenskt viðskiptalíf, dregið þróttinn úr fyrirtækjum, lamað vöxt þeirra. Þannig hefur undirstaða bættra lífskjara til langrar framtíðar orðið veikari en ella. Við höfum séð hvernig lamandi hönd haftanna hefur gert nýsköpunar- og sprotafyrirtækjunum erfiðara fyrir, ekki síst þeim sem hafa reynt að hasla sér völl á erlendum mörkuðum. Við vitum einnig að höftin hafa neytt mörg íslensk fyrirtæki til að leita að óhagkvæmari leiðum að settum markmiðum. Við þekkjum öll hvernig höftin hafa eitrað andrúmsloftið og búið til eftirlitskerfi sem hefur verið næstum ofan í hvers manns koppi til að fylgjast með fullkomlega eðlilegum viðskiptum. Allt þetta hefur skaðað íslenskt samfélag og samkeppnishæfni Íslands. Þessi tími er sem betur fer senn að baki.

Við getum horft bjartsýn fram á veginn. Hagvöxtur er mikill, meiri en í flestum öðrum löndum heims. Verðbólga er lítil og hefur í raun verið undir markmiðum Seðlabankans síðustu þrjú ár. Kaupmáttur hefur aukist gríðarlega og skuldir ríkissjóðs hafa lækkað verulega og halda áfram að lækka á komandi árum.

Við höfum verk að vinna. Endurskoðun peningastefnunnar er fram undan. Ný stefna getur ekki aðeins tekið við af verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, heldur verður markmið eða verkefni Seðlabankans meðal annars að vera fólgið í því að tryggja jafnvægi í gengi krónunnar og draga úr sveiflum. Til lengri tíma verður ekki hægt að tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja ef vextir hér á landi eru margfalt hærri en í helstu viðskiptalöndum. Raunvaxtamunur hér á landi er margfalt hærri en í helstu viðskiptalöndum og hefur verið um nokkurt skeið.

Við getum hins vegar búist við því að á komandi vikum og mánuðum þokist vextir hér niður á við. Það held ég að við hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um. Það eru allar efnahagslegar forsendur til þess.

Haftaafnámið býr ekki aðeins til heilbrigðara umhverfi fyrir efnahagslífið heldur veitir einstaklingum og fyrirtækjum en þó ekki síst lífeyrissjóðum tækifæri til að dreifa áhættunni með því að ávaxta hluta af sparnaði í öðrum löndum. Fjárfestingar á erlendum mörkuðum draga úr efnahagslegri áhættu og eru því ekki aðeins skynsamlegar heldur nauðsynlegar. Undir höftum skapar þvinguð eign í íslenskum verðbréfum og/eða í öðrum eignum hættu á eignabólu sem fyrr eða síðar mun springa og við höfum séð þess merki nú þegar. Höft á gjaldeyrisviðskipti valda því stórtjóni, ekki síst fyrir eigendur lífeyrissjóðanna, launafólkið hér á Íslandi, sem þurfa og verða að eiga þess kosta að eiga stóran hluta af eigum sínum í öðrum löndum þó ekki væri nema til að dreifa áhættu.

Nú eru aðeins 22% eigna lífeyrissjóðanna í erlendum eignum, en heildareignir lífeyrissjóðanna eru um 3.500 milljarðar, eða 145% af vergri landsframleiðslu. Hins vegar má búast við því að eignir lífeyrissjóðanna vaxi verulega á komandi árum og nemi um 6.600 milljörðum eftir 13 ár árið 2030 eða um 260% af vergri landsframleiðslu. Ef við ætlum að setja það markmið að þeir eigi 40% eigna sinna í erlendum eignum þá þurfa íslenskir lífeyrissjóðir að fjárfesta fyrir 1.900 milljarða á komandi árum, á næstu 13 árum.

Við getum auðvitað nálgast viðfangsefnið með mismunandi hætti, sem hér er til umræðu. Sum okkar sjá glasið alltaf hálftómt en svo erum við hin sem sjáum það yfirleitt hálffullt. Við sjáum möguleikana, sjáum birtuna sem er fram undan. Það hefði verið gott ef við hefðum kannski eytt töluverðu af þessum tíma hér í dag til að ræða um það hvernig við nýtum þau góðu tækifæri sem skapast við afnám haftanna, hvernig við getum nýtt það aukna frelsi sem er að skapast hér til að byggja undir lífskjörin, styrkja stöðu lífeyrissjóðanna og hvernig við getum auðveldað fyrirtækjum að nýta þessi mörgu tækifæri.

Við Íslendingar fengum fullvissu fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir þjóðir að vera fullvalda í peningamálum. Þá fullvissu fengum við 2008. Aðrar þjóðir lentu í gríðarlegum efnahagslegum þrengingum, kynntust því á sársaukafullan hátt hve dýrkeypt það er að framselja þetta fullveldi. En nú hefur fullveldið verið áréttað enn og aftur með afnámi haftanna. Vonandi verða það sem flestir sem geta fagnað því.