146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[17:27]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Tilgangur frumvarpsins er að breyta gildissviði laganna og framkvæmdasjóðsins þannig að framkvæmdir á vegum ríkisaðila falli utan laganna, enda er gert ráð fyrir að slíkar framkvæmdir verði fjármagnaðar á grundvelli laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Landsáætlunin er fjármögnuð beint úr ríkissjóði og eðlilegt að framkvæmdir á vegum ríkisins séu fjármagnaðar með þeim hætti fremur en að stofnanir ríkisins sæki um styrki í samkeppnissjóð líkt og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er.

Með þessum breytingum má ná fram bættri skipulagningu framkvæmda, betri forgangsröðun og markvissari heildarsýn um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum samkvæmt heildstæðri áætlun sem síður er mögulegt þegar ríkisaðilar þurfa að sækja um í framkvæmdasjóðinn. Markmiðið er þá sömuleiðis að auka skilvirkni sjóðsins.

Af þessum breytingum leiðir að það verða aðeins sveitarfélög og einkaaðilar sem munu sækja um styrki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Gert er ráð fyrir því að stærri framkvæmdir sveitarfélaga sem kalla á umtalsverðar upphæðir muni verða fjármagnaðar og framkvæmdar á grundvelli landsáætlunar.

Samhliða er rýmkað fyrir umsóknir um styrki til einkaaðila þannig að nú muni þeir einnig geta sótt um styrki fyrir almennri uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum en samkvæmt gildandi lögum geta þeir aðeins sótt um vegna öryggisframkvæmda eða aðgerða í þágu náttúruverndar. Gert er ráð fyrir því að þessi breyting hafi jákvæð áhrif á landeigendur og aðra umsjónaraðila lands sem hingað til hefur reynst erfitt að sækja sér fjármagn til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar á ferðamannastöðum í eigu einkaaðila.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ferðamannastaðir sem hljóta styrki úr framkvæmdasjóðnum skuli vera opnir gjaldfrjálsri umferð almennings. Með ákvæðinu er tryggt að aðilar geti ekki tekið aðgangsgjald inn á svæði sem styrkt hafa verið úr sjóðnum. Hins vegar munu aðilar geta tekið eðlilegt þjónustugjald til að standa straum af rekstri viðkomandi innviða, t.d. bílastæðagjald vegna viðhalds og rekstrarkostnaðar bílastæðis sem styrkt hefur verið. Hliðstætt ákvæði er í lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða.

Í gildandi starfsreglum stjórnar sjóðsins er gert ráð fyrir að aðilar þurfi að leggja fram 20% mótframlag og var krafan um mótframlag lækkuð á árinu 2016 úr 50% í 20%. Hafði það sýnt sig að mörg minni sveitarfélög áttu í erfiðleikum með að fjármagna mótframlagið. Við þessar breytingar á gildissviði sjóðsins verður það skoðað í framhaldinu hvert sé hæfilegt hlutfall mótframlagsins.

Aðrar breytingar frumvarpsins fela í sér fækkun stjórnarmanna sjóðsins úr fjórum í þrjá, en almennt fer betur á að fjöldi stjórnarmanna sé oddatala. Lagt er til að mörkun tekna sem nemur 3/5 hluta gistináttaskattsins falli brott. Þær tekjur hafa engan veginn staðið undir sjóðnum undanfarin ár og Alþingi hefur því þurft að leggja sjóðnum til meira fé á fjárlögum hvers árs. Með þessari breytingu verður sjóðurinn alfarið fjármagnaður með ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni. Þá er lögð til breyting í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar um að skýrt skuli vera hvernig fjármagna eigi rekstur sjóðsins og er í frumvarpinu lagt til að reksturinn greiðist af fjárheimildum sjóðsins.

Þá er að lokum lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr. 4. gr. laganna þannig að úthluta skuli úr sjóðnum að lágmarki einu sinni á ári. Í því felst að heimilt er að úthluta oftar ef þörf krefur.

Ég legg áherslu á að eftir sem áður verður það eitt af hlutverkum sjóðsins að stuðla að uppbyggingu sem er til þess fallin að fjölga viðkomustöðum ferðafólks sem eykur dreifingu ferðamanna um landið og dregur úr álagi á öðrum stöðum. Þetta hlutverk er mjög í anda þeirrar stefnu sem fram kemur í Vegvísi um ferðaþjónustu og styður vel við mörg markmið í þeirri stefnu. Sjóðurinn hefur ekki getað sinnt þessum þætti af miklum krafti til þessa, enda hefur áríðandi og aðkallandi uppbygging á fjölsóttustu stöðum verið framarlega á forgangslista og það með réttu. Þess er að vænta að með nýrri verkaskiptingu sem m.a. endurspeglast í þessu frumvarpi verði þetta hlutverk veigameira en áður í starfsemi sjóðsins. Það er eins og áður segir mjög í anda þeirrar stefnumörkunar sem unnið er eftir. Verði frumvarpið að lögum nú á vorþingi stendur vilji minn til þess að auglýst verði eftir umsóknum á grundvelli nýrra reglna áður en langt um líður, þ.e. mun fyrr en verið hefur. Sveitarfélög og einstaklingar hafa þá betra svigrúm til að vinna umsóknir sínar og það getur legið fyrir með góðum fyrirvara hvert styrkirnir fara til framkvæmdar á næsta ári.

Að umræðu lokinni legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.