146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:07]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að gert er ráð fyrir því að stefnan gildi til fjögurra ára milli sveitarstjórnarkosninga, enda er stór hluti barnaverndarstarfs á vegum barnaverndarnefnda sveitarfélaganna, þess vegna er talið eðlilegt að það gangi í takt við kjörtíma sveitarstjórna. Það skýrir hvernig að þessu er staðið, en vissulega er gert ráð fyrir því að stefna komi fram í beinu framhaldi af sveitarstjórnarkosningum og gildi til næstu fjögurra ára.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi er sú vinna þar stödd að það er rétt vika, hálfur mánuður, síðan fjórir ráðherrar undirrituðu að nýju yfirlýsingu um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi. Nú er unnið að þingsályktunartillögu um málið sem ég vænti að komi fram á haustþingi. Gangi það eftir gæti hún einmitt orðið mjög góður stuðningur inn í næstu áætlun ríkisstjórnarinnar í barnaverndarmálum.