146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:51]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir alveg einstaklega gagnlega umræðu um þetta mikilvæga mál. Mig langar undir lok umræðunnar að bregðast aðeins við þeim ábendingum sem hafa komið fram og eru allar ákaflega gagnlegar.

Það er alveg rétt að stefnan, og ég vona að forveri minn í starfi kannist við stefnuna, er vissulega í öllum megindráttum grundvöllur að því starfi sem sett var af stað í ráðherratíð hennar og ég reikna með að hún geti stutt við flest það sem þar kemur fram. En þarna er einmitt svo mikilvægt að við séum í stefnumörkun, bæði núna og svo í framhaldinu, að renna styrkari stoðum undir þá grundvallaráherslubreytingu sem hefur orðið í barnaverndarmálum sem snýr að því að veita þjónustu í nærumhverfi, að beita eins mildum úrræðum og kostur er í stöðunni, ráðgjöf í stað vistunar þar sem því verður við komið, undir öllum kringumstæðum. Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að við höldum áfram að vinna á þeirri braut. Það sjáum við að skilar okkur markverðum og mjög góðum árangri. Við sjáum að dregið hefur stórlega úr notkun íþyngjandi úrræða og gríðarlegra inngripa eins og vistunar á meðferðarstofnun. Á móti er verið að grípa í miklu meira mæli til annarra ráða og til þjónustu við barnið í nærumhverfi þess. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það skiptir ofboðslega miklu máli að við þróum mælikvarða um árangur, það er auðvitað það sem þetta snýst allt saman um. Við grípum inn í þar sem nauðsyn ber til. Þar verðum við að fylgjast mjög vandlega með því að inngrip okkar og þau úrræði sem nýtt eru leiði til raunverulegs árangurs í málefnum barnanna og að við styðjum þau áfram í lífinu. Þetta skiptir miklu og ég held að þarna þurfi að skerpa mjög á, ekkert síður í því samhengi að skerpa á eftirliti stjórnvalda, eins og hefur ítrekað verið fjallað um hér, Ríkisendurskoðun hefur bent á það og unnið er að því innan ráðuneytisins að breyta tilhögun þessara mála þannig að verulega verði skerpt á eftirliti, bæði þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki, barnaverndinni, en ekki síður þegar kemur að málefnum fatlaðra.

Þegar kemur að umræðunni um meðferðarheimili og sérstaklega meðferðarheimili úti á landsbyggðinni og nýtingu endurspeglar sú þróun að vissu marki þá áherslubreytingu sem á sér stað, að þjónusta börnin í nærumhverfi þeirra í öllum þeim tilvikum sem því verður mögulega við komið. Það þýðir að þessi úrræði hafa verið minna notuð, þ.e vistun, á landsbyggðinni og þykja síður eiga við heldur en fyrr á tímum þegar það var talinn mikill kostur að taka barn út úr umhverfi sínu, taka það út úr þeim aðstæðum sem það var í vandræðum með og vista það víðs fjarri heimahögum. Hér hefur áherslan raunar algjörlega snúist á hvolf. Það er ekkert óeðlilegt að horfa upp á að úrræðin þróist í takt við það. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að byggja upp meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu, til þess að skerpa og efla getu okkar til að taka á málum þar, en ekki síður til að efla önnur þau ráðgjafarúrræði sem við höfum og beita þeim í ríkara mæli og geta beitt þeim líka á landsvísu, sem skiptir öllu.

Ég vil taka undir umræðuna varðandi mikilvægi heildstæðrar nálgunar í þessum málum. Geðheilbrigðismálin skipta gríðarlega miklu máli þarna og þar þurfum við og ætlum að bæta okkur.

Sama má segja varðandi áhersluna sem hefur verið á barnvæna nálgun í heimilisofbeldismálum. Það geta allir ímyndað sér hversu mikið áfall það er fyrir barn að horfa upp á ofbeldi á heimili sínu. Því miður er það fyrst nú á síðustu árum sem farið er að horfa sérstaklega til þess hvernig horft er til hagsmuna barnsins, hvernig hægt er að taka barnið strax út úr þeim aðstæðum þegar lögregla kemur inn á heimilið, ræða við barnið. Það hefur gefið gríðarlega góðan árangur að fulltrúi barnaverndarnefnda komi með í slíkar heimsóknir og mikilvægi þess að ræða við barnið strax meðan um þetta inngrip er að ræða, þ.e. að lögregla kemur inn á heimilið, hefur sýnt sig. Það er oft eini glugginn til að ná þessu samtali, hann lokast síðan fljótlega aftur, í mörgum tilfellum í það minnsta, og skiptir miklu máli að geta veitt barni ráðgjöf og boðið upp á þjónustu í framhaldinu. Átak í þeim efnum hefur gefið góða raun en við þurfum að ná að þróa þetta úrræði úr því að vera einhvers konar átaksverkefni í að vera staðalúrræði, staðalviðbrögð á landsvísu.

Að lokum langar mig að taka undir umræðuna þegar kemur að barnavernd og réttindum fatlaðs fólks. Þar get ég tekið undir hvert orð sem sagt hefur verið. Við vitum vel að fötluð börn eru í sérstökum áhættuhópi þegar kemur að þessum málum, þegar kemur að hættunni á misnotkun, á því að vera beitt ofbeldi, að brotið sé á réttindum þeirra. Það skiptir gríðarlega miklu máli og ég styð heils hugar að velferðarnefnd skoði það sérstaklega og legg ég á það ríka áherslu að við endurskoðun barnaverndarlaga verði horft til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ekki síst fatlaðra barna í því samhengi.

Þarna erum við öll enn þá að læra. Við höfum innleitt samninginn. Við erum alltaf að átta okkur betur og betur á því hversu mikla grundvallarbreytingu hann felur í sér fyrir þá nálgun sem við erum með á þennan málaflokk, áherslu á jafnan rétt til sjálfstæðs lífs sem við vitum og verðum að átta okkur á að mun kosta okkur í útgjöldum á ýmsum sviðum en er órjúfanlegur þáttur í skuldbindingum okkar við að innleiða samninginn. Maður sér það alltaf betur og betur hversu mikilvægt skref það var og hversu mikilvægt það er að halda áfram lögbindingu þeirra úrræða sem samningurinn felur í sér.

Ég vil enn og aftur þakka fyrir einstaklega góða og gagnlega umræðu. Ég þykist viss um að hún sé gott veganesti inn til velferðarnefndar í umræðuna þar.