146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Horfum þá fram hjá verðbólgunni aðeins og skoðum raunvöxtinn. Í mun á 2017 og 2022 er 12,1% hækkun á raunútgjöldum. Hagvöxtur þar inni sem á að kosta þennan aukna vöxt er mun hærri. Í rauninni er uppsafnaður hagvöxtur og ákveðinn niðurskurður í þessari fjármálaáætlun. Hagvöxturinn er langt umfram þau 6,7% sem fara aukalega í háskólastigið. Með tilliti til þess hagvaxtar sem við horfum á og þeirrar þróunar sem við horfum á í efnahagsmálum fer mun minna til háskólastigsins en að jafnaði sem hagvöxturinn segir til um.

Fjármálaáætlunin segir tvímælalaust til um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og (Forseti hringir.) þótt tölurnar komi ekki til með að standast nákvæmlega má gera ráð fyrir að hlutföllin haldist ef tölurnar breytast og þar er háskólastigið langt undir hagvexti.