146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmanni er mikið niðri fyrir varðandi þær upplýsingar sem ég ber á borð. Ég hlýt að undirstrika að hv. þingmanni gefst líka færi á því þegar áætlunin kemur til nefnda, bæði í fjárlaganefnd og ekki síður utanríkismálanefnd, að fá fyllri upplýsingar en sá sem hér stendur getur veitt þannig að það liggi fyrir.

Það er alveg augljóst af þeim pappírum sem ég fór í gegnum í tengslum við þessa umræðu að við erum ekki að gera jafn vel í þessum efnum og okkar næstu nágrannar á Norðurlöndunum. Þar er framlagið hæst af vergum þjóðartekjum í Svíþjóð, 1,4% af þjóðarframleiðslu, sem er verulega langt fyrir ofan það sem við gerum.

Ég ætla að enda þetta stutta svar mitt (RBB: … varnarmálin.) við hv. þingmann á þann veg að upplýsa að ég hef ekki upplýsingar um þessi varnarmál sem hv. þingmaður spyr um og vænti þess að ráðuneytið geti við meðferð málsins komið fram með upplýsingar sem gagnast hv. þingmanni í því með hvaða hætti henni verði svarað í meðferð málsins í þinginu.