146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:17]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta það, svo að það liggi fyrir, að fallist hefur verið á þessa ósk minni hlutans um að láta ríkislögmann skoða málið. Hins vegar er það rétt að við í meiri hlutanum töldum ekki rétt að bíða eftir því áliti áður en málið yrði afgreitt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í eitt vegna þess að hún, ásamt öðrum þingmönnum minni hlutans, lagði fram bókun sem ég ætla að lesa:

„Það er gagnrýnisvert að allsherjar- og menntamálanefnd verði ekki við beiðni minni hlutans um að fresta afgreiðslu málsins þar til álit ríkislögmanns um hvort fyrirhuguð lagasetning um lánshæfi aðfaranáms standist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Komi upp efasemdir um hvort lagasetning standist stjórnarskrá er það á ábyrgð hvers þingmanns að tryggja að svo sé í samræmi við drengskaparheit hans þar um. Með vísan til þess mun minni hlutinn ekki afgreiða málið frá nefndinni.“

Ég var að hugsa um að bóka gegn þessu, en mér finnst það gott sjónvarp að takast á um þetta við hv. þingmann hér. Eitt er að hafa þá skoðun að vilja hafa það fyrirkomulag að við eigum að veita lán til náms á framhaldsskólastigi. Það getur verið skoðun sem menn geta haft, en mér finnst ansi þröngur stakkur sniðinn af löggjafarvaldinu ef það getur ekki tekið ákvörðun um að veita lán til eins náms án þess að veita um leið lán til annars. Löggjafinn hlýtur að hafa ákveðið svigrúm í þessum efnum, óháð því hvort við viljum síðan að það svigrúm sé nýtt.

Fólk hefur talað um ýmsa hluti. Fólk hefur talað um að takmarka nám við aldur. Það er auðvitað mismunun. Það er mjög margt í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem felur í sér einhvers konar lögbundna mismunun aðgreint frá þeim sem eiga rétt á námsláni og þeim sem eiga það ekki. Við getum haft þá skoðun að sú mismunun eigi ekki að vera við lýði, en það er hæpið að sníða löggjafanum það þröngan stakk að hann geti ekki tekið ákvörðun um það.