146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einhvern tíma tjáð mig um skatta og tekjuöflun með þeim hætti að eftir var tekið og ætla ekki að endurtaka það hér af ótta við að hleypa upp fundinum. Þar sem mér fannst þingmaðurinn ekki að öllu leyti fylla rétt upp í mína skoðun vil ég árétta mínar skoðanir. Ég sagði að mér þætti sú leið að nota bílastæðagjöld til að fjármagna innviðauppbyggingu eða afla tekna fyrir sveitarfélög prýðileg leið. Ég nefndi það sem dæmi um leið sem ég teldi mjög góða. Ég sagði líka að ég væri ekki tilbúinn að taka undir hverja einustu leið til að afla tekna fyrir sveitarfélög. En það er fullt af leiðum sem ég tel vel færar. Við erum til að mynda að hækka vask á ferðaþjónustu, það er tekjuöflun fyrir hið opinbera í stórum skilningi, sem ég styð. Það hafa komið fram hugmyndir um gistináttagjald sem myndi renna til sveitarfélaga, ég er sæmilega opinn fyrir þannig hugmyndum. Ég er ekki andvígur öllum öðrum hugmyndum um innviðauppbyggingu en þessari, svo að það sé áréttað.

En ég tel þetta vera góða leið og að útvíkkun hennar gæti verið jákvæð. Ég ætla svo sem ekkert að hafa það lengra en það, ég vil bara ekki að því sé sleppt út í loftið hér að allar aðrar hugmyndir um gjaldtöku eða tekjuöflun fyrir sveitarfélög, til að standa að uppbyggingu til ferðaþjónustunnar, muni mæta andstöðu frá mér. Svo er alls ekki. Ég raða þeim upp í röð frá því sem ég tel skynsamlegt til þess sem ég tel minna skynsamlegt. Þetta tel ég skynsamlegt. Ég tel gistináttagjald, sem rynni til sveitarfélaga, einnig tiltölulega skynsamlega leið. En í ljósi þess að við erum að fara í gegnum umræðu um það núna í tengslum við fjármálaáætlun mun ég ekki lofa því að leggja slíkt fram að eigin frumkvæði alveg á næstunni.