146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[21:16]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég kem hingað fyrst og fremst til að bregðast við ákveðnum hugleiðingum, ekki í beint andsvar.

Varðandi bílastæðagjaldið — við vinnum að því að sveitarfélögum verði kleift að innheimta það til að geta staðið straum af því að byggja upp aðstöðuna — held ég að það sé kannski eitt skref í þá átt að finna sameiginlega og samhæfða leið til að afla tekna til að standa straum af kostnaði við þá þjónustu sem þarf vegna þess fjölda ferðamanna sem kemur til landsins. Auðvitað viljum við Íslendingar, þessi gestrisna þjóð, taka vel á móti þessu fólki. Við getum hins vegar ekki horft fram hjá því að það vantar ákveðna þjónustu, það vantar fjármagn í þá uppbyggingu.

Við höfum á undanförnum árum verið að leita leiða. Því miður, það verður að segjast eins og er, hefur oft hver höndin verið uppi á móti annarri varðandi hugmyndir. Það er kannski eitt af því sem mér finnst vera alvarlegur hluti hjá okkur sem þjóð, það er þetta samstöðuleysi lengi vel. En þegar við komumst niður á lausn þá erum við yfir höfuð alltaf mjög ánægð með hana.

Þrátt fyrir þennan vilja okkar til að taka á móti gestum eins og við höfum gert í gegnum tíðina þá kemur að því að okkur verður ljóst, eins og prestum (Forseti hringir.) fyrr á öldum, sem höfðu opnað allar gáttir og boðið upp á veitingarnar í búrinu, að við getum kannski ekki brauðfætt alla þjóðina; og við getum allt eins nefnt bændur í sveitum landsins í því sambandi.