146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:45]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta á auðvitað við með sama hætti og 98. gr. er í dag. Þar er sagt: Vanræksla, andleg, líkamleg, varðar fangelsi allt að fimm árum. Ekki er sagt neitt meira. En auðvitað er það tekið fram í greinargerðinni að þetta er barnaverndarmál. Þá gilda auðvitað öll úrræði barnaverndarlaga sem barnaverndaryfirvöld hafa. Það segir sig sjálft. En ég tek fram í greininni að þegar foreldri fer ekki með barnið sitt til læknis, gefur því ekki þau lyf sem á að gefa, fer ekki með það í skóla, þá er það ekki það fyrsta sem gert er að gefa út ákæru. Það er reynt að bæta úr. Barnaverndarlögin gera ráð fyrir því. Síðan eru önnur vægari úrræði. En þetta getur komið til þegar menn sinna ekki ábendingum, þrátt fyrir öll þessi úrræði, halda síðan áfram, aftur og aftur. (Forseti hringir.) Þá eru hugsanlega engin önnur úrræði en að gefa út ákæru og beita þessum viðurlögum. Þessu er einfaldlega gert ráð fyrir í barnaverndarlögum.