146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:55]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um að þetta skipti engu máli. Í nýlegu svari frá 4. apríl frá dómsmálaráðherra, við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um úrskurð um umgengni barna við umgengnisforeldra, kemur fram að þetta sem hv. þingmaður er að tala um að hlaupi á hundruðum er ekki alls kostar rétt. Umgengnismál sem lauk á tímabilinu 2007–2016, með samkomulagi beggja aðila, voru samtals 2.078. Til samanburðar má upplýsa hv. þm. Brynjar Níelsson um að á sama tímabili, 2007–2016, var fjöldi þeirra mála þar sem sett var fram krafa um aðför til að koma á umgengni alls níu. Níu talsins. Þau hlaupa ekki á hundruðum, ekki á tugum, þau eru níu talsins á níu ára tímabili. Þetta er fjöldinn sem hv. þm. Brynjar Níelsson segir að skipti alls engu máli í þessu samhengi.