146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:12]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum þar sem markmiðið er að gera það refsivert að tálma umgengni, að það geti varðað allt að fimm ára fangelsisrefsingu samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt eða staðfestum umgengnissamningi. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni í upphafi míns máls að mér finnst frumvarpið ákaflega dapurlegt að öllu leyti og allt mjög vanhugsað. Sér í lagi er það vanhugsað út frá hagsmunum barna enda er það ekki til þess fallið að vernda réttindi barna í forsjár- og umgengnismálum, heldur til þess fallið að standa eingöngu vörð um réttindi foreldra, um réttindi ákveðins hóps foreldra. Og til að minna bæði þingmenn og aðra á það er það skýrt leiðarstef í barnarétti í íslenskum lögum að gera aðeins það sem er barninu fyrir bestu — ekki foreldrum heldur barni.

Fyrir það fyrsta er í frumvarpi flutningsmannsins og hæstaréttarlögmannsins Brynjars Níelssonar hvorki að finna neina ígrundaða skilgreiningu á hugtakinu tálmun né er það hugtak útskýrt með nokkrum hætti. Reyndar er hvergi að finna í neinum lögum greinargóða skilgreiningu á tálmun, hvorki í barnaverndarlögum né í öðrum lögum. Í frumvarpinu er heldur ekki vísað í neinar rannsóknir á tálmun eða takmörkunum, hvorki um meinta þolendur tálmunar né ástæður hennar. Og svo er meira að segja slegið saman hugtökunum tálmun og takmörkun.

Það má því segja að þekkingarfræðilegar forsendur fyrir frumvarpinu séu af afar skornum skammti og furðar það mig mjög, frú forseti. Og ekki er nóg með að hugtakið tálmun sé hvorki skilgreint né útskýrt almennilega með rökstuddum hætti, heldur má lesa þá fullyrðingu úr texta frumvarpsins að hugtakið tálmun sé algengt vandamál enda segir í greinargerðinni með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Alþekkt og nokkuð algengt er að það foreldri sem barn býr hjá tálmi alfarið eða takmarki verulega að barn umgangist hitt foreldrið og fari með því gegn úrskurði, dómi, dómsátt eða samningi aðila.“

Frú forseti. Þessar fullyrðingar eru afar harðorðar og ég mótmæli þessum fullyrðingum fyrir hönd allra þeirra foreldra sem fara með forsjá barna sinna og líka fyrir hönd þeirra foreldra sem deila sameiginlegri forsjá yfir börnunum sínum en búa með börnum sínum á lögheimilum barnanna. Þessi fullyrðing um að alþekkt og nokkuð algengt sé að það foreldri sem barn býr hjá tálmi alfarið eða takmarki verulega að barn umgangist hitt foreldrið er einfaldlega röng og er engan veginn rökstudd með einum eða neinum hætti í greinargerðinni hér.

Og til upplýsingar, aftur, má minna á að í svari dómsmálaráðherra til hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar frá 4. apríl sl. koma fram mjög gagnlegar upplýsingar sem nýtast okkur í umræðunni um forsjár- og umgengnismál og um svokölluð tálmunarmál. Þar kemur meðal annars fram að það neyðarúrræði sem er til staðar í barnaverndarlögunum, sem kallast aðfarargerð, og felst í því að ef foreldri sem barn býr hjá heldur áfram að hindra umgengni, þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám fyrir ógreiddum dagsektum, getur dómari, að kröfu þess sem á rétt á umgengni við barn, heimilað að umgengni verði komið á með aðfarargerð. Það þýðir að heimila að barn sé tekið úr umsjá foreldris sem það býr hjá og fært umgengnisforeldri í eitt skipti eða fleiri.

Alls voru þau skipti sem heimiluð voru afar fá, alls níu skipti á tíu ára tímabili áranna 2007 til ársins 2016. Og svo er það því miður staðreynd að sum af þessum fáu skiptum snúast ítrekað um sömu börn og sömu foreldra, sem er að sjálfsögðu afar sorglegt fyrir alla hlutaðeigandi. En með þessari lágu tölu sem fram kemur í svari dómsmálaráðherra er það staðfest að þetta hámarksinngrip yfirvalda vegna umgengni við hitt foreldrið á sér stað í örfá skipti og staðfestir því að alhæfingin sem fram kemur í frumvarpi, um tálmun sem við ræðum nú um, að það sé alþekkt og nokkuð algengt, er ekki við hæfi.

Yfirgnæfandi hluti umgengnismála er nefnilega blessunarlega til lykta leiddur og umgengni er komið á án þess að dagsektarmál séu opnuð. Sömuleiðis er yfirgnæfandi fjöldi dagsektarmála felldur niður vegna þess að umgengni kemst á. Örfá mál enda með álagningu dagsekta og í algjörum undantekningartilfellum fer fram aðför þar sem barnið er sótt með valdi í umgengni samkvæmt dómsúrskurði.

Harðar umgengnisdeilur eru því miður til staðar í okkar samfélagi en hörðustu deilurnar eru sem betur fer miklu fátíðari en hin tilfinningagjarna og oft einsleita umræða um umgengnismál gefur oft til kynna. Umgengnisorðræðan í fjölmiðlum um þessi afar viðkvæmu mál, er varða umgengni og forsjárdeilur foreldra barna, er því alls ekki til þess fallin að endurspegla raunveruleikann innan kerfisins hjá þeim stofnunum og starfsfólki sem er að vinna með þennan viðkvæma málaflokk.

Og í barnaverndarlögunum eru til staðar tæki og tól sem hægt er að beita í erfiðum umgengnismálum sem um sum er vissulega ekki algild sátt, eins og um umrædda aðfarargerð. Þá eru vissulega til staðar tæki og tól í lögunum og því ekki hægt að sjá af hverju lagðar eru til breytingar á barnaverndarlögum eins og gert er hér. Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður, eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð. Samkvæmt markmiðsákvæðum þeirra laga skal leitast við að ná markmiðum þeirra með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Það er því afar erfitt að sjá að fangelsun foreldris í heil fimm ár vegna tálmunar sé hluti þessara markmiða. Fimm ára fangelsisrefsinguna væri áhugavert að bera saman við önnur refsiverð brot. Hver er refsingin til að mynda við alvarlegri vanrækslu gagnvart börnum? Hver er refsingin við alvarlegu líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum? Mun refsimál af því tagi sem hér er verið að boða ýta undir friðsamleg samskipti eða leysa jafnvel margra ára deilu foreldra? Er hugsanlegt að refsimál eða fangelsisrefsing annars foreldris geti jafnvel skaðað meira börn til langframa? Hvað er best fyrir börn í þessari stöðu? Eru það ekki friðsamleg samskipti, stöðugleiki og jafnvægi? Ég hefði haldið það.

Refsiákvæðið sem er að finna í þessu frumvarpi er hvergi til þess fallið að hlúa að hagsmunum barna. Það er ljóst að það refsiákvæði sem er að finna í þessu frumvarpi bitnar afar illa á börnum enda hefur ekkert Norðurlandanna farið þessa leið með barnaverndarlög inn í refsirétt. Það hefur hvergi verið gert á öllum Norðurlöndum og þó hafa þau mál verið könnuð og rannsökuð ítarlega á Norðurlöndunum þar sem fjölskyldu- og barnaréttur er afar sterkur. Það kom meðal annars fram í umræðum um endurskoðun á barnaverndarlögunum 2013 að ekkert Norðurlanda hefur farið þá leið sem hér er boðuð, að fara refsiréttarleiðina, og það er ekkert sem bendir til að refsiákvæði á borð við fimm ára fangelsisvist stuðli að aukinni umgengni né hagsmunum barna. Engar rannsóknir eða kannanir liggja þar til grundvallar. Það er því ljóst að það frumvarp sem við ræðum hér gengur þvert gegn fjölskyldu- og barnarétti á Norðurlöndunum, algjörlega. Og ég er ekki sammála því, sem fram kemur í frumvarpinu, að þessi viðkvæmu og flóknu mál verði sett til barnaverndaryfirvalda sem þrátt fyrir sína sérfræðiþekkingu innan borðs ráða því miður illa við sín lögbundnu verkefni við núverandi aðstæður fjársveltis og manneklu. Það er heldur ekki verið að fjalla um málefni sem varða verksvið barnaverndaryfirvalda enda fjallar barnavernd ekki um refsingar. Þær eru á borði lögreglu, ákæruvaldsins og dómstólanna.

Frú forseti. Það er ekki hægt að sleppa því að nefna kynjavinkilinn í umræðum um þetta frumvarp. Það er nefnilega svo að hér á landi er sameiginleg forsjá langalgengasta úrræðið við skilnað foreldra. Í sumum tilvikum heldur móðirin eingöngu forsjánni en í örfá skipti fer faðir með forsjá. Af 598 skilnuðum foreldra á árunum 2006–2010 voru 477 með sameiginlega forsjá, 112 mæður voru einar með forsjána á móti níu feðrum. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar frá 2017. Í tölum sem birtar eru á vef Hagstofu Íslands kemur fram að árið 2017 búa rúmlega 90% barna á Íslandi, þ.e. foreldra sem hafa skilið, hjá mæðrum sínum. Það er því ljóst að þeirri þyngingu refsirammans, sem fyrirhuguð er með frumvarpinu, yrði fyrst og fremst beitt gegn konum, beitt gegn mæðrum.

Og hvað finnst okkur um það að hér sé komið fram frumvarp sem beint er gegn mæðrum? Það er líka nauðsynlegt að vita hvert hlutfall feðra sem sækjast eftir forsjá barna sinna er til að geta sett umræður um þessi mál í rétt samhengi. Það er erfitt fyrir femínista að styðja við frumvarp sem vinnur gegn hagsmunum mæðra ef þær eru langfjölmennasti umönnunarhópur skilnaðarbarna. Tengslamyndun barna við foreldra sína er nauðsynlegur hluti af mannlegu eðli en hollustuklemma við foreldra sína, sem börn getað upplifað við skilnað, getur aukið verulega á vanlíðan barna. Og við sem fullorðnir einstaklingar og hluti af löggjafarvaldinu eigum að standa vörð um hagsmuni barna.

Frú forseti. Að mínu viti þarf að fjalla um umgengnis- og forræðismál á mun dýpri og heildstæðari hátt en gert er í þessu frumvarpi. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á sáttameðferð fyrr í ferlinu og markvissa sálfræðiráðgjöf eða fjölskylduráðgjöf fyrir foreldra sem skilja að skiptum. Við þurfum að styrkja sýslumannsembættin að þeim hluta sem snýst um sifjamálin og eru á þeirra verksviði. Við þurfum líka að tryggja fjármagn til að stytta verulega afgreiðslutíma hjá embættum sýslumanna vegna úrskurða um umgengni sem til að mynda hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu er 14 mánuðir frá því að foreldrar skilja og til þess að þau fái lendingu í sín mál. Sá langi biðtími er óviðunandi fyrir alla aðila, ekki síst fyrir börn, sem um ræðir, sem þrá helst festu og skýrleika í sinni tilveru sem oftast er afar flókin og erfið í kjölfar skilnaðar foreldra.

Lausnin er að ljúka málum í sátt vegna þess að það er best fyrir barnið. Sáttameðferð hefur reynst afar vel og þeir samningar sem aðilar gera í sáttameðferð virðast halda betur en úrskurðir.

Rannsóknir sýna að mörg þeirra barna sem um ræðir eru undir ofurálagi vegna deilna foreldra, refsimál er ekki lausn á þeirra streitu. Börn biðja nefnilega ekki um ágreining foreldra sinna eða að öðru þeirra sé varpað í fangelsi í fimm ár. Það segir sig sjálft að harðvítugar og langvarandi forræðisdeilur og umgengnisdeilur hafa markandi áhrif á börn, þau eru oft undir ótrúlega miklu og stöðugu álagi, berjast við kvíða, lifa í angist og sum geta ekkert leitað eftir stuðningi sem þau ættu sannarlega að fá frá foreldrunum. Það er afar algengt að börn kenni sjálfum sér um hvernig komið er og þau upplifa gjarnan samviskubit. Þó vitum við vel að ágreiningur foreldra er aldrei börnum að kenna. Það er gott að leiða hugann að því hvernig börnum í þessari aðstöðu myndi líða ef annað foreldrið færi í ofanálag í fangelsi vegna þessa eða ef barnið veit af þeim möguleika og að hann sé raunverulegur.

Umgengnis- og forræðismál þarf að bæta og skoða heildrænt með réttindi barna í fyrirrúmi, ekki með réttindi fyrirferðarmikils hóps foreldra sem fer mikinn í fjölmiðlum með sína hlið mála.

Virðulegur forseti. Umgengnis- og forræðismál eru nefnilega afskaplega viðkvæm og við þurfum að vanda vel hvernig við ræðum þau. Orðræðan í fjölmiðlum um þessi afar viðkvæmu mál, er varða umgengni og forsjárdeilur foreldra barna, er alls ekki til þess fallin að endurspegla raunveruleikann innan kerfisins sem er að vinna með þennan málaflokk.

Virðulegur forseti. Ég vona að þingleg meðferð þessa dapurlega frumvarps verði fagleg, yfirveguð og vönduð. Allir hlutaðeigandi eiga það skilið og ekki síst börn foreldra sem hafa átt í umgengnis- og forræðisdeilum. Höldum umræðunni málefnalegri og yfirvegaðri, hugum að heildarumræðum og lausnum í því að bæta þennan ofurviðkvæma málaflokk. Þetta frumvarp gerir það alls ekki heldur viðheldur forsjármálum og umgengnismálum í átakafarvegi. Það er dapurlegt, frú forseti.