146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:28]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er skrýtin fullyrðing. Að væna mig um að ég sé að gæta hagsmuna einhvers hóps úti í bæ en ekki barna. Þetta snýst um börnin. Ef við erum, eins og hv. þingmaður sagði, á því að það sé brot gegn barninu að svipta það þessum rétti verður þingmaðurinn að segja í hinu orðinu: Já, þá verða að vera einhver viðurlög ef það er brot.

Þetta mál snýst ekkert um „ef það er til hagsbóta fyrir barnið“. Það verður auðvitað ekki kveðinn upp dómur eða úrskurður eða samningur nema menn séu komnir á þá niðurstöðu að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Slík niðurstaða yrði aldrei í öðrum málum. Þannig að auðvitað er ljóst að hagsmunir barnsins eru undir. Þetta snýst bara um barnið. Ég er alveg ótengdur þessum hópi, þó að leitað hafi verið til mín eftir að ég minntist á að ég væri með svona í smíðum. Blessunarlega er ég ekki í stöðu þessa fólks í þessum hópi, sem er auðvitað mjög slæm. En mér er alveg sama um þennan hóp. Mér er hins vegar ekki sama um börnin. Ég get sett mig sjálfur í þau spor, spor barnanna, að missa eitt foreldri af því að forsjárforeldrið segir: Ég vil ekki að þú umgangist hitt foreldrið. Það hlýtur að vera mikið áfall.

Og það verða að gilda sömu reglur um þessi brot og önnur brot gegn börnum. Það er ekki verið að fara fram á neitt annað. Þetta er svo mikill útúrsnúningur og þvælingur að tala hér eins og verið sé að loka mæður hér inni í stórum stíl. Það er ekki þannig. Það er líka þannig á Norðurlöndum að þetta er barnaverndarmál. Þetta er barnaverndarmál í Danmörku. Þeir beita bara sviptingu forsjár. Ég er tilbúinn að skoða það.