146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir ítarlega yfirferð á afstöðu Vinstri grænna til þessa máls en einnig til ýmissa áhugaverðra og eftirtektarverðra staðreynda gagnvart því. Mig langar út frá þeim vinkli, en líka mínum eigin, að ræða aðeins um þá ágalla sem ég sé á því frumvarpi sem liggur fyrir okkur núna. Í því felst að leggja til fangelsisrefsingu verði foreldri uppvíst að því að tálma umgengni við barn gagnvart öðru foreldri.

Eins og hefur komið fram er í greinargerð með frumvarpinu að finna alhæfingar um hvernig málum sé háttað á þessari stundu. Frumvarpið virðist ekki byggja á neinum staðfestum greiningum eða upplýsingum eða gögnum sem hægt er að rýna í og ræða um á þeim grunni. Í því ljósi langar mig að ræða um meðalhóf, eins og ég gerði í andsvari við hv. þm. Brynjar Níelsson áðan.

Eins og við vitum er fangelsisrefsing og frelsissvipting í raun og veru verstu viðurlög sem ríkisvaldið getur beitt gegn þegnum sínum. Höfum við hug á því að beita því eða setja ákvæði í almenn hegningarlög eða almenn lög, sérrefsilög? Ef við ætlum að beita fangelsisvist sem viðurlögum við einhverri ákveðinni hegðun þurfum við að hafa meðalhóf í huga, þ.e. að önnur vægari úrræði séu ekki í boði og að sú lausn eða refsing sem er verið að setja fram sé rétt leið til að nálgast þann vanda sem er fyrir hendi, að hún geti borið einhvern árangur, að þetta séu góð viðurlög.

Mér hefur fundist koma fram í umræðu um þetta mál að það liggi ekki veigamikil rök fyrir því að fangelsa foreldri fyrir óskilgreindan, alla vega í lögum, glæp gegn börnunum sínum, eins og það er orðað. Mér þykir full ástæða til að ræða tálmunarmál. Mér þykir full ástæða til að leysa úr vanda þeirra fjölskyldna sem lenda í svona málum. En ég er alls ekki og langt í frá sannfærð um að þessi leið sé rétta leiðin til að leysa úr þeim vanda.

Frekar tel ég að styrkja ætti stoð núverandi viðurlaga. Það ætti að standa að heildarúttekt um hvernig þessum málum er háttað nú. Það ætti að koma fram fagleg úttekt á hvað væri best að gera, hvernig reynslan hafi verið annars staðar, hvernig sé best að bregðast við svona málum. Ég hugsa að ef það yrði skoðað af fagaðilum, ef gerð yrði einhver teljandi rannsókn á þessum málum hér á landi, væri þeirra lausn eflaust ekki sú að að vegna þess að annað foreldri hamli aðgengi barnsins að hinu skuli það foreldri vera sett í fangelsi og þar með skuli aðgengi barnsins að því foreldri vera hamlað. Mér þykir það ákveðið „oxymoron“, eins og sagt er.

Þess í stað finnst mér, eins og ég hef áður komið að, það mætti skoða vægari úrræði. Þar á meðal væri tímabundin svipting forræðis í ítrekunarmálum alveg eitthvað sem væri hægt að skoða. En enn og aftur er ég enginn sérfræðingur í því hvernig best er komið að svona málum. Mér þykir mikilvægt að það liggi talsvert ítarlegri og faglegri úttekt á stöðu þessara mála í dag að baki tillögu um fangelsisrefsingu fyrir ákveðna hegðun og hvort fangelsisrefsing fyrir ákveðna hegðun sé yfir höfuð endilega rétta lausnin. Mér þykir ég ekki vera dómbær á það. Ég held að aðrir séu til þess töluvert betur menntaðir og reyndari en ég

Svona mál eru flókin og viðkvæm. Ég tel það reyndar ekki á hendi eins þingmanns að reyna að koma með einhvers konar lausn á því. Ég hefði í raun og veru talið talsvert farsælla að koma með þingsályktunartillögu þar sem viðeigandi ráðherra væri falið að kanna bestu leið til að vinna gegn þessum vanda og gera það í samráði við hagsmunaaðila sem skipta máli, í samráði við sérfræðinga sem vita sínu viti um svona mál.

Ég sé ekki að nákvæmlega þessi útfærsla sé í samræmi við barnaverndarlög, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson hefur haldið hér fram. Nú hef ég litið á þau ákvæði barnaverndarlaga sem hafa fangelsisrefsingu sem viðurlög. Hvergi er að finna grein, fyrir utan eina grein sem virðast líka vera alvarlegustu brotin gegn barni þar sem er verið að tala um alvarlegt ofbeldi, eða misþyrmingar, eins og segir í lögunum, að það geti varðað fangelsi allt að fimm árum nema þyngri refsing liggi við því samkvæmt öðrum lögum. Í öllum öðrum ákvæðum er líka gert ráð fyrir sektum, sem eru vægari úrræði í refsiréttarlöggjöf almennt.

Því þykir mér það undarlegt og ekki í samræmi við þann almenna anda sem er í þessum lögum, barnaverndarlögum eins og þau standa nú, að það sé ekki einu sinni gert ráð fyrir sektum sem vægara úrræði sem hægt er að beita í málum sem þessum. Mér finnst ýmislegt í raun athugavert við þetta frumvarp. Ég held að viðbrögð við áhyggjum hv. þingmanns um þennan málaflokk og áhyggjum hv. þingmanns um velferð barna væri töluvert betur komið í þingsályktunartillögu þar sem hægt væri að gera mjög vandaða úttekt á þessu. Eins og hv. þingmaður veit fá þingmannamál sjaldan mikinn tíma í nefndum. Ég á bágt með að sjá að frumvarp af þessu tagi verði börnum eða foreldrum þeirra til hagsbóta eins og það stendur nú.

Því legg ég til að hv. þingmaður endurskoði mögulega formið á tillögum sínum og skoði hvort það væri kannski betra að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem fagaðilar gætu komið að málinu frá fyrstu stigum.