146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við spurningu hv. þingmanns er að sjálfsögðu já. Það er brot gegn barni að tálma umgengni þess gagnvart hinu foreldrinu þegar það er ekki gert til verndar lífi eða heilsu barnsins. Aftur á móti ræðum við hér viðurlög. Það er nú það eina sem stendur í frumvarpi hv. þingmanns, að það varði fangelsi allt að fimm árum ef foreldri tálmar umgengni barns við hitt foreldrið eða aðra sem eiga að njóta umgengnisréttar samkvæmt úrskurði, dómi, dómssátt, umgengnisrétti foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni. Þetta er bara ein grein. Hún fjallar um fangelsisvist við slíkri framkomu. (BN: Já, til að gera þetta að broti.) Hún fjallar um að gera þetta að broti sem varðar fangelsisvist. (Gripið fram í: Eins og öll brot á ...) Nei, ekki eins og öll brot, hv. þm. Brynjar Níelsson. Það eru ýmis viðurlög við brotum til í lögum önnur en fangelsisvist. Eins og ég kom að í máli mínu áðan er líka vísað til þess að hægt sé að beita sektum. Það eru nú önnur viðurlög sem er hægt að beita við brotum sem ekki er að finna í frumvarpi hv. þingmanns.

Ákvæðið, 98. gr. barnaverndarlaga, sem hv. þingmaður vísar til hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef þeir sem hafa barn í sinni umsjá misþyrma því andlega eða líkamlega, misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt, vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin þá varðar það fangelsi allt að fimm árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“

Þetta ákvæði er greinilega dæmi um alvarlegustu brotin sem umsjáraðilar geta framið gagnvart börnum í sinni umsjá. Því spyr ég hv. þingmann á móti: (Forseti hringir.) Þykir honum þetta sambærilegt? Þykir honum sambærilegt að hafa sama refsiramma við þessu? Það eru önnur ákvæði í þessum lögum þar sem mikið vægari viðurlög eru sem eru alla vega sambærilegri.