146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:45]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp byggir á því að það sé alvarlegt fyrir andlega heilsu barnsins að vera svipt umgengni við foreldri. Við getum bara rétt ímyndað okkur það. Við ölumst upp hjá báðum foreldrum. Barn er tíu ára, og svo er bara annað foreldrið tekið af því. Það er bara eins og það deyi. Það er stórt og mikið brot gagnvart barninu að svipta það foreldri með þessum hætti, er það ekki? (Gripið fram í.)

Frumvarpið er bara sett svona fram til að gæta samræmis. Andleg vanræksla er alvarlegt brot. Að svipta barn foreldri er alvarlegt brot.

Ég hef hins vegar sagt og sagði hér í ræðu minni: Þetta er ekki stóra málið fyrir mér. Þetta er bara haft svona svo það sé eðlilegt samræmi. Ef þingið vill breyta þessu ákvæði og viðurkenna skýrt að þetta sé brot og að viðurlög gætu verið svipting forsjár tímabundið eða alfarið er það allt í lagi mín vegna. Ég held að það sé einmitt þannig í Danmörku. Allt í lagi mín vegna.

En þetta er bara sett svona til að gæta samræmis vegna þess að frumvarpsflytjendur telja þetta alvarlegt brot fyrir andlega heilsu barnsins. Enda byggist það á barnaverndarlögum eins og þau eru núna, byggist á þeim skoðunum og rannsóknum, eins og fram kom í ágætum Kastljóssþætti. Víða er búið að skoða þetta vel. Nefndin fer bara yfir það og breytir því þá bara eða leggur fram tillögu um að hafa úrræðið með öðrum hætti.

En ef við viðurkennum að þetta sé brot verða að vera einhvers konar viðurlög, hægt að bregðast við brotinu eins og öllum öðrum brotum. Tímabundin svipting, svipting forsjár, (Forseti hringir.) það kemur vel til greina.