146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

414. mál
[23:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hef haft mikinn áhuga á þessu máli, eins og hv. framsögumaður málsins, og er einmitt með afar ítarlega fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um ábúð á jörðum í eigu ríkisins. Ég get tekið heils hugar undir það sem hér kom fram. Það fellur í rauninni að þessari tillögu. Ég hef eins og margur verið að velta fyrir mér hversu margar jarðir eru að losna úr ábúð, hversu mikið er auglýst og svo þarf maður að velta fyrir sér hvers vegna ekki er auglýst, af því að stefnuleysið virðist vera algjört eftir að þetta var flutt yfir í fjármálaráðuneytið.

Það eru komin a.m.k. þrjú ár, minnir mig, síðan þessi mál fóru þangað yfir og síðan hefur ekkert gerst. Það er algjörlega óásættanlegt að við sjáum jarðir bókstaflega fara í eyði bara vegna þess að fjármálaráðuneytið dregur lappirnar í því að koma þeim í vinnu. Það er jafnvel fólk sem vill setjast þar að en hefur ekki tækifæri til þess vegna þess að fjármálaráðuneytið er ekki búið að marka sér einhverja tiltekna stefnu. En auðvitað á að horfa til þess að hér eru í gildi jarðalög. Meðan ekkert annað hefur verið ákveðið þá á að mínu mati að fara eftir jarðalögunum. Þar er kveðið á um að það eigi að auglýsa. Það er margt undir þarna sem hefur ekkert verið sérstaklega rætt, hlutir eins og fjallskil og annað slíkt þar sem jörð hefur farið úr ábúð. Ætlar ríkið að tryggja það að mannskapur verði til þess að sinna því o.s.frv.? Það er margt í þessu sem þarna er undir.

Ef maður veltir þessu fyrir sér þá erum við komin í svolítinn hring. Það eru ekki svo ýkja mörg ár síðan við stóðum frammi fyrir því að stóreignamenn, þetta var í eigu biskupsstólanna, kirkjujarðir voru og annað slíkt, fóru með jarðirnar og bóndinn þurfti svolítið að eiga sitt undir þeim. Það hlýtur að vera eitthvað sem við viljum sjá halda áfram að gerast að sjálfseignarbóndinn verði í lykilhlutverki. Þegar ábúðarlögin voru sett á sínum tíma þá gerði þetta kannski að verkum að það gátu allir, eða allflestir, eignast jörð til þess að setjast að á og rækta landið. Fjölskyldubúin voru auðvitað það sem var hér á sínum tíma. Ég held að það hafi verið bara farsælt. Ég sé ekki alveg af hverju við viljum ekki ýta undir það, því að ekki er verið að gera það af hálfu þessarar ríkisstjórnar ef hún tekur ekki á sig rögg í málinu og gerir eitthvað.

Ég held að við þurfum, bæði af því að við erum með búvörulögin undir og margt er að gerast í þessum geira, að fylgja því eftir sem stór hluti þjóðarinnar hefur sagt, að við viljum hafa holla og góða vöru, við viljum gæta náttúru landsins o.s.frv.

Það er nefnilega þannig að þegar búsetan er dreifð þá skapast forsendur til að rækta landið, vernda það og nýta á sjálfbæran hátt. Það eru samfélög fólks undir á stórum svæðum. Ef mörg göt verða á stórum svæðum þýðir það náttúrlega að smám saman leggst þetta af og úr verður órækt eða það að einhverjir kaupa svæðin upp, eins og hér hefur verið rakið, í staðinn fyrir að rækta landið, huga að gæðunum, huga að uppgræðslu sem og það að rækta góða vöru. Mér finnst vera mjög stutt síðan við stóðum frammi fyrir því að hér voru stóreignaraðilar að kaupa upp heilu svæðin, öðruvísi kannski en við stöndum frammi fyrir núna þegar erlendir aðilar eru að kaupa þau upp. Þá var verið að kaupa framleiðsluheimildirnar, verið var að kaupa löndin og jarðirnar og jafnvel það sem var í fullum rekstri. Fólk var orðið hálfgerður leiguliði aftur sums staðar eins og kannski var í gamla daga.

Ég held að við ættum frekar að huga að því að gera eins og Norðurlandaþjóðirnar hafa gert. Í löggjöf þeirra eru gerðar skilgreindar kröfur til landeigenda, bæði um búsetuskilyrði og meðferð auðlindarinnar. Ég ítreka það enn og aftur að meðan ekki er komin fram einhver önnur stefna en jarðalögin finnst mér að það þurfi að fylgja þeim eftir. Við hér á þingi höfum kannski ekki verið nógu aðgangshörð að rukka ráðherrann um hvers vegna ekki er farið eftir þeim lögum. Ég og hv. framsögumaður þekkjum einmitt dæmi bara úr okkar kjördæmi þar sem fólk vill hætta búskap og hefur einhvern til þess að taka við en það er ekki heimilt vegna þessa stefnuleysis.

Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að spyrna við fótum. Það er auðvitað grátlegt ef við stöndum frammi fyrir því að við verðum kannski leiguliðar í eigin landi þegar erlendir aðilar verða búnir að kaupa svæði upp, eins og við sjáum fyrir austan, uppi á Öræfum og jafnvel er verið að falast eftir fleiru norður í Grýtubakkahreppi. Og víðar hefur verið keypt upp mikið land af einum og sama aðilanum. Eitthvað hljóta menn að ætla að gera með þetta. Ég er alla vega ekki svo blá að ég kaupi það að það sé eingöngu vegna þess að mönnum sé annt um landið okkar sérstaklega. Mér finnst það a.m.k. mjög sérstakt þó að ég skilji það vel, sökum þess hve landið okkar er fallegt og gott til ræktunar og annars slíks, að einhverjir vilji fjárfesta. En að það sé vegna þess að mönnum sé annt um landið finnst mér hæpin tilhugsun. Þetta eru yfirleitt jarðir þar sem einhver ríkur réttur er til veiði eða til annarra nytja sem þar eru undir, þannig að ég held að það sé ekki það sem liggi undir.

Ég vona að ég fái svör við þessum spurningum fljótlega. Ég geri reyndar ráð fyrir að það dragist, þetta eru 11 spurningar sem ég sendi og þær eru umfangsmiklar og þær krefja ráðherrann svara hver í rauninni stefna ríkisstjórnarinnar er, að það sé ekki bara í höndum fjármálaráðuneytisins að ákveða það. Ég held að landbúnaðarráðherra hljóti að þurfa að hafa eitthvað um það að segja hver stefnan í landbúnaðarmálum og þar með talið ábúð á jörðum sé af því að það er svo margt þarna undir, ekki bara þessi uppkaup, heldur svo margt annað varðandi nytin eins og hér kom fram áðan til þess að styðja við heilnæma ræktun, búskap sem tryggir okkur sem þjóð heilnæma vöru og að við getum verið sjálfbjarga. Við verðum ekki sjálfbjarga sem þjóð í matvælaframleiðslu ef verður grafið svona undan eins og gert hefur verið núna undanfarin ár. Ég tel að þetta sé stórhættulegt.

Mér finnst fólk vera mjög værukært í því að láta þetta gerast svona, að grípa ekki inn í. Fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, fékk nú heldur betur mótlæti hér þegar hann spyrnti við fótum gagnvart uppkaupum á Grímsstöðum á Fjöllum. Hvað er að gerast? Það er að brotna úr því. Það er búið að selja töluvert úr því landi til dæmis.

Ég held að við þurfum að vera harðari hér á þingi, þó að ekki séu margir dagar eftir, til að ýta við ráðherra og athuga hvort hún sé ekki sammála okkur að þetta geti ekki beðið svona lengi eins og raun hefur verið. Við þurfum líka að fá að vita hvers vegna fjármálaráðuneytið hefur dregið þetta í þrjú ár, hvað stoppar það raunverulega? Er það ágreiningur um hvernig þetta á að vera, eða hvað er það? Nú er nýr ráðherra kominn í þann stól. Það væri því áhugavert að vita hvort hann sé sama sinnis og sá sem fyrir var.