146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ef við horfum á útgjaldaramma almanna- og réttaröryggis er aukningin ekki nema 2,8% á tímabili fjármálaáætlunarinnar þegar við höfum tekið tillit til þyrlukaupanna. Rekstur þessa almanna- og réttaröryggis eru því orðin tóm. Ekki er litið til markmiða löggæsluáætlunar sem unnin hefur verið undanfarin misseri, t.d. um mannaflaþörf. Og við vitum, það hefur komið fram hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi og á Suðurlandi, að fækka þarf að um tíu stöðugildi. Það er það sem blasir við. Það er ekki hægt að tala um uppbyggingu í almanna- og réttaröryggi í ljósi þessarar stöðu. Jafnframt hefur komið fram hjá dómsmálaráðuneytinu og stendur í fjármálaáætlun að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að sýslumannsembættin haldist innan fjárheimilda. Það þýðir uppsagnir á starfsfólki. Þrátt fyrir nýtt dómstig lækka framlög á tímabilinu um tæpar 400 milljónir. Svo megum við ekki gleyma innanlandsfluginu þegar við tölum um samgöngur og fjarskipti. (Forseti hringir.) Það á að skilgreina það sem hluta af almenningssamgöngukerfinu svo það sé raunverulegur valkostur fyrir íbúa þessa lands.